Hlýskeiðametingur

Hér á hungurdiskum höfum við stundum leikið okkur með samanburð núverandi hlýskeiðs og þess næsta á undan. Við vitum raunar ekki upp á ár hvenær þau byrjuðu. Hér veljum við árin 1927 og 2001 - og höldum áfram jafnlengi - rúm 20 ár, fram í ágústlok nú og árið 1947. Það er meðalhiti í byggðum landsins sem borinn er saman.

w-blogg090921a

Búnar eru til 12-mánaðakeðjur hitans. Hver punktur á línuritinu sýnir hita undangenginna 12 mánaða. Hitasveiflur á tímabilunum báðum sjást mætavel. Engin leitni er í hitanum þau 21 ár sem valin voru - hvorki þá né nú. Svo vill til að bæði tímabilin byrja um það bil í sama hita (það var auðvitað val ritstjóra hungurdiska) - og enda líka í nærri því sömu tölu - sem er aftur á móti tilviljun. 

Meðalhiti núverandi hlýskeiðs (eins og hér var valið) er 0,4 stigum hærra heldur en meðalhiti þess fyrra. Hæsti 12-mánaða meðalhitinn er líka nærri 0,4 stigum hærri heldur en hæst varð á fyrra skeiðinu. Aftur á móti munar um 0,7 stigum á lægstu 12-mánaðagildum skeiðanna tveggja - fyrra skeið dvaldi alllöngum stundum neðan við 3,5 stig - sem ekki hefur enn gerst á þessari öld. 

Almennt má segja að hiti hafi verið öllu jafnari á núverandi hlýskeiði heldur en því fyrra - sérstaklega var hann það á tímabilinu 2005 til 2013. Sérstakir hitatoppar eru þrír á núverandi hlýskeiði - en voru fimm á því fyrra. Á núverandi hlýskeiði er varla hægt að tala um kuldaköst - nema e.t.v. árið 2015, en á fyrra skeiðinu eru fjögur meiri heldur en það, en ekkert þeirra er þó neitt á við það sem verst gerðist fyrir - og eftir.

Við vitum hvað gerðist eftir 1947 - sumur og vor kólnuðu næstu ár, en vetrar- og hausthiti hélst (með örfáum undantekningum) hár allt fram undir miðjan sjöunda áratuginn - um 1965. Þá kólnaði líka haust og vetur. Varla er þó hægt að nefna nákvæmlega hvenær þessi stóru umskipti urðu - hvorki þau fyrr- eða síðarnefndu.

Nú vitum við hins vegar ekkert hvað gerist í framtíðinni. Víst er að engin sérstök regla gildir um það. Flestir veðja þó á hlýnun - í takt við hina miklu hlýnun sem virðist í sjónmáli á heimsvísu. Hvort hún yrði meiri eða minni hér á landi vitum við ekki - við getum þó giskað á að einhver stökk fram og til baka séu líkleg - einstök svæði eru ekki sífellt í takti við heiminn. Við getum minnt á að hlýskeiðið fyrra náði ekki yfir allan heiminn - og sömuleiðis fór að hlýna á heimsvísu (fyrir um 40 árum) meðan veruleg hlýnun lét bíða eftir sér hér á landi í um það bil 20 ár. - Sama var á Grænlandi - þar sem fyrstu hlýju árin á heimsvísu voru óvenjuköld. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 14
  • Sl. sólarhring: 286
  • Sl. viku: 1840
  • Frá upphafi: 2353042

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1650
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband