Örstutt um þurrkinn

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur veður verið í þurrara lagi á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Það sem er hvað óvenjulegast við „þurrviðrið“ er að lítið hefur verið um langa alveg þurra kafla, heldur er fremur að stórrigningar hafa ekki látið sjá sig um alllangt skeið. Ritstjóri hungurdiska hefur gert lauslega athugun á stöðunni fyrir mislöng tímabil. Að tiltölu er úrkomurýrð síðustu 10 mánaða einna óvenjulegust, styttri og lengri tímabil eru (þegar hér er komið sögu) síður óvenjuleg. 

Úrkoma síðustu 10 mánuði í Reykjavík er 479 mm, rétt um 60 prósent ársúrkomu. Síðustu 100 árin hefur tíu mánaða úrkoma tíu sinnum verið minni en nú í Reykjavík, síðast 2010, þar áður 1995. Minnsta tíu mánaða úrkoma sem við vitum um í Reykjavík er 377 mm eða innan við helmingur meðalársúrkomu, (í desember 1950 til september 1951). Við erum því frekast að tala um 10-ára 10-mánaðaþurrk heldur en eitthvað enn óvenjulegra. 

Úrkoma það sem af er ágúst hefur verið nærri meðallagi. Í ágúst og september í fyrra (2020) var úrkoma í Reykjavík vel yfir meðallagi, úrkoma var einnig í ríflegu meðallagi í nóvember, en neðan þess í öðrum mánuðum - þar af var hún neðan meðallags alla fyrstu 7 mánuði þessa árs. 

Þurrkar eru lengi að „byggjast upp“, en úrhelli fljót að rétta þá af. Árið 1951 var það þurrasta sem við vitum um í Reykjavík á tímabili áreiðanlegra úrkomumælinga. Úrkoma það ár mældist aðeins 560 mm. Úrkoma á þessu ári til þessa stendur nú nærri 330 mm. Til að slá út metið frá 1951 þyrfti úrkoma afgang ársins að mælast innan við 60 prósent af meðallagi - heldur er það ólíklegt (enn mögulegt engu að síður). Minnsta úrkoma 12-mánaða tímabils í Reykjavík er 515 mm, frá september 1950 til og með ágúst 1951. Til að komast í flokk tíu þurrustu ára síðustu 100 árin verður ársúrkoman 2021 að vera innan við 665 mm - það er - að ekki mega falla nema 335 mm hér í frá til ársloka - en það er nærri meðalúrkomu. 

Úrkomumælingar voru gerðar í Reykjavík á árunum 1829 til 1854. Kannski ekki alveg áreiðanlegar - líklega vantar um 10 prósent upp á ársúrkomu í þurrustu árunum, en munur í votum árum er líklega minni. Þurrasta árið var 1839. Þá mældist úrkoman aðeins 376 mm (kannski rúmir 400 mm með núverandi mælitækjum). Fáein ár þar um kring voru sérlega úrkomurýr, sé að marka mælingar, en síðan skipti um til úrkomutíðar. Meðalársúrkoma alls þessa fyrsta mælitímabils er nánast sú sama og nú - rétt tæpir 800 mm. 

Haldi þurrkatíðin áfram munum við á hungurdiskum reyna að fylgjast með og segja frá tíðindum. Skipti hins vegar um tíð (eins og oft gerir á þessum árstíma) verður lengra frekari þurrkfréttir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 1831
  • Frá upphafi: 2353131

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1651
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband