Hlýindamet í háloftum yfir Keflavík

Enn fjölgar fréttum af hlýindametum. Ritstjórinn hefur reiknað út meðalhita í háloftunum yfir Keflavík. Í júlí voru sett þar met í þremur hæðum, 400 hPa, 500 hPa og 700 hPa. Meðalhiti í 400 hPa (rúmlega 7 km hæð) var -28,1 stig og er það um 0,8 stigum hærra en hæst hefur áður orðið í júlímánuði (1991). Meðalhiti í 500 hPa (um 5,5 km hæð) var -16,5 stig, um 0,9 stigum hærri en hæst áður í júlí (líka 1991) og 3,2 stigum ofan meðaltals síðustu 70 ára. Í 700 hPa (rúmlega 3 km hæð) var meðalhiti júlímánaðar -0,9 stig,  1,3 stigum hærri en hæst hefur orðið áður (einnig í júlí 1991). Í 850 hPa (um 1400 metra hæð) var meðalhiti 6,0 stig, -0,1 stigi lægri en í júlí 1991 og sá næsthæsti frá upphafi mælinga. 

Uppi í 300 hPa var meðalhiti mánaðarins -42,2 stig, sá fjórðihæsti í í júlí frá upphafi (1952). Þar uppi var hlýrra en nú í júlí rigningasumrin miklu 1955 og 1983 - og sömuleiðis 1952 (en mælingar í þeim mánuði kunna að vera gallaðar). Aftur á móti var hiti í heiðhvolfinu með lægra móti nú - en engin mánaðamet þó. Í 925 hPa (um 700 m hæð) var heldur ekki um met að ræða - hiti ekki fjarri meðallagi, rétt eins og niðri á Keflavíkurflugvelli. Þar réði sjávarloftið sem umlék vestanvert landið mestallan mánuðinn. 

Þykktin (mismunur á hæð 1000 og 500 hPa-flatanna) yfir Keflavík hefur heldur aldrei verið meiri en nú (rétt eins þykktin í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar sem þegar hefur verið minnst á hér á hungurdiskum), um 10 metrum meiri en hæst áður í júlí (1991) og um 60 metrum meiri heldur en meðaltal síðustu 70 ára. Samsvarar það um +3°C viki frá meðallagi. Ef trúa má greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var vikið enn meira yfir Norðausturlandi. 

Spurt var um ástæður hlýindanna - svar liggur auðvitað ekki á reiðum höndum, en sú er tilfinning ritstjóra hungurdiska að hin almenna hnattræna hlýnun hafi e.t.v. komið hitanum nú fram úr hlýindunum 1991 - en afgangs skýringanna sé að leita í öðru. Ekki síst því að margir styttri hlýindakaflar hafi nú af tilviljun raðast saman í einn bunka - rétt eins og þegar óvenjumargir ásar birtast á sömu hendi í pókergjöf. Þetta má t.d. marka af því að þrátt fyrir öll þessi hlýindi var ekki mikið um algjör hitamet einstaka daga - hvorki í háloftum né á veðurstöðvum (það bar þó við). Við bíðum enn slíkrar hrinu - hvort hún kemur þá ein og sér eða í bunka með fleiri „ásum“ verður bara að sýna síg. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide11
  • w-1945v
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 193
  • Sl. sólarhring: 193
  • Sl. viku: 1225
  • Frá upphafi: 2354889

Annað

  • Innlit í dag: 177
  • Innlit sl. viku: 1095
  • Gestir í dag: 171
  • IP-tölur í dag: 170

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband