Hlýtt loft stuggar við köldu

Tunga af hlýju lofti sem skaut sér norður undir Grænland pikkar í kuldann á norðurslóðum þannig að hann hrekkur til og hluti hans leitar til suðurs - aðallega fyrir austan Ísland þó - ryðst síðan suður til Bretlandseyja og jafnvel suður á meginland Evrópu.

w-blogg040620a

Kortið gildir nú á miðnætti (miðvikudagskvöld 3.júní) og sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litir) en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Breiður geiri af hlýju lofti liggur til norðurs austan Nýfundnalands - fer upp að Suður-Grænlandi, sveigir þar snöggt til austurs - myndar bylgju hlémegin jökulsins. Hitinn nær þar hámarki í niðurstreymi - þykktin fer upp í 5650 metra, gerist vart mikið meiri í fyrri hluta júnímánaðar. Stríður vindstrengur (þéttar jafnhæðarlínur) er yfir Íslandi - mátti sjá hann á skýjum undir kvöld. 

Hlýi bletturinn er þó að mestu negldur fastur nærri Grænlandi - þar er niðurstreymið langmest - en minna annars staðar. Þegar bylgjan dofnar lækkar hitinn. Þetta loft kemur hreyfingu á nokkuð öflugan kuldapoll við norðurjaðar kortsins. Þar er þykktin innan við 5100 metrar á bletti. Þetta kalda loft hrekst til suðurs - austan við framsókn hlýja loftsins og fer yfir Ísland á morgun, fimmtudag. Mesti háloftakuldinn nær þó ekki til okkar og það sem hingað kemur af honum fer fljótt hjá. En kuldi verður þó viðloðandi í neðstu lögum næstu daga á eftir.

Þykktin yfir landinu fer þó varla mikið niður fyrir 5240 metra - ekki gott í júní en langt í frá einstakt. Metið er í kringum 5170 metrar - nokkrum stigum kaldara. 

Svo er harla óljóst hvað gerist næst - helst er reiknað með leiðinlegri aðsókn úr vestri framan af næstu viku og eftir það eru spár algjörlega í lausu lofti - allt frá skítakulda og trekki yfir í veruleg hlýindi. Það verður bara að sýna sig þegar nær dregur hvað úr verður - meðalmoðið kannski líklegast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6
  • Slide5
  • Slide4

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 93
  • Sl. viku: 1034
  • Frá upphafi: 2354698

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 920
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband