Meira um júlí

Þó hlýtt hafi verið í júlí var hitafar á landinu ekki óvenjulegt nema um landið suðvestanvert. Eins og fram hefur komið í fréttum var þetta hlýjasti júlímánuður mælisögunnar í Reykjavík, sá 11.hlýjasti (af 174) í Stykkishólmi, og 22.hlýjasti á Stórhöfða - á Austurlandi var hann í miðjum leik, í 33.sæti af 65 á Egilsstöðum. Á Hveravöllum var hiti mánaðarins hins vegar í 3.hlýjasta sæti (af 55) og telst í 3. til 4. sæti (af 140) í Árnesi. Meðalhiti í byggðum landsins reiknast 11,2 stig, 1,6 stig ofan meðallags júlímánaðar á árunum 1961-1990 og 0,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki enn reiknað þykktina yfir Keflavíkurflugvelli - en hún segir til um það hversu hlýtt hefur verið í neðri hluta veðrahvolfs. Í endurgreiningum reiknimiðstöðva lendir hún hins vegar í kringum 15.sæti síðustu 70 árin. Hér er því ekki um einstök hlýindi á landsvísu að ræða - vindáttir hafa verið íbúum á Suðvesturlandi hagstæðar. 

Það sjáum við líka á þrýstivikakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar. Bolli Pálmason fær að vanda bestu þakkir fyrir kortagerðina. 

w-blogg010819ib

Jafnþrýstilínur (við sjávarmál) eru heildregnar, af þeim ráðum við ríkjandi vindáttir, en þrýstivik eru sýnd með litum, þau jákvæðu eru bleikleit, en þau neikvæðu blá. Norðaustanáttin greinilega talsvert sterkari en venjulega í júlí - hæðin yfir Grænlandi í öflugra lagi. Miðað við þessi vik getur komið á óvart að ekki skuli hafa verið kaldara norðaustan- og austanlands en raun ber vitni. Lauslegur samanburður (án ábyrgðar og nákvæmra útreikninga) virðist benda til þess að hiti hafi verið 1-2 stigum hærri en venjulega í þessari stöðu - og munar um minna. Meðalhiti á Egilsstöðum var 10,6 stig nú, kannski hefði hann átt að vera um 9 stig. 

Að einhverju leyti má finna ástæður hlýindanna suðvestanlands og þess að hiti var ofan væntinga norðaustanlands í háloftunum.

w-blogg010819ia

Hér má sjá stöðuna í 500 hPa, meðalhæð og vik. Hæðin yfir Grænlandi var sum sé af hlýju gerðinni að þessu sinni. Gríðarmikil jákvæð vik við Grænland norðaustanvert - og vestanátt mun veikari en venjulega yfir Íslandi - algjör áttleysa raunar. Það segir e.t.v. ekki mikið en síðustu 70 ár hefur vestanáttin aðeins 9 sinnum áður verið jafnveik í júlí og nú, þar af 6 sinnum á síðustu 13 árum, en aðeins þrisvar 57 árin þar á undan - allt auðvitað gæðamánuðir á Suðvesturlandi - sístur þó júlí 1988. Aftur á móti mikill skítur oftast eystra. Fyrir veðurnördin skal hinna getið líka: 1950, 1960, 2007, 2008, 2009, 2010, 2015, 2016  - auk júlí nú. 

Það er um það talað að umframhlýnun á norðurslóðum valdi veikingu á vestanvindabeltinu - ekki síst að sumarlagi. Þó þær vangaveltur séu á veikum grunni er því ekki að neita að hin endurtekni slaki í vestanáttinni í júlí hér við land á þessari öld ýtir frekar undir grun um að eitthvað kunni að vera til í þessu. - En rétt eins má búast við að hér sé aðeins um tilviljanakennda „tískubólu“ að ræða. Vestanáttin var í allgóðu lagi í júlí í fyrra. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide11
  • w-1945v
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 207
  • Sl. sólarhring: 393
  • Sl. viku: 1350
  • Frá upphafi: 2355110

Annað

  • Innlit í dag: 200
  • Innlit sl. viku: 1219
  • Gestir í dag: 199
  • IP-tölur í dag: 199

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband