Dálítið óvissulægðardrag

Nú (páskadag) hefur myndast dálítið lægðardrag við Vesturland. Tilurð þess hefur reyndar verið inni í spám nú í fáeina daga - en dálítið hring hefur verið með snerpu þess og nákvæma staðsetningu. Sú óvissa heldur áfram. En úrkoman er komin vel af stað.

w-blogg010418ia

Veðursjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði sýnir úrkomu núna kl. 13:40 - hér er hún reyndar ókvörðuð, en endurkastið er mest á gulu og grænu svæðunum - og úrkoma þar líklega mest, kannski 1 til 3 mm á klukkustund - stöðvar á svæðinu mæla nú slíka úrkomu. 

w-blogg010418ib

Næsta mynd sýnir vindaspá harmonie-iga-líkansins sem gildir kl.20 í kvöld. Þá sjáum við að loft úr suðri þrengir sér til norðurs yfir Breiðafjörðinn í átt til Vestfjarða, vindhraði er samt ekki mikill - ekki nema á smáblettum á norðanverðu Snæfellsnesi. Á móti heldur norðaustanátt við Vestfirði. 

Úrkoman er áköfust á áttamótunum. Þegar hér er komið sögu fer norðaustanáttin að fá liðsauka úr norðri og gengur í að ýta áttamótunum aftur til suðurs.

w-blogg010418ic

Þetta kort sýnir úrkomuákefðina eins og líkanið segir hana verða kl. 20 í kvöld. Fjólubláa merkingin sýnir snjókomu, en sú græna regn. Þarna er úrkoman mest við norðanverðan Breiðafjörð, meiri en 8 mm á klukkustund þar sem mest er þar - það er býsnaákveðin snjókoma og yfir Fróðárheiði má sjá töluna 13 mm/klst. Hvort þessar tölur raungerast vitum við ekki - þær gætu líka gert það annars staðar en hér er sýnt. Smáatriði spár sem þessarar breytast allmikið frá einni spárunu til annarrar.

En þegar kemur fram yfir miðnætti á úrkomusvæðið að fara að þokast til suðurs, heldur síðan þeirri hreyfingu áfram og sé að marka spána verður það komið alveg suður af landinu seint annað kvöld. Það hefur þá skilað úrkomu - aðallega snjó um mestallt landið vestanvert.

w-blogg010418id

Þetta kort sýnir uppsafnaða úrkomu (í mm) frá því á hádegi í dag (páskadag) fram til kl. 20 annað kvöld (annan dag páska). Henni verður greinilega mjög misskipt. Það er t.d. svæði ofan Reykjavíkur þar sem ekki er spáð neinni úrkomu (í þessari spárunu), en vestur á Miðnesheiði má hins vegar sjá töluna 22 mm. Falli það allt sem snjór (og bráðni ekki við jörð) yrði snjódýptin orðin um 20 cm. - Vestur á fjöllum Snæfellsness má sjá töluna 60 mm - það er snjódyngja. 

En smáatriði korts sem þessa er sífelldum breytingum undirorpið - kannski verður raunveruleikinn svona - kannski ekki. En vissara er þó að gera ráð fyrir einhverri snjókomu víða um land, ekki síst á Snæfellsnesi, við Breiðafjörð - og kannski snjóar líka talsvert á Reykjanesi. 

Svo er spáð nokkurra daga norðaustanátt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide11
  • w-1945v
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 30
  • Sl. sólarhring: 233
  • Sl. viku: 1173
  • Frá upphafi: 2354933

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 1048
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband