Áratugurinn 1911 til 1920 - 3

Þegar ritstjóri hungurdiska fór að grúska í veðri og leggja sig eftir umræðum um það fyrir meir en hálfri öld var enn fjöldi manna á góðum aldri sem mundi áratuginn 1911 til 1920 vel. Fjórir meiriháttar veðuratburðir áratugarins komu ítrekað við sögu þeirra.

1. Rigningasumarið mikla 1913

2. Lambadauða- og kuldavorið 1914

3. Frostaveturinn mikli 1918

4. Snjóaveturinn mikli 1920

Hefði ritstjórinn komist í kynni við fólk að norðan og austan hefði snjóflóðatíðin 1919 örugglega bæst við - en um hana hefur hann aðeins fræðst af bókum og veðurgögnum. 

Nú er komið að loftþrýstisveiflum áranna 1911 til 1920. Til að kynnast þeim lítum við á nokkuð hlaðna mynd. Þeir sem vilja rýna betur í hana geta sótt mun skýrara eintak í viðhengi pistilsins (pdf-skrá). 

Almennt má segja að fyrstu 25 ár 20. aldar hafi fremur einkennst af lágum loftþrýtingi við Ísland heldur en háum. En hluti þeirra ára sem hér er fjallað um eru þó mikilvæg undantekning.

w-blogg260118b

Hér má sjá þrýstibreytingar á árunum 1911 til 1921. Sýndur er landsmeðalþrýstingur hvers mánaðar (súlur) - meðalárstíðasveifla tímabilsins 2008 til 2017 er notuð til viðmiðunar (rauðbrún lína). Hér á landi sveiflast þrýstingur mjög eftir ársíma - er hæstur vor og snemmsumars, en lægstur í desember og janúar. 

Stöku sinnum bregður út af þessum reglulega andardrætti. Um slík þrýstiandvörp hafa hungurdiskar reyndar fjallað nokkrum sinnum áður og tengjast þau truflunum á bylgjugangi vestanvindabeltisins. Venjulega eru háloftavindar mjög breiddarbundnir sem kallað er - fylgna breiddarbaugum í stórum dráttum, en eiga það til að taka stórar sveigjur til norðurs og suðurs. Þá er talað um að hringrásin leggist með lengdarbaugum - verði lengdarbundin, norðan- og sunnanáttir verða tíðari en vant er.

Þessar sveiflur í bylgumynstrinu eru nokkuð til umræðu þessi árin og gjarnan spyrtar saman við hnattræna hlýnun af mannavöldum. Ekki skal ritstjóri hungurdiks aftaka þann möguleika að svo sé - hefur reyndar lýst þeirri skoðun sinni að líkur á slíkri truflun vegna hlýnandi veðurlags á norðurslóðum séu mestar að sumarlagi. Ástæðu ákveðinnar varfærni hans á þessu sviði er að finna í fortíðinni - í eldri umræðu. 

Fyrir 40 árum eða svo var líka talað um þessa sömu óreglu í bylgjugangi og lengdarbundna hringrás. Hún var þá tengd kólnandi veðurfari - þannig veðurlag átti að hafa verið ríkjandi á hinni svokölluðu litluísöld - (en það vonda nafn hefur valdið meira rugli en flest annað í veðurlagsumræðunni - sem er annað mál) - og var þá tengt kuldatíð. 

Veðurfar í heiminum tók áberandi hlýindastökk á árunum upp úr 1980 og síðan áfram. Í Evrópu og víðar voru vetrarhlýindi með eindæmum í kringum 1990 - (þá sátum við hins vegar enn í kulda). Hringrásin varð um það leyti mjög breiddarbundin - því var haldið fram að breytingin úr lengdarbundna skeiðinu 1960 til 1980 yfir í það breiddarbundna eftir það hlyti að tengjast hlýnandi veðurfari og hnattrænum veðurfarsbreytingum af mannavöldum. Og þá gekk yfir gríðarmikið NAO-fár - lágþrýstingur við Ísland hlaut að fylgja hlýnandi veðurfari - ekki efnilegt fyrir okkur héldu menn. 

Haustið 1995 vöknuðu menn svo við vondan draum - hið lengdarbundna sneri aftur rétt eins og ekkert hefði í skorist - en það hélt samt áfram að hlýna. Gamlir menn (eins og ritstjóri hungurdiska) verða dálítið hvumsa þegar þeir hugsa um þessar tískusveiflur - að kenna alla skammtímaviðburði veðurfarsbreytingum - jú, atburðir sem taka ár eða jafnvel heila áratugi eru líka skammtímabreytingar í veðurfarssögunni. 

En það er hins vegar óumdeilt að staðbundin aftök - hlý eða köld - tengjast oft (en ekki þó alveg alltaf) tiktúrum lengdarbundnu hringrásarinnar. Þannig var það líka fyrir 100 árum - og verður áfram um alla framtíð. Breiddarbundna hringrásin á líka sínar óvæntu aftakainnkomur - en það er önnur saga. 

En víkjum aftur að myndinni. Við sjáum að þrýstisveiflurnar eru nokkuð reglulegar fyrstu fjögur árin. Þrýstingurinn að vísu mjög lágur 1914 (rétt eins og í ótíðinni upp úr 1980). Sumarið í Evrópur í minnum haft - ekki aðeins vegna upphafs heimsstyrjaldarinnar. Árið 1915 verða umskipti og miklar truflanir koma í árstíðasveifluna. Þrýstingur féll eiginlega ekki neitt allt haustið 1915 (október það ár var líka sérlega hlýr - og hefur ekki orðið hlýrri síðan sums staðar á landinu). Október 1915 varð hlýjasti mánuður ársins í Grímsey - öðru sinni á mælitímanum (hitt skiptið var 1882). 

Áramótin 1915 til 1916 virtist allt vera að falla í venjulegan farveg - djúpar lægðir komust til landsins - og ollu athyglisverðum illviðrum. - En frá og með mars 1916 hrökk þrýstingurinn rækilega upp aftur. - Við borð lá síðan að veturinn 1916 til 1917 væri laus við djúpar lægðir (ekki alveg að vísu - en eins og sjá má vantar raunverulegan lágþrýstimánuð í línuritið þennan einkennilega vetur. 

Haustið 1917 virtist þrýstingur vera að falla til vetrarlágmarks á venjubundinn hátt, en hætti við í miðju kafi og desember 1917 og janúar 1918 voru háþrýstimánuðir - þvert ofan í það sem venja er á þeim árstíma. 

Febrúar 1918 náði hins vegar máli sem lágþrýstimánuður - sá fyrsti í tvö ár. Enginn raunverulegur lágþrýstimánður kom svo næsta vetur, 1918 til 1919 - og þrýstingur féll heldur ekki á eðlilegan hátt haustið 1919. - Eftir það urðu hins vegar gríðarleg umskipti, veturinn 1919 til 1920 var lágþrýstingur ríkjandi mestallan veturinn - og þessu óvenjulega háþrýstiskeiði loksins lokið. 

En það má telja víst að hnattræn hlýindi - eða hlýindi á norðurslóðum komu ekkert við sögu í þessari miklu truflun (síður en svo) - eins og við örugglega fengjum að heyra ef eitthvað ámóta gerðist nú. 

Næsti pistill verður erfiðari - þar reynum við að athuga hvort svonefndar endurgreiningar geta sagt okkur eitthvað - og þá hvað (er reyndar margt að varast). 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 12
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 1837
  • Frá upphafi: 2353137

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1657
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband