Þaulsetinn hæðarhryggur

Háloftahæðarhryggurinn sem verið hefur viðloðandi Grænland og hafið þar suður af virðist ætla að verða þaulsetinn. Hann víkur sér að vísu aðeins undan þegar lægðir sækja að, en rís jafnharðan upp aftur rétt eins og ekkert hafi í skorist. 

w-blogg061217a

Norðurhvelskortið sýnir stöðuna síðdegis á föstudag (8. desember). Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. 

Ísland er rétt neðan miðrar myndar undir norðvestanstreng í háloftum. Kuldastrengur (blátt svæði) liggur til suðurs fyrir austan land, allt suður á meginland Evrópu. Hlýrra loft nálgast úr vestri.

Allmikið lægðasvæði er vestur yfir Kanada, tengt kuldapollinum Stóra-Bola sem þar liggur á fleti og er smám saman að ná sér á strik. Lægðardrag er austan við Labrador og sækir það að hæðarhryggnum. Svo virðist samt að hann muni aðeins „opna dyr“ og hleypa lægðaganginum til austurs fyrir sunnan land - og loka síðan aftur. Fari svo herðir aðeins á austanáttinni meðan lægðin fer hjá, en svo tekur norðanloftið við aftur.

Langtímaspár gera svo ráð fyrir því að eins fari fyrir næstu tveimur vestanbylgjum - séu þær réttar verður ekki mikið um stórtíðindi hér á næstunni - og er það vel. En spár eru bara spár - hver raunveruleikinn verður vitum við ekki.

Það er athyglisvert að því er líka spáð að hæðin yfir norðurskautinu nái aftur 1050 hPa við sjávarmál eftir helgi - eins og hún gerði á dögunum. 

Mikil hæðarhryggur er líka yfir vesturströnd Norður-Ameríku - býr þar til þurrka og skógarelda, en beinir jafnframt köldu lofti til suðurs yfir austanverð Bandaríkin. Þar nefna menn Stóra-Bola, „The polar vortex“ - varla alveg rétt að hafa það með ákveðnum greini því þeir eru oftast fleiri kuldapollarnir. Að vísu má vel nota þetta heiti um þá miklu lægð sem ríkir í háloftunum á öllu norðurhveli, sumar jafnt sem vetur. Síður um litla hluta hennar.

Bandarískir fjölmiðlar (stórir og smáir) æsast mjög upp þegar Stóri-Boli gerir sig líklegan til að ráðast þangað suður - enda fylgja honum alltaf kuldar og oftlega mikil hríðarveður líka. Ástæða er til að æsa sig yfir slíku. Ritstjóra hungurdiska finnst hins vegar alltaf skrítið hversu margir virðast fagna slíkum ótíðindum. Svipað heyrist stundum hér varðandi eldgos og aðra óáran - illskiljanlegt. 

„Polar vortex“ er líka notað um heiðhvolfslægðina miklu - sem er aðeins vetrarfyrirbrigði og strangt tekið óheppilegt að þessu öllu slái saman. Ritstjóri hungurdiska kýs því fremur að tala um Stóra-Bola og ættingja hans - en er að vísu opinn fyrir meira lýsandi nöfnum dúkki þau upp. Vel má vera að eitthvað slíkt falli af himnum ofan einhvern daginn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kári kuldaboli er að halda upp á aldarafmæli frostavetursins mikla 1918.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.12.2017 kl. 07:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg160524a
  • w-blogg160524i
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 353
  • Sl. viku: 1165
  • Frá upphafi: 2354472

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 1051
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband