Hlý sunnanátt

Nú er gríðarlega öflugt háþrýstisvæði yfir Skandinavíu - dönsku og sænsku októberháþrýstimetin þegar fallin og óljósar fregnir berast einnig af mánaðarháþrýstimeti í Noregi. Danska metið var frá 1877 og það sænska frá 1896. Aðeins örfáir dagar eru síðan síðan svíar mældu næstlægsta septembersjávarmálsþrýsting þar í landi. 

Hér á landi er mikil sunnanátt vestan við hæðina - og hlýindi. Í dag er líka mjög kröpp lægð suðvestur í hafi og mun hvessa af hennar völdum á morgun - miðvikudag. Lægðin er mjög fagurlega sköpuð eins og sjá má á hitamynd sem tekin er nú í kvöld (þriðjudag 4. október).

w-blogg051016a

Hér er lægðin um það bil búin að ná fullum þroska - allt óvenjuhreinlegt á þessari mynd - og mætti margt um smáatriðin segja. Nú er mikill kraftur í lægðinni - en við sleppum vonandi til þess að gera vel. 

w-blogg051016b

Kortið hér að ofan gildir á um það bil sama tíma og myndin sýnir. Þar má sjá sjávarmálsþrýsting heildreginn - þrýstingur í lægðarmiðju virðist vera í kringum 955 hPa. Litirnir sýna þrýstibreytingu síðustu 3 klukkustundir og sprengir bæði fall og ris litakvarðann - risið er 23,2 hPa þar sem mest er, en fallið -18,0.

Græna örin bendir á hlýja loftið sem fylgir hvíta skýjagöndlinum. Þar er þykktin meiri en 5220 metrar - ekkert met í október - en samt mikið - komist loftið hingað til lands eins og spáð er. - Það gefur aftur möguleika á að hiti nái 20 stigum á sérvöldum stöðvum norðan- og norðaustanlands - þar sem há fjöll eru nærri og vindur stríður. 

Þessi hái hiti sést vel á spákorti sem gildir annað kvöld (kl. 21 miðvikudag 5. október). 

w-blogg051016c

Hér hefur lægðin grynnst upp í um 968 hPa - og vindur heldur slaknað. Litirnir sýna mættishita í 850 hPa. Mættishitinn sýnir hversu hlýtt loft yrði væri það dregið niður í 1000 hPa. Sjá má bletti yfir Norður- og Norðausturlandi þar sem hann er yfir 20 stig.

Það er kannski heldur á móti líkum að svo hlýtt verði á hitamælum - en aldrei að vita. Landsdægurmetin þessa dagana eru í kringum 20 stig - kannski tæplega að eitthvert þeirra falli - en hitamet októbermánaðar fellur þó nær örugglega ekki, það er 23,5 stig.  

Þótt svona hæðir flytji okkur hlýindi (eða öfugt - sunnanáttin býr til hæðirnar - velja má sjónarhorn) eru þær líka varasamar. Mikil röskun á eðlilegri hringrás vestanvindanna er óþægileg - stöku sinnum langvinn - og trúlegt að reynsla af henni sé að baki hinni landlægu trú kynslóðanna að það hefnist fyrir blíðuna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er auðvitað spurning hvort hægt sé að tala um blíðu þegar meðalvindur er að ná stormstyrk. Að minnsta kosti var talað um logn og blíðu í sömu andrá í mínu ungdæmi! Þá er einnig spurning hvort að það sé hæðin sem færir með sér "blíðuna" eða hvort það sé ekki einfaldlega lægðin sem gerir það.
Hita- og hæðanörd eða lægðanörd?

Þessi lægðagangur og vindstyrkur svona snemma í október hlýtur einnig að vera einsdæmi en þetta er í þriðja sinn á fyrstu fimm dögum mánaðarins sem meðalvindur nær stormstyrk eða 20 m/s.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 5.10.2016 kl. 04:03

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Hrökk við er leit þessa fagurlega sköpuðu glyrnu eða hitt þó heldur! Vonandi dregur úr vindi fyrir landsleikinn annað kvöld.

Helga Kristjánsdóttir, 5.10.2016 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 295
  • Sl. viku: 1291
  • Frá upphafi: 2352354

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1164
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband