Ný nóvemberhitamet í nágrannalöndum

Undanfarna daga hafa mjög óvenjuleg háloftahlýindi legið yfir norðvestanverðri Evrópu - samfara mikilli hæð sem fóðruð var lofti langt að sunnan. Úr þessu dregur væntanlega heldur næstu daga. 

Þegar komið er svona langt fram á haust er hins vegar erfitt að ná hlýindunum niður til jarðar. Sólin orðin máttlítil með hrærusleifina og vindur í miðjum háþrýstisvæðum er lítill. Líklegasta veðrið er því annað hvort þoka eða mengunarmóðar - eins og við höfum reyndar eitthvað fengið að sjá á fréttamyndum. 

En loftið ofan við er svo óvenjulega hlýtt að ekki þarf mikið að hræra í til að hitamet fari að falla. Þannig féll hitamet nóvembermánaðar á Stóra-Bretlandi í gær (sunnudag 1. nóvember) þegar hiti í Trawsgoed í Wales fór í 22,4 stig - og í dag (mánudag) komst hiti víst yfir 20 stig á mörgum stöðvum þar um slóðir. Það er auðvitað óvenjulegt að mánaðarhitamet á Bretlandseyjum falli - þar sem mælingar hafa verið stundaðar með góðri þéttni á annað hundrað ár - og gisið reyndar allt frá því um 1690. 

En landshitamet nóvembermánaðar féll einnig í Finnlandi í dag - ef trúa má fréttum, þegar hiti komst í 13,3 stig í Jomala á Álandeyjum - gamla metið var 13,0 stig sett á sama stað 1999. Það kemur e.t.v. á óvart að landshitamet þessa mánaðar skuli ekki vera hærra í Finnlandi - en þar er lítið um fjöll til að auðvelda blöndun háloftahlýinda niður til jarðar. - Við ættum að bíða staðfestingar á þessu meti áður en við smjöttum of mikið á því. 

Mæri og Þrændalög í Noregi hafa einnig fengið að njóta hlýindanna - þar komst hiti t.d. yfir 21,5 stig í Álasundi á laugardaginn (sem var reyndar síðasti dagur októbermánaðar - og reyndi ekki við nein nóvembermet). 

En við lítum á kort sem sýnir þessa miklu hæð. Það er úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir kl. 18 nú í kvöld (mánudag 2. nóvember).

w-blogg021115a

Kortið sýnir megnið af norðurhveli norðan hvarfbauga - það skýrist mjög sé það stækkað. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Hæðarmiðjan er yfir Þýskalandi. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins - því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Litir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Þykktin í hæðarmiðjunni er meiri en 5640 metrar - telst mikil hitabylgja að hausti í Norður-Evrópu. 

Við sjáum mikla norðvestanátt yfir fjöllum Skandinavíu - og háloftavindurinn þar yfir og fjallabylgjur hans hafa náð að blanda einhverju af hlýja loftinu niður til finnskra.

Næstu daga á hæðin að gefa heldur eftir - en hlýtt verður áfram í Vestur-Evrópu. Á norðurslóðum er auðvitað að kólna - þetta er eiginlega það fyrsta sem við sjáum af fjólubláum þykktarlit á kortinu nú í haust. Jökulkalt er við Norður-Grænland - langt frá metum þó. 

Ísland er í lægðabraut - á mörkum hlýja og kalda loftsins. Reiknimiðstöðvar eru þó sammála um að mjög kalt loft eigi ekki greiðan aðgang til landsins - enda verði suðlægar áttir ríkjandi næstu vikuna að minnsta kosti. Von er þó á einhverjum tilbrigðum frá degi til dags - eins og venja er.

Netið er auðvitað fullt af veðurfréttum - en ritstjóri hungurdiska leggur fáeinar þeirra til hliðar á „aukafjasbókarhópa“ diskanna - vilji hann muna þær sjálfur. Hóparnir eru opnir - en fastir lesendur ekki nema um 20 - þeir sem kunna að hafa áhuga og jafnframt aðgang að fjasbókinni gætu litið á:

Svækjusumar (fréttir af hitum):

https://www.facebook.com/groups/529908403810040/

og 

fimbulvetur (fréttir af kuldum):

https://www.facebook.com/groups/682079995214954/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 569
  • Sl. sólarhring: 578
  • Sl. viku: 1078
  • Frá upphafi: 2351869

Annað

  • Innlit í dag: 534
  • Innlit sl. viku: 971
  • Gestir í dag: 520
  • IP-tölur í dag: 502

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband