Stöðugt í skotlínu

Í vetur hefur hvað eftir annað þurft að sæta lagi til að komast milli staða - jafnvel innan sama landshluta. Þannig var það líka í dag (þriðjudag) - og meira að segja þurfti að hafa hugann við tímasetningar til að komast á milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem misstu af „glugganum“ fyrir hádegi - og voru ekki í stöðu til að bíða fram á kvöld lentu í veseni eða jafnvel vandræðum. 

Reikna verður með því að lag á milli lægða sé mun skemmra á heiðum en á láglendi - mikilvægt er því að velja tíma til ferðalaga af kostgæfni. 

Það er enn rétt að ítreka að blogg hungurdiska stundar ekki spádóma - ritstjórinn er ekki á 24 stunda vakt alla daga vikunnar og ekki með vökula samstarfsmenn sér við hlið ef honum skyldi yfirsjást eitthvað. Vakt Veðurstofunnar sér um málið - auk þess er aðgangur að ýmsum öðrum spám á vefnum - bæði í kortaformi sem og á veðurritum. 

Hvað um það - við skulum líta á sama kort og í gær - það er að segja spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti á miðvikudagskvöld (11. mars) - nema hvað reiknað var í dag - kannski er spáin því nákvæmari.

w-blogg110315a

Lægðins em olli illviðrinu í dag (þriðjudag) er að grynnast vestast á Grænlandhafi - en afleggjari úr henni er langt norður í hafi - hér má líka benda á að mikil snerpa er í lægðardragi - eða lægð - á Noregshafi - þar er spáð fárviðri á bletti. Norðmenn sleppa þó vonandi að mestu. 

Næstu lægðir sem okkur varða eru tvær á kortinu. Sú fyrri er suður í hafi og hreyfist til norðurs - en sú síðari er við Nýfundnaland og stelur hún nokkru af fóðri fyrri lægðarinar sem á heldur að grynnast áður en hingað er komið. Enda eins gott því gríðarhvasst er í kringum lægðina sem á að fara hjá annað hvort rétt suðaustan við land eða yfir það austanvert seint á fimmtudag eða þá um kvöldið. 

Ekki er hjá því komist að fylgjast með þessari lægð - t.d. er alveg hugsanlegt að hann snjói nokkuð á Suðurlandi á fimmtudag - og reyndar rignt líka - svo erum við ekki heldur viss um að vestanáttin sunnan við lægðina sneiði alveg hjá landinu. 

En síðari lægðinni liggur á - hún verður mun dýpri og stærri en að sögn farin að grynnast áður en hingað kemur og trúlega verður úrkoman rigning á láglendi - en ekki snjór - annað mál er á heiðum. 

Svo eru reiknimiðstöðvar óvissar um hvað tekur við af föstudagsrigningunni - því hugsanlega kemur snörp lægðarbylgja strax í kjölfarið með meira hvassviðri og enn meiri rigningu - hugsanlega - svo er ný lægð á sunnudag sem ekki er orðin til. 

En við skulum nú til tilbreytingar líta til austurs. Fyrir verður kort bandarísku veðurstofunnar sem gildir síðdegis á föstudag (13.mars).

w-blogg110315b

Ísland er ofarlega til vinstri á kortinu - í sunnanstormi og rigningu - en lægð fimmtudagsins er komin norður undir Svalbarða. Að öðru leyti eru það tvö veðurkerfi sem ríkja á kortinu - enn ein leiðindalægðin yfir Miðjarðarhafi austanverðu - en það svæði hefur verið sérstaklega ofsótt upp á síðkastið - og svo gríðarmikil hæð með miðju nærri Kirjálaeyði - 1046 hPa í miðju. Þetta er öflugri hæð en sést hefur á þessum slóðum um skeið - sumar spár hafa verið að gefa til kynna að breytinga sé að vænta víðar á norðurhveli - hvort það verður veit enginn - og ekki heldur hvað tæki við ef breytingar verða.

Illviðrið í dag skoraði hátt - stormvísitala ritstjóra hungurdiska fór í 51 prósent sem er þriðja hæsta hlutfall vetrarins - hún var 61 prósent þann 30. nóvember og 55 prósent þann 9. desember. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg160524a
  • w-blogg160524i
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 56
  • Sl. sólarhring: 100
  • Sl. viku: 1136
  • Frá upphafi: 2354661

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 1017
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 46

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband