Enn af háloftum [næstu tíu daga]

Næstu viku til tíu daga er spáð óvenjulegum hlýindum yfir Grænlandi og þar vestan við - en miklum kulda á Bretlandseyjum og löndum næstum Norðursjó. Við lítum á meðaltal næstu tíu daga - eins og evrópureiknimiðstöðin segir það muni verða. - Textinn hér að neðan er ekki sérlega auðveldur - en alla vega má stara á fallegt kortið. 

w-blogg160814a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kortið sýnir svæðið frá Hudsonflóa í austri til Eystrasalts í austri. Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, jafnþykktarlínur eru gráar og strikaðar, en þykktarvik lituð. Kvarði og kort skýrast við stækkun.

Lituðu fletirnir stinga mjög í augu. Á rauðu, brúnu og gulu svæðunum er þykktin meiri heldur en að meðallagi og þar með er hiti í neðri hluta veðrahvolfs yfir meðallagi. Á bláu svæðunum er þykktin undir meðallagi. 

Nú er það svo að kortið er meðaltal langs tíma - tíu daga. Lítið segir af háloftavindafari og hita einstaka daga - vel má vera að þetta ástand standi ekki nema hluta tímans - aðra daga sé allt vægara að sjá.

Við rýnum samt í kortið. Köld þykktarvik skila sér vel í hita niðri í mannabyggðum - leiðindakuldi mun greinilega heimsækja norðursjávarsvæðið - miðað við það sem venjulegt er á þessum árstíma. Hámarksvikið er um -100 metrar. Það þýðir að hiti verður 4 til 5 stig undir meðallagi. 

Hlýju (jákvæðu) þykktarvikin eru erfiðari viðfangs og verður stundum ekki vart í mannabyggðum. Yfir sjó er það vegna kælingar sjávaryfirborðsins - sé það á annað borð kaldara heldur en loftið. Yfir landi er einkum við neikvæðan geislunarbúskap að eiga - nú eða þá kalt sjávarloft. Oftast eru því nokkuð sterk hitahvörf ríkjandi undir mjög hlýju lofti sem ofan á liggur. Hlýindin eru tilkomin vegna niðurstreymis í veðrahvolfinu - niðurstreymið er mjög skýjafjandsamlegt og þar með eru nætur heiðar. Þótt ágústsólin geti á bestu dögum verið býsna öflug að brjóta hitahvörf fer afl hennar ört minnkandi hér á norðurslóðum og nóttin lengist. 

Sé vindur lítill verður þar við að sitja. Sé hvasst blandast hlýja loftið saman við loftið undir hitahvörfunum og hiti verður hár í mannabyggðum - þó ekki eins hár og þykktarvikið gefur til kynna - nema í miklum vindstrengjum handan fjalla.

Minni líkur eru á að stór jákvæð þykktarvik njóti sín nærri Grænlandi heldur en yfir Skandinavíu eða Bretlandseyjum. Þar munar mest um að yfirborð lands og sjávar er hlýrra á meginlandi Evrópu heldur en er á láglendi Grænlands og Baffinlands.

En það má samt óska sér einhvers - tíu daga 150 metra þykktarvik segja að hiti í neðri hluta veðrahvolfs verði um 7 stigum ofan meðallags. Hér á landi er meðalhámarkshiti á þessum tíma árs um 14 stig. Viðbót um 7 stig væru þá 21 stig (reyndar er sú tala ekki fjarri meðalhámarkshita á landinu í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004). 

Eins og sjá má á kortinu er þykktinni hér á landi næstu tíu daga spáð nærri meðallagi árstímans, lítillega yfir því vestast á landinu - en lítillega undir eystra. Við getum líka séð að hornið á milli stefnu jafnhæðar- og jafnþykktarlína er þannig að vindurinn er að meðaltali að bera til okkar kaldara loft. Við getum líka reiknað með því að kalda loftið sé ágengara niður í mannheimum heldur en í 2 til 5 km hæð - kalda loftið getur stungið sér undir það hlýja - en ekki öfugt. 

Meðalvindáttin er úr norðnorðvestri. Það er fremur þurrbrjósta vindátt - helst að slíti úr honum austast á landinu.

Munum að þetta er spá um meðalástand - einstakir dagar geta orðið allt öðruvísi og ólíklegt að spáin rætist í smáatriðum til enda tíu daga tímabilsins.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sonur minn, sem hefur verið í Nuuk í sumar, segir að sumarhlýindin þar hafi verið einstök og virðist ekkert lát á þeim.

Ómar Ragnarsson, 16.8.2014 kl. 22:11

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég hef enn ekki séð uppgjör dönsku veðurstofunnar fyrir Grænland í júlí, en mér sýnist af heimareiknuðum tölum að meðalhitinn í Nuuk hafi verið um 1,5 stigum ofan meðallags í júlí - svipað í Syðristraumsfirði - en ívið minna vik í Nassarsuaq. Hlýindin hafa haldið áfram það sem af er ágúst. Enn hlýrra hefur verið á austurströndinni - hiti fjórum stigum ofan meðallags við Scoresbysund - gæti verið hlýjasti júlí þar um slóðir og í Ammassalik virðist hitinn í júlí hafa verið um 3 stigum ofan meðallags. Hlýindin hafa líka haldið áfram við Scoresbysund í ágúst - en hiti í Ammassalik hefur verið nærri meðallagi. En þetta eru allt heimareikningar - og getur skeikað miklu frá endanlegum tölum DMI.

Trausti Jónsson, 17.8.2014 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 69
  • Sl. sólarhring: 78
  • Sl. viku: 710
  • Frá upphafi: 2351271

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 635
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband