Óvenjulegur háþrýstingur á N-Grænlandi og Svalbarða

Að undanförnu hefur þrýstingur verið með hæsta móti á norðurslóðum og á morgun á hann að fara upp fyrir 1060 hPa við strönd Norðaustur-Grænlands. Á veðurkortum má stundum sjá hærri þrýsting yfir Grænlandsjökli - en ekkert þýðir að taka mark á því. Þrýstingur nærri sjávarmáli er hins vegar marktækur í metingi. Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi á morgun (þriðjudaginn 19. mars).

w-blogg190313a

Norðurskautið er efst á myndinni en örvar benda á Ísland og Svalbarða. Jafnþrýstilínur eru heildregnar en litir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Á kortinu er hæðin um 1063 hPa í miðju. Breiða jafnþrýstilínan í kringum hana sýnir 1060 hPa. Á kortinu nær hún inn á Norðaustur-Grænland þar sem veðurstöðin Station Nord er staðsett norðan við nesið mikla sem kennt er við Kristján krónprins (sem síðar varð tíundi). Við bíðum spennt eftir tölum þaðan. Kl. 24 á mánudagskvöld var þrýstingurinn á stöðinni 1059,7 hPa (stígandi). Hvað danska veðurstofan segir um það verður að koma í ljós.

Opinbert metabókhald á vef dönsku veðurstofunnar nær ekki nema aftur til 1958 og segir það hæsta þrýsting sem mælst hafi á Grænlandi vera 1059,6 hPa, í Upernavik á vesturströndinni 18. janúar 1958. Misminni ritstjórans kvakar um að það sé ekki hæsti þrýstingur allra tíma á Grænlandi en getur ekki neglt niður tölur né dagsetningar að svo stöddu. Minnir þó að hafa séð tölu yfir 1060 hPa frá Myggbukta - ekki mjög langt norður af Scoresbysundi í janúar stríðsveturinn fyrsta 1940. Mjög lítið er af athugunum frá Norðaustur-Grænlandi fyrir þann tíma. Vestur-Grænland á ábyggilega hærri tölu en 1060 á fyrri tíð.

En þrýstingur nú á einnig að fara mjög hátt á Svalbarða - hærra en að minnsta kosti síðustu 15 árin - þótt 1060 hPa virðist ekki náð þar að þessu sinni.

En það er fleira merkilegt á kortinu. Gríðarleg hlýindi eru nú við Vestur-Grænland og frostlaust í 850 hPa-fletinum á allstórum blettum, m.a. yfir Thule. Á veðurstöðinni þar, Qaanaaq, fór hiti í dag í 9 stig. Það hlýtur að teljast með eindæmum. Frostlaust varð á öllum veðurstöðvum Vestur-Grænlands og hefur hæst frést af 11 stigum í Syðri-Straumfirði. Grænlandsmetið í mars var þó ekki í hættu (16,0 stig). Að sögn grænlenska útvarpsins eru forsvarsmenn skíðalandsmótsins í Nuuk orðnir órólegir - aðalgöngubrautin er undir vatni sem stendur. En mótið er ekki fyrr en um páskana.

Á kortinu má einnig sjá smálægðapar sem stefnir til Íslands úr norðaustri (aðeins önnur er merkt með L). Norðvestan við það er mikill norðaustanstrengur, um og yfir 25 m/s þar sem mest er. Vegna þess að lægðirnar eru ekki á nákvæmlega sömu braut sleppum við furðanlega. Fyrri lægðin fer til suðvesturs um Austurland á þriðjudagskvöld - en sú síðari suðvestur yfir Vestfirði snemma á miðvikudag. Síðari lægðin beinir verstu norðaustanáttinni frá landinu þannig að öflugasti strengurinn fer suðvestur um Grænlandssund. En þetta eru smáatriði sem má ekki taka of mikið mark á.

Ferðalangar og aðrir sem eitthvað eiga undir veðri ættu að fylgjast með spám Veðurstofunnar og sömuleiðis veðurathugunum á ferðaleiðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekkert virðist bóla á suðvestanáttinni hjá okkur. Ætli við sleppum alveg við útsynningsél þennan veturinn?

Emil Hannes Valgeirsson, 19.3.2013 kl. 20:48

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Emil. Það er sjaldan sem útsynningurinn nær sér upp svo seint að austanáttarvetri, hefur þó gerst. Ég hef hugsað mér að fara í talningu útsynningsdaga einhverja áratugi aftur í tímann til að staðfesta tilfinninguna. Ef ég klára mig af því segi ég frá því á hungurdiskum.

Trausti Jónsson, 20.3.2013 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 488
  • Sl. viku: 1027
  • Frá upphafi: 2351902

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 931
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband