Af hitametum dagsins (9. ágúst 2012)

Í dag (fimmtudaginn 9. ágúst) féll fjöldi hámarkshitameta. Ekki er rúm til að greina frá þeim öllum hér - enda ekki alveg tímabært. Met eiga sér ákveðna goggunarröð. Merkilegast er þegar hitamet fyrir landið allt fyrir árið í heild fellur. Það gerðist ekki nú. Næstmerkilegast er þegar landshitamet einstakra mánaða falla, í þessu tilviki ágústmánaðar. Það gerðist ekki heldur nú. Næst í goggunarröðinni eru dægurmet fyrir landið í heild (eitt féll núna). Síðan koma hæstu árshámörk einstakra stöðva - slatti af slíkum féll í dag. Við lítum nánar á þau hér að neðan. Að lokum eru dægurmet einstakra stöðva - fjölmörk slík fuku í dag (sleppum þeim - nær alveg).

Ný árshámörk teljast því merkilegri eftir því sem stöðin hefur athugað lengur. Síðasta stóra hitabylgjan kom í lok júlí 2008. Við skulum sleppa því að geta um stöðvar sem athugað hafa skemur en frá þeim tíma - þær eru margar og metin því mörg. Næsta hitabylgja þar á undan var sú í ágúst 2004. Stöð sem athugaði í þessum tveimur hitabylgjum og á met í dag er orðin nokkuð sjóuð - og met á henni telst því merkilegt.

En sjálfvirkar stöðvar sem settu met í dag (og byrjuðu fyrir 2008) eru (tölur í °C):

byrjarnýtt metnafn
199828,0Eskifjörður
199927,9Neskaupstaður sjálfvirk stöð*
200727,8Fáskrúðsfjörður Ljósaland
200027,6Kollaleira sjálfvirk stöð*
199527,0Seyðisfjörður
199626,8Bjarnarey
199425,9Dalatangi sjálfvirk stöð*
200025,8Vattarnes
200024,5Brúðardalur
200524,3Akureyri - Krossanesbraut*
200522,4Flatey á Skjálfanda
200621,9Þórdalsheiði
199421,4Fontur
200721,2Hallsteinsdalsvarp
200621,1Brúaröræfi
199624,6Fagridalur
199523,5Oddsskarð
200621,7Öxi
199722,0Breiðdalsheiði 

Sjá má litla stjörnu á eftir nafni fjögurra stöðva - þar eru til alllangar raðir mannaðra athugana. Í Neskaupstað er talan í dag hærri heldur en hefur mælst þar áður - mannaðar mælingar byrjuðu 1975. Stigin 27,8 eru e.t.v. merkilegasta uppskera dagsins. Hitinn á Eskifirði er met fyrir 9. ágúst á landinu öllu.

Á Kollaleiru var mönnuð stöð frá 1976 til 2007. Á henni mældist 28,9 stiga hiti þann 4. júlí 1991 - ótrúlega hátt en áreiðanlega rétt. Sami hiti mældist á Seyðisfirði í hitabylgjunni miklu í júlí 1911 ög stendur það met enn. Annars er sjálfvirka stöðin á allt öðrum stað í firðinum og ætti því varla að berast saman við þá mönnuðu þar sem athugunum lauk 2001.

Mannaða stöðin á Dalatanga á sjónarmun hærri tölu en sjálfvirka stöðin sýndi í dag, það eru 26,0 stig sem mældust 12. september 1949 og er enn hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í september. Hiti á Akureyri hefur auðvitað orðið meiri en Krossanesbrautin mældi í dag. En mannaða stöðin þar var sjónarmun hærri heldur en Krossanesbrautin að þessu sinni með 24,3 stig.

Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur 9. ágúst á Akureyri. Síðastliðin nótt (aðfaranótt þ.9.) var mjög hlý og var mældist hæsti lágmarkshiti næturinnar á landinu á Akureyri og Skjaldþingsstöðum, 17,2 stig. Þetta er óvenju hátt - en samt ekki met. Hæsta næturlágmark á Akureyri mældist 4. júlí 1991 (sama dag og Kollaleirumetið að ofan) 17,7 stig. Reykjavík á reyndar 18,2 stig sem hæsta næturlágmark (31. júlí 1980).

Hæsta næturlágmark sem vitað er um hér á landi eru 20,4 stig sem mældust á Seyðisfirði 22, júlí árið 2000. Það er eina skiptið sem hiti á íslenskri veðurstöð hefur ekki farið niður fyrir 20 stig að næturlagi.   

Líklega verður varla eins heitt á morgun (föstudag) og var í dag, en þó verður annað met líklega jafnað á morgun því þá verða komnir 15 dagar í röð með landshámarkshita 20 stigum eða meir. Ef 20 stig mælast einhvers staðar á laugardag er komið nýtt met í tuttugustigasyrpu. Lesa má um slíkar syrpur í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.

Reyndar er með þetta met eins og mörg önnur að niðurstaðan fer að nokkru eftir því hvernig talið er. Stundum gerist það (á mönnuðum stöðvum) að hámarkshiti dagsins verður kl. 18 eða síðar að deginum. Sá hiti lekur yfir á hámarkshita dagsins eftir sem þá getur talist 20 stiga dagur án þess að hiti þann dag fari nokkurn tíma í 20 stiga markið. Þessi skráningarháttur getur því brúað eins dags göt í syrpulistum. Lengsta slíka syrpan er 18 dagar - en vel má vera að við náum þeim dagafjölda líka nú - við fylgjumst með.

Alla dagana 6. til 25. júlí 1927 fór hámarkshiti dagsins í 20 stig eða meir á Grímsstöðum á Fjöllum. Þetta eru tuttugu dagar í röð. Miðað við hita á staðnum sömu daga kl. 15 er þetta ekki alveg trúverðugt - en mjög þurrt var þá á þessum slóðum og dægursveifla hitans mjög stór langflesta dagana. Við eigum þessa syrpu á lager.

Að lokum er rétt - til skemmtunar (eða þannig) að minnast á úrkomuspá fyrir Reykjavík næstu daga. Á vef Veðurstofunnar er nú spáð 46 mm úrkomu á laugardag og sunnudag. Það er ekki oft sem það gerist. Til að athuga málið var flett upp á spá bandarísku veðurstofunnar fyrir Reykjavík á sama tíma. Þar kemur í ljós að úrkomumagnið sem falla á frá því kl. 15 á morgun - föstudag til sama tíma á sunnudag er 157 mm. Því er varla hægt að trúa - þetta væri glæsilegt met. Sé rýnt í spákortin kemur í ljós að hér er í báðum tilvikum um örmjótt úrkomusvæði (reyndar tvö) að ræða með mjög mikilli úrkomu á litlu svæði. Ekki er víst að það verði til í næstu spá - en það er alltaf eitthvað í pípunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 39
  • Sl. sólarhring: 134
  • Sl. viku: 548
  • Frá upphafi: 2351339

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 469
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband