Frostmarkskort mánudaginn 2. apríl

Hversu hátt frá jörð lendum við í frosti? Svarið er mikilvægast fyrir flugmenn sem þurfa að forðast ísingu. Handa þeim eru framleidd kort sem sýna svarið við þessari spurningu á hverjum tíma. Við lítum á eitt slíkt úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir það kl. 18 mánudaginn 2. apríl. Hæð yfir sjó er alltaf tilgreind í fetum í flugi - við umberum það með bros á vör.

w-blogg020412

Útlínur landa eru daufar en ættu samt að sjást. Kortið nær suður til Írlands, vestur fyrir Grænland og austur á vesturströnd Noregs. Ör bendir á Ísland, fyrir miðju korti. Einnig má sjá jafnþrýstilínur við sjávarmál á kortinu. Þær eru dregnar með tveggja hPa millibili.

Dekksti grænblái liturinn sýnir hvar frostmarkið liggur niður undir sjávarmáli (eða á yfirborði lands). Þannig er það yfir meginhluta Íslands þegar kortið gildir og einnig yfir stóru svæði austur og norður af landinu. Suðvestanlands er frostmarkið í 500 til 1000 feta hæð (u.þ.b. 200 til 300 metrum). Yfir landi er þó nákvæmni ekki að treysta.

Á kortinu virðist verði niðri við frostmark í Færeyjum á morgun - eins og nú í kvöld (sunnudag), það er harla kalt. Snjóa mun á hálendi Skotlands. Spár segja að 5220 metra jafnþykktarlínan (ekki sýnd hér) fari næstu daga alveg suður á Frakkland, henni fylgir hvít úrkoma - alla vega að næturlagi.

Þótt mánudagurinn verði kaldur hér á landi miðað við það sem hefur verið að undanförnu er útlit fyrir að við sleppum við aðalbitið í þessu kuldakasti norðan úr íshafi. Í dag (sunnudag) var gríðarlegur éljagangur við strendur Þrændalaga og Hálogalands í Noregi.

En megintilgangurinn með því að sýna þetta kort er að benda á hlýju blettina í niðurstreymi við Grænland. Annars vegar í austanáttinni á Vestur-Grænlandi og hins vegar blæs mildur vindur af suðvestri við Scoresbysund og frostmark þar reiknast í yfir 1000 metra hæð þar sem það er hæst.

Hlýja loftið er sumsé enn á ferð fyrir vestan okkur - skyldi það ná til okkar aftur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 56
  • Sl. sólarhring: 98
  • Sl. viku: 1388
  • Frá upphafi: 2353279

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1218
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband