Aukin kortalæsi (eitt markmiða hungurdiska)

Eitt af áhugamálum hungurdiska er aukin veðurkortalæsi þeirra sem fylgjast með pistlunum. Enn er áhugamálinu vægðarlaust fylgt eftir með litlu sýnidæmi. Það er úr veðurkorta- og tunglmyndahrúgu dagsins í dag. Fyrst tunglmyndin.

w-blogg190112a

Myndin (frekar óskýr) er tekin úr jarðstöðuhnetti 36000 kílómetra yfir miðbaug kl. 23 í kvöld (miðvikudag). Hún birtist á vef Veðurstofunnar en myndir af þessu tagi birtast þar á klukkustundarfresti - séu sambönd í lagi.

Lægðin djúpa sem olli illviðri síðastliðna nótt og síðan frameftir degi er merkt sem L1. Þegar þetta er skrifað (um miðnætti) er veðrinu ekki alveg slotað alls staðar á Austurlandi. Lægðin hefur nú hringað sig upp á hefðbundinn máta langt genginna lægða og má sjá að minnsta kosti tvöfaldan skýjasveip í kringum lægðarmiðjuna.

En lægðin missti hluta af kerfinu til vesturs, til lægðar sem merkt er L2. Á milli þeirra er skýjalindi og er sem þær togist á. L2 grynnist ört. Suður í hafi er smálægðin L3 á hraðri leið til austurs. Lægðir af því tagi eru gjarnan kenndar við lögun skýjakerfisins en því svipar til greinarmerkisins kommu. Lögunin ræðst m.a. af því að loft sem er á leiðinni upp og norður tekur á sig hæðarbeygju (kommuhausinn) en það loft sem er á leið til suðurs og niður fer í lægðarbeygju undir hitt (kommukrókurinn). Ég vil helst kalla þetta riðakommu (en það er sérviska).

Yfir Skotlandi er mjótt hvítt (kalt og hátt) skýjaband. Þar er háloftaröst, vindurinn stefnir eftir langás bandsins.

Hin myndin er spákort ættað frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir hún á miðnætti (nánast á sama tíma og gervihnattarmyndin). Á kortið er hæð 500 hPa-flatarins merkt sem svartar heildregnar línur (í dekametrum) - 504 dam línan liggur í kringum L2  en  L1 er dýpri. L3 sést sem væg bylgja, jafnhæðarlínurnar mynda grunna bylgju. 

w-blogg190112b

Heildregnar litaðar línur sýna hæðarbreytingu síðustu 6 klst, blátt táknar fallandi flöt, en rautt hækkandi. Við sjáum t.d. að L2 er að grynnast (ekkert nema rauðar línur þar) en flóknara mynstur er í kringum L1. Skyggðu fletirnir sýna iðuna (hverfiþunga á flatareiningu) í fletinum. Bleikgrátt táknar lægðariðu (snúning - hægragrip - þumall upp) en blágrátt er hæðariða.

Dæmi dagsins fellst í lauslegum samanburði á gervihattarmyndinni og iðumynstrinu. Við sjáum að skýjavöndullinn í kringum L1 og snúningurinn í kringum L2 falla furðuvel að iðunni í kringum lægðirnar. Lindinn á milli þeirra fellur einnig vel að iðuborðanum sem tengir lægðirnar. Röstin við Skotland kemur - eins og vera ber fram sem borðapar, lægðaborði norðan rastar, en hæðarborði sunnan hennar. Iðan við L3 er óræðari - en þar er þó iðuhnútur.

Af þessu dæmi má vonandi sjá að samband er á milli iðusvæða og veðursins. Meira síðar?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 59
  • Sl. sólarhring: 153
  • Sl. viku: 568
  • Frá upphafi: 2351359

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 486
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband