Þrefalt kerfi (og smávegis um veðurofsóknir)

Lægðakerfið sem er að plaga flesta landsmenn þessa dagana er samsett, inniheldur að minnsta kosti þrjár aðskildar lægðarmiðjur og tekur hver við af annarri. Sú fyrsta fór hjá í dag (mánudaginn 30. júní), sú næsta kemur á morgun (þriðjudaginn 1. júlí) og sú síðasta verður allsráðandi á miðvikudag (2. júlí).

Tvær seinni lægðirnar eru óvenjudjúpar miðað við árstíma, þótt nú virðist ólíklegt að þær slái einhver met hvað það varðar. Kortið hér að neðan sýnir spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 9 að morgni þriðjudags.

w-blogg010714d

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting. Daufar strikalínur sýna þykktina, en litafletir þrýstibreytingu síðust 3 klst. Tölurnar tákna kerfishlutana þrjá. Hluti 1 er hér kominn hjá, er kominn nærri því til Jan Mayen. Hluti 2 sýnir lægð í vexti (þrýstingur fellur allt í kringum hana), mest um 6 hPa á 3 klst rétt norðan við lægðarmiðjuna. Hluti þrjú sést sem lægðardrag - en við það er sérstakt fallhámark, eftir litakvarðanum á milli 4 og 6 hPa á 3 klst.

Næsta mynd sýnir það sama - nema 9 klst. síðar eða um miðnætti á þriðjudagskvöld (1. júlí).

w-blogg010714e

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lægðin fyrir vestan land er hér þegar farin að grynnast - en hún þokast nú til suðurs. Mjög vaxandi lægð er undan Suðurlandi á leið til norðurs eða norðausturs. Á undan henni er mikið þrýstifall, -8,8 hPa á þremur tímum þar sem mest er. Fyrir tíma gæðatölvuspáa átti þrýstifall sem þetta, yfir 8 hPa á þremur tímum, að kveikja á veðurfræðingi - væri hann ekki búinn að spá stormi (>20 m/s) ætti hann að gera það nú þegar. Auðvitað réði þetta ekki öllu í reynd - það þarf t.d. að ákveða hvar á að spá storminum.

En þessi þriðja lægð - eða lægðarhluti verður óvenjudjúp miðað við árstíma. Þrýstimet júlímánaðar falla á einhverjum veðurstöðvum - og enn er möguleiki á að það gerist fyrir landið í heild. Í pistli gærdagsins kom fram að til þess þarf þrýstingur á einhverri veðurstöð að fara niður fyrir 972,4 hPa.

Svo er að sjá að marga daga taki að losna við leifar þessa kerfis.

Eins og fram hefur komið er nýliðinn júnímánuður einn sá hlýjasti sem um getur hér á landi, jafnframt einn sá úrkomusamasti um landið suðvestanvert - og reyndar sums staðar annars staðar líka. Væntanlega kemur frétt frá Veðurstofunni þar um á þriðjudag og miðvikudag.

Þessi miklu hlýindi eru svo sannarlega óvenjuleg - og ástæðulaust að tala þau niður þrátt fyrir dauft veðurlag um landið sunnan- og vestanvert. Í fyrra léku hungurdiskar sér að því að gefa sumrinu og einstökum mánuðum þess gæðaeinkunn. Það verður líka gert í sumar. Í fljótheitum virðist júnímánuður í Reykjavík fá einkunnina fjóra af sextán mögulegum. Júní í fyrra fékk einkunnina þrjá. Myndin hér að neðan sýnir gæðaeinkunn júnímánaða frá 1921 að telja. 

w-blogg010714a

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við sjáum júní 2013 og 2014 langt niðri á kvarðanum - þó hafa margir júnímánuðir verið enn neðar. Ritstjórinn er kominn á sjötugsaldur og bjó á yngri árum við skítasumur í löngum röðum - kulda, rigningu og illviðri. Júnímánuðirnir 2013 og 2014 eru einfaldlega nærri því meðallagi sem verst var. Þeir sem nota sumur þessarar aldar sem viðmið eru auðvitað skelfingu lostnir þegar sumur eins og 2013 og fyrsti sumarmánuður ársins 2014 sýna sig. En þeir verða bara að átta sig á því að þetta er bara hluti af hinu almenna íslenska veðurlagi.

Segja má að sumur frá og með 1996 hafi flest verið viðunandi hér á Suðvesturlandi, það eru 18 ár. Eðlilegt er að þeir sem eru yngri en 30 ára noti þau sem viðmið sín. Það er nærri því hálf þjóðin. Við sem erum komin yfir miðjan aldur munum hins vegar kveinstafi enn eldri kynslóðar yfir vondri tíð - sú kynslóð átti árin kringum 1940 sem viðmið - en við höfðum ekki kynnst neinu betra. Sumargæði nýju aldarinnar eru því algjör happdrættisvinningur - sem við getum þó ekki búist við að endist um alla framtíð - fullt hús stiga bæði 2008 og 2012. 

Við sem nú erum á sjötugsaldri heyrðum líka í þarnæstu kynslóð á undan - þeirri sem notaði árin fyrir 1920 sem viðmið. Þeim þótti líka ástandið í kringum 1980 bara eðlilegt - sumarhlýindin 1925 til 1945 voru einfaldlega afbrigðilegur happdrættisvinningur - sem leið hjá.

Við vitum ekkert um sumur framtíðarinnar - (ekki einu sinni um afgang sumarsins 2014) - vel má vera að nú komi sjö skítasumur í röð - þess vegna skítköld að auki. Fari svo þýðir ekkert að kveina undan því eins og um ofsóknir sé að ræða og alla vega getur ritstjóri hungurdiska ekkert gert í málinu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

eru ekki lýkur á að öflugar lægðir komi landið ef hiti sjávar hlínar við landið samanber færsla.þann 29.6. 2014. um hita á norðurlandi. meir af fóðri fyrir lægðir.

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 1.7.2014 kl. 09:38

2 identicon

Það er nokkur skrítið að þrátt fyrir að júnímánuður í ár sé einn sá hlýjasti (engar opinberar tölur þó komnar um það), þá fær hann falleinkunn hjá þér Trausti og það næstum eins lága og hörmungarmánuðurinn í fyrra. Þetta er nú ósamræmi, er það ekki?

Það góða við þessi skrif eru þó það að hér er ekkert fjallað um hnattræna hlýnun. Hún virðist hafa gufað upp! Meira að segja verið að gefa því undir fótinn að þetta sumarið verið annað í röð sjö skítasumra hér sunnanlands! Þá vildi ég nú frekar hnattrænu hlýnunina aftur!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 1.7.2014 kl. 10:00

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mitt veðurminni nær ekki mikið alengra aftur en til 1955, en þá var í minningunni alltaf sól og gott veður. Missti sem sagt af blíðunni fyrir miðja öldina. Síðan komu hafís- eða kalárin eftir vorhretið mikla 1963 sem ég man vel eftir, en í lok aldarinnar fór að hlýna aftur sem betur fer. Þá upplifðum við aftur svipað veðurfar og foreldrar okkar þekktu á sínum ungdómsárum. Nú er bara að vona að ekki verði aftur hafís- og kalár á næstunni. Ekki skítköld skítasumur. Hver veit? Ef náttúran er söm við sig, þá er það hreint ekki útilokað.

Þeir sem hafa aðeins verið að dunda við að setja trjáplöntur í jörð og þykjast eiga smá vísi að skógi ráða sér ekki fyrir kæti. Undanfarin sumur hafa verið sæmilega hagstæð gróðri, en sumarið núna virðist ætla að verða með eindæmum hagstætt trjágróðrinum, að minnsta kosti í uppsveitum hér sunnanlands þar sem ég þekki vel til. Það er hrein unun að fylgjast með vextinum. Við leyfum okkur að vona að náttúran verði góð við okkur að minnsta kosti í nokkur ár í viðbót.

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2014 kl. 15:21

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Fyrirgefðu að ég er kannski kominn langt út fyrir efnið Trausti...

Fyrir algjöra tilviljun rakst ég á nýlegan pistil um brjóstvit sænskra bænda, skömmu eftir að ég las pistil þinn.  Þar kemur væntanlega fram uppsöfnuð reynsla kynslóðanna.    Pistillinn er í Science Norden og byrjar þannig:

"Swedish farmers have doubts about climatologists
June 27, 2014 - 06:10
Farmers rely more on their own experiences with changing weather than on climatologists who have no agricultural experience, according to Swedish research...."

Bændur eru auðvitað í góðum tengslum við náttúruna og eru jarðbundnir. Vanir að treysta vel brjóstvitinu.    Þetta voru sænskir bændur, en gaman væri að þekkja skoðun íslenskra bænda :-)

http://sciencenordic.com/swedish-farmers-have-doubts-about-climatologists

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2014 kl. 16:06

5 identicon

Sí mun yfir veðri vaka

víða er flókin myndinn

af honum mun enginn taka

að ögn er Trausti fyndinn

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 1.7.2014 kl. 16:11

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég get nú bara ekki fallist á að þessi júní sé neitt alslæmur eða bara yfirleitt mikið slæmur þó hann hafi ekki verið sólríkur. Hinn miklu hlýindi hljóta að vega upp á móti lítilli sól og miklu regni. Væri hann betri ef það hefði verið mikil sól en meðalhitinn væri 8,5 stig í Reykjavík sem þýddi skítakulda kvölds og morgna en kannski stundum sæmilegt um hádaginn, já bara stundum ef reynslunni af slíkum mánuðum. Ég fellst ekki á það að sól sé eini mælikvarðinn á veðurgæði eins og maður gæti þó haldið að væri af því að lesa ýmisleg ummæli á metmiðlum. Og því um síður tek ég undir það að júní af þessari  hitagráðu sé skítamánuður. En hann væri það ef hitinn hefði veirð 8,5 stig með sama sólskinsstundafjölda og úrkomu. Og þess konar mánuðir voru næstum því normið þegar ég var yngri og kjaftforari!

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.7.2014 kl. 18:47

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fellst hins vegar fúslega á það að júlí byrji með sannkölluðu skítaveðri í dag og svo næstu daga eftir spám. Gott dæmi um raunverulegt skítaveður að sumri til. En júní var bara ekki svoleiðis.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.7.2014 kl. 19:29

8 identicon

Las þetta á Fjésinu sem ég held að lýsi sumrinu hér sunnan- og vestanlands betur en einhver hita-statistík:

"Fyrir mörgum árum vorum við í flugi frá Reykjavík til Þingeyrar þar sem við áttum heima. Sigrún var þá 4 ára. Flugstjórinn var nýbúinn að tilkynna að flug yrði lækkað og lending undirbúin þegar hann skipti skyndilega um skoðun. Vélin klifraði næstum lóðrétt upp í loftið á ný. Sigrún hrópaði upp yfir sig, bæði reið og hneyksluð, svo að heyrðist um alla vél: ÞETTA KALLA ÉG NÚ EKKI AÐ LENDA!

Nú, þegar fyrsti dagur júlímánaðar er genginn í garð, segi ég, og er ótrúlega reið og hneyksluð: ÞETTA KALLA ÉG EKKI SUMAR!

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 1.7.2014 kl. 19:54

9 identicon

Það er ekki uppörvandi að heyra að við gætum fengið allt að sjö slæm sumur í röð. Þá er líklega best að flytja til veðursælla staða næstu árin.

Ætli þá ekki að sólarlandaferðir fari þá ekki að komast í tísku aftur?

Það er nú orðið ansi hart ef sumarið hér á landi er orðið lélegast tími ársins, svona hlutfallslega og veðurfarslega séð.

Samkvæmt venju eru ekki nema ca. tveir og hálfur mánuður eftir af eiginlegu sumri, svo líkurnar á að veðrið verði betra fara sífellt minnkandi ef þetta heldur svona áfram.

Þó svo að kaldara hafi verið á árunum 1965 - 1985, þá komu oft langir kaflar á þessum árum á sumrin þar sem að var blíðuveður og sól svo dögum skifti. Svo hefur ekki verið nú undanfarin tvö sumur þar sem svöl væta hefur verið alls ráðandi.

Arngeir Jóhannsson (IP-tala skráð) 1.7.2014 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b
  • w-blogg031124a
  • w-blogg311024a
  • w-blogg311024b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.11.): 335
  • Sl. sólarhring: 421
  • Sl. viku: 1655
  • Frá upphafi: 2407349

Annað

  • Innlit í dag: 311
  • Innlit sl. viku: 1494
  • Gestir í dag: 304
  • IP-tölur í dag: 286

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband