Óvissa í helgarspám - hvað er á seyði?

Rétt er að taka fram í upphafi að hungurdiskar spá ekki fyrir veðri um verslunarmannahelgina. Það gera Veðurstofan og fleiri aðilar hins vegar - ég mæli með þeim öllum. Þeir sem fylgst hafa með þessum spám síðustu daga hafa orðið varir við talsverða óvissu í spánum - og jafnvel hringl með spár frá degi til dags. En það er bara eðlilegt því enn eru margir dagar til helgarinnar. Hér lítum við á eina ástæðu óvissunnar. Það er sú ástæða sem er uppi þegar þetta er skrifað - seint á þriðjudagskvöldi, 26. júlí. Spárnar verða e.t.v. óvissar á morgun af einhverri annarri ástæðu.

Við lítum á norðurhvelskort með 500 hPa-spá evrópsku reiknimiðstöðvarinnar og gildir hún á hádegi á fimmtudag, 28. júlí.

w-blogg270711a

Fastir lesendur kannast við kortið, en aðrir verða að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Ég hef merkt helstu lægðarmiðjur (kuldapolla) á kortið. Við sjáum t.d. að allfyrirferðarmikil lægð er yfir Miðevrópu og veldur þar skúrum og hálfgerðu skítaveðri þótt verra gæti það verið. Snarpir kuldapollar eru yfir Síberíu og nærri norðurskautinu. Síðan er kuldapollur yfir Baffinslandi.

Skarpt lægðardrag er skammt norðaustan við Ísland, þetta er lægðardragið sem valdið hefur dimmviðri og vindi um landið sunnan- og vestanvert í dag. Suðvestan- og vestan við Ísland verður flókin staða á fimmtudaginn. Við sjáum fjölmörg smálægðardrög sem vont er að henda reiður á.

Reiknimiðstöðin er viss í sinni sök um framhaldið, en gallinn er sá að framhaldið er ekki það sama og var í næstu spá á undan (12 klst áður) - minnir meira á framhaldið sem miðstöðin reiknaði í gær. Og reiknimiðstöð bandarísku veðurstofunnar er ekki sammála þessu heldur - þótt hún hafi hins vegar verið staðfastari á sínu framhaldi. En út á hvað gengur ágreiningurinn?

Ég reyni að lýsa honum með því að grípa til tveggja stuttra örva sem ég hef sett á kortið og vonandi er að lesendur sjái. Önnur örin er blálituð og er sett framan við grunnt lægðardrag við Suður-Grænland. Allar spár virðast reikna með því að það dýpki allmikið og hreyfist austur eða norðaustur frá föstudegi til mánudags.

Hin örin er rauðlituð og sett þar sem riðabylgja er á ferð. Hvað var svo riðabylgja? Riðabylgja er svæði þar sem misgengi er á milli þykktar- og hæðarlína á veðurkorti. Þær mynda saman riðið net, þar er helst von á að lægðir dýpki. Spárnar eru mjög ósammála um hvað um þessa bylgju verður um helgina. Í spánni sem er í framhaldi af kortinu hér að ofan fletur reiknimiðstöðin hana út og ber til austurs fyrir sunnan land. Jafnframt byggist upp lítill hryggur norðan við hana sem beinir kalda lægðardraginu norður fyrir land þannig að við sleppum að mestu við áhrif þess.

Bandaríska spáin (og sumar fyrri spár reiknimiðstöðvarinnar) láta kalda lægðardragið seilast í riðabylgjuna með þeim afleiðingum að lægðin sem tengist henni dýpkar allmikið og fer einhvers staðar yfir landið um helgina - þá með rigningu um mestallt land. Hverju á svo að spá?

Við gætum litið á málið aftur eftir svosem eins og sólarhring til að athuga hvort málin hafa skýrst. Þá væri líklega lag að líta betur á riðabylgjuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Sæll Trausti !

Já , það er ljóst að höfin eru blá á kortinu,  en það er ekki eins á tæru hvað

rauða örin og bláa örin gera - eða þau náttúruöfl sem þær standa fyrir.

Ef ég má segja mína skoðun , þá held ég að veðrið verði bæði gott og vont

þessa helgi - í öllum landshlutum. Skin og skúrir - en ekkert alvarlegt. Táknmynd

af mannlífinu í líki veðurfarsins.  Skemmtilegur pistill hjá þér að venju!

óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 27.7.2011 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 67
  • Sl. sólarhring: 289
  • Sl. viku: 1862
  • Frá upphafi: 2412882

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 1657
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband