Páskalægðin pakkar saman

Ekki hef ég samantekt um vindhraða og þess háttar við höndina en mér sýnist að þrýstivindur á Faxaflóa við hámark páskaveðursins hafi e.t.v. verið um 45 m/s. Þetta er há tala, en þó mun lægri heldur en varð mest fyrir hálfum mánuði þegar þrýstivindur á flóanum varð mestur um 60 m/s. Þetta var samt býsna mikill sunnan- og suðvestanhvellur miðað við árstíma. Norðanillviðri eru algengari síðast í apríl og í maí.

En nú er lægðin að pakka saman og er spáð til austurs yfir landið á morgun um leið og hún grynnist umtalsvert. En fyrst þarf hún að hleypa þeim hraðskreiða spákuldapolli framhjá sem minnst var á hér á hungurdiskum í gær og fyrradag. Þykktarkortið af brunni Veðurstofunnar sýnir hann sérlega vel.

w-blogg250411-1

Svörtu línurnar eru jafnþykktarlínur í dekametrum, því lægri sem tölurnar eru því kaldara er loftið í neðri hluta veðrahvolfsins. Lituðu svæðin sýna hita í 850 hPa fletinum - sjá kvarðann til hægri við myndina. Bláa örin sýnir miðju kuldapollsins, 5140 metrar, það nægir til þess að úrkoma sem fellur að næturlagi á þessum árstíma er snjór frekar en regn. Hvíta strikaða örin sýnir svo hreyfistefnu kuldans. Hann gengur mjög hratt hjá.

Rauða örin bendir á hlýjan kjarna páskalægðarinnar, en hún bíður hreyfingarlítil þar til hraðlestin er komin hjá. Síðan tekur hún á skrið austur fyrir land. Talsvert er eftir af vindi sunnan við hana og gæti orðið leiðindaveður sunnanlands um tíma á morgun (annan páskadag) meðan lægðarmiðjan skýst hjá, en síðan á veðrið að skána.

Við skulum líka sjá kuldapollinn á (óskýrri) gervihnattarmynd á miðnætti.

w-blogg250411-2

Kuldapollar yfir mjög hlýjum sjó einkennast af gríðarlegum éljaklökkum - enda er loft sérlega óstöðugt. Eldinganemar hafa í dag numið fjölda eldinga sem fylgja þessum klökkum. Mest er þrumuveðrið í austurjaðri svæðisins - en vel gætu einhverjir lesenda hafa orðið varir við eldingar eða þrumur nú síðdegis eða í kvöld (páskadags). Það snjóar varla mjög mikið úr þessu kerfi því það fer svo hratt hjá og kalt landið slær heldur á uppstreymið nema í námunda við brött fjöll. Vonandi bráðnar snjórinn á morgun - enda kemur hlýrra loft yfir landið með leifunum af lægðinni vestur undan þegar kuldapollurinn er farinn hjá.

Næsta lægðarkerfi á síðan að koma á miðvikudaginn og varla lát að sjá á umhleypingunum því stóri kuldapollurinn er enn á sveimi vestan Grænlands. Kuldinn sem við höfum fengið frá honum hefur þó nær eingöngu falist í skamvinnum sleikjum, snjóað hefur stund og stund. Í heildina litið hefur hins vegar verið hlýtt - og óvenjuhlýtt um landið austanvert - mánuðurinn gæti þar orðið einn hinna hlýjustu sem vitað er um. En enn er hátt í vika eftir af mánuðinum og ekki ljóst fyrr en um lýkur í hvaða hlýindasætum hann lendir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Nei, það eru svosem ekki harðindin.   Jörð og gróður vel tilbúin þegar þessum élja og hviðu látum linnir.

P.Valdimar Guðjónsson, 25.4.2011 kl. 14:11

2 identicon

Mikið hrykalega er búið að vera leiðinlegt veður hér á landi þetta árið.  Amk. hér s/v-lands. 

Og það er ekkert sem bendir til að þetta sé að breytast. 

Þetta ár, árið 2011 mun áræðanlega verða minnst sem ársins sem þegar veðrið var askaplega leiðinlegt.  Endalaust hryssingslegt veður, úrkoma, hvassviðri og sólarlítið.  

Fyrst þeta er búið að vera svona í nokkra mánuði, þá hlýtur að vera að hér sé komið varanlegt veðrakerfi.

Og það er engin afsökun að það sé BARA enn apríl.  Það er nefnilega alveg að koma maí, fyrsti raunverulegi sumarmánuðurinn.  

Man ekki betur að alla þessa öld hafa verið mun betra veður í apríl en núna, amk. s/v-lands.

Mikið mun ég hata þetta ár ef veðrið verður svona það sem eftir líður ársins. 

Nú þegar er1/3 af árinu liðinn og fátt sem bendir til þess að veðrið muni batna héðan af.  Það verður kannski eitthvað hlýrra, en veðráttan mun verað sú sama; lægðafaraldur, vætusamt, hvasst og sólarlítið.

Sigurgeir Fr. Ólafsson (IP-tala skráð) 25.4.2011 kl. 19:49

3 identicon

Innslag Sigurgeirs Fr. Ólafssonar hér að ofan varð til þess að ég fór í veðurbókina mína og fletti í gegn um hana til að reyna að gera mér grein fyrir hvernig vindáttir hefðu lagst það sem af er ári. Viti menn, vestlægar vindáttir, frá norðvestri til suðvesturs hafa oftast verið ríkjandi. Fyrstu vikur ársins var vindátt reyndar lengst af norðaustlæg og allnokkur snjókoma hér um slóðir. Febrúarmánuður var fremur tíðindalítill en marsmánuður talsvert óstöðugri. Eiginlega má segja, að gamla þulan um að:"... Þurr skyldi Þorri, þeysin (þeysöm) Góa, votur Einmánuður, þá mun vel vora" hafi gilt, þ.e. Þorri var fremur spakur, Góa vindasöm og úrkoma hefur verið nokkur á Einmánuði. En Harpa hefur ekki farið vel af stað, ekki enn að minnsta kosti. En þetta vakti aftur ýmsar hugrenningar hjá mér um veðurminni fólks, sem ég hef oft rekið mig á að er afar misjafnt, svo ég taki ekki dýpra í árinni. Oft hefur mér þótt skemmtilegt að fletta upp í veðurbókum mínum og rekja fyrir mönnum rauntíma skráningar mínar á veðri, eins og það hefur verið. Minni viðmælenda hefur sjaldnast farið saman við þær skráningar.

kv.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 25.4.2011 kl. 22:13

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka athugasemdirnar gaman að heyra af veðurdagbókum - þær eru mikilvægar og því mikilvægari eftir því sem þær eru haldnar lengur samfellt. Þá fara bókarar að taka eftir því hvað er í raun og veru óvenjulegt veður.

Trausti Jónsson, 26.4.2011 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 171
  • Sl. sólarhring: 209
  • Sl. viku: 2092
  • Frá upphafi: 2412756

Annað

  • Innlit í dag: 162
  • Innlit sl. viku: 1836
  • Gestir í dag: 149
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband