Af kuldakastinu fyrir 50 árum

Nú eru allt í einu liðin 50 ár frá áramótunum 1967/68. Þá gerði mjög minnisstætt kuldakast sem náði hámarki 2. og 3. janúar. Þann 3. varð meðalHÁmarkshiti á landinu -13,2 stig og sá lægsti sem vitað er um eftir 1920. Meðallágmarkshiti dagsins áður var -16,7 stig. Að auki var hvasst um nær allt land. - Á þessu andartaki virtust kuldar fyrri alda snúið aftur. 

Víða varð tjón í húsum vegna þess að vatn fraus í miðstöðvarofnum og segja mátti að hitaveita Reykjavíkur hafi verið á síðasta snúningi. Fréttin hér að neðan er úr Morgunblaðinu 5. janúar.

w-blogg301217aaa

Á lista yfir lægsta sólarhringsmeðalhita allra daga frá 1949 eru 2. og 3. janúar 1968 í 5. og 7. sæti. 

röðármándagurmhiti
1196938-17,02
2196926-16,29
31968331-15,30
4196939-15,26
5196812-15,11
6199836-14,70
7196813-14,21
8196927-14,14
91981115-13,92
101988123-13,82

Yfir landið flæddi jökulkalt loft norðan úr íshafi. Mikill hafís var fyrir norðan land þannig að leiðin yfir auðan sjó var mjög stutt. 

w-blogg301217a

Taka má eftir því að það er -25 stiga jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem liggur yfir landinu. Slíkt er mjög óvenjulegt. Í kuldanum í gær (29. desember) mátti rétt finna -15 línuna yfir landinu. Sýnir þetta vel eðlismun kulda - kuldakastið 1968 var „djúpt“ orðið til við mikið aðstreymi kulda, en nú er hægur vindur og bjartviðri aðalástæða kuldans - fljótt dregur úr frosti þegar vind hreyfir. 

Þykktarkortið hér að neðan er líka sérlega ískyggilegt.

w-blogg301217b

Það er ekki oft sem fjólublái liturinn leggst yfir mestallt landið. Þykktin í honum er minni en 4920 metrar. 

Það er nógu slæmt að frost sé meira en -10 stig, en þegar vindur bætist við verður málið fyrst ískyggilegt. Hitaveitur hafa látið meta eins konar vindkælingu - höfum í huga að hefðbundnar vindkælitöflur þar sem reynt er að reikna kælingu á óvarinni húð eiga ekki endilega við - og eru reyndar sjaldan til nokkurs gagns hér á landi. 

En leitum að vindasömum og köldum dögum. Einskorðum okkur við daga þegar meðalvindur á landinu er meiri en 8 m/s og landsmeðalhiti lægri en -8 stig. 

w-blogg301217aa

Við sjáum að það eru ekki sérlega margir dagar sem komast inn á listann (71 á 68 árum). Því neðar sem dagur er á myndinni því kaldari var hann - og því lengra sem dagur er til hægri því hvassari var hann. Segja má að allir jaðardagarnir hafi verið hræðilegir. Þeir hafa allir verið merktir með ártali - en við látum örvar benda á 2. og 3. janúar 1968 - og eina líka á páskahretið 1963. - Ör bendir líka á þann stað sem gærdagurinn (29. desember 2017) myndi lenda - í kringum hann væri þétt punktadreif sem við sleppum hér. 

w-blogg301217c

Bláleitu súlurnar á myndinni sýna hita í Reykjavík á þriggja stunda fresti dagana 1. til 10. janúar 1968. Frostið er meira en -10 stig í nærri tvo og hálfan sólarhring og fór niður fyrir -15,6. Græna strikalínan sýnir þrýstispönn (mun á hæsta og lægsta loftþrýstingi á landinu - kvarðinn til hægri á myndinni). Köldu dagana fór hún mest upp í 19,4 hPa. Hvassara varð dagana 7. til 8., en þá var ekki nærri því jafnkalt. 

Getum við fengið svona daga þrátt fyrir hlýnandi veðurfar? Svarið verður að vera játandi þó kuldum hafi mikið fækkað. 

En talningar kaldra og hvassra daga ná enn ekki lengra aftur en til 1949 - við getum nokkuð auðveldlega talið köldu dagana á einstökum veðurstöðvum, en upplýsingar um vindhraða eru lítt tölvutækar. Nokkuð miðar þó í þeim efnum - svo mikið að líta má á ástandið fyrstu daga janúarmánaðar 1918 á nokkurn veginn sama veg. 

w-blogg301217d

Síðan eru liðin eitt hundrað ár. Súlurnar sýna sem fyrr hita í Reykjavík - en þó var aðeins mælt þrisvar á dag - gefur ekki eins fulla mynd. Við sjáum að fyrstu 4 dagar janúarmánaðar 1918 voru ekki kaldir, hiti lengst af ofan frostmarks, en síðan hrapar hitinn og er kominn niður í -16,7 stig að morgni þess 6. Græna strikalínan sýnir þrýstispönn sem fyrr. Að baki hennar eru aðeins gögn frá örfáum veðurstöðvum - líklegt er því að hún hafi í raun verið eitthvað meiri en hér er sýnt - fór hæst í 17,1 hPa að morgni þess 6. Í raun er það mjög sambærilegt við stöðuna 2. og 3. janúar 1968. Níu vindstig voru talin í Reykjavík allan þrettándann (þ.6.) - og engin hitaveita og hús yfirleitt gisnari en síðar var. Erfiður dagur þá - og yrði erfiður nú ef birtist. 

Kuldinn þann 7. var í hægum vindi - en svo var aftur orðið hvasst með frostinu þann 10. - þá voru talin 8 vindstig um morguninn - en hægur síðdegis. 

Við höfum nú litið lítillega á stöðuna fyrir 50 og 100 árum. Reynum að líta enn lengra til baka, 150 og 200 ár - en aðeins lauslega og aðeins á hita í janúar 1868 og 1818.

w-blogg301217e

Hér sjáum við daglegan hámarks- og lágmarkshita í Stykkishólmi (rauðir og bláir ferlar) og morgunhita í Reykholti í Borgarfirði (grænn ferill). Janúar 1868 hófst með hlýindum, en þann 13. kólnaði snögglega og frost fór niður fyrir -10 stig í Hólminum og niður fyrir -15 í Reykholti. Við sjáum að ferlunum ber allvel saman. 

w-blogg301217f

Aðeins hafa varðveist mælingar frá einum stað á landinu í janúar 1818 - Víðivöllum í Skagafirði. Mánuðurinn byrjaði með hlýindum, en síðan kólnaði - en ekkert óskaplega mikið samt fyrr en síðustu dagana þegar frostið varð meira en -15 stig. 

Við eigum ekki mælingar úr janúar 1768 - en höfum þó grun um að Eggert Ólafsson hafi mælt - kannski fórust þær með honum á Breiðafirði þá um vorið. En í annálum hlýtur veturinn 1768 góða dóma, og 1668 og 1618 líka, en 1718 var talinn frostasamur. 


Kaldasti dagur ársins (til þessa)

Föstudagurinn 29. desember er kaldasti dagur ársins til þessa á landinu í heild. Það var sérlega kalt norðaustanlands þar sem mest fréttist af -29,0 stigum í Svartárkoti. Þetta er mesta frost sem mælst hefur á landinu frá því 6. desember 2013, en þá fór frostið við Mývatn í -31,0 stig. 

Meðalhiti í byggðum landsins var -8,2 stig. Frá og með 1949 er vitað um 90 kaldari desemberdaga - rúmlega einn á ári að meðaltali, en ekki nema 7 á þessari öld. Ekki eru þó tilvikin alveg „óháð“ - mjög kaldir dagar koma gjarnan í klösum, fara tveir eða fleiri saman frekar en að dreifast stakir yfir tímabilin öll. Sá 29. hefur tvisvar verið jafnkaldur eða kaldari en nú, það var 1961 og 1995. Fyrra árið var „klasinn“ sem var jafnkaldur eða kaldari en nú fjórir dagar, 28. sá kaldasti, meðalhiti í byggð var þá -13,0 stig, en 1995 var hann sex dagar - og fimm höfðu komið í röð áður. Þá var annar jóladagur sá kaldasti, meðalhiti var -11,8 stig. Þá mældist -32,2 stiga frost í Möðrudal. 

Mesta frost sem vitað er um í desember mældist í Möðrudal þann 9. árið 1917, -34,5 stig. 

Frostið í Svartárkoti í dag er það mesta sem vitað er um á landinu 29. desember og er því svokallað landsdægurlágmark. Þetta er fyrsta byggðarlágmarksmet sem sett er á árinu, en annað í röð landsdægurmeta á landinu í heild - fjöldinn talsvert undir almennum væntingum. Til samanburðar má geta þess að hámarksdægurmetin eru orðin 12 á árinu (óstaðfestur fjöldi) - fjöldi talsvert ofan væntinga. 

Mikill fjöldi dægurmeta féll á einstökum stöðvum, t.d. hefur ekki mælst meira frost þann 29. desember á Bergstöðum í Skagafirði og á Sauðanesvita. 

Mánaðarhitamet féllu hins vegar ekki víða á stöðvum sem athugað hafa í meir en fáein ár. Þó hefur ekki mælst meira frost í desember en nú á Ólafsfirði (-20,2 stig). Þar hefur nú verið athugað í 20 ár, og einnig féll desembermet á Mývatnsheiði (athugað frá 1999). Sjálfvirkar athuganir byrjuðu í Svartárkoti 2003 og hefur frost ekki mælst meira þar í desember en nú og ekki heldur við Krossanesbrautina á Akureyri (frá 2005).

Óvenjukalt var á Akureyrarflugvelli - talsvert kaldara en við Lögreglustöðina og Krossanesbrautina. Lægsta talan sem sást var -23 stig og er það óvenjulegt. Það gerðist síðast 2011 (líka í desember) að frost varð meira en nú. Mesta frost sem vitað er um á flugvellinum mældist -26 stig, einmitt á annan dag jóla 1995 þegar frostið fór í -32,2 stig í Möðrudal og nefnt var hér að ofan. Einnig mældist frostíð á Akureyrarflugvelli -26 stig þann 6. mars 1998.

Þó kalt væri víða náði dagurinn þó ekki inn á lista þeirra daga sem tekur til daga þegar frost er allan sólarhringinn um land allt - því hámarkshiti fór yfir frostmark á fáeinum útnesjastöðvum. Sá ágæti listi er orðinn mjög gisinn á síðari árum, bæði vegna hinna almennu hlýinda sem og þess að útnesjastöðvum hefur fjölgað frá því sem áður var. 


Bloggfærslur 30. desember 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 645
  • Frá upphafi: 2351206

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 578
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband