Hversu mikið hefur hlýnað?

Tilefnið er að einhverju leyti „frétt“ um að hiti á Íslandi hafi hækkað um þrjú og hálft stig á síðustu 100 árum. Ritstjóri hungurdiska hvorki heyrði né sá fréttina - nema á vef RÚV - og hefur ekki athugað við hvað var átt nákvæmlega, hvort t.d. verið var að tala um °F eða °C eða hvort átt var við síðustu 100 ár - eða hvort átt var við að hlýnun sem „nú væri í gangi“ samsvaraði 3,5 stigum á 100 árum - eða hvort um einhverja framtíðarsýn var að ræða. 

En hlýnunina má setja fram á ýmsa vegu. Það sem hér fer á eftir er að vissu leyti beint framhald á tveimur pistlum sem birtust á hungurdiskum 28. apríl og 1. maí 2016.[Sjá viðhengi].

Lítum á (stappfulla) mynd:

w-blogg260117

Lárétti ásinn sýnir ár, sá lóðrétti ársmeðalhita í Stykkishólmi. Við höfum mjög oft horft á þessar súlur - síðast á nýársdag. Rauði ferillinn sýnir 30-árakeðjur, sá græni 100-árakeðju - höfum líka séð þær áður. 

Bleiki ferillinn þarfnast sérstakra skýringa. Hann sýnir línulega leitni hitans miðað við ýmis tímabil. Fyrsti punkturinn (lengst til vinstri) nær til alls tímabilsins 1798 til 2016. Leggjum við það allt undir reiknast leitnin (hlýnunin) 0,8 stig á öld. Eftir því sem lengra kemur til hægri á myndinni styttist tímabilið sem til viðmiðunar er. Við getum þannig lesið árið af lárétta kvarðanum - farið upp að bleiku línunni og séð hver leitnin reiknast - hefðum við ákveðið að byrja að reikna það ár. 

Í ljós kemur (ekki á óvart) að hún er mjög misjöfn eftir því hvar byrjað er. Það skiptir ekki svo miklu hvar við byrjum á 19. öld. Mest er hún þó sé byrjað um 1860, leitnin þaðan er um 1,1 stig á öld. Nítjándualdarhlýskeiðið var þá liðið. - Við sjáum líka á hitaferlinum sjálfum (súlurnar) að við gætum túlkað allt tímabilið fram yfir 1920 sem einhvers konar „jafnstöðutíma“ - svo fari að hlýna. 

En ef við byrjum leitnireikningana eftir að hlýna tekur kemur snögg dýfa í leitnina - það hlýnaði fjarskalega skyndilega. Hefðum við ákveðið að byrja t.d. árið sem Veðurstofan fór að gefa út tímaritið Veðráttuna (1924) - fáum við aðeins út 0,3 stig á öld sem langtímaleitni. - Lágmarksleitni fáum við með því að velja 1927 til 2016, 0,24 stig á öld. - 

Svo bætir í eftir því sem aftar kemur í hlýindaskeiðið gamla (vægi þess minnkar) og kuldaskeiðið 1965 til 1995 fær meira og meira vægi. 

Ef við gleymum gamla hlýindaskeiðinu alveg - og ákveðum að byrja leitnireikninga inni á kuldaskeiðinu kemur í ljós að hlýnunin síðan skilar gríðarháum tölum. Byrjum við 1979, á kaldasta ári kuldaskeiðsins, verður leitnin meir en 5 stig á öld og fer svo hæst í 6,5 stig á öld - ef við ákveðum að miða við 1994 til 2016 - sannkölluð óðahlýnun. 

Að vera að reikna leitni fyrir styttri tíma en 30 ár er reyndar alveg glórulaust - en við látum það samt eftir okkur til skemmtunar - og fáum lægri tölur á síðari árum - en samt vel jákvæðar - kringum 2 stig á öld. 

Hér er auðvitað margt sem vekur umhugsun. Hvar á að byrja? Er hlýindaskeiðið gamla hluti af hnattrænni hlýnun? Var kuldaskeiðið afturhvarf til þess „eðlilega“. Ritstjóri hungurdiska velti vöngum í tilvitnuðum pistlum og fer ekki að endurtaka það nú. 

En - við skulum hafa í huga að leitnireikningar yfir tímaraðir á norðurslóðum sem ekki ná aftur fyrir hlýskeiðið gamla eru varasamir - sýna óðahlýnun eða afleiðingar óðahlýnunar sem við vitum ekki hvort endist. - Geri hún það er verulega illt í efni. 

Við gætum líka farið út í að framlengja keðjur. Það má gera á ýmsan veg. Ef við t.d. tökum síðustu uppsveiflu 30-ára ferilsins á myndinni (rauður) - samsvarar hún um 3,8 stigum á öld, brekka 100-ára keðjunnar er aðeins um 0,9 stig á öld, og fimm og tíu ára keðjur sýna meir en 5 stig á öld - sé tíminn frá síðustu lágmörkum þeirra aðeins tekinn. 

Við getum því í raun bara valið okkur þá tölu sem við teljum henta, en munum: Leitnireikningar einir og sér eru einskis virði í veður- eða veðurfarsspám (þó gagnlegir geti þeir verið í greiningum).


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 25. janúar 2017

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 8
  • Sl. sólarhring: 351
  • Sl. viku: 1566
  • Frá upphafi: 2352703

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1408
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband