Heimshiti - hiti hér á landi

Hér fer langur og torræður pistill - varla fyrir aðra en sjóngóða þrekmenn. 

Einhvern veginn virðast fjölmargir gera því skóna að eigi hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa sér stað á annað borð hljóti hún að vera samfelld - og þá ekki aðeins á heimsvísu heldur einnig svæðisbundið - og að fyrst svo sé ekki hljóti hlýnunarhugmyndir þar af leiðandi að vera vafasamar. 

Í þessum pistli verður ekkert þrasað sérstaklega um þetta - en litið á nokkrar tölur og myndir. Heimshitagagnaröðin sem notuð er er fengin frá bresku hadley-miðstöðinni og nær aftur til ársins 1850 - 166 ár alls. Stykkishólmshitaröðin kemur einnig við sögu - hún hefur verið framlengd aftur til 1798. 

Í heimshitaröðinni eru 74 tilvik (af 165) þannig að ár var kaldara heldur en næsta ár á undan - rúmlega 4 sinnum á áratug hverjum að meðaltali. Síðustu 10 árin gerðist það þrisvar. Í jafnstöðuveðurfari byggjumst við að 5 ár á áratug væru kaldari en árið á undan. - Það hefur einu sinni gerst á heimsvísu að aðeins tvö ár af tíu voru kaldari en árið á undan - það var 1961 til 1970. Kólnun var eindregnust á áratugnum 1947 til 1956, þá voru 7 ár af tíu kaldari en árið á undan. 

Hvað um það - það er greinilega algengt að ár séu kaldari en árið að undan - þrátt fyrir mikla hnattræna hlýnun. Að það kólni frá einu ári til annars segir ekkert um lengri þróun. 

Berum nú saman stærð hitasveiflna á heimsvísu og hér á Íslandi. Til þess notum við fyrst myndina hér að neðan.

w-blogg290416a

Grábláusúlurnar sýna breytileika heimshitans frá ári til árs (stærð hans - án formerkis), en þær rauðu breytileikann í Stykkishólmi. Ef við reiknum stærðarmun talnanna á þessum tveimur ferlum kemur í ljós að meðalbreytileikinn í Stykkishólmi er 7,4 sinnum meiri heldur en heimsbreytileikinn [0.67 stig á móti 0,09 stigum]. - Af þessu má sjá að hitasveiflur frá ári til árs hér á landi ráðast ekki neitt af heimshitanum. - Sé miðað við norðurhvel eingöngu er munurinn ívið minni - eða 5,6 faldur. 

En - förum við í saumana á fylgni árabreytileikans kemur samt nokkuð óvænt í ljós - það sýnir næsta mynd.

w-blogg290416b

Lárétti ásinn sýnir mun á heimshita hvers árs og ársins á undan, en sá lóðrétti það sama fyrir Stykkishólm. Hér er Stykkishólmskvarðinn sexfaldur miðað við heimskvarðann. 

Sé fylgin reiknuð (og myndin rýnd) kemur fram marktæk neikvæð fylgni á milli árlegra heimshitabreytinga og hitabreytingar í Stykkishólmi. Með öðrum orðum að líkur eru til þess að hlýni snögglega milli ára á heimsvísu muni kólna milli ára í Stykkishólmi. 

Séu hitaraðir hadley-miðstöðvarinnar rýndar hver um sig kemur í ljós að það eru fyrst og fremst norðurhvels- og landhlutar hennar sem eru að skila þessu merki - ekki suðurhvel, hitabelti eða heimshöfin. 

Við skulum nú ekki fara að gera neitt úr þessu - en það sýnir alla vega svart á hvítu að hlýtt ár á heimsvísu er ekkert endilega vísun á einhver aukahlýindi hér á landi. Eins og venjulega er auðvelt að finna skýringar á þessu háttalagi - en mjög erfitt að finna rétta skýringu - við látum það liggja milli hluta.

Hins vegar hefur hlýnað bæði á heimsvísu og hér á landi síðustu 150 árin - þannig að fylgni er á milli heimshita og hita í Stykkishólmi. Sú fylgni er hins vegar ekki tilkomin af breytileika frá ári til árs - heldur eingöngu af lengri þróun.

Næsta mynd sýnir heimshita á móti Stykkishólmshita - frá ári til árs.

w-blogg290416c

Heimshitavikin (lóðrétti kvarðinn) eru hér miðuð við tímabilið 1961 til 1990 - og Stykkishólmsvik líka. Fylgnin líka marktæk - .

Úti til vinstri á myndinni er rauður hringur utan um nokkur mjög köld ár hér á landi. Kuldinn þá virðist hafa haft eitthvað með hafísinn að gera - eins konar staðbundinn aukakuldi hafísjaðarsins sem heimshitinn hefur enga hugmynd um. - Við sjáum líka að breidd Stykkishólmsskýsins (á hverju hitabili heimshitans) er að minnsta kosti 3 stig. - Svo vill til að það er einmitt sá breytileiki sem auðvelt er að skýra með því að mismunandi vindáttir ríkja frá ári til árs - og að loft er af mismunandi uppruna.

Hringrásarbreytileikinn er miklu stærri heldur en sá sem fylgir hnattrænu breytingunum. - Heimshlýindin á síðustu árum hafa slitið skýið í sundur - upp á við - á því svæði er breytileiki Stykkishólmshitans ekki nema um 2 stig. Það er í raun allt of lítið miðað við reynsluna - hvort við eigum þá inni kaldari ár eða hlýrri eða hvort tveggja skal ósagt látið - en aðalatriðið er við eigum meiri breidd inni. Eitt „mjög kalt“ ár getur því vel komið - án þess að bresti í heimshlýnun sé um að kenna. - Svo eigum við líka inni aukakulda úr norðri snúi hafísinn aftur - en fráleitt er að útiloka það algjörlega - þrátt fyrir rýrð í íshafinu. - Myndin gefur til kynna að hafís bæti við 1 til 2 stigum í átt til meiri kulda. 

Síðasta myndin sýnir heimshitann og Stykkishólmshita sem tímaraðir - auk 10-ára keðjumeðaltala.

w-blogg290416d

Samfelldu ferlarnir sýna 10-ára keðjurnar. Hér kemur í ljós að áratugabreytileiki í Stykkishólmi þarf ekki nema þrefaldan kvarða á við áratugabreytileika heimshitans - þurfti sexfaldan til að koma breytileika frá ári til árs heim og saman. - Þessi þrjú stig sem munar eru e.t.v. hringrásarbreytileikinn - áratugabreytingarnar þurfum við að skýra með einhverju öðru en legu og uppruna háloftavinda. 

Heildarleitnina er sjálfsagt að skýra með auknum gróðurhúsaáhrifum - en áratugabreytileikinn er enn óskýrður að fullu. - Það er hins vegar tilgangslaust að reikna leitni og nota til framtíðarspádóma. - Við lendum fljótt í alls konar dellumakeríi ef ekki er varlega farið. 

Sem dæmi má nefna að sé leitni beggja hitaraða reiknuð frá 1850 fáum við út 0,5 stig á öld fyrir heimshitann, en 1,0 stig á öld fyrir Stykkishólm. Stykkishólmsleitnin er tvöföld á við heimshitaleitnina - Sé tímabilinu frá 1798 bætt við Stykkishólm lækkar aldarleitnin þar hins vegar niður í 0,8 stig - það var tiltölulega hlýtt um skeið framan af 19. öld. Hverning var heimshitinn á sama tíma?

Það er varla eðlilegt að byrja leitnireikninga í lágmarki. Ef við byrjum hins vegar 1920 dettur aldarleitnin í Stykkishólmi niður í 0,4 stig, en heimsleitnin magnast í 0,8 stig - verður tvöföld á við hitaleitni hér á landi. - Nú, og sé miðað við tímann eftir 1965 fer Stykkishólmsleitnin upp fyrir 3 stig á öld - heldur það áfram?

Tímaleitnireikningar geta skýrt gögn á ýmsa vegu - og eru ekki gagnslausir - en við skulum varast að nota þá sem hjálpartæki við framtíðarspár - framtíðin á sig sjálf. Eins og ritstjóri hungurdiska hefur einnig oft tekið fram áður telur hann sveiflugreiningar sama eðlis - gagnlegar til greiningar - jú, en annars gagnslausar - nema - og það er mikilvægt „nema“ - einhver aflræn skýring sé að baki sveiflanna. Hann trúir þannig í blindni á bæði dægursveiflur og árstíðasveiflur - fellur fram og tilbiður þær. 


Bloggfærslur 28. apríl 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 342
  • Sl. sólarhring: 412
  • Sl. viku: 851
  • Frá upphafi: 2351642

Annað

  • Innlit í dag: 323
  • Innlit sl. viku: 760
  • Gestir í dag: 317
  • IP-tölur í dag: 312

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband