Snarpur kuldapollur - en bæði lítill og hraðfara

Útlit er fyrir kuldakast í vikunni - það er þó ekki sérlega fyrirferðarmikið miðað við t.d. það sem heimsótti okkur sömu daga í fyrra. En við skulum samt líta á tvö spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar.

Það fyrra gildir síðdegis á þriðjudag.

w-blogg250416aa

Heildregnu línurnar sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mikill þykktarbratti er yfir landinu. Mjög hlýtt er vestan við land, það er 5380 metra jafnþykktarlínan sem snertir Reykjanes, en 5240 metra línan er við Austfirði - hér munar 140 metrum - eða um 7 stigum. 

Litirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum, sem er hér í ríflega 1500 metra hæð yfir landinu. Við vesturströndina er hitinn um frostmark, en töluna -13 stig má sjá við Norðausturland, munar 13 stigum. Af þessu sjáum við að kalda loftið er fyrirferðarmeira í neðstu lögum heldur en ofar - fleygast undir það hlýja.

Meginkuldapollurinn sjálfur er svo alveg við norðurjaðar kortsins, - þar má sjá að þykktin er um 5040 metrar - loftið um 10 stigum kaldara heldur en við Austurland.

Þetta er ekki stór pollur - en hreyfist hratt til suðurs og verður yfir Íslandi austanverðu aðeins sólarhring síðar - síðdegis á miðvikudag. Þetta er heldur fyrr en spáð var fyrir nokkrum dögum - og tekur líka fyrr af.

Kortið að neðan gildir síðdegis á miðvikudag, 27. apríl.

w-blogg250416a

Hér má sjá töluna -17 í 850 hPa í uppstreyminu áveðurs á Austurlandi - og þykktin er komin niður í um 5070 metra þar sem lægst er. Meðalhiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur því fallið um 8 stig eða svo á Austurlandi frá því sem spáð er á þriðjudag, en við Reykjanes hefur þykktin fallið um 120 metra - sem samsvarar um 6 stiga kólnun. 

En það er ekki mikil fyrirferð í mesta kuldanum - og daginn eftir (á fimmtudag) á þykktin yfir landinu að vera komin aftur upp í um 5300 metra - ekki sérlega hlýtt - en nærri meðallagi árstímans. 

Svona til að ná einhverjum samanburði lítum við loks á samsvarandi kort frá 25. apríl í fyrra. Þá gekk skelfilegt og langvinnt kuldakast yfir landið - ekki þarf að horfa lengi til að sjá að væntanlegt kuldakast er í allt öðrum flokki - þó nógu leiðinlegt sé.

w-blogg250416b

Þetta er kort frá í fyrra - athugið það. 


Bloggfærslur 25. apríl 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a
  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 199
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 708
  • Frá upphafi: 2351499

Annað

  • Innlit í dag: 186
  • Innlit sl. viku: 623
  • Gestir í dag: 185
  • IP-tölur í dag: 184

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband