Fárviðrið 30. desember 1953

Enn er fjallað um fárviðri í Reykjavík, nú er nafnlaust veður í lok árs 1953 til umfjöllunar. 

Tíð var umhleypingasöm í desember 1953. Tímaritið Veðráttan segir: „Tíðarfariö var óvenju milt, en umhleypingasamt. Snjór var lítill, en jörð mjög blaut. Á stöku stað sáust útsprungin blóm. Samgöngur voru greiðar.“ Þetta er þriðjihlýjasti desember allra tíma og sá fjórðiúrkomusamasti fyrir landið í heild og líklega sá úrkomusamasti á Suðurlandi. 

Ákefðaráhugamaður um veður sem fylgdist með um þetta leyti sagði ritstjóra hungurdiska að hann hefði tæpast séð jafnmargar lægðir og skilakerfi fara yfir landið í einum mánuði. 

Við sjáum óróann vel á mynd. 

w-blogg291016

Það má telja margar lægðir á myndinni en hún sýnir loftþrýsting í Reykjavík á 3 stunda fresti þennan mánuð - frá þeim 20. kemst stærri sveifla í þrýstinginn og lægðirnar verða meiri um sig.

Þrjú veður í mánuðinum skila sér inn á illviðralista, þann 6., 16. og svo veðrið 29. til 30. - en í síðastnefnda veðrinu náði vindur fárviðrisstyrk á Reykjavíkurflugvelli.

Slide1

Hér er frétt sem birtist í síðdegisblaðinu Vísi þriðjudaginn 30. desember. Við sjáum að girðingin um Melavöllinn hefur skemmst allmikið í veðrinu - við getum þó ekki nefnt veðrið eftir þeim atburði því þessi girðing kemur við sögu í fleiri illviðrum. 

Lægðin sem olli þessu veðri verður að teljast venjuleg - hún kemur sem innlegg í reglulegri háloftabylgju suðvestan úr hafi. Hún var ekkert sérlega djúp.  

Slide2

Hér má sjá stöðuna í háloftunum þegar lægðin nálgaðist á mánudeginum. Vindur var kominn í suður þegar hvessti - trúlega hárastarveður. Heldur slaknaði á vindinum þegar kuldaskil fóru yfir - en hvessti svo aftur af vestsuðvestri.

Slide3

Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins kl.6 að morgni þriðjudags 30. desember. Sjávarmálsþrýstikort lítur eins út, 40 metra jafnhæðarbil jafngildir 5 hPa þrýstibili. Innsta jafnhæðarlína lægðarinnar sýnir -160 metra, það jafngildir 980 hPa þrýstingi. En línurnar eru mjög þéttar yfir Íslandi - sérstaklega yfir Suðvesturlandi. Hæðin fyrir sunnan land er í kringum 1036 hPa í miðju. 

Stormur var víða um land - en hinn mikli vindhraði í Reykjavík kemur samt nokkuð á óvart. Vindhraðaritið fannst ekki við snögga leit (sennilega illa merkt), en við lítum á athugunarbók flugvallarins.

Slide5

Þar má sjá vindhraðann 33,4 m/s kl.9 og að vindhviða hefur farið í 42,2 milli kl.9 og 10. 

Slide6

Þrýstiritið er mjög loðið um það leyti sem vindur er mestur - trúlega hávaðasamt í gamla flugturninum á Reykjavíkurflugvelli þar sem spádeild Veðurstofunnar var staðsett á þessum árum. 

Eins og fram kom í frétt Vísis varð lítilsháttar tjón í Reykjavík, en mesta tjónið í veðrinu varð fyrir norðan. 

Fjárhús og hlaða fuku á bænum Krossum á Árskógsströnd. Hluti af fjárhús- og hlöðuþaki fauk á Jódísarstöðum i Eyjafirði og þak af útihúsi á Urðum í Svarfaðardal. Þak fauk á haf út á bænum Hlíðarenda í Breiðdal (mjög óviss dagsetning Breiðdalsatburðar). Bát rak á land við Húsavík.

Hörmulegt slys varð á Vatnsleysuströnd þann 30. þegar ung kona og piltur drukknuðu í brimsogi er þau voru að bjarga fé.


Bloggfærslur 29. október 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 36
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 677
  • Frá upphafi: 2351238

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 607
  • Gestir í dag: 32
  • IP-tölur í dag: 32

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband