Hlýrra fyrir vestan en austan - hversu algengt er það?

Pistill dagsins er mjög úti á kantinum - gamanið óljóst og gagnið sömuleiðis. En látum slag standa.

Meðalhiti er hærri vestanlands heldur en austan og hlýrra er á Vestur-Grænlandi heldur en við austurströnd sama lands. Eins er með hafstrauma við strendur landanna beggja. Þessi skipan er þó aðeins smátilbrigði við megindreifingu hitafars við Norður-Atlantshaf, því að jafnaði er kaldara vestan hafsins heldur en austan við það. Þetta á einnig við í neðri hluta veðrahvolfs þar sem við notum þykktina sem mælikvarða á hitafar.

Þykktin er því að meðaltali lítillega hærri fyrir austan land heldur en vestan við. Frá degi til dags er þó ekki hægt að sjá neina reglu í þessu. En hér á eftir er litið á mánaðameðaltöl þar er frekar sjaldgæft að hlýrra sé vestur við Grænland heldur en austur í Noregshafi. Í ljós kemur við einfalda talningu að þetta ástand kemur upp innan við einu sinni á ári að jafnaði.

Sé litið á vor og sumarmánuði eingöngu er hlutfallið ívið hærra. Í ár bregður svo við að þykktin var meiri vestan við land heldur en fyrir austan alla mánuðina apríl, maí og júní - þrjá mánuði í röð. Hversu óvenjulegt skyldi það vera?

Með hjálp endurgreiningarinnar bandarísku sem nær aftur til 1871 má auðveldlega telja - en hafa verður í huga að nítjándualdargreiningin er talsvert ónákvæmari heldur en það sem síðar fer.

Niðurstaðan er sú að á öllum þessum tíma hafi aðeins komið 16 þriggja mánaða tímabil með þessu háttalagi - heildarfjöldi tímabila er 1698. Nú er það svo að inni í tölunni 16 eru líka fjögur fjögurra mánaða tímabil og þar í eitt fimm mánaða.

Tölur fyrir núlíðandi júlí berast vonandi fljótlega upp úr mánaðamótum þannig að við fréttum af því hvort hann bætir fjórða mánuðinum við - sem ekki er víst.

En hvaða tímabil eru það sem líkjast nútímanum þá best? Sé haldið aftur á bak þarf ekki að fara nema til ársins 2010 til að finna ámóta - en það ár var líka einstakt í veðurfarssögu síðustu hundrað ára eða meir.

Næst þar á eftir eru júlí, ágúst og september 1986. Man einhver eftir þeim? Síðan þarf að fara aftur til 1932 til að finna ámóta - þá komu fimm mánuðir í röð. En staðan kom líka upp sumrin 1929, 1928 og 1925 - einhver klasi greinilega í gangi þau árin. Er svo nú með bæði 2010 og 2012? Langt aftur í fortíðinni finnum við svo 1879 - en það ár og fleiri um það leyti voru sérlega afbrigðileg hvað hita- og þrýstifar varðar.

Því má svo bæta við að séu allar tölur teknar trúanlegar hefur þykktarmunur (hitamundur) á milli Grænlandsstrandar og Noregshafs aldrei verið jafn mikill á þennan (öfuga) veg í heilum mánuði og nú í júní.


Bloggfærslur 26. júlí 2012

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 110
  • Sl. sólarhring: 427
  • Sl. viku: 1668
  • Frá upphafi: 2352805

Annað

  • Innlit í dag: 101
  • Innlit sl. viku: 1503
  • Gestir í dag: 99
  • IP-tölur í dag: 99

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband