Lægðin djúpa á norðurhvelskorti

Lítum nú enn upp í mitt veðrahvolft og um mestallt norðurhvel. Kortið sýnir ástandið í 500 hPa-fletinum eins og evrópurreiknimiðstöðin spáir því um hádegi á sunnudag, skömmu áður en miðja lægðarinnar djúpu rennur hjá landinu.

w-blogg210712

Myndin skýrist að mun við smellastækkun. Svörtu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar), en litafletir marka þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin milli grænu og gulleitu litanna eru sett við 5460 metra - rétt undir meðalþykkt í júlí hér á landi.  

Á kortinu má sjá að víðast hvar fylgjast jafnhæðar- og þykktarlínur að í stórum dráttum, en þó er eftirtektarvert að við lægðina djúpu er misgengi þykktar og hæðar mjög mikið. Hlý tunga að sunnan gengur langt norður í tiltölulega lág 500 hPa hæðargildi. Þar verður loftþrýstingur við sjávarmál mjög lágur.

Eins og fram hefur komið í pistlum hungurdiska undanfarna daga er lægðin óvenju djúp - ekki er þó enn útséð um lágþrýstimet júlímánaðar - gamla metið er ekki fallið fyrr en það er fallið - hvað sem líður spám. En við þurfum ekki að bíða lengi eftir niðurstöðu þessarar mettilraunar, hún liggur fyrir á sunnudagskvöld.

En verður sett met í lágri júlíhæð 500 hPa-flatarins? Eftir því sem næst verður komist er lægsta 500 hPa-hæð í júlí sem mælst hefur yfir háloftastöðinni á Keflavíkurflugvelli 5240 metrar. Gangi spár eftir fer hæðin ekki svo neðarlega yfir Keflavík að þessu sinni. Það þýðir að loftið sem fylgir lágþrýstingnum nú er hlýrra en í mettilvikinu. Enda er á aðfaranótt sunnudags spáð 23 stiga mættishita í 850 hPa yfir Norðurlandi. Hlýjasta loftið verður komið hjá þegar sól verður hæst á lofti á sunnudaginn - en aldrei að vita.

Ef við lítum aftur á kortið sjáum við að enn eru svæsnir kuldapollar á sveimi yfir norðurskautssvæðinu. Halda mætti að þeir ætli sér að sleppa sumarleyfinu að þessu sinni.

Á kortinu vottar ekki fyrir hæðarhryggnum sem hefur ráðið veðri hér á landi lengst af í sumar - en hann gæti risið upp aftur - varla þó næstu fjóra til fimm daga. En þó kemur norðanátt á eftir lægðinni.

Mikil hæð ríkir yfir Bandaríkjunum - í henni miðri er þykktin yfir 5820 metrum. Þar kvarta menn nú undan mestu þurrkum í landinu í heild síðan 1956. En kuldapollur sleikir norðvesturríkin enn á ný. Þykkt um 5400 m þykir heldur hráslagaleg þar um slóðir á miðju sumri - en ekki óþekkt.

Nokkuð snarpt lægðardrag liggur suður um Mið-Evrópu til Miðjarðarhafsins. Ætli það valdi ekki miklum þrumuveðrum á Ítalíu og þar í grennd næstu daga? Spárnar gera líka ráð fyrir mikilli úrkomu í Vestur-Noregi þegar hlýtt loft lægðarinnar miklu skellur á fjallgarðinum úr vestri.

Héðan frá séð er óvissara hvað gerist í Danmörku og þar fyrir sunnan - þar fer mjög hlýtt loft hjá en við látum ágætri vefsíðu dönsku veðurstofunnar það eftir að upplýsa okkur um það.


Bloggfærslur 21. júlí 2012

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 282
  • Sl. sólarhring: 443
  • Sl. viku: 1840
  • Frá upphafi: 2352977

Annað

  • Innlit í dag: 247
  • Innlit sl. viku: 1649
  • Gestir í dag: 235
  • IP-tölur í dag: 233

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband