Af lægðinni djúpu?

Fram hefur komið í fréttum að óvenju djúp lægð - miðað við árstíma - nálgast nú landið. Það er samt ekki fyrr en á laugardag að áhrifa hennar fer að gæta. Það er því fullsnemmt fyrir hungurdiska að taka hana til umfjöllunar - því ritstjórinn gerir engar spár - en fjallar um þær.

En lægðin virðist ætla að verða ein sú dýpsta sem sést hefur á N-Atlantshafi í júlímánuði. Tölvugreiningar og spár nú á dögum ráða mun betur við snarpar lægðarmiðjur heldur en á árum áður. Þess vegna er erfitt að fullyrða að ekkert ámóta hafi átt sér stað áður. Engar mælingar voru þá á stórum svæðum og engar gervihnattamyndir til aðstoðar við ágiskanir. Endurgreiningarnar hjálpa talsvert til við leit en það er samt þannig að upplausn þeirra er talsvert lakari en nú gerist í líkönum.

Fyrir nokkrum dögum minntust hungurdiskar á lágþrýstimet í júlímánuði á Íslandi. Þar kom fram að aðeins er vitað um þrjú tilvik þegar þrýstingur á landinu mældist lægri en 975 hPa. Fyrirfram er ólíklegt að mælingar gerðar aðeins þrisvar á dag á fáeinum stöðvum hafi í raun mælt þann lægsta þrýsting sem var í viðkomandi lægðarmiðjum. Stappar nærri vissu að þær hafi verið dýpri.

Hungurdiskar hafa greiðan aðgang að hluta þrýstitalna endurgreiningarinnar amerísku en hún nær allt aftur til ársins 1871. Svæðið sem um er að ræða nær frá 60°N til 70°N og 10°V til 30°V og punktarnir eru á 2° bili bæði í lengd og breidd (66 líkanpunktar eru á svæðinu). Auðvelt er að leita að lágum þrýstingi í þessum punktum öllum. Við getum til hægðarauka talað um stóríslandssvæðið.

Leitin hefur farið fram og í ljós kom að greiningin nær íslensku lágþrýstigildunum þremur (1901, 1912 og 1923) ekki alveg - lægðir greiningarinnar eru aðeins of flatar í botninn - eða lágþrýstingurinn of skammlífur til þess að þær komi fram í netinu. Sé leitað á stóríslandssvæðinu öllu finnast aðeins þrjú tilvik önnur þegar þrýstingur var undir 975 hPa að mati greiningarinnar í júlí. Þetta var 1926, 1948 og 1964. Í síðasta tilvikinu var þrýstingurinn lægstur í suðausturhorni svæðisins - sennilega einhver dýpsta lægð sem nálgast hefur Skotland í júlímánuði.

En þrátt fyrir annmarka greiningarinnar má telja ljóst að lægri þrýstingur en 975 hPa er mjög óvenjulegur í júlí. Nú er ekki víst að spárnar í dag (fimmtudag 20. júlí) séu réttar. Lægsti þrýstingur í lægðarmiðju er misjafn eftir líkönum, evrópureiknimiðstöðin fer með miðjuna niður í 964 hPa - rétt utan við stóríslandssvæðið - kl. 18 á laugardag. Sama reikniruna (frá kl. 12 á hádegi á fimmtudag) setur þrýstinginn niður í 970 hPa syðst á landinu á sunnudagskvöld - það væri glæsilegt met.

Í líkani bandarísku veðurstofunnar (reikniruna frá kl. 18, fimmtudag) fer lægðarmiðjan niður í 966 hPa rétt inni á stóríslandssvæðinu kl. 6 á sunnudagsmorgun. Lægstum þrýstingi á Íslandi er spáð 971 hPa á sunnudagskvöld.

Grófa Hirlam-líkanið fer með lægðarmiðjuna niður í 960 hPa á sama stað og tíma og spá reiknimiðstöðvarinnar. Spáin nær ekki enn til sunnudagskvölds.

Lægðinni fylgir skammvinnt hvassviðri og úrkoma langt á undan sjálfri lægðarmiðjunni. Eftir að það gengur yfir gerir trúlega besta veður - úrkoma og ský verða í lofti en hlýtt. Hér fylgjast því ekki að eftirtekt hins almenna veðurnotanda (t.d. ferðafólks) og eftirtekt nörda. Þau síðarnefndu hafa mestan áhuga á því hvort loftþrýstimet verður slegið eða ekki - flestum öðrum er nákvæmlega sama.

Einhvern tíma í fortíðinni - fyrir daga þrýstimælinga varð sjávarflóð í júlí á Suðvesturlandi. Þrátt fyrir ágætt aðgengi ritstjórans að annálum finnur hann ekki hvenær þetta var. Skyldi þar hafa farið dýpsta júlílægðin - eða er skapandi misminni ritstjórans enn á ferð?


Bloggfærslur 20. júlí 2012

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 61
  • Sl. sólarhring: 396
  • Sl. viku: 1619
  • Frá upphafi: 2352756

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 1454
  • Gestir í dag: 52
  • IP-tölur í dag: 52

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband