Aftur í hæðarbeygju - en mun veikara kerfi

Kuldapollar eins og sá sem nú er yfir landinu bera langoftast með sér háloftalægðir. Þar með hreyfist loft í kringum þær í lægðabeygju. Lægðabeygja ýtir undir uppstreymi og þar með verður skýjað og jafnvel fylgir úrkoma. Þessa hjálparreglu má þó ekki taka alveg bókstaflega - margt fleira kemur við sögu. En gott að hafa bak við eyrað samt þegar engin hefðbundin skila- eða úrkomusvæði eru á ferðinni til að auðvelda veðurmatið. Rita má hvort sem er lægðar- eða lægðabeygja - eftir smekk og samhengi.

En útlit er fyrir að áhrif lægðabeygjunnar hverfi til suðurs og við taki hæðarbeygja - dálítil háloftahæð á að myndast fyrir norðan land fram til föstudags. Hún ræður síðan veðri í nokkra daga. Þessi hæð er hins vegar ekki til stórræða - og miklu veigaminni heldur en hæðin mikla sem hér réði ríkjum alla síðustu viku. En sjáum þetta á mynd (hún batnar ekki mikið við stækkun).

w-blogg070612

Til hægri má sjá ástandið eins og það er þegar pistillinn er skrifaður nærri miðnætti á miðvikudagskvöldi 6. júní. Til vinstri er komið hádegi á föstudag. Báðar myndirnar eru fengnar frá evrópureiknimiðstöðinni og eiga við ástand í 500 hPa og þar neðan við. Jafnhæðarlínur flatarins eru svartar og heildregnar, en litafletir sýna þykktina. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Guli liturinn nær niður í 5460 metra og síðan eru nýir litir á 60 metra bili. Dekksti græni liturinn sýnir þykkt á bilinu 5280 til 5340 metra. Það er of kalt fyrir flestra smekk á þessum tíma árs.

Á föstudaginn hefur ástandið aðeins lagast og þykktin yfir landinu komin upp í nærri 5400 metra, ekki gott - en samt í lagi og alls ekki óvenjulegt í júní. Gróflega þremur stigum hlýrra heldur en var í dag (miðvikudag). Við sjáum líka að vindurinn (ræðst af legu jafnhæðarlína) ber hlýrra loft með sér í átt til landsins (ekki þó mjög hlýtt).

En af myndunum má einnig sjá að það skiptir um beygjulag milli korta. Á kortinu til vinstri er býsna kröpp lægðabeygja. Beygjulagið þekkjum við best á því að leggja hægri lófa þannig ofan á örina að langatöng vísi í örvarstefnu. Bendi þumallinn inn í beygjuna (kortið til vinstri) er um lægðabeygju að ræða - bendi hann út úr beygjunni (kortið til hægri) er hún hæðarbeygja.

Fyrirsögnin vísar í samanburðinn milli hæðarinnar stóru í síðustu viku og þeirrar litlu og veiku sem nú tekur við.


Bloggfærslur 7. júní 2012

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide11
  • w-1945v
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 19
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 1051
  • Frá upphafi: 2354715

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 935
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband