Kuldaskúrir

Í dag (fimmtudag 14. júní) féllu loksins fáeinar skúrir um landið sunnanvert. Úrkomumagni var þó mjög misskipt - sums staðar var þurrt allan daginn, víða féllu dropar en dembur á fáeinum stöðum. Þrumur heyrðust í Reykjavík og víðar.

Eins og fastir lesendur vita spá hungurdiskar engu um veður, en ræða stöðumöguleika og spár annarra. Meginástæða þess að dembur voru miklu meiri í dag heldur en í gær (miðvikudag) er sú að kólnað hefur í háloftunum yfir landinu - meira heldur en niður við jörð. Loftið er orðið óstöðugra en það var fyrr í vikunni.

Hér að neðan er vaðið á súðum og trúlega missa margir lesendur fótanna í froðunni. Eru þeir beðnir velvirðingar á ósköpunum.

Stundum má ráða í (lóðréttan) stöðugleika með því að horfa annars vegar á þykktina (hún er mælikvarði á meðalhita neðri hluta veðrahvolfs) en hins vegar á hámarkshita á landinu (sem segir eitthvað um það hversu hlýtt neðsta lagið er). Sé hámarkshitinn lágur miðað við þykkt er loft stöðugt og lítil hætta á skúrum - en sé hámarkshitinn hár (miðað við þykkt) er loft líklegra til að vera óstöðugt.

En þetta er frumstæð spáaðferð - ekki síst vegna þess að við vitum ekki hver hámarkshiti á landinu er fyrr en eftir að hann hefur verið mældur. En látum ekki alveg hugfallast. Við getum með því að skoða samband þykktar og hámarkshita fundið hver sé hæsti hiti sem ákveðin þykkt hefur borið í áranna rás.

Höldum áfram að vera frumstæð. Í júnímánuði er sól hátt á lofti og í léttskýjuðu veðri og hægviðri er dægursveifla hita mjög stór - inn til landsins gjarnan á bilinu 12 til 20 stig. Ef hiti er t.d. 5 stig snemma að morgni í léttskýjuðu og hægu veðri má gera ráð fyrir að hann geti síðdegis farið í 17 til 20 stig. Það er einkum tvennt sem getur truflað það, annars vegar hafgolan - hún bælir dægursveifluna - leiðinlega. Hins vegar eru það ský. Á höfðuðborgarsvæðinu kemur hafgola að jafnaði í veg fyrir mikla dægursveiflu.  

Ský myndast ekki nema í uppstreymi og til þess að uppstreymi verði í hægviðri þarf loft að vera óstöðugt að minnsta kosti upp í skýjahæð. Ef skýin fletjast út að ofan um leið og þau myndast er hlýrra loft fyrir ofan - loftið er stöðugt. Ef við tökum mark á því sem sagt var að ofan má gera ráð fyrir því að hámarkshiti verði þá lægri heldur en þykktin gefur til kynna.

Í dag (fimmtudag) var þykktin yfir skúrasvæðinu á Suðurlandi 5340 metrar. Söguleg gögn segja okkur að svo lág þykkt beri vart meira en 15 til 16 stiga hámarkshita. Allt umfram það þýðir að loft sé orðið óstöðugt. Enda var það svo að þessu sinni.

Í raunveruleikanum eru flækjur meiri, oftast er t.d. einhver vindur með puttana í stöðugleikanum. Þannig var það í dag (fimmtudag) en látum það alveg liggja milli hluta.  

En hver verður þróunin næstu daga? Á föstudag er þykktinni spáð 5330 metrum - trufli vindur ekki sólarvarmann með hafgolu eða kulda úr norðri - eða þá annarlegum háskýjabreiðum er líklegt að skúrasaga fimmtudagsins endurtaki sig.

Á laugardag er þykktin 30 til 40 metrum meiri. Þá gæti hámarkshiti orðið 1 til 2 stigum hærri án þess að til síðdegisskúra komi. Á þjóðhátíðardaginn (sunnudag 17. júní) á þykktin hins vegar að detta alveg niður í 5300 metra (kuldapollurinn sjálfur fer yfir). Til þess að engar skúrir verði þann dag má hámarkshiti á Suðurlandi helst ekki fara yfir 13 til 14 stig.

Séu þykktarspárnar réttar verður að borga fyrir heiðríkju með kulda - alla vega svalri hafgolu. Ef við viljum hærri hita fer greiðslan fram með skúradembum.

En munið enn að hungurdiskar spá ekki um veður - leita verður eitthvað annað til að finna slíkt. En veðuráhugamenn ættu að skemmta sér í sumar með því að fylgjast með dægursveiflu skýjafars. Mjög margt er þar að sjá - meira en flestir hyggja.


Bloggfærslur 15. júní 2012

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide11
  • w-1945v
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 23
  • Sl. sólarhring: 71
  • Sl. viku: 1055
  • Frá upphafi: 2354719

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 939
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband