Af árinu 1893

Ferð okkar um fortíðina liggur nú aftur til ársins 1893. Gárungarnir segja að svonefndri litluísöld hafi lokið með mannskaðabylnum snemma í desember 1892 og ný tíð þá tekið við. Alla vega töldu „eldri menn“ síðar að 1892 hefði verið síðasta alvöruharðindaárið, landsmeðalhiti reiknaðist 0,8 stig 1892 - en 2,8 stig 1893. Þar sem ritstjóri hungurdiska er vantrúaður á að eitthvað sé yfirleitt til sem kalla má litluísöld (og telur að auki að sé það til - standi það enn) - getur hann áhættulítið tekið undir þetta.

En snúum okkur að 1893. Eins og sjá má í töfluviðhengi þessa pistils var febrúar fremur svalur á landinu, hiti vel yfir meðallagi í apríl og maí - og í ágúst suðvestanlands, og sennilega hægt að tala um hitabylgju dagana 10. til 14. ágúst. Eftir það var kalt í veðri. Nóvemberlokin voru sérlega köld, þann 30. mældist mesta frost nokkru sinni í þeim mánuði í Reykjavík, -16,7 stig. Frostið fór þá í -21,4 stig á Akureyri og í -15,7 stig í Vestmannaeyjakaupstað. Meðalhiti dagsins þann 30. í Reykjavík reiknast -13,4 stig. Kuldinn hélst (ekki alveg svona mikill þó) fram yfir 12. desember. Illviðri voru nokkur að vanda. Leiðinleg norðanveður gerði með um mánaðarmillibili síðari hluta ágúst- og septembermánaða. Snarpt fárviðri af vestri gerði á Austfjörðum í október, og norðanveður ofan í það og asahláka með hvassviðri gekk yfir um jólaleytið. 

Óvenjukaldir dagar í Reykjavík reyndust 14 á árinu, þar af 9 á tímabilinu 29. nóvember til 12. desember. Í Stykkishólmi teljast 17 dagar óvenjukaldir, þar af féllu 9 á sama tíma og kuldinn í Reykjavík í nóvember og desember. Einnig var mjög kalt á báðum stöðum 25. og 26. febrúar og 16. og 17. mars.

Tveir dagar voru óvenjuhlýir í Reykjavík, 13. og 14. ágúst, hiti komst í 21,1 stig þann 12. ágúst í Reykjavík og hæsti hiti ársins á landinu mældist 24,7 stig á Stóranúpi í Gnúpverjahreppi. Enginn dagur telst óvenjuhlýr í Stykkishólmi 1893. 

En nú rekjum við okkur í gegnum árið með aðstoð blaðafregna - stafsetningu hefur hér víðast verið hnikað í átt til nútímahorfs. Fyrst er umsögn um tíðarfar ársins sem birtist í blaðinu Ísafold þann 6. janúar 1894:

Mikil árgæska yfirleitt til lands og sjávar, nema hvað austurskiki landsins (Múlasýslur og Þingeyjar) varð útundan. Hafís gerði aðeins vart við sig á útmánuðum, en vann mjög lítið mein. Óþurrkar talsverðir á áliðnu sumri og umhleypingasamt í meira lagi framan af vetri, en endrarnær tíðarfar óvenjublítt og hagstætt. Heyskapur því mikið góður yfirleitt. Aflabrögð fábær við Faxaflóa, og annarsstaðar sæmileg. Þilskipaveiði óvenjumikil. Verslun þar á móti miður góð, innlend vara verðlág mjög einkum sjávarvara. Vesturfarir allmiklar, 8—900, þrátt fyrir árgæskuna, enda undirróður í mesta lagi og óhlífnasta af hálfu erindreka vestan að. 

Janúar: Tíð talin góð, lengst af var úrkomulítið og oft bjartviðri. Hiti í meðallagi.

Þann 13. janúar rekur Þjóðólfur góða tíð:

Veðurátta hefur verið hin blíðasta síðan fyrir jól, oftast staðviðri, en frost þó ekki teljandi. Má jörð heita alauð til sveita víðast hvar hér sunnanlands og hefur verið nú um 3 vikur. Er það óvenjulegt jafnlangan tíma um þetta leyti árs.

Sama gerir Þjóðviljinn ungi vestur á Ísafirði þann 16.:

Um undanfarinn 4 vikna tíma hefir haldist einmuna tíð, sífelld stillviðri og oftast frostlaust eða þá frostlint veður.

En umskipti urðu þar vestra í þorrabyrjun (Þjóðviljinn ungi, 31. janúar):

Síðan með þorrabyrjun hefir verið kuldatíð, stormar og nokkur frost öðru hvoru, en fannkoma lítil. Hafís: Nokkur hafíshroði hefir komið hér inn á Djúpið, og óminnilega mikill hafís kvað vera á Vestfjörðunum: Súgandafirði, Önundarfirði og Dýrafirði. — Úti fyrir fjörðum er sögð ein samfelld hafíshella, svo að ekki sér út fyrir.

Allmikið veður gerði þann 31. janúar. Í Þjóðólfi 17. febrúar er sagt frá því að 100 hestar af heyi hafi fokið á Hjallalandi í Vatnsdal og eldiviðarhlaðar hafi sópast burt en rúður margar brotnuðu í gluggum. Í fjárhúsi einu sem veðrið hratt opnu hrakti féð til fjalls, en staðnæmdist í gili nokkru og varð það því til lífs. 

Febrúar: Góð tíð nema helst austanlands. Fremur kalt, einkum í lok mánaðarins. Umhleypingar voru töluverðir eins og greinir í Þjóðviljanum unga 21. febrúar:

Tíðarfarið verið mjög umhleypingasamt; 3.—4. þ.m. var ofsa norðangarður, en síðan sneri hann í suðvestanhlákur; Þ. 6.-8. þ.m. var lygnt og frostlint veður, og hélst svo til 13. þ. m., er hann gerði norðan hriðu, sem lengstum hélst til 19. þ. m., er aftur sneri til  sunnanáttar. ... Og blaðið heldur áfram að lýsa tíð þann 28.: Síðan 22. þ.m. hefir haldist stöðugur norðangarður með allmiklu frosti, 9 til 13 gr. R. Í í dag virðist garðinum aftur vera að linna.

Í sama blaði [þ.21.2.] er einkennileg frétt um fjárskaða (bréf úr Dýrafirði dagsett 15. febrúar) - óhætt að segja að mörg sé búmanns raunin:

Tíðarfarið er enn hið sama, besta vetrarveðrátta, og aldrei alveg jarðlaust, enda þolir nú enginn maður harðan vetur, eftir hið sárbága sumar, er síðast leið.Illt er að verða að búa undir því bótalaust, að missa fé sitt fyrir ekkert, en hér í firðinum hefir í vetur farist margt fjár, beinlínis af hval-áti. Féð sækir í gamlar hvalþjósur á fjörunni, Og etur þær í mestu græðgi, svo að það drepst; en garnir og vambir eru alveg fullar af sandi og smásteinum, sem það rennir niður með hvalnum. Í Hvammi hafa drepist 5 hross, og á Þingeyri, og þar í grennd, flest allar þær kindur, sem til voru; á Höfða hafa bændurnir misst 36 kindur.

Þjóðólfur birtir þann 10. mars bréf af Fljótsdalshéraði, dagsett 14. febrúar:

Það sem af er vetrinum, má gott kallast. Hagar hafa verið sérlega góðir nema neðst i Héraði. Hiti vanalega ei minni en -5°; að eins eitt sinn orðið -12°. Frá því fyrir sólstöður fram á þorra voru sífelld logn. Tíðarfar hefur því verið allgott yfir höfuð. Þó hafa verið harðindi i norðurfjörðunum suður um Seyðisfjörð. Eru Seyðfirðingar og Loðm.firðingar þegar búnir að reka margt af fé sínu upp á Hérað. Fyrir skemmstu kom bjarndýr heim að bæ nokkrum i Borgarfirði. Fór fyrst inn í bæjardyr, en snautaði síðan upp á bæ og lagðist þar. Var það síðan skotið; kom þá i ljós, að í innyflunum var einungis gras. Dýrið var ungt og rýrt, og haldið, að það hafi orðið eftir af ísnum i vor, en hafst víð síðan þar i fjöllunum.

Þann 11. mars birtist í Ísafold bréf dagsett á Reyðarfirði 11. febrúar:

Veðrátta óstöðug síðan um 20. jan., oftast austanátt með talsverðri snjókyngju; 6. febr.  var hér sunnan ofsa-hláka. Snemma í þ. m. varð vart við hafís við Barðsneshorn; varð hann þar landfastur í austan-hríðarveðri, en hvarf fljótt aftur. Sjálfsagt hefir hann komið austan úr hafi, því engar ísafréttir hafa borist hingað að norðan.

Og þann 18. mars komu fréttir í Strandasýslu „miðri“, dagsettar 26. febrúar:

Það hefir verið mesta öndvegistíð síðan um skipti fyrir jól, og það allt fram í þorralok. Síðan góa kom (síðustu viku) hefur verið allmikið frost og norðanköföld oftast. Um mánaðamótin jan. og febr. gjörði lítils háttar norðanhret og rak þá inn talsverðan hafíshroða, svo að allir firðir urðu fullir en flóinn var þó allur að sjá auður síðast þegar til sást. Eftir að ísinn kom, héldust þó sömu blíðviðrin og frostleysurnar eins og áður er sagt, og er því ekki útlit fyrir eftir tíðinni að dæma, að mikill ís muni vera fyrir landi. Með íshroða þessum rak nokkra höfrunga hér og hvar við Steingrímsfjörð og Bjarnarfjörð, flesta á Bjarnarnesi, um 50. — A Steingrímsfirði náðist og talsvert af hnísum, er króaðar voru þar í vökum. Þó tíðin hafi verið góð, hefur víðast verið haglítið hér um pláss í vetur, og munu því hey almennt hafa gefist eigi minna en í meðalvetri; munu heybirgðir því almennt vera fremur litlar, ef taka skyldi á móti öðru eins vori og í fyrra, en það er bót i máli, að snjóþyngsli eru engin, og því líkur til að fljótt muni leysa, ef eigi verður því harðara er upp á líður.

Í Ísafold þann 12. apríl var klausa úr Arnarfirði: 

Hafíshroði sást hér úti fyrir firðinum síðustu dagana af janúar, en ekki varð hann landfastur og hvarf fljótt aftur.

Í bréfi úr Barðastrandarsýslu sem birtist í Ísafold þann 15. apríl og dagsett 4. mars er sagt frá því að hafís hafi rekið inn á Patreksfjörð og á land snemma á þorra, en horfið fljótt aftur. 

Mars: Erfið tíð framan af austanlands, en annars góð. Hiti í meðallagi.

Austri segir frá þann 14. mars:

Tíðarfar hefir um tíma verið mjög illt hér austanlands og snjókoma ákafleg hér í fjörðunum. Í Norðurþingeyjarsýslu hefir veturinn mátt heita góður hingað til og sömuleiðis i Skaftafellssýslum fyrir sunnan Almannaskarð; en þar er mikill kornmatarskortur, og er verslunarstjórinn á Papós farinn að selja almenningi af því kjöti, er þar var keypt í haust. Heyskortur er orðinn mikill á Úthéraði og i Vopnafirði og víðar svo til vandræða horfir. Hafíshroða þann, er rak inná Þistilfjörð síðast i janúar, hefir rekið út aftur og seint í febrúar var enginn hafís sagður fyrir Norðurlandi, en Vestfirðir fullir með ís allt suður að Látraröst.

Rúmri viku síðar (þann 23.)er hljóðið betra eystra:

Nú hafa verið hér nokkrir blíðviðrisdagar, og er vonandi að jörð hafi viða komið upp á Upphéraði og víðar þar sem snjóþyngslin eru ekki önnur eins ósköp og hér í fjörðunum og utan til í Úthéraði, Hlið og Jökuldal.

Bréf birtist úr Ísafjarðarsýslu í Ísafold þann 15. apríl, dagsett 25. mars:

Kalt og kafaldasamt hér við Djúpið á góunni; hæst frost 18° á R. Þar með fannkoma allmikil og því farið að sneyðast um hey hjá mörgum. Nú er samt komin þíða, en langgæð má hún vera, ef duga skal, því að snjór og gaddur er hér mikill. Svo hefir talist til. að á sjó hafi gefið einu sinni í viku á góunni. 

Leysingin var nokkuð snörp þar vestra, Þjóðviljinn ungi segir í frétt sem birtist mánuði síðar, 29. apríl (páskadagur var 2. apríl):

Jón bóndi Hermannsson i Súðavík hér í sýslu varð í vikunni fyrir páskana fyrir töluverðum fjárskaða; í leysingunum kom neðangangur í fjárhúsið, svo að það fyllti nálega af vatni, og köfnuðu þar inni 24 kindur.

Ísafold greinir 25. mars frá góðri tíð:

Mesta öndvegistíð, frostleysur og nærri því vorblíða.

Og 12. apríl birtist fréttabréf úr Strandasýslu sunnanverðri dagsett 22. mars:

Tíðarfar hefir oftast í vetur verið mjög gott þar til nú eftir mánaðamótin síðustu. Síðan hefir ýmist verið útsynningur með smáblotum, eða norðan uppþot, oft með allmiklum snjógangi. Hagar hafa verið heldur litlir, þó tíðin hafi verið góð. Síðan um miðþorra má heita að sauðfé hafi algjört staðið inni. Fram að þeim tíma var að vísu beitt viðast hvar, jafnvel þó sumstaðar væri hagskarpt. Veturinn er því orðinn fullkomlega í meðallagi gjaffeldur, þó tíðarfarið hafi oftast verið gott. Heybirgðir munu almennt nægar enn sem komið er. Hafíshroði er hér á Hrútafirði og liggur haustskip frá Borðeyrarverslun innifrosið í honum.

Í Ísafold 22. apríl er bréf úr Fáskrúðsfirði, dagsett 10. mars:

Engar fréttir héðan nema tíðin hefir verið afarhörð síðan 28. janúar. Fannkynngi komið svo mikið, að gamlir menn muna eigi þvílíkt, tiltekið við norðursiður fjarða. Jarðbann yfir allt. Frost heldur væg, þar til nú síðustu dagana hafa verið hörkur miklar. Margir komnir á heljarþrömina með skepnur sínar vegna heyleysis og því yfirvofandi almennur fjárfellir, ef eigi kemur bati bráðlega.

Apríl: Góð tíð, en úrkomusöm syðra. Fremur hlýtt, einkum fyrir norðan.

Þjóðviljinn ungi á Ísafirði lýsir tíðinni í pistli 4. apríl:

19. f. mán. sneri til suðvestan áttar, og hafa síðan haldist hlákur og þíðviðri. Bestu fjárhagar eru komnir upp hér vestra, og mun það hafa komið sér vel hjá mörgum, sem farnir voru að verða heyknappir.

Austri segir frá tíð í pistli þ.17. apríl:

Hin sama inndæla tíð helst hér enn við. Er nú komin alauð jörð upp i Héraði, og víða búið að sleppa sauðfé. Hér í Seyðisfirði er enn talsverður snjór þrátt fyrir hinar stöðugu hlákur.

Í Ísafold má 19. apríl finna smáklausu - dóm um veturinn:

Vetur þessi, er kveður oss í dag, er að margra gamalla manna dómi hinn besti hér á landi, er þeir muna, að undanskilinni lítilli skák af landinu norðan og austan. Það eru líklega ekki nema tveir vetrar á öldinni, er hafa verið jafnblíðir eða blíðari. Það er veturinn 1828-29 og veturinn 1846-47. ... Og sama hefir árgæskan verið til sjávarins hér, meiri en elstu menn muna. Ótal raddir kveina hástöfum undan óblíðu árferði, og síst er vanrækt að skrásetja í annála skorinorða lýsingu á harðæri og hörðum vetrum. Færri verða til að halda því á lofti, er tiltakanlega vel lætur í ári, eða að lofa skaparann fyrir það.

Maí: Góð tíð, nokkuð úrkomusamt syðra. Fremur hlýtt lengst af. Snjókast gerði þó í höfuðborginni viku af mánuðinum. Svo segir Jónas Jónassen landlæknir m.a. í veðursamantekt vikunnar 10. maí:

Aðfaranótt h. 7. var um tíma hvasst af suðri með óhemju regni gekk svo til útsuðurs og kyngdi niður snjó, svo hér var alhvítt um fótaferðatíma og öll fjöll hvít héðan að sjá; síðan við landsuður oft með miklum regnskúrum. 

Þó snjór sé ekki algengur á jörð í Reykjavík í maímánuði vita veðurnörd að hér er lýst því dæmigerða fyrir slíkan atburð. Ef trúa má endurgreiningu bandarísku veðurstofunnar var þessa daga fádæma mikil hæð yfir Skandinavíu, miðjuþrýstingur þar yfir 1055 hPa. Þann 7. maí mældist hæsti þrýstingur sem nokkru sinni er vitað um í maí í Svíþjóð, 1048,0 hPa í Umeå - ekki alveg jafnmikið og endurgreiningin gefur til kynna - en hittir samt á. Merkileg hæð.

Önnur lægð kom þann 10. og í kjölfar hennar fylgdi einnig éljagangur. En síðan varð veður blítt út mánuðinn. 

Júní: Góð tíð lengst af - en nokkur regnveður gerði. Fremur hlýtt. Ísafold lýsir veðri fyrsta þriðjung mánaðarins þann 10.:

Ákaflega votviðrasamt hefir verið hér um hríð, með landsunnanrosum og heldur litlum hlýindum. Það er dágott fyrir grasvöxt, en gerir fiskverkun mikinn hnekki.

Austri segir þann 20. júní frá skipstrandi:

Nóttina milli þess 16. og 17. þ. m. sleit pöntunarskipið „Ellida" upp í sunnanroki og rak í land með báðum atkerum um stórstraumsflóð og langt upp í fjöru, nokkuð fyrir utan Vestdalseyri en náðist út nóttina eftir lítt skemmt.

Pistlahöfundur Ísafoldar er ánægður með tíðina þann 28.:

Nú hefir verið í freka viku ágætisþerrir dag út og dag inn, hver dagurinn öðrum fegri. Fiskverkun gengur því prýðilega, og hafði lítið sem ekkert skemmst af saltfiskinum eftir hinar langvinnu rigningar, en annað sjófang meira eða minna, svo sem þorskhöfuð, er höfðu verið látin rigna úti. Túnasláttur byrjaður sumstaðar, og byrjar almennt þegar úr næstu helgi, víðast prýðilega sprottið.

Júlí: Mánuðurinn byrjaði með rigningum syðra, en snerist smám saman í góða heyskapartíð víðast hvar. Hiti í meðallagi. Þann 1. mældist úrkoma á Teigarhorni 109,5 mm. 

Þjóðviljinn ungi birtir 27. júlí bréf úr Norður-Ísafjarðarsýslu dagsett þann 17.:

Um nokkra undanfarna daga hefir verið breyskjuþerrir með mjög miklum hita, svo að farið var að brenna af harðlendum túnum, en annars eru tún víða vel sprottin; úthagi víða afbragðs vel sprottinn. Sláttur byrjaði hér almennt laugardaginn í tólftu.

Ágúst: Votviðrasamt síðari hlutann, en annars góð tíð. Nokkuð stíf norðanátt um og eftir 20.

Því miður var ekki byrjað að mæla reglulega hita á Seyðisfirði en Austri segir frá góðri tíð þar um slóðir í frétt þann 5. ágúst:

Tíðarfarið hér í firðinum hefir verið einmuna gott síðan, byrjun júnímánaðar, nema hvað hér var nokkuð kalt fyrstu dagana og fram til kringum 15. júní; þá fór að hitna í veðri og síðan farið alltaf batnandi til júlíbyrjunar, að þá byrjuðu fyrir alvöru hinir heitu sumardagar, og hafa þeir haldist allt til þessa tíma með hagstæðri veðráttu.

Svipað hljóð er í Þjóðviljanum unga (sem þetta sumar kom út í Reykjavík) þann 11. ágúst:

Einstök veðurblíða hefir haldist hér á Suðurlandi í sumar, og líkar fréttir berast annars staðar af landinu. Þurrkatíð hefir verið um land allt, svo að töður hafa nýst prýðilega; sumstaðar er þó kvartað um, að illt hafi verið að vinna harðvelli vegna þurrkanna.

En blíðunni lauk nokkuð hastarlega þann 19. ágúst. Ísafold segir frá þann 26.:

Fram til 19. þ. m. var hér sunnanlands að minnsta kosti óminnileg sumarblíða. Þá gerði norðanveður mikið og stóð til fimmtudags 24. þ. m., með talsverðum kulda, jafnvel frosti á nóttum upp til sveita. Munu hafa orðið heyskaðar nokkrir sakir ofviðris. Síðan hefir hann snúist nokkuð til vesturs.

Þess er getið í pistli úr Vestmannaeyjum sem birtist í Ísafold 21. október að jarðepli hafi þar beðið nokkurn hnekki við norðaustanstorminn eftir 20. ágúst. 

Þann 15. september birti Þjóðólfur bréf af Hornströndum, dagsett 25. ágúst:

Sumarið hefur verið oss hagstætt. Fiskafli i betra lagi. Grasvöxtur fremur góður, en lítið um þurrka. Hinn 20.-21. þ. m. [ágúst] gerði hér austan kafaldshríð og snjóaði ofan í sjó, en nú er aftur komin rigning. Hafís hefur legið hér fyrir Norðurströndum næstliðna 3 mánuði og hefur hann ávallt sést af fjöllum.

September: Óstöðug og köld tíð. Mikið norðanhret þ. 18. til 20. Mikið rigndi snemma í mánuðinum, úrkoma mældist t.d. 60,5 mm á Eyrarbakka og 50,5 mm í Stykkishólmi að morgni þess 4. 

Tíð er hrósað í bréfi vestan af fjörðum sem birtist í Ísafold þann 30. september:

Ísafjarðarsýslu 18. sept. 1893. Tíðin hefir verið hin inndælasta til lands og sjávar til þessa dags. Grasspretta varð í góðu meðallagi, helst á raklendum úthaga. Af hörðum
túnum, sem lágu hátt, brann grasið til stórskaða. Nýting hefir verið hin ákjósanlegasta, og því mun yfir höfuð að tala heyfengur manna í betra lagi. Þetta sumar er talið að vera eitt hið heitasta og þurrasta sumar, er menn nú muna lengi eftir.

Ísafold lýsir tíðinni í pistli þann 20. september - þá snjóaði í Reykjavík:

Nokkuð langvinnir óþurrkar, stormar og hrakviðri hér um Suðurland í minnsta lagi enduðu á talsverðri kafaldshríð af norðri síðara hluta dags í gær og í nótt, með talsverðu frosti, og var alhvít jörð í morgun niður í sjó, eins og um vetur, en fannir til fjalla eigi alllitlar. Í dag er bjartviðri og sólskin, er leysir þegar snjóinn og verður að vonandi er upphaf góðviðriskafla; kæmi það í góðar þarfir, því að viða varð heyskapur endasleppur sakir hinnar snöggu og gagngjörðu tíðarfarsbreytingar nokkru fyrir höfuðdag; er því víða mjög mikið úti af heyjum, sem bjargast getur enn að miklu leyti, ef vel skipast. Annars var, eins og menn vita, heyskaparveðráttan áður í sumar svo framúrskarandi, að víða var heyafli orðinn meira en í meðallagi eða jafnvel í besta lagi fyrir veðrabrigðin;en sumstaðar aftur lítill, þar sem seint var byrjaður engjasláttur.

Í pistli úr Strandasýslu sunnanverðri sem birtist í Ísafold 21. október segir að verslunarskipið Ida sem lá innifrosið á Hrútafirði næstliðinn vetur hafi laskast í ofsaveðri fyrir norðan land dagana 18. til 19. september. Þó hafi skemmdirnar ekki verið meiri en svo að það komst inn á Borðeyrarhöfn með vörur lítt skemmdar. 

Þjóðólfur birti þann 6. október fréttir úr Húnavatnssýslu dagsettar 22. september:

Tíðarfarið spilltist seinni partinn í ágúst, eða um hinn 20., með norðaustan stormviðrum, en svo byrjuðu stórfelld úrfelli, sem stóðu svo að segja látlaust yfir í hálfa aðra viku. Gerði svo uppstyttu nokkra daga, en svo komu óþurrkarnir aftur nokkra hríð. Hinn 18. þ. m. [september] og aðfaranótt hins 19., kom hér það afspyrnu norðaustanveður, að menn þykjast tæplega muna annað eins eða meira. Úrfelli var talsvert með á sumum stöðum. Um tjón af veðri þessu hefur lítið frést, en það má ganga að því vísu, að það hafi verið töluvert, auk þess, sem þegar er auðséð, svo sem framúrskarandi hrakningur á mönnum og skepnum í göngunum, sem einmitt á þessum tíma hafa alstaðar staðið yfir, svo og mikið verri fjárheimtur og heyfok og hrakningur því viðast eða alstaðar hafa hey verið úti að mun. Á Skagaströnd t. d. feykti fiskiskipi yfir timburhús og kom ofan á mann hinumegin, en hann lenti innan i bátnum og hélt því lífi lítt meiddur. Þetta óstöðuga og óþurrkasama tíðarfar hefur fjarska mikið dregið úr þeim góða heyafla, sem útlit var fyrir. Mun oft naumast heyafli almennt meiri en í meðallagi.

Þjóðviljinn ungi segir frá því þann 21. október að þann 18. september hafi vinnumaður úr Vatnsfirði í Djúpi orðið úti í fjárleitum. 

Október: Óstöðug og köld tíð. Bjartviðri syðra fyrri hlutann. Kalt.

Þann 31. október birtist eftirfarandi illviðrisfrásögn í Austra - löng er hún en fróðleg:

Seyðisfirði 28. október 1893. Seint um kvöld þess 23. þ.m. kom hér allt í einu einn af þessum voðalegu fellibyljum er hér koma af og til. En þessi bylur var þó einn með þeim allra skæðustu og gjörði hér í bænum og í sveitinni töluverðan skaða; og var það verst, að ofviðrið hefði eigi þurft að gjöra allt það tjón, því veðrið var öllum þeim fyrirsjáanlegt, sem litu á loftþyngdarmælinn, því hér um bil um klukkan 9 um kvöldið féll hann voðalega, svo að hann á skömmum tíma hljóp á Anoroidbarometri niður á 70 Centimeter fyrir neðan „storm", og höfum vér aldrei vitað loftþyngdarmæli falla svo langt niður og svo skjótt. Sama var að segja um kvikasilfursmæla, að kvikasilfrið féll í þeim bæði fjarska fljótt og fjarska mikið.

Litlu eftir kl. 11 brast fellibylurinn á allt í einu eins og veðrinu hefði verið skotið úr byssu, og var aðalvindstaðan af norðvestri, en hér í þessum þrengslum slær veðrinu fyrir af ýmsum áttum. Fyrsti bylurinn var einna harðastur, og munu flest hús hafa nötrað í honum, og rúður brotnað í húsum meira eða minna alstaðar þar sem ekki hafði verið gætt að því að láta hlera fyrir gluggana um kvöldið. Þá tók veðrið og upp fjölda af bátum hér í bænum og út með firði í háa loft og feykti þeim ýmist ofan í fjörugrjótið eða langt út á sjó og mölbraut suma, en skemmdi aðra meira eða minna. Um nóttina fauk fiskiskúr, sem var áfastur við pakkhús kaupmanns Sig. Johansens út á sjó. Skúrinn átti útvegsbóndi Kristján Jónsson í Nóatúni, Veðrið sleit og fram hjólskipið „Njörð", er var fast bundið upp í fjöru á Búðareyri, en ekki fór skipið langt, en skemmdist sjálft þó nokkuð.

Sem dæmi uppá ofurefli þessa fellibyls, getum vér þess, að stormurinn lyfti margar álnir loft upp mörtunnu er lá á hliðinni og sneri botninum í veðrið, og fleygði henni yfir skúrhorn allhátt og flutti hana í loftinu ofani fjöru. Tunnan vóg með þeim tólg er í henni var töluvert á þriðja hundrað punda. Svo margar rúður brotnuðu í þessum byl, að kaupstaðurinn er alveg glerlaus eftir. Svo nötruðu hús í bylnum, að múrinn í loftunum hrundi sumstaðar niður.

Á bænum Firði fauk töluvert ofan af heyi hjá Jóni Sigurðssyni og hálft þak af hlöðu á Selstöðum, en þar varð ekki mikill heyskaði. Nokkrar bryggjur brotnuðu hér út með firðinum og við sjálft lá að sjórinn mundi taka, út þau hús er neðst voru í fjörunum, því sjórinn geystist langt á land upp undan ofviðrinu og sópaði öllu því burtu er hann náði með nokkru afli til. Tvö verslunarskip láu á höfninni í þessu voðalega ofviðri og var það mesta guðsmildi, að þau skyldu hvorki hvolfa eða slitna upp, því þá hefði að öllum líkindum engum manni orðið bjargað af skipshöfnunum.

Daginn sama og ofviðri þetta kom um kvöldið var hér inndælasta haustveður og vorum vér á gangi út á Strönd fyrir utan Búðareyri um daginn og tókum vér eftir því að ofan úr Strandartind kom mesti urmull af snjótittlingum með miklu gargi og settust við sjóinn og flögruðu par síðan fram og aftur, og sögðum vér þá við kunningja, er með oss var, að þetta vissi víst á snöggva og mikla veðrabreytingu, því svo hefðum vér oft heyrt gamla menn og fróða álita, enda tekið sjálfir eftir því.

Þar sem þessi ólátaveður eru alltíð hér í firðinum á vetrum, væri það nauðsynlegt fyrir almenning að gæta dagsdaglega að loftþyngdarmælinum, og mætti þá oftast sjá þessi ofviðri fyrir og vera betur undir það búnir að standa þau af sér, svo þau gjörðu ekki annað eins stórtjón og nú hefir því miður átt sér stað.

Þann 25. þ.m. gjörði og mikinn byl og allharða hríð og setti niður mikinn snjó bæði hér í fjörðum og upp í Héraði. Veðurfræðingar höfðu spáð þessum stormi þ. 26. þ.m., en norðanstormur kemur hér fyrr en suður í Evrópu.

Síðan fylgir frásögn af töfum strandferðaskipsins Thyru á Seyðisfirði þann 20. (ekki tengdum veðri) en þetta voru ekki einu tafir skipsins í ferðinni:

Fyrst fékk „Thyra" á sig gangnahretið [hretið um 20. september] á suðurleiðinni fyrir norðan land og brotnaði þá í voðalegum ósjó stórbátur og nokkuð af foringjabrúnni (Kommandobroen). Svo fékk skipið garð á Reykjavíkurhöfn, svo eigi varð affermt á tilætluðum tíma. Á Skagafirði var svo hvasst, að skipið varð tvívegis að snúa frá Sauðárkrók; fyrst yfir á Hofsós og síðan alla leið út á Siglufjörð, en fékk þá loks miklar vörur á Sauðárkrók. „Thyra" gat engar vörur tekið eftir að hún fór frá Akureyri ...

Athyglisverð er frásögn af loftvog og trú á henni. Síðan er minnst á spá „veðurfræðinga“. Ekkert símsamband var við útlönd á þessum tíma og trúlega er hér átt við evrópskar „almanaksspár“, þær sem byggja á endurtekningu veðurs eftir stöðu tungls - eins og enn bregður fyrir. 

Frekari fréttir af ofviðrinu birtust svo í Austra þann 7. nóvember:

Stormurinn, hinn 23. og 25. f.m. hefir víst gengið yfir allt Austurland og allstaðar gjört meiri eða minni skaða, þó hvergi eins mikinn eins og hér niðri í Fjörðunum. Í Mjóafirði feykti hann skúr þeim, er Sigfús Gr. Sveinbjarnarson lét byggja í vor í Krosslandi i fullu forboði ábúendanna. og mest hefir verið um deilt í sumar, í ýmsar áttir, svo litið sást eftir af skúrnum. Ofviðrið braut og fjölda báta, meira eða minna, víðvegar í Mjóafirði. Þannig 3 róðrarbáta fyrir útvegsbónda Gunnari Jónssyni á Brekku. Í Norðfirði reif fyrri stormurinn þann 23.f.m. þakið ofan af öðrum enda á hinu nýja húsi kaupmanns Gísla Hjálmarssonar á Nesi, og plankaverk allt niður fyrir glugga, og í seinna ofviðrinu, 25. f.m. fuku svalirnir og kvisturinn á sama húsinu. Þetta hús leit út fyrir að mundi verða eitthvert fallegasta hús hér á Austurlandi.

14 tunnur lifrar tók út hjá Þorsteini Jónssyni í Nesi og fjöldi báta brotnaði þar í firðinum. Þar á meðal tók veðrið upp bát er stóð í nausti og hníflarnir einir upp úr, og það svo hátt og færði hann svo langt, að ekkert sést i eftir af bátnum. Á bænum Naustahvammi fauk heilt hús, en til allrar lukku var enginn maður í því. Á Eskifirði rak vöruskip, er komið hafði til konsúls Tuliniusar, í land utan við Lambeyri, en var þó komið á flot aftur, en vist eitthvað bilað, svo óvíst var er síðast fréttist, hvort það væri sjófært. Í ofviðrinu rifnaði stór síldarnót, er konsúll Tulinius átti og misstist úr henni öll síldin. Uppá Héraði hafði viða rifið torf af húsum og heyjum, en engar stórskemmdir orðið. Á Egilsstöðum fuku báðar lögferjurnar.

Í bréfi að austan dagsettu 17. nóvember og birtist í Ísafold 27. janúar 1894 segir frá því að átta bátar hafi fokið og brotnað í spón á Reyðarfirði, hús hafi einnig fokið þar og skemmst meira og minna, m.a. þakið af tveimur heyhlöðum á Sómastöðum og hey einnig. 

Ofvirðisins er einnig getið í veðurskýrslu frá Teigarhorni, gætti ekki fyrr en eftir kvöldaathugun sem gerð var klukkan níu og hálf. Þá stóð loftvog í 966,7 hPa og hafði fallið um 30,2 hPa frá því kl.14 um daginn. En það er langt úr 966 hPa niður í þau 70 cm kvikasilfurs (933,3 hPa) sem Austri nefnir. Dósarloftvogin (aneroid) á Seyðisfirði hefur e.t.v. sýnt of lága tölu. Mjög trúlegt er þó að loftvog á Teigarhorni hafi ekki verið fullfallin við kvöldathugunina því illviðrið kom þar eins og áður sagði ekki fyrr en eftir það - er getið í athugasemd, auk þess sem frá því er sagt að þrumuveður hafi þá líka gengið yfir. Eiríkur Jónsson athugunarmaður í Papey segir frá fárviðri þar í kvöldathugun - en starfsmaður dönsku veðurstofunnar hefur þurrkað þá tölu út og telur aðeins storm. Ritstjóri hungurdiska þekkir ekki rökin fyrir því ráðslagi - en vel má vera að þau séu til. 

Nóvember: Bjartviðri og lengst af úrkomulítið eystra, en oftar úrkoma og rosar vestanlands. Kalt.

Þjóðviljinn ungi (nú á Ísafirði) segir 25. nóvember:

Tíðin hefir verið mjög umhleypingasöm þessa vikuna, ýmist norðan hríðarbyljir, eða vestan bleyturosar, nema stillviðri í dag og í gær. Hafís: Þegar kaupstaðarbúar risu úr rekkju í gær, brá þeim heldur í brún, að sjá fjörðinn allan alþakinn hafís, svo að hvergi eygði auða vík. Sagt er og, að allt Djúpið, frá Seljadal og inn fyrir Arnardal að minnsta kosti, sé ein samföst hafíshella.

Í bréfi til Þjóðólfs (birt 5. janúar 1894) segir: 

Aðfaranótt hins 23. þ.m. rak hafís allmikinn inn í Djúpið, fyllti firði og víkur, svo ferðir tepptust, hafa síðan verið frost mikil. Í dag er 16 stig R [-20°C] og fjallahár frostreykur yfir öllu Djúpinu. Mjög er það sjaldgæft, að hafís komi hér svona snemma vetrar; hefur það borið eitthvað einusinni við áður í minnum núlifandi manna.

Desember: Nokkuð óstöðug tíð og fremur köld.

Blaðið Grettir á Ísafirði segir í frétt þann 30. desember frá illviðri þar um slóðir um jólin:

Veðurátta hefir verið mjög óstöðug þennan mánuð, Síðustu vikuna hafa verið ofsastormar af suðvestri. Nóttina milli 26. og 27. þ. m. var slíkt rokviðri, að allt ætlaði um koll að keyra, Brotnuðu víða rúður í gluggum hér á Ísafirði (í einu húsi 9 rúður), en annars urðu engin spell, þau er teljandi séu. Storminum hefir ýmist fylgt hellirigning eða kafaldshríð. 

Jónas Jónassen lýsir umhleypingunum um jólin svo í pistli 30. desember:

Logn og bjart veður að morgni h. 23; fór svo að hvessa á austan með regni síðari part dags og rigndi ákaflega mikið aðfaranótt h. 24.; gekk svo í útsuðrið með éljum, logn um kveldið, logn hér hinn 25.; rokhvass á sunnan með miklu regni allt fram að kveldi h. 26., er hann gekk aftur til útsuðurs; dimm él h. 27. húðarrigning að kveldi; ofsaveður af landsuðri aðfaranótt hinn 28.; lygndi allt í einu eftir hádegið og gekk í útsuðrið með éljum og farinn að frysta um kveldið, h. 29. logn með miklu brimi í sjónum og sama veður h.30. að morgni.

Þann 30. desember gat Þjóðviljinn ungi þess að ís hefði rekið inn á Arnafjörð fyrir jólin svo póstur hefði þurft að bíða lags til Bíldudals á Hrafnseyri.

Ísafold birti þann 27. janúar 1894 bréf úr Barðastrandarsýslu vestanverðri dagsett 21. desember og segir frá því að fyrir fáum dögum hafi allmikið af hafísjökum rekið á land við Patreksfjörð og „firðir allir fylltust ísi ... en í gær var aftaka suðaustanrok, og rak hann þá burtu aftur“.

Í bréfi úr Húnavatnssýslu sem birtist í Þjóðólfi 19. janúar 1894 segir að Húnaflói hafi fyllst af hafís skömmu fyrir jól, en hann hafi farið fljótt aftur. Bjarndýr komu þá á Skaga en komust burt með ísnum áður en þau voru drepin. 

Í Þjóðólfi 23. febrúar 1894 er létt, en merkileg frásögn af flóði á Akureyri í illviðrunum milli jóla og nýárs:

Bréf úr Eyjafirði 28. jan. Öll fréttabréf byrja á veðrinu - tíðinni; eg þori ekki að bregða út af reglunni. - Sumarið þurrkasamt og því nýting góð; haustið umhleypingasamt og veturinn fram að nýári, og klykkti það tíðarfar út með stórflóði og stormi milli jóla og nýárs. Varð mest af flóðinu hér í lágfirðinum en minna á útsveitum og til dala, en einkum fékk þó „höfuðborgin" okkar að kenna á því; sögðu margir gamlir menn, að það væri fyrir þá sök, að spilling væri þar meiri en til sveita; mest flóð hér á landi síðan þorraþrælsflóðið reykvíska, sem Matthías kvað um: „Sást ei þvílíkt syndaflóð, síðan á dögum Nóa", „ergo" er þetta þriðja flóðið í röðinni [það var 1881]. Einn sjónarvottur lýsir flóðinu á þessa leið: „Alla nóttina og fram um hádegi var ausandi rigning og stórviðri, svo öll hús láku, en að aflíðandi hádegi fossaði vatnið bókstaflega úr loftinu og það með þeim kynjakrafti, að ekkert stóðst; hélst svo til kvelds. Aurskriður féllu í sífellu úr „brekkunni" og gerðu allar götur borgarinnar ófærar, þ. e. að segja þessa einu götu, sem til er; Lækurinn, eða réttara sagt „læken", var á svipstundu orðinn að stóreflis fljóti, braust fram kolmórauður og hlóð vörslum af stóreflis klakastykkjum eða réttara sagt „klagestykker" á bæði lönd. Gullbrautin eða Tryggvavegurinn frægi raskaðist að mun, og var það þó allra viturra manna mál, að hann væri óbilandi. Á Oddeyri, undirborg Akureyrar, gekk sjórinn á land og rauk yfir allar byggingar staðarins, svo vatn féll inn hvervetna, jafnvel í „Villunni", sem er best hús og vandaðast þar í borginni og þótt víðar sé leitað; leið svo til kvelds, en í ljósaskiptunum heyrðust dunur miklar, kom Glerá þá beljandi utan og ofan eyrina og líktist fremur stórgrýtisskriðu og snjóflóði en smáá, fyllti alla kjallara, braut brýr og vegi, gróf sér djúpan ós fram í sjó, er tveir merkir menn voru nær því drukknaðir í daginn eftir, og lagði afarþykkt lag af ísruðningi yfir mikinn hluta eyrarinnar.

Í viðhenginu eru ýmsar tölulegar upplýsingar - meðalhiti mánaða á einstökum stöðvum, helstu útgildi hvers mánaðar og fleira og fleira auk þess sem taldir eru nokkrir skipskaðar sem ekki er getið hér að ofan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 112
  • Sl. viku: 1844
  • Frá upphafi: 2348722

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1615
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband