Haustgrunur?

Fyrst er að fylgjast með framsókn sumarsins - og einhvern tíma nær hún hámarki. Í heiðhvolfinu gerist það strax skömmu eftir sólstöður - en þar er samt langt í haust nú í byrjun ágústmánaðar - sumaraustanáttin er enn ríkjandi. Uppi við miðhvörfin (í um 90 km hæð) eru hlutirnir nokkuð öfugsnúnir - þar er kaldasti tími ársins um mitt sumar - tími silfurskýjanna. 

Þau getum við þó ekki séð (vegna birtu) fyrr en eftir 25. júlí. Svo hverfa þau mjög snögglega í ágúst - oftast um miðjan mánuð - þá er orðið of hlýtt þarna uppi til að þau geti haldist við. Segja má að brotthvarf þeirra séu þar fyrstu merki haustkomunnar.

Í Norðuríshafi bráðnar venjulega meiri ís en myndast allt til ágústloka - og í sumum árum allan september líka. En sól lækkar óðum á lofti - þannig að kuldinn á sífellt auðveldara með að ná sér á strik - fái hann frið til þess. 

Kuldapollar vetrarins á undan lifa í einhverri mynd nokkuð langt fram eftir sumri - og varla nokkur tími sumarsins sem algjör friður er fyrir þeim. - En það er segin saga að þeir fara að taka sig upp með vaxandi þunga strax í ágúst. Hringsóla um íshafið - og gera stundum útrásir suður á bóginn - og nýir myndast þá fljótlega í stað þeirra sem fara. 

Einn slíkur er nú á sveimi og sést hann vel á myndinni hér að neðan. Hún sýnir 500 hPa hæðar- og þykktarspá bandarísku veðurstofunnar sem gildir síðdegis á þriðjudaginn, 4. ágúst.

w-blogg030815a

Norðurskaut er nærri miðri mynd. Ísland alveg neðst. Jafnhæðarlínur eru heildregnar - af þeim má ráða vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Litirnir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hér er Ísland að miklu leyti í gula litnum - heldur sjaldgæf sjón í sumar - nærri meðallagi árstímans en ekki neðan þess eins og lengst af hefur verið. 

Blái liturinn hvarf af kortunum í nokkra daga í júlí - en er nú kominn aftur. Hugsanlega hverfur hann aftur dag og dag - en er annars kominn til að vera og fyrr en varir verða bláu litirnir aftur orðnir tveir. 

Enn er langt til hausts - en samt sjáum við til þess við ystu sjónarrönd. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þessi glyrna er ekki árennileg. En í tilefni dagsins bíð ég gesti mínum upp á glyrnu með kaffinu,lítið staup með líkjöri í.

Helga Kristjánsdóttir, 3.8.2015 kl. 15:57

2 identicon

skemtilegt haglið sem kom um dagin varla boðar það komu vetrar. nú er að spá í kaffibollan fyrir veturin, trúlega verður hann úrkomusamur en hlýr hér um slóðir en hlýr  ef marka má hjátrúna. síðann vonumst við til að vetur konúngur sleppi rokinu í vetur er nokkuð bjartsítn á það.svo senilega verðum við að vorkenna norðlendíngum næsta veturef marka má reinsluna   

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 3.8.2015 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 53
  • Sl. sólarhring: 53
  • Sl. viku: 544
  • Frá upphafi: 2343306

Annað

  • Innlit í dag: 49
  • Innlit sl. viku: 495
  • Gestir í dag: 41
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband