Heiðhvolfið að jafna sig?

Eins og þrautseigari lesendur hungurdiska muna brotnaði hringrásin í heiðhvolfinu upp nærri áramótum. Venjulega einkennist vetrarhringrásin þar af einni risastórri lægð sem nær yfir mestallt norðurhvel norðan hvarfbauga. Stöku sinnum bregður út af og lægðin skiptist í tvo eða þrjá hluta.

Uppbrotið og gríðarleg hlýnun sem því fylgir er talið hafa þær afleiðingar að heimskautaröstin sem stýrir ferðum lægðakerfa hörfar sunnar en venjulegt er og fyrirstöðuhæðir liggja langdvölum norður undir heimskautsbaug. Hvort þetta er ástand sem alltaf fylgir heiðhvolfsuppbroti skal ósagt látið - alla vega eru fyrirstöðurnar aldrei eins og sjaldan á nákvæmlega sömu stöðum. Fyrirstöður auka norðan- og sunnanáttir í háloftunum og þeim fylgja því ýmist kuldar eða hlýindi eftir því hvoru megin hryggjar löndin liggja. Hin óvenjulegu hlýindi hér á landi í janúar og febrúar tengjast heiðhvolfsbrotinu örugglega.

En eftir talsverða mæðu er heiðhvolfslægðin aftur orðin ein og farin að nálgast venjulega stöðu. Við sjáum þetta vel á korti úr gfs-líkani bandarísku veðurstofunnar. Það sýnir hæð 30 hPa-flatarins og hita í honum. Á þessum tíma árs er flöturinn í um 23 kílómetra hæð. Jafnhæðarlínur eru merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Hiti er sýndur á litakvarða - kortið batnar mjög við stækkun.

w-blogg100313a

Lesendur eru örugglega ekki með meðalástand marsmánaðar í minni - en lægðarmiðjan er nú nokkurn veginn þar sem hún á að vera - ívið grynnri en venjulega en talsvert umfangsmeiri. Það þýðir að vindur er heldur hægari en algengast er. Að öðru leyti má segja að allt er eins og það á að vera.

Hitadreifingin, kuldi okkar megin en hlýrra yfir Austur-Asíu er ekki óvenjuleg. Hlýindin eystra stafa af niðurstreymi sem heimskautaröstin veldur - hún er að jafnaði sterkari þar heldur en yfir Atlantshafinu þar sem uppstreymi og þar með kólnun er algengari. Fyrirstöðurnar margnefndu eru algengari hérna megin. Þær rekast upp undir veðrahvörfin og hækka þau lítillega og þá sömuleiðis loftið fyrir ofan. Hér er e.t.v. einfaldað meira en góðu hófi gengir - en við leyfum okkur það.

Meðan heiðhvolfslægðin er stór og umfangsmikil telst ennþá vera vetur í heiðhvolfinu. Þar vorar þó um síðir með mjög afgerandi hætti - lægðin hverfur og gríðarleg hæð tekur við. Við gefum því auga - rétt eins og í fyrra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 43
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 441
  • Frá upphafi: 2343354

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 396
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband