Andartak á ratsjánni

Á síðastliðnu ári var veðursjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði uppfærð rækilega og sömuleiðis úrvinnsluhugbúnaður hennar. Við sjáum því bæði betri og fjölbreyttari afurðir heldur en áður.

Ég verð að gera þá játningu að ég veit sáralítið um ratsjár. Þótt ég sé sífellt að fylgjast með afurðunum má ekki spyrja mig um smáatriði tækninnar. Ástæða vanþekkingarinnar er einfaldlega sú að ég hef fyrir löngu gert mér grein fyrir því að ég ræð ekki við að fylgjast jafnvel með á öllum sviðum veðurfræðinnar - og fyrir um 20 árum ákvað ég einfaldlega að fletta yfir erfiðustu kaflanna í ratsjárfræðunum en einbeita mér frekar að öðru. Fáein önnur viðfangsefni þessa geira hef ég líka ákveðið að láta að mestu í friði - en ég er ekkert að upplýsa hver þau eru.

Þrátt fyrir vankunnáttuna er gaman að skoða myndir - vandinn er að velja það sem hentar hverju sinni. Við lítum á mynd sem veðursjáin gerði um kl. 23:22 í kvöld (fimmtudag 17. mars) og birtist síðan á brunni Veðurstofunnar.

w-vedursja-170311-2322

Kortagrunnurinn sýnir Ísland suðvestanvert frá Snæfellsnesi í vestri og nærri því til Vestmannaeyja í austri. Athuganir ratsjárinnar eru síðan settar ofan á, við sjáum óreglulega flekki þar sem sjáin nemur endurkast þeirra geisla sem hún sendir út. Bergmálið er mest þar sem mest er af hálfbráðnum snjó. Endurkast kemur einnig frá snjó og regni - en minna. Hér á landi er rigning nærri alltaf orðin til úr bráðnum snjó. Það er heppilegt í þessu tilviki. Á móti kemur að úrkomukerfi á norðurslóðum myndast flest tiltölulega neðarlega þannig að skuggar og endurkast frá fjöllum truflar myndatökuna. Ýmislegt annað flækir túlkun myndanna - en ég er ekki rétti maðurinn til að fjalla um það.

Él og éljagarðar sjást oftast vel á ratsjármyndum, því betur eftir því sem uppstreymið er öflugra því þá myndast úrkoman örast. Vön augu greina fleira. Myndin hér að ofan er orðin til við það að hugbúnaður ratsjárinnar reynir að giska á úrkomuákefð í því sem hún sér. Hafa ber í huga að alls ekki er víst að ágiskunin sé rétt. Litakvarðinn til hægri á myndina sýnir ákefðina. Við sjáum mjóan en greinilegan éljabakka yfir Reykjavík. Giskað er á ákefð yfir 3 mm/klst þar sem mest er. Með því að skoða röð mynda (sjá brunn Veðurstofunnar) má sjá að þessi garður kom úr vestri og hreyfist austur. Dvöl hans yfir borginni var styttri en klukkustund þannig að úrkoma á hverjum stað var minni, jafnvel þótt ágiskun um ákefðina væri rétt.

Í hinum nýja búnaði veðursjárinnar er svokallað dopplerkerfi. Það getur mælt láréttan hraða úrkomuagnanna - það er vindhraða. Búnaðurinn sér því vindhraðann þar sem einhverjar agnir eru til staðar. Á sérstakri mynd sem búin var til á sama tíma og myndin hér að ofan mátti sjá að vindur í 800 metra hæð var vestlæg, um 10 m/s.

Kuldapollurinn mikli sem fjallað var um í nokkrum fyrri bloggpistlum vikunnar spannar nú yfir allt N-Atlantshaf og heldur áfram að ráða veðri hér á landi næstu daga. Hlýtt loft sækir þó að um helgina og verður sem jafnan spennandi að fylgjast með átökum lofts af ólíkum uppruna. Spár eru mjög óstöðugar og hvet ég enn þá sem eiga eitthvað undir veðri að fylgjast vel með textaspám Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 33
  • Sl. sólarhring: 140
  • Sl. viku: 1782
  • Frá upphafi: 2348660

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 1561
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband