Skárra vikuútlit heldur en í gær?

Kuldapollurinn mikli og fyrsta lægðarbylgja hans ganga sinn gang mánudag og þriðjudag, svipað og spáð var í gær. En næstu lægðarbylgjur líta talsvert meinlausari út heldur en þá. Það er eins og þær nái ekki taki á háloftavindröstinni og tætist í sundur á leið sinni til norðausturs nærri Austurlandi. En það breytir ekki því að fylgjast þarf grannt með þeim. En lítum samt á háloftaspákort sem gildir kl. 9 á mánudagsmorgun (14. mars). Það er fengið af brunni Veðurstofunnar eins og önnur kort með þessu útliti.

w-hirlam-140311-0900

Svörtu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar), en rauðu strikalínurnar fjarlægðina (þykktina) milli 500 og 1000 hPa-flatanna, því meiri sem hún er því hlýrri er neðsti hluti veðrahvolfsins. Mjög hvasst er þar sem hæðarlínurnar eru þéttar og hitabratti er mikill þar sem jafnþykktarlínurnar eru þéttar. Af afstöðu hæðar- og þykktarlína má ráða hvort kalt eða hlýtt loft er í framsókn. Þar sem þær mynda þétta möskva eru mikil átök og lægðir í þróun.

Kuldapollurinn stefnir nú til suðsuðausturs yfir Grænland og verður kominn á vestast á Grænlandshaf síðdegis á mánudag eða þá um kvöldið. Honum er enn spáð niður fyrir 4680 metra í miðju og er það með allra lægstu gildum sem sjást á þessum slóðum. Ef svona lág gildi ná í hlýtt loft verða til ofurdjúpar lægðir. En spár í dag gera ekki ráð fyrir því. Þrýstingurinn í lægðarmiðju undir pollinum verður þó trúlega innan við eða í kringum 955 hPa.

Á mánudagsmorgun, þegar kortið gildir, er Ísland í hlýja geira lægðarinnar. Þykktin er upp undir 5400 metrum þar sem hæst er Síðdegis fellur kaldur foss niður firði Suðaustur-Grænlands og er þykkt þar spáð undir 4900 metrum - aðeins meira heldur en spáð var í gær.

Snemma á þriðjudagsmorgun er þykktinni yfir Vestfjörðum spáð niður í um 5080 metra (gaddfrost), en þá verður hún um 5320 yfir Austfjörðum (3-6 stiga hiti). Það er svo spurning um hvernig kalda loftið verður - snjóar mikið á Vesturlandi í vikunni? 5 cm, 10 cm, 15 cm, 20 cm, 25 cm? Tölur á þessu breiða bili sjást í sjálfvirkum spám.

Á kortinu er Bylgja 2 við Nýfundnaland. Hvernig reiðir henni af á leið til Íslands? Nær hún sér á strik eða keyrir hún sig í klessu í hraðakstri meginrastarinnar? Þegar þetta er skrifað er 5 stuttum bylgjum spáð framhjá Íslandi á einni viku. Fylgjast þarf vel með þeim öllum. En höfum í huga að framtíð stuttra bylgna sem ekki eru orðnar til er vandreiknuð - jafnvel í bestu líkönum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Það er meiri háttar fróðlegt að fylgjast með þessari síðu hjá þér Trausti.

Nú getur maður sem sagt fyrst spáð í pælingarnar hjá þér - og pælt svo til viðbótar....

Takk fyrir að setja þetta svona fram.

KP

Kristinn Pétursson, 14.3.2011 kl. 02:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 113
  • Sl. viku: 1514
  • Frá upphafi: 2348759

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1320
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband