Hugsað til ársins 1966

Tíðafar á árinu 1966 þótti yfirleitt heldur óhagstætt nema helst á Suður- og Vesturlandi síðari hluta ársins. Minnisstætt fyrir þrálátar austan- og norðaustanáttir um veturinn og tilheyrandi snjóþyngsli norðaustanlands. Gríðarlegt illviðri gerði í lok janúar. Sumarið var til þess að gera hagstætt á Suður- og Vesturlandi, en óhagstæðara norðaustanlands. Seint í júlí gerði óvenjulegt norðanveður.

Við rifjum nú upp fréttir ársins tengdar veðri. Ekki er sá listi tæmandi. Blaðatextar eru langflestir fengnir af vefnum timarit.is, oft styttir hér og stafsetning oftast færð til nútímahorfs (vonandi sætta höfundar sig við þá meðferð). Textar úr dagblaðinu Tímanum verða mjög fyrir valinu þetta ár. Heimildir eru að auki úr Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands, og töluleg gögn og fleira úr gagnagrunni og safni Veðurstofunnar. Talnasúpu má finna í viðhenginu.

Janúar var hlýr og hagstæður framan af, en síðan var mjög frosthart með köflum og nokkuð erfitt tíðarfar. Í febrúar var kuldatíð, mjög snjóþungt var á Norður- og Austurlandi, en mjög þurrt suðvestanlands. Í mars hélst tíð svipuð, mikil snjóþyngsli voru norðaustanlands, en snjólétt syðra. Lagnaðarís var með ströndum og ekki langt í hafísinn um tíma. Tíð þótti fremur hagstæð í apríl, en enn voru þó mikil snjóalög á Norður- og Austurlandi. Maí var úrkomusamur, gróðri fór þó seint fram því óvenjumikill klaki var í jörðu. Í júní var tíð hagstæð norðaustanlands, en mjög votviðrasöm syðra. Í júlí var viða úrkomusamt og heyskapartíð nokkuð misjöfn. Ágúst var hagstæður á Suður- og Vesturlandi, en öllu óhagstæðari norðan lands og austan. Svipað var í september. Heyfengur var lítill og uppskera garðávaxta fremur rýr. Í október þótti tíð heldur rysjótt norðaustanlands, en á suðvestanverðu landinu var óvenju þurrviðrasamt og tíð talin hagstæð. Nóvember var umhleypinga- og rosasamur. Tíð var mjög óhagstæð í desember, bæði köld og umhleypingasöm. Færð slæm.

Janúar byrjaði með nokkuð hvassri hlákutíð, en síðan hægði um. Tíminn segir frá þann 5.janúar:

Mikið vatnsveður og rok hefur verið í Reykjavík og á sunnanverðu landinu í dag, mjög svipað því, sem var milli jóla og nýárs. Vindhraðinn komst upp í 8 til 10 stig í mestu rokunum hér í Reykjavík og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum komst vindhraðinn upp í 12 stig. Vindáttin var austan og suðaustan. Veðrabrigði hafa orðið allsnögg núna, til dæmis sagði fréttaritari blaðsins á Seyðisfirði, að þar hefði verið 13 stiga frost um miðnættið, en í dag var komin rigning. Víðast hvar á landinu hafði frostið linað, og hitinn var kominn upp í 3 til sex stig en inni í dölum, aðallega norðanlands, var þó enn nokkurra stiga frost.

Veðráttan segir frá því að maður hafi dáið á Akureyri er planki fauk í hann í þessu veðri. Þann 18. fórst flugvél í sjúkraflugi við Austfirði og með henni tveir menn. 

Vísir segir frá vatnavöxtum í Kópavogi í pistli 6.janúar:

Töluverðar skemmdir urðu norðan i Digraneshálsi á og við Hafnarfjarðarveginn í fyrrinótt, þegar vatnselgur flæddi þar um stefnulaust og ruddi sér farvegi hingað og þangað niður brekkuna. Gatnamót Auðbrekku og Hafnarfjarðarvegar grófust í sundur og eins varð Kársnesbraut alófær við Fossvogsbúðina. íbúðarblokk vestan við Hafnarfjarðarveginn mun hafa sloppið naumlega, því lengi vel mæddi flaumur á henni, en olli ekki skaða að þessu sinni. Víðar munu hafa orðið töluverðar skemmdir á götum bæjarins og vegarkantar hrunið. Þar sem mesta flóðið var, í kringum Hafnarfjarðarveginn norðan megin, hafði safnast mikill svellbunki að undanförnu þar sem annars er tíðum lækjarspræna. Var ekki hirt um að gera ráðstafanir í upphafi blotans til þess að brjóta svellið, en að því var unnið í allan gærdag ásamt ofaníburði í skemmdu kaflana á götunum. Það vekur athygli, þegar bleytir um að í Kópavogi eru vegræsi og niðurföll til þess að taka við yfirborðsvatni varla til. Brattinn í bæjarlandinu gerir það því að verkum, að mikil straumföll myndast og valda meira eða minna tjóni víða í bænum, ef votviðri eru.

En síðan gerði besta veður í nokkra daga. Vísir segir af því 15.janúar:

Veðrið í Reykjavík hefur verið fagurt í tvo daga. Eftir rosann, sem kom upp úr áramótunum komst allt í einu kyrrð og vorsvipur á umhverfið. Menn, sem ekki höfðu litið út í tvo mánuði til annars en að fara á milli útidyra og bíldyra, voru allt í einu farnir að spássera í góðviðrinu kringum Tjörnina. Og Tjörnin var lygn og spegilslétt, nema leifar af ískrapi möruðu hér og þar í hálfu kafi.

Kortið að neðan sýnir óskastöðu í háloftum að vetri. Mikil hæð er yfir Íslandi. Stöku sinnum njótum við slíkrar hæðar í viku eða jafnvel lengur. Ritstjórinn (í reynsluleysi sínu) bjóst nú við að fá enn og aftur vetur eins og 1963 eða 1964 - en það varð auðvitað ekki. 

Slide1

Hæðin mikla gaf eftir og í kjölfarið gerði mikinn kulda. Hríðarbylur varð um landið norðaustanvert, og suðvestanlands snjóaði einnig um tíma. Vísir segir af kuldanum 24.janúar:

Frost er nú frá 10 til 20 stig á láglendi um allt land og er það mesta kuldakastið, sem komið hefur það sem af er vetri. Á austanverðu Norðurlandi var 11-14 stiga frost í morgun, blindbylur og vindhraði 8—9 vindstig. ... Það virðast allir bílar í bænum vera stopp, sagði símastúlkan á einni sendibílastöðinni í morgun, þegar blaðið hringdi þangað til þess að spyrja um eftirspurn sendibíla til þess að draga bifreiðir i gang í frostinu. Í morgun mældist sextán stiga frost hérna í Reykjavík og reyndist bíleigendum að vonum mjög erfitt að koma bifreiðum sínum í gang. Urðu margir þeirra að gefast upp, ekki síst vegna þess að sendibílastöðvarnar gátu ekki annað eftirspurninni, sem var óskapleg. Síminn hringdi látlaust og á þeim þrem sendibílastöðum, sem blaðið hringdi á í morgun höfðu símastúlkumar ekki við að skrifa niður pantanirnar. Ein þeirra sagði að a.m.k. 100 manns hefðu hringt á síðustu klst og var þá klukkunni að halla í tíu.

Fólk hringdi unnvörpum í hitaveituna til þess að kvarta undan kuldanum og víða er ástandið slæmt í borginni þessa dagana. Hefur það komið fyrir að fólk hafi orðið að flýja hús sín fyrir kulda og leita sér húsaskjóls annars staðar í frosthörkunum. Aðalvandræðin skapast enn sem fyrr í hverfunum í kringum Skólavörðuholtið, kringum Landakot og þaðan vestur úr. Blaðið hringdi í hitaveitustjóra í morgun, sem sagði að ástandið hefði skánað við það að tvær borholur voru tengdar hitaveitukerfinu á milli jóla og nýárs, borholurnar við Lækjarhvamm og Undraland en enn hefði ekki verið hægt að tengja borholuna við Hátún hitaveitukerfinu þar sem ekki hefði tekist að ljúka hreinsun borholunnar fyrir frostakaflann. Tefja frostin fyrir lagfæringu á borholunni, en ekki er talið ráðlegt að eiga við dælumar meðan gaddurinn er. Sagði hitaveitustjóri að reynt yrði að koma borholunni í samband sem allra fyrst en vafamál væri hvort það nægði í svona frostum.

Slide2

Kortið sýnir stöðuna í háloftunum þann 23.janúar. Óvenjulegur kuldi að vestan og norðan teygir sig suður í átt til Íslands. Kröpp lægð myndaðist við Jan Mayen og síðar önnur minni á Grænlandhafi. 

Slide3

Á sjávarmálskortinu má líka sjá hversu gríðarkalt loftið var, um -27 stig í 850 hPa við Norðurland. Um stund náði norðvestastrengurinn suðvestan við lægðina inn á landið norðanvert. Það má sjá á kortinu hér að neðan. Endurgreiningin vanmetur heldur vindstyrkinn á landinu, strengurinn á kortinu að ofan að mestu úti á miðunum. 

Slide4

Hitatölur á kortinu vekja athygli, það er -16 stiga frost á Raufarhöfn í 20 m/s vindi og glórulausri hríð. Stillt og bjart er á Suðvesturlandi, en mjög kalt. 

Tíminn segir 25.janúar frá mannskaða á Melrakkasléttu og kulda:

FB-Reykjavík, mánudag. Í gærmorgun [23.janúar] fór maður frá Raufarhöfn, Auðunn Eiríksson póstur á Melrakkasléttu, með farþega til Krossavíkur í Þistilfirði. Auðunn fór aftur áleiðis frá Krossavik upp úr hádeginu, og fylgdi honum maður frá Krossavík. Skildust þeir, þegar þeir voru komnir nær því hálfa leið yfir Ytra-Háls og sneri Krossavíkingur inn aftur heim til sin. Þegar hann kom heim um klukkan 17 hringdi hann til Raufarhafnar og spurðist fyrir um Auðunn, sem ekki var kominn þangað, en búist var við honum í síðasta lagi kl. 18. Þegar ekkert hafði sést til Auðuns á þeim tíma, sem gert var ráð fyrir honum, fóru leitarmenn af stað en vegna veðurs komust þeir ekki nema stuttan spöl út úr þorpinu. Mikið norðvestan hvassviðri var á Ytra-Hálsi í gær og snjókoma, og sagði fylgdarmaður, Auðuns að skömmu eftir að þeir skildust hefði veðrið versnað að mun. Leitarmenn frá Raufarhöfn lögðu upp aftur um kl.22 í gærkvöldi og komust þeir leiðar sinnar. Fundu þeir jeppa Auðuns mannlausan miðja vegu milli Raufarhafnar og Krossavíkur, en hvergi sást til Auðuns. Mun hann hafa ætlað að komast fótgangandi til byggða, en 20 kílómetrar eru frá Raufarhöfn til Krossavíkur. Friðgeir Steingrímsson hreppsstjóri á Raufarhöfn sagði blaðinu í kvöld, að leitarmenn hefðu farið af stað í dag til þess að leita að Auðuni. en engan árangur hefði sú leit borið. Væru nú allir leitar menn komnir til bæja, og ekki orðið neins vísari. Sagði hann enn fremur, að Auðunn hefði verið kominn að versta kaflanum á veginum yfir Ytri Háls, þar sem hann hvarf frá bílnum. Væri vegurinn þarna óupphlaðinn, og hefði hann komist einum til tveim kílómetrum lengra, hefði vegurinn verið orðinn greiðfær aftur. Auðunn Eiríksson er maður um fimmtugt.

KT — Reykjavík, mánudag. Frostið, sem hefur herjað hér á landi undanfarna daga jókst til muna í nótt. Í Reykjavík varð mest frost í nótt 16,6 stig en svo mikið frost hefur orðið tvisvar sinnum í Reykjavík síðan frostaveturinn mikla 1918. Að sjálfsögðu urðu ýmsar truflanir í höfuðborginni af þessum völdum, fjölmargar bifreiðar fóru ekki í gang í morgun og upphitun húsa, sérstaklega í gamla bænum, var í miklum ólestri. Að því er Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, tjáði blaðinu í dag, var mesti kuldi í Reykjavík í nótt — 16,6 stig. Þetta væri mesta frost, sem hér hefði verið í vetur, en hitinn hafði komist neðar í janúar 1965 þegar frostið komst upp í -17.1 stig, og í desember 1961, er það komst í -16.8 stig. Fram að þeim tíma hefði frostið ekki orðið svo hátt síðan frostaveturinn 1918, er það komst upp í -24,5 stig 21. janúar. Þá sagði Páll að á öllu landinu hefði frostið í morgun verið 10—20 stig og á Hveravöllum 21 stig. Kaldast hefði verið austan fjalls og sums staðar á Vesturlandi, þar sem bjartast og kyrrast var en heldur minna frost á Norðausturlandi, 10—15 stig, en þar hefði hins vegar verið vonskubylur N og NV, 8—9 vindstig. Sem dæmi um kuldann hér sunnanlands nefndi Páll, að á Eyrarbakka, Þingvöllum og Hellu á Rangárvöllum hefði frostið náð 20 stigum en svo mikið frost hefði einnig verið í Búðardal og á Grímsstöðum á Fjöllum. Tíminn hafði tal af Jóhannesi Zoega, hitaveitustjóra og sagði hann, að ástandið hefði verið nokkuð slæmt í hitaveitumálum Reykjavíkur að undanförnu og þá sér staklega á gömlu hitaveitusvæðunum. Þá sagði Jóhannes, að tvær borholur hefðu verið teknar i notkun síðari hluta desember og hefði það bætt ástandið dálítið, en vegna frostanna hefði ekki verið hægt að láta fara fram nauðsynlegar endurbætur á dælum og enn hefði ekki verið hægt að taka borholuna við Hátún í gagnið. Ekki kvaðst hitaveitustjóri hafa haft fregnir af beinum skemmdum á hitaveitu vegna frosta, en sagði. að ekki væri gott að vita nema einhvers staðar hefði frosið á svæðum, sem útundan hefðu orðið, eða þar sem loft hefði komist á kerfin. Af þessum orsökum hefði Hitaveitan beint þeim tilmælum til þeirra, sem hafa völ á kynditækjum, að þeir notuðu þau. til þess að létta dálítið undir með þeim. sem byggju við skort á heitu vatni. Þá hefði sundlaugum verið lokað í dag til sparnaðar á vatni. Þá hafði Tíminn samband við nokkrar sendibílastöðvar og höfðu allir sömu sögu að segja. Mjög mikil eftirspurn hefði verið eftir sendibifreiðum til þess að draga bíla í gang. Bifreiðar Nýju Sendibílastöðvarinnar höfðu t.d. dregið 400 bíla í gang um hádegið.

Tíminn heldur áfram að tala um álagið á hitaveituna í pistli 26.janúar:

IGÞ-Reykjavík, þriðjudag. Það hefur sannast nú enn einu sinni, að meir en lítið er athugavert við hitaveituna, geri kuldakast hér í Reykjavík. Fólki sárnar eðlilega, að ekki skuli vera á hitaveituna að treysta, geri frost að einhverju ráði, og mestu máli skiptir að upphitun íveruhúsa sé í lagi. Þegar frostið komst í sextán stig í fyrrinótt, virðist sem stór svæði í bænum hafi orðið upphitunarlaus eða upphitunarlítil. Hefur fólk á ýmsum hitaveitu svæðum í borginni hringt til Tímans og kvartað undan gagnsleysi hitaveitunnar, og hefur sumstaðar jafnvel kveðið svo rammt að þessu, að vatnsleiðslur hafa sprungið í húsum, sem eru hituð upp með heitu vatni. Það er auðséð, að heitavatnsskorturinn fer vaxandi með hverju árinu sem líður, hvað sem öllum holuloforðum líður. Enda verður ekki annað álitið, en að nú um nokkurt skeið hafi heitt vatn til upphitunar verið þanið of vítt um borgina, og án þess að notendur þess hefðu fyrir því nokkra tryggingu að dygði til upphitunar, þegar mest á reyndi. Þetta er bæði vítavert og hættulegt athæfi, enda hlýnar fólki lítið á yfirlýsingum ráðamanna hitaveitunnar og góðum meiningum þeirra um úrbætur, sem því miður hafa ekki reynst til neins gagns, hafi þær verið ein hverjar. Toppstöðin svonefnda við Elliðaár var ætluð til að koma til hjálpar í kuldaköstum. En hún hefur verið í hálfgerðu lamasessi síðan í fyrravetur. Hefði þó mátt ætla eftir reynslunni frá í fyrra, að sumartíminn yrði notaður til að koma henni í lag. Aðilar, sem taka að sér að selja hita, hafa skyldum að gegna við notendur, en sinnuleysið varðandi toppstöðina virðist hafa aðra sögu að segja. Maður á Skólavörðuholtinu hringdi til Tímans og sagði að hjá sér væri fólk ekki undir það búið að hverfa aftur til fornaldar, hvað upphitun snerti. Nú væri mönnum sagt að kynda miðstöðvar, en áður hefði mönnum verið sagt að taka þær burt. Hann sagði að þeir sem vöknuðu klukkan fjögur að nóttu fengju smáleka inn á kerfið, en á hádegi væri ekkert vatn í krönum. Úr Norðurmýrinni, sem hefur sloppið til þessa, fékk blaðið þær fregnir í gær, að þar væri helkalt í húsum. Bendir það einmitt til þess, að heita vatnið fari þverrandi með hverju árinu, sem líður, þrátt fyrir loforð um nýjar holur, sem álitið er að dragi aðeins vatn frá þeim holum, sem fyrir eru. Í húsi við Þórsgötu var blaðinu tjáð í dag að lítill sem enginn hiti hefði verið á ofnum síðan milli jóla og nýárs. Heimilisfólkið hefði gripið til þess neyðarúrræðis að sofa fullklætt og einnig kynt kolaofn til þess að halda hita í íbúðinni. Síðastliðinn föstudag var frúnni gengið upp á háaloft og það fyrsta, sem hún rak augun í var ofninn, sá nýjasti — sprunginn. Var gaddfrosið í honum. Þá um kvöldið er þetta gerðist kom maður frá hitaveitunni og skrúfaði ofninn frá og gekk frá leiðslunum. Svo í dag varð hún vör við að vatn fór að leka ofan af loftinu. Lak það hæð af hæð þrátt fyrir það, að hún þerraði vatnið upp jafnóðum. Tjónið af þessu vatni nemur vafalaust tugþúsundum. Það er víðar en í þessu húsi, sem fólk hefur orðið að fara í rúmin fullklætt að kvöldinu, vegna þess að nístingskuldi var orðinn inni.

KT, Reykjavík, þriðjudag. Í dag hefur á öllu landinu verið nokkru hlýrra veður en undanfarna daga, en víða snjóað. Færð hefur verið tiltölulega góð um allt land í dag en nokkrir fjallvegir þó ófærir.

Síðustu daga mánaðarins [28. til 30.] gerði afskaplegt illviðri um mikinn hluta landsins með stórfelldu tjóni. Hungurdiskar sögðu frá því og ástæðum þess í pistli fyrir nokkrum árum, Hér rekjum við hins vegar helstu fréttir af tjóni og vandræðum sem veðrið olli. 

Tíminn segir frá versnandi veðri í pistli 29.janúar:

KT—Reykjavík, föstudag. Færðin um landið fer nú hríðversnandi og hafa þjóðvegir víða lokast af völdum hríðar snjókomu og skafrennings. Samkvæmt upplýsingum frá Vegamálastjórninni hefur verið mikill skafrenningur víða í Árnessýslu og ekki fært nema stórum bílum að Selfossi og til Þorlákshafnar og algerlega lokað að Stokkseyri og Eyrarbakka. Þá er þungfært austur Suðurlandsveg um Flóa. Þar fyrir austan hefur hinsvegar verið nokkuð sæmileg færð og eins f uppsveitum Árnessýslu. Vegir austan Fjalls hafa lokast um tíma og hafa vinnutæki varla haft undan að ryðja vegina, svo ört hefur skafið. Vesturlandsvegur um Hvalfjörð og Borgarfjörð hefur verið greiðfær og fært stórum bílum um mestan hluta Snæfellsness. Þá hefur verið fremur snjólétt í Dölum, en skafrenningur svo mikill að ekki er talið fýsilegt að aka eftir þjóðvegum. Þá hefur veðrið verið svo slæmt á Vestfjörðum, að ekki er hægt að telja fært um þá, nema e.t.v. innan sveita. Samkvæmt upplýsingum frá fréttaritara blaðsins á Akureyri, má heita, að allir vegir séu lokaðir á Norðurlandi. Bíður fjöldi bíla á Akureyri, Blönduósi og í Fornahvammi eftir að komast leiðar sinnar en verða að bíða þar, sem þeir eru niður komnir og þá einkum vegna veðurs, sem hefur verið hið versta, snjókoma og rok. Vegurinn milli Akureyrar og Húsavíkur er einnig lokaður og til dæmis um akstursörðugleika má geta þess, að mjólkurbílarnir frá Svarfaðardal urðu að snúa við skammt innan við Dalvík, en haft er fyrir satt, að þá sé ekki öðrum fært. Í Þingeyjarsýslum eru vegir einnig lokaðir. Á Austurlandi er færðin í dag svipuð og undanfarna daga, þ.e. fært um Héraðið um Fagradal til Reyðarfjarðar og Eskifjarðar, en aðrir fjallvegir lokaðir. Eins og áður er sagt, hefur víða verið snjókoma og skafrenningur í dag. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var norðaustan stórhríð um allt norðanvert landið og 10—12 stiga frost á Vestfjörðum. Náði snjókoman suður í Borgarfjörð, en á Suður- og Suðausturlandi var hvasst og skafrenningur víða, en frostlítið.

Fréttir af tjóni fóru að hrúgast inn, Tíminn 30.janúar:

KT-Reykjavik, laugardag. Í morgun var stormur um allt landið og snjókoma alls staðar nema e.t.v. á Suðurlandi, en þar var víðast svo mikill skafrenningur, að vart sá út úr augum. Vegna óveðursins hafa ýmsar truflanir orðið, símasamband rofnað, áætlunarferðir farið úr skorðum og geysilegar skemmdir orðið á verðmætum. Ófært er nú að heita má um allt landið Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerð ríkisins, má segja, að ófært sé um allt land. Á Austfjörðum, Norðurlandi, og á Vestfjörðum eru allir vegir lokaðir. en á stöku stað hægt að hreyfa sig innan sveita. Ekki mun með öllu ófært á Suðurlandi, þar sem Þrengslavegur hafði ekki lokast um hádegi og gátu mjólkurflutningar því farið fram til Reykjavíkur. Einnig mun vera hægt að komast frá Reykjavík upp í Borgarfjörð og suður til Keflavíkur. Veðurstofan gaf þær upplýsingar í dag, að í gær, föstudag, hafi norðaustanáttin, sem verið hefur ríkjandi í vikunni farið að vaxa og með kvöldinu hafi víða verið kominn stormur á Vestur- og Norðurlandi. Þá hafi verið snjókoma á norðanverðu landinu, en á suðurströndinni hafi verið þurrt að kalla. í nótt hafi norðaustanáttina hert enn og í morgun kl. 8 hafi verið stormur um allt land og snjókoma alls staðar, nema e.t.v. í nærsveitum Reykjavíkur og fyrir austan fjall, en þar hafi víðast hvar verið skafrenningur, svo ekki sá úr augum. Hitinn á suðaustanverðu landinu hafi verið um frostmark, en lækkað til norðverið —10 stig á Vestfjörðum. Norðan hörkustórhríð hefur verið um allt Norðurland i nótt og morgun. Á Húsavík var tæplega fært á milli húsa um hádegisbilið, að sögn fréttaritara og samkvæmt veðurskeytum er grenjandi norðanhríð um allt norðanvert landið, og skyggnið er niður í 50 metra. Bílfært var um Akureyri í morgun, en var færð farin að versna þegar líða tók á morguninn. Tveir mjólkurbílar voru komnir til Akureyrar úr Eyjafirði, en ekki búist við fleiri bílum í dag, því ófært er orðið á þeirri leið, sem þeir fóru um, aðallega er það veðurofsinn, sem veldur, þar sem ekki er orðinn mjög mikill snjór. Þá hafa nokkrar truflanir orðið á símasambandi vegna veðurofsans. Símasambandslaust er í dag við Hólmavík og Ísafjörð, en hægt hefur verið að tala við Ísafjörð með því að hafa radíósamband við Patreksfjörð og fá línu þaðan til Ísafjarðar. Þá eru einnig miklar truflanir á símasambandi mhli Húsavíkur og Akureyrar og Húsavíkur og Raufarhafnar af völdum veðurofsa og rafmagnstruflana. Símasamband er einnig mjög slæmt milli Akraness og Borgarness. Landlínan til Hafnar í Hornafirði hefur skemmst við Kvísker í Öræfum og er því ekki hægt að hafa samband við Höfn öðruvísi en þráðlaust. Að því er Tíminn hefur fregnað hjá Landsímanum, verður vart hægt að gera nokkrar ráðstafanir til úrbóta fyrr en veðrinu slotar. Miklar truflanir hafa orðið á áætlunarferðum af völdum veðurs, en sérleyfisferðir B.S.Í. hafa hætt ferðum norður og vestur á land, en aka enn austur fyrir Fjall. Ekki var ákveðið, í morgun, hvort ekið yrði í Borgarnes eða Reykholt. Í gær freistuðu nokkrar bifreiðarnar þess að komast norður, en urðu að snúa við. Bifreiðastöð Steindórs heldur enn áætlunarferðum til Keflavíkur, en ferðir til Eyrarbakka og Stokkseyrar hafa lagst niður. Innanlandsflug hefur stöðvast og er engin flugumferð í dag nema umferð Loftleiðavéla um Keflavíkurflugvöll. Flugvél F.Í. sem átti að fara utan í morgun frestaði förinni um tíma. Nokkur skip voru á sjó í morgun, en ekki hafði Slysavarnafélaginu borist nein beiðni um aðstoð um hádegi í dag.

GÞE—Reykjavík, laugardag. Hin nýja bygging fyrirtækisins Bræðurnir Ormsson varð fyrir skemmdum í fárviðrinu í dag. Fyrirtækið var flutt í hluta byggingarinnar, en hinn hlutinn var aðeins fokheldur og hefur vinna staðið þar yfir að undanförnu. Heill veggur af þeim hluta hússins, sem ófullgerður var, hrundi gersamlega, og annar var og fyrir miklum skemmdum. Ekki var vitað fyllilega um tjónið, þegar blaðið fór í prentun, en áætlað er, að það hafi numið hundruðum þúsunda króna. Fleiri mannvirki urðu fyrir tjóni, af völdum fárviðrisins. Af húsi Heildverslunarinnar Heklu að Laugavegi 172 fauk þakið i heilu lagi, hafnaði það úti í porti bak við húsið, og voru þar fyrir margir nýir bílar, sem efalaust hafa orðið fyrir miklum skemmdum af þessum sökum. Lögreglan hafði svo mikið að gera að hún gat ómögulega annað eftirspurn. Sífellt var verið að hringja og tilkynna tjón á mönnum og mannvirkjum, þakplötur fuku af húsum víðsvegar um bæinn, m.a. af Landssmiðjuhúsinu, Hafnarhvoli, og nýja húsi Verzlunarsambandsins, voru vinnuflokkar að störfum um allan bæ við að bjarga því sem bjargað varð. Úti á Reykjavíkurflugvelli fuku tvær litlar flugvélar á hvolf, önnur þeirra var gamla katalínuvél Landhelgisgæslunnar, en báðar vélarnar voru orðnar gamlar og úr sér gengnar, svo að þetta var í sjálfu sér ekkert tilfinnanlegt tjón. Slys á mönnum urðu nokkur, og voru læknar Slysavarðstofunnar önnum kafnir við að gera að meiðslum manna. Einn maður mun hafa dottið og hlotið afar slæmt fótbrot, en önnur slys voru smávægilegri. Skömmu eftir hádegi í dag var lögreglunni tilkynnt um það, að hluti af þaki Vélsmiðjunnar Héðins hefði fokið af. Var mjög erfitt að annast nauðsynlegustu lagfæringar vegna veðurofsans. Þá fuku tveir ljósastaurar innarlega á Laugarvegi og símastaur Hreyfils við Miklatorg fauk um koll.

Svo komu fréttir utan af landi. Tíminn 1.febrúar:

SJ-Patreksfirði, IGÞ-Reykjavík, mánudag. Svo virðist sem óveður það sem gekk yfir mestan hluta landsins um helgina, hafi orðið einna harðast á Patreksfirði og nærliggjandi byggðum. Að vísu var símasambandslaust við Rauðasand og Barðaströnd í dag, en þeir, sem hafa átt leið um þessar sveitir, segja þær fréttir, að þar hafi orðið miklir skaðar vegna ofviðrisins. Í Rauðasandshreppi gerðust þau tíðindi, að miklar skemmdir urðu á bænum Stökkum, sem er í eyði. Að Gröf fauk þakið af hlöðu og rúður brotnuðu í íbúðarhúsinu. Þorvaldur Bjarnason bóndi í Gröf, fauk sjálfur og síðubrotnaði, þegar hann var að reyna að bjarga þakinu. Í Saurbæ, en þar er ekki búið, brotnuðu allar rúður og miklar skemmdir urðu á húsinu. Gamla timburkirkjan í Saurbæ, sem var bundin niður með vírstögum, fauk á hliðina og er nú brak eitt. í Kirkjuhvammi fauk þak af hlöðu og á Móbergi fauk þak af fjóshlöðu og fjósi og járn af einni hlið íbúðarhússins Þar brotnaði einnig mikið af rúðum. Rifnaði auk þess veggfóður af veggjum og loft í herbergjum rifnuðu. Ríkir hálfgert neyðarástand á bænum vegna skemmda á íveruhúsinu. Þá gerðist það nálægt Fossi á laugardagskvöldið, að jeppi fauk af veginum. Í honum var Benedikt Benediktsson og piltur með honum. Þeir sluppu ómeiddir frá jeppanum,  þegar hann fauk, en veðrið þeytti honum margar veltur. En á leið til bæjar fauk pilturinn og handleggsbrotnaði. Á Fossi fauk þak af nýbyggðu fjárhúsi og fjárhúshlöðu. Í Litlu-Hlíð, fór þak af húsum og rúður brotnuðu og einnig fauk þak af geymsluhúsi þar á staðnum. Enginn er í Litlu-Hlíð um þessar mundir.

Hreinasta fárviðri skall yfir á Patreksfirði um hádegið á laugardag [29.]. Var vindur norðlægur fram á kvöldið, en snerist þá til suðaustan áttar, og versnaði veðrið þá til muna. Upp úr klukkan 7 síðdegis á laugardag fór að bera á rafmagnstruflunum og var um að kenna skemmdum á loftlínum sem flytja rafmagn til innsta hluta kauptúnsins. Rafmagnslaust varð svo með öllu kl.11 um kvöldið, en unnið var að viðgerðum, þótt illt væri vegna veðurofsans. Miklar skemmdir urðu á húsum og mannvirkjum vegna ofviðrisins. Þak tók af í heilu lagi af stórhýsi á Sveinseyri, járnplötur rifnuðu af skreiðargeymslu á lóð frystihússins og hurðir fuku af sama húsi og fiskmóttöku frystihússins. Járn fauk af hálfu þaki vélsmiðjunnar Loga og hálfu þaki íbúðarhússins Hliðskjálf. Nokkuð fauk af þaki fiskverkunarhúss Fiskivers HF. Þá fauk þak af gamalli geymsluskemmu á Vatneyri og lagðist húsið alveg saman og er ónýtt. Víða annars staðar í kauptúninu hefur orðið tjón á húsum, járnplötur losnað og gluggar brotnað. Í gærmorgun lá togarinn Gylfi úti á skipalegunni, en hefur nú skipið rekið langt út á fjörð. Veðurofsann lægði talsvert síðdegis í gær, en úrkoma jókst að sama skapi, og geisaði mikil stórhríð. Milli fimm og sex á sunnudag ætluðu tveir breskir togarar að leita hér hafnar, en annar þeirra strandaði utan til í hafnarmynninu, en hann náðist síðan á flot aftur á flóði, lítið sem ekkert laskaður. Veður hefur farið batnandi, í 5—7 vindstig, rafmagnið er komið í lag, en símasambandslaust er enn við allan Rauðasandshrepp. Fólk þurfti að flytja úr húsum vegna gluggabrota, og segja má að hálfgert neyðarástand hafi ríkt í þorpinu um helgina. Frost var 5—7 stig á laugardag, en í gær var frostlaust og nokkur skafhríð.

SJ—Reykjavík, mánudag. Fimm mínútur fyrir kl. átta á laugardagskvöld varð skammhlaup í mælaspennum í toppstöðinni við Elliðaár og við það hvarf allt rafmagn á svæði Sogsvirkjunarinnar. Að klukkutíma liðnum var viðgerð lokið og rafmagni aftur hleypt á. Blaðið hafði samband við Ingólf Ágústsson, rekstrarstjóra hjá Landsvirkjuninni, og sagði hann, að ástæða bilunarinnar hefði verið sú, að selta og snjór hefðu hlaðist á einangrarana og á þeim myndast leiðandi lag, sem olli skammhlaupinu. Á einöngrurunum hvíldi 33 þús. volta spenna og urðu þeir gjörónýtir við skammhlaupið, en ekki er hægt að segja að tjónið hafi orðið verulegt. Við skammhlaupið kom gífurlegur blossi, sem lýsti upp allt nágrennið. í fyrstu yfirferð var ekki hægt að sjá neinar alvarlegar skemmdir og var þá hætt á að hleypa straum aftur á kerið, en á meðan voru allir starfsmennirnir látnir standa í skjóli. Við allra hagstæðustu skilyrði tekur viðgerð eins og þessi um hálfa klukkustund, og má segja að viðgerðin nú hafi ekki tekið langan tíma miðað við ríkjandi skilyrði. Atburður sem þessi hefur áður gerst; um tvö ár eru nú liðin frá því að rafmagn fór af öllu orkuveitusvæðinu. Um leið og rafmagn hverfur er haft samband við ákveðna aðila sem eiga mest á hættu vegna rafmagnsleysis. Ingólfur sagði, að þeir hefðu alltaf mestar áhyggjur af sjúkrahúsunum, en þau eru nú mörg komin með einhvers konar varaafl. Fjarskiptastöðvarnar á Rjúpnahæð og í Gufunesi hafa báðar varastöðvar og á Keflavíkurflugvelli er einnig varastöð, þannig að flugumferð truflast ekki þótt rafmagn hverfi. Hægt er að fyrirbyggja skammhlaup með því að sprauta vatni á einangrarana og þvo seltuna þannig af.

SJ—Reykjavík, mánudag. Undarleg tilfinning hlýtur að hafa gripið um sig hjá mörgum þegar Reykjavík og nágrenni myrkvaðist gjörsamlega s.l. laugardagskvöld. Leigubílstjóri á Hreyfli var að snúa við á hlaðinu hjá toppstöðinni við Elliðaárnar þegar skammhlaupið varð og gífurlegur blossi blindaði hann. Hann sagði, að það hefði verið undarleg tilfinning að sjá fyrst þennan mikla glampa og síðan öll ljós borgarinnar hverfa. „Mér kom ekki annað til hugar en að allir starfsmennirnir í toppstöðinni væru liðin lík — þetta var furðuleg sjón,“

GÓ—Stóra-Hofi, mánudag. Á laugardagsmorgun varð það slys að Sandlæk, þegar Sigurður Loftsson ætlaði að fara að flytja mjólkina á dráttarvél, að kerran, sem aftan í var lyftist upp og yfir dráttarvélina, og Sigurð, sem sat í ökusætinu. Svo heppilega vildi til, að þetta sást strax svo hjálp kom strax af næsta bæ, til að ná kerrunni ofan af Sigurði. Grímur læknir í Laugarási kom von bráðar og sjúkrabíll frá Selfossi, sem flutti hann samstundis á Selfossspítala, en þar sem meiðslin voru mjög alvarleg var hann fluttur til Reykjavíkur um kvöldið. Liggur hann nú í Landakoti i gipsi, en hryggurinn var brotinn og eitthvað meira hrákaður Sigurður Loftsson er yngsti búandinn á Sandlæk, auk hans búa þar Erlingur bróðir hans og faðir þeirra bræðra Loftur Loftsson. Sama dag kviknaði í út frá olíukyndingu í Minni-Mástungu. Þar búa ein hjón. Símað, var strax á næstu bæi, og dreif fólk að, en hjónin voru búin að slökkva þegar hjálp kom. Sandhrúga var við húsið, og notuðu þau sandinn til að kæfa eldinn. Hey hafa fokið á nokkrum bæjum, en ekki er vitað um teljandi tjón á húsum. Hér hefur geisað fárviðri undanfarin dægur, sérstaklega i gær sunnudag, en nú heldur að draga niður, en frostið herðir núna aftur.

KT-GÞE-FB-Reykjavík, mánudag. Eins og kunnugt er gekk stórviðri um mestan hluta landsins nú um helgina. Veður þetta hófst vestan lands og norðan á föstudag, en breiddi síðan úr sér, uns á sunnudag, að svo mátti heita, að það næði um allt land. Þó mátti heita næstum góðviðri þennan tíma frá Eyjafjöllum að Hornafirði. Hefur þó oft verið annað um þetta svæði sagt en að þar væri góðviðrasamt. Veðrið virðist hafa verið nokkuð jafnvont þar sem það geisaði, og af veðursvæðinu er alls staðar þá sömu sögu að segja, að rúður brotnuðu og þök fuku af húsum. Hafa svo almennir og miklir skaðar af veðri ekki orðið hér á landi í manna minnum. Gamlir menn á Vestfjörðum segja, að þar hafi veðrið jafnast á við togarabylinn 1925.

Milljónaverðmæti fóru í súginn í fárviðrinu í Reykjavík um helgina. Þakplötur losnuðu af húsum og fuku eins og skæðadrífa um nærliggjandi götur, þakið af húsi á versluninni Heklu fauk af í heilu lagi, ljósastaurar skekktust og fóru um koll, vinnuskúr í Árbæjarhverfi fauk, auglýsingaskilti féllu niður og brotnuðu, togarar losnuðu, og svo mætti lengi telja. Frá laugardagsmorgni og fram á sunnudag stansaði ekki síminn hjá lögreglunni. Fólk, alls staðar úr bænum, tilkynnti margvíslegt tjón og bað um aðstoð frá lögreglunni, sem vitanlega reyndi að aðstoða eftir megni. Fyrir hádegi á laugardag urðu miklar skemmdir víðs vegar um bæinn, miklar skemmdir urðu á nýbyggingu fyrirtækisins Bræðurnir Ormsson að Lágmúla 9, eins og fram kom í blaðinu á sunnudaginn. Að sögn forstjóra fyrirtækisins urðu skemmdirnar þó minni en á horfðist í fyrstu, vinnupallar frá háhýsinu féllu niður á útbygginguna, sem fullgerð vár, og brotnuðu þar um 15 glerrúður af þess sökum. Þakplötur losnuðu í stórum stíl af jafnt stórum byggingum sem smáum, þök Landsmiðjunnar, vélsmiðjunnar Héðins og Hafnarhvols löskuðust mjög, og rétt upp úr hádegi tók þakið af heildversluninni Heklu, í heilu lagi og hafnaði það úti í porti. Til allrar hamingju voru engir bílar úti í portinu, hafði þeim verið bjargað inn á elleftu stundu. Þakið var bráðabirgðaþak, og undir því var steypt plata. Er þakið talsvert skemmt, en álitið er þó, að það verði komið á fyrir helgi. Við höfnina urðu miklir skaðar, festar varðskipsins Óðins slitnuðu og byrjaði skipið að reka frá, en dráttarbátur kom því til hjálpar, og sama máli gegndi um togarann Hauk. Togarinn Sólborg, sem legið hefur við Viðeyjarsund, losnaði og rak á land við Klepp, þótt undarlegt megi virðast varð skipið ekki fyrir hinum minnstu skemmdum og verður leikur einn að ná því út aftur að sögn forstjóra Almennra trygginga, en þar er skipið tryggt. Erfitt var að aka um bæinn af völdum sjávarseltu, er settist á rúður bifreiða og fraus. Strætisvögnum gekk erfiðlega að halda uppi ferðum sínum að þessum sökum og um kl.17 á laugardag fylltist lögreglustöðin af skólabörnum, sem komust ekki heim til sín, var þeim ekið heim í lögreglubílum. Talsvert var um slys í borginni um helgina, bæði umferðarslys og svo meiðsli á fólki vegna veðurofsans. Slysavarðstofan var einatt full af fólki, sem hlotið hafði meiri eða minniháttar meiðsli. Á laugardaginn urðu mörg slys af völdum veðurofsans, en fæst þeirra voru stórvægileg. ...

Þrátt fyrir aftakaveður hafa engir teljandi skaðar orðið á Akranesi. Að vísu hefur verið nokkuð um járnplötufok, en annað ekki í frásögur færandi og engin slys hafa orðið á mönnum. Ekki er um neinar skemmdir að ræða í Borgarnesi. Áætlunarferðir hafa að mestu haldist og segja má að allt hafi verið hér með kyrrum kjörum utan rafmagnstruflana við og við. Aftakaveður hefur verið síðustu þrjá daga í Stykkishólmi og heita má, að ófært hafi verið. Áætlunarbifreið á leið til Reykjavíkur þurfti að snúa við hér á vegamótunum vegna veðurofsans. Um alvarlegar skemmdir af völdum veðurofsans er ekki vitað, en áður en veðrið gerði hafði rekið inn í höfnina ís innan af fjörðum og lágu bátarnir hreyfingarlausir í ísnum í óveðrinu. Nú hefur ísinn aukist og er að sjá sem samfellda ísbreiðu allt út til Öxneyjar. Tveir bátar reru héðan kvöldið fyrir óveðrið. Annar þeirra varð fyrir rafmagnstruflun, og hélt til Grundarfjarðar, en hinn var staddur suð-vestur af Snæfellsnesi, en vegna óveðursins sigldi hann til Reykjavíkur. Póstbáturinn frá Flateyri átti að koma til Stykkishólms á föstudagskvöld, en er ekki kominn enn.

Fréttaritari Tímans í Staðarsveit á Snæfellsnesi skýrði svo frá í dag; S.l. þrjá sólarhringa hefur verið hér ofsaveður með snjókomu. Náði veðrið hámarki á laugardag og aðfaranótt sunnudags. Tjón varð mikið í veðri þessu. Tilfinnanlegast varð tjón bóndans í Lýsudal. Þar fuku nýbyggð 300 kinda fjárhús til grunna. Fénu tókst að bjarga inn í viðbyggða hlöðu og í gegnum hana í fjós sambyggt hlöðunni. Þá fauk þak af íbúðarhúsi í Böðvarsholti og nokkur hluti þaks af íbúðarhúsi í Vatnsholti. Einnig fuku 10—15 plötur af nýlegri viðbyggingu við Hótel Búðir. Ennfremur fuku þök af heyhlöðum í Ytri-Görðum, Hoftúnum og Kirkjuhóli. Auk þess urðu minniháttar skemmdir og tjón á mörgum bæjum. Sem betur fór varð ekkert manntjón í veðri þessu, sem telja verður mikið lán, þar sem menn voru tíðum úti í ofviðrinu til þess að bjarga eigum sínum og forða tjóni. Minnstu munaði að slys yrði, þegar bíll fauk út af veginum á Garðaholti, sem er vestast í Staðarsveit. Atvik voru þau, að síðdegis á laugardag voru þrír bílar á leið suður Staðarsveit. Þegar kom nokkuð austur fyrir bæinn Vallholt urðu bílarnir að nema staðar vegna veðurofsans. Einn þessara bila var vörubíll úr Reykjavík. Fór bílstjórinn úr honum í annan hinna til að ráðgast um hvað gera skyldi. Rétt í því bili tókst vörubíllinn á loft og fauk marga metra og valt síðan og klesstist saman. Er hann ónýtur. Mennirnir urðu síðan að halda sig í hinum bílunum tveimur alla nóttina og fram til hádegis, er þeir náðu til bæja. Síðdegis á laugardag bilaði háspennulínan frá Fossárvirkjun. Hefur síðan verið rafmagnslaust á Staðarsveitarlínu og hafa orðið miklar skemmdir á miðstöðvarkerfum húsa, sem háð eru rafmagni, en það er víða. Víða hér í sveit og nágrannahreppum þaðan sem frést hefur hafa orðið miklir skaðar á heyjum, sem geymd voru úti og þar á meðal heyjum, sem biðu afhendingar til austfirskra bænda.

Talsverðar skemmdir hafa orðið í Bíldudal af völdum fáviðrisins, sem gengið hefur yfir síðan síðdegis á laugardag. Þökin af Matvælaiðjunni og Fiskiverinu fuku að mestu af, og járnplötur hafa fokið um eins og skæðadrífa. Gluggar hafa brotnað í stórum stíl vegna steinkasts. Raflínur slitnuðu svo rafmagnslaust var af og til á laugardagskvöld og fram á nótt, símalínur slitnuðu, svo að sambandslaust hefur verið og er við bæi í Suðurfjörðum. En mesta tjónið varð þó á hafskipabryggjunni, en hún stórbrotnaði og laskaðist undan vélskipinu Pétri Thorsteinssyni, sem ekki gat lagt undan vegna bilunar á stýri. Stærri bátarnir forðuðu sér í burtu og héldu þó fram á sunnudagsmorgun, rækjubátana sakaði ekki. Í gær reyndu menn að brjótast yfir fjall á jeppa, en festust í skafli. Lagði þá annar jeppi af stað til að hjálpa þeim, en festist einnig. Þriðji jeppinn kom um síðir og ók mönnunum heim aftur.

Á Þingeyri hefur verið versta veður, eins og annars staðar á Vestfjörðum og talsverð ófærð orðin á vegum. Veðrið er að lægja í dag og orðið nokkuð skaplegt. Fimm breskir togarar hafa leitað inn á Þingeyri til viðgerða o.fl. Ekkert er farið að ryðja vegi í nágrenni Þingeyrar, enga hefur Vegagerðin ekki nema eina ýtu á staðnum og hún hefur verið biluð í langan tíma. Rafmagnslaust hefur verið á Þingeyri og nærliggjandi svæðum síðan um kl. 21 laugardag. Margvíslegar truflanir hafa orðið af þessum sökum, sjálfvirkar olíukyndingar hafa orðið óvirkar og hafa margar fjölskyldur flutt sig saman til þess að geta haft afnot af kolavélum. Um 1960 flutti Rafmagnsveita ríkisins burt héðan vararafstöð og lofaði að endurbæta það, en ekki hefur orðið af því enn. Í morgun tókst loks að koma rafmagni frá Mjólkárvirkjun inn í spennistöðina á Rafnseyri. Verið er nú að senda menn með línunni frá Rafseyri til Þingeyrar til þess að kanna, hvar skemmdir hafi orðið. Í Önundarfirði eru fimm rafmagnsstaurar brotnir af völdum óveðursins, svo að Þingeyringar geta ekki fengið rafmagn þaðan. Hins vegar hefur kaupfélagið hlaupið undir bagga og leyft Þingeyringum afnot af rafmagnsmótor fiskimjölsverksmiðjunnar. Í ofviðrinu fauk bensínsöluskúr á Rafnseyri. Stóð hann við Shelltank, og fauk á haf út, bókstaflega talað. Í sambandi við endurreisn staðarins hafði verið komið upp vandaðri girðingu í vor, en skúrinn tók hana með sér í fluginu. Nokkuð af smurolíu var geymt í skúmum. Þá mun tankurinn eitthvað hafa skemmst við þetta. Í ólátunum opnuðust kirkjudyrnar og talsverður snjór komst inn í kirkjuna. Þá fauk þarna þak af kindakofa, þar sem hýstar voru ellefu kindur, en þær hefur ekki sakað svo séð verði.

Skemmdir hafa ekki orðið miklar á Flateyri í þessu fárviðri, sem geisað hefur, síðan síðdegis á laugardag. Á Ingjaldssandi hafa mann virki orðið harðar úti, mikill hluti þaksins á íbúðarhúsinu að Brekku tók af og eins fór hluti af hlöðuþaki af á Hrauni. Símasamband hefur rofnað við neðstu bæina við Sandinn, en að öðru leyti hefur síminn verið í lagi. Lítilsháttar skemmdir urðu í Bjarnadal, og útihús á Tröð urðu nokkuð illa úti.  Rafmagnsstaurar eru víða brotnir úti í sveitum, og ekki er hægt að aka inn í Bjarnadal fyrir brotnum símastaurum. Hér í þorpinu hefur þó verið allt í lagi með rafmagnið, enda er hér góð dieselvarastöð svo til ný.

Frá Ísafirði bárust þessar fréttir: Enski togarinn St. Agnetus frá Hull fékk í gær á sig brotsjó 2 mílur undan Ritnum og fór á hliðina. Togarinn Port Vale frá Grimsby var staddur þar skammt frá og sigldi að til að taka mennina frá Agnetus um borð. Í sama mund fór Agnetus að rétta sig við og rakst þá stefni Port Vale í hvalbak Agnetus og kom gat á skipið rétt ofan við akkerisgötin. Agnetus réttist brátt við, og þegar hún var komin á réttan Kjöl, fór einn hásetanna út til að athuga ratsjána. Fauk hann fyrir borð og fannst ekki. Agnetus er nú í höfn á ísafirði, en ókyrrð er í áhöfninni og vilja margir skipverja fara af skipinu hér. Þrátt fyrir ofsaveður hafa ekki orðið hér teljandi skaðar, utan þess, sem rafmagns- og símalínur hafa víða slitnað. Rafmagnslaust var í gær og í dag víða hér í grennd, svo sem á Skutulsfirði og í Hnífsdal.

Á Hvammstanga urðu litlar sem engar skemmdir af veðurofsanum, aðeins nokkrar járnplötur fuku þar af húsum. Mjög hvasst var í mestu hryðjunum, en lítinn snjó hefur fest á jörð. Á Blönduósi hefur verið versta veður, sem menn muna síðustu dagana, en í kvöld var komið logn og orðið stjörnubjart. Engir skaðar hafa orðið á húsum eða öðrum mannvirkjum, að því undanskildu, að fáeinar plötur hafa fokið af húsþökum. Snjór er mikill, hefur hann skafið saman í stóra skafla, og er ófærð mikil í Langadal. Mikið tjón varð á Skagaströnd í óveðrinu, og muna menn ekki annan eins veðurofsa frá því árið 1920. Tuttugu og tveggja tonna bátur, Stígandi sökk í höfninni. Svo mikill ís hlóðst á bátinn, að ekki hafðist undan að berja hann af. Fór báturinn á hliðina og sökk síðan. Miklir erfiðleikar voru á að halda öðrum bátum á floti í í höfninni og munu nokkrar skemmdir hafa orðið sumum þeirra. Þak fauk af húsinu Skálholti á Skagaströnd, en þar að auki fauk mikið af þakplötum af öðrum húsum, og hús löskuðust. Rúður brotnuðu í mjölskemmu og verksmiðjuhúsi síldarverksmiðjunnar á staðnum, og tvær rúður brotnuðu í útibúi kaupfélagsins. Snjóaði þar inn og einnig mun eitthvað af vörum hafa fokið út. Allar rafmagnslínur slitnuðu og einnig loftsímalínur, og er nú sambandslaust við öll þau hús á staðnum. sem ekki eru með jarðsímasamband. Heyskaðar hafa orðið nokkrir í þessu óveðri. Mjólkurlaust hefur verið á Skagaströnd frá því á fimmtudaginn, en mjólk fá þorpsbúar bæði úr sveitum í kring og frá Blönduósi, en ekki verið talið fært að ná í mjólk.

Á Sauðárkróki var nokkuð hvasst um helgina, en þar hefur ekki orðið tjón á mannvirkjun svo vitað sé. Á laugardaginn varð veðurhæðin mest, um 10 vindstig. Í Blönduhlíð var ofsarok, þak fauk af hlöðu á Úlfsstöðum og plötur af hlöðuþaki að Sólheimagerði. Engar skemmdir urðu á Hófsósi í óveðrinu. Mikill snjór er þar í kring, og vegir ófærir eins og er. Íbúðarhúsið á Reykjarhóli í Holtshreppi í Fljótum gjöreyðilagðist í óveðrinu. Fólkið á bænum komst út og varð ekki fyrir neinum meiðslum, en talið er að húsið sé gjörónýtt. Stórfelldar skemmdir urðu í óveðrinu hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins á Siglufirði. Meðal annars lagðist einn veggur Dr. Páls verksmiðjunnar alveg inn og er nú verið að kanna, hve miklar skemmdir hafa orðið af þessum sökum, er þegar talið að skemmdirnar nemi hundrað þúsund króna. Auk þess sem veggurinn hrundi, fauk mikið járn af þökum hjá síldarverksmiðjunum og sömuleiðis af mörgum húsum öðrum á Siglufirði. Til dæmis fauk allt þakið af nokkurra mánaða gömlu íbúðarhúsi við Laugarveg, og einnig fauk þakið af húsi, sem stendur niður á hafnarbryggju. Rafmagn fór i óveðrinu, en fyrir nokkru hefur verið komið upp dieselstöð á Siglufirði, og hafa Siglfirðingar því ekki þurft að hýrast í myrkri í þessu mikla óveðri. Fréttaritari blaðsins hefur búið á Siglufirði frá því árið 1934 og man hann aldrei eftir öðru eins veðri í allan þann tíma, sem hann hefur verið þar.

Á Ólafsfirði hefur geisað linnulaus norðaustan stórhríð frá því aðfaranótt föstudags með miklum veðurofsa og snjókomu. Allar samgöngur tepptust þegar í stað, og hafa bændur ekki getað komið mjólkinni frá sér nema af næstu bæjum. Strax á föstudag var komið hér foráttu brim, og komst því flóabáturinn Drangur ekki inn á fjörðinn, en náði höfn á Siglufirði. Til allrar hamingju voru allir heimabátar í höfn, er óveðrið skall á, en sjómenn hafa orðið að standa vörð um þá dag og nótt, ef þeir slitu af sér bönd í veðurofsanum. Eftir hádegi á laugardag fór heldur að draga úr snjókomu og frosti, en veðurhæðin var síst minni, og náði hámarki á laugardagskvöld og hélst allt fram á sunnudag. Allar símalínur og raflínur voru orðnar útblásnar af ísingu seint á laugardaginn, mátti því búast við að línur og staurar brystu þá og þegar, ef veðurofsann lægði ekki. Klukkan 22:30 á laugardagskvöld fór allt rafmagn af bænum, og kom ekki aftur fyrr kl. 10 á sunnudagsmorgun. Kom þá í ljós að háspennulínan frá Garðsárvirkjun hafði slitnað niður á löngum parti og að minnsta kosti 13 staurar brotnað. Enn fremur slitnuðu niður allar loftlínur í bænum, og staurar brotnuðu og eru því sum hverfi alveg rafmagnslaus. Aðalháspennulínan frá Skeiðsfossvirkjun hefir þraukað ennþá, en sumstaðar slitnað niður á þverlínum heim að bæjunum. Þá hafa símalínur viða slitnað og samband rofnað. Flest loftnet í bænum eru slitin niður eða stórlöskuð. Storminn fór heldur að lægja í morgun, og víða sér til fjalla.

Síðan á föstudag hefur verið norðan og austanstætt stórviðri á Akureyri. Á miðnætti á laugardag herti veðrið enn og geisaði um nóttina og fram yfir hádegi á sunnudag afspyrnu rok með ofanhríð og skafrenningi. Frostharka var ekki mikil, en samt muna menn ekki annað eins vetrarveður í mörg ár. Miklar umferðartruflanir og skemmdir urðu af völdum veðursins. Samkvæmt upplýsingum Gísla Ólafssonar yfirlögregluþjóns átti lögreglan mjög annríkt að sinna hjálparbeiðnum. Fólk átti í erfiðleikum með að komast leiðar sinnar. Á sunnudag aðstoðaði snjóbíll fólk í ferðum innanbæjar og í nágrenni. Þakplötur fuku af fimm til sex húsum. Af Gagnfræðaskóla Akureyrar fuku 70 til 80 þakplötur. Dreifðust þær um allt umhverfið, brutu rúður, og löskuðu bifreið, sem stóð þar nálægt. Á húsinu Munkaþverárstræti 8 stóðu sperrurnar einar eftir af kvisti að austanverðu. Brak úr þakinu laskaði 3 bíla, sem stóðu á stæðinu við húsið og einn þeirra, nýleg Opelbifreið stórskemmdist. Einnig fuku hlutar úr þakinu yfir í Hafnarstræti og brutu þar rúður í nærliggjandi húsum. Mestar urðu skemmdirnar á Amtsbókasafninu, Hafnarstræti 88, og versluninni Eyjafirði. Í dag er verið að hreinsa brakið af lóð POB og nærliggjandi götum. Slökkviliðið var kvatt út laust fyrir klukkan 7 á sunnudagsmorgun. Var þá veðurhæð 7—9 vindstig. Kviknað hafði í íbúðarbragga á Gleráreyrum 6, sem er í eigu bæjarins. Slökkviliðið átti í erfiðleikum að komast á staðinn og gat lítið athafnað sig vegna veðurs. Eldurinn magnaðist fljótt, og varð ekkert við ráðið, þó tókst að koma lítill dælu í samband við Glerána, en annars var ekkert vatn að fá. Í bragganum bjuggu tvær fjölskyldur, alls 15 manns. Bjargaðist fólkið naumlega og sumt fáklætt. Búslóðin brann öll inni, en þó tókst að bjarga einhverjum fatnaði. Um eldsupptök er ókunnugt. Ekki var slökkviliðið kallað út aftur meðan á óveðrinu stóð og var það vel, þar sem nær ófært var um bæinn.

Þorsteinn Stefánsson hafnarvörður sagði að þrátt fyrir afspyrnuveður og mikið öldurót við höfnina, hefðu þar ekki orðið miklar skemmdir. Snæfellið losnaði að vísu frá að nokkru leyti og braut hekkið á mótorbátnum Verði. Áttu menn í nokkrum erfiðleikum með að binda skipið aftur, sökum þess, að sjórinn gekk án afláts fyrir bryggjuna þótt lágsjávað væri. Fimm breskir togarar tíndust inn til Akureyrar á laugar- og sunnudag til þess að liggja af sér veðrið. Tveir þeirra höfðu fengið á sig hnút. Togarinn Northern Eagle frá Grimsby var með ónýta radarstöng og laskaðan brúarvæng eftir brotsjó. Lifeguard frá Grimsby fékk einnig á sig hnút og brotnuðu báðir lífbátarnir. Togararnir voru að búast til brottfarar í dag. Samkvæmt upplýsingum Ingólfs Árnasonar, rafveitustjóra Eyjafjarðarveitu, urðu skemmdir furðulitlar á svæðinu. Þakkaði hann það aðallega því, hve ísmyndun var lítil. Þó var rafmagnslaust við Eyjafjörð norðan Hjalteyrar þar með talin Hrísey, Dalvík og Grímsey.

Háspennulínan í Grímsey slitnaði en ekki er hægt að fá upplýsingar þaðan sökum sambandsleysis. Gunnar Schram símstöðvarstjóri sagði, að sambandið við eftirtalda staði hefði rofnað í veðrinu: Raufarhöfn, Ólafsfjörð, línan til Siglufjarðar slitnaði og hlaða a Grýtubakka í Höfðahverfi fauk upp og sleit símalínuna, og því er sambandslaust til Grenivíkur. Einnig bilaði línan milli Akureyrar og Reykjavíkur og smátruflanir urðu á innanbæjarkerfinu. Fyrst dag var nægt að senda vinnuflokka til viðgerðar og er unnið af kappi við viðgerðirnar. Guðmundur Benediktsson, vegaverkstjóri, upplýsti, að allir vegir út frá Akureyri væru lokaðir, en snemma í morgun höfðu ýtur frá vegagerðinni aðstoðað mjólkurbíla úr hinum ýmsu hreppum í Eyjafirði. Vegurinn er ekki ýttur, heldur tróðu ýturnar slóð og draga bílana yfir verstu torfærurnar. Nóg mjólk hefur borist til bæjarins. Verkstjóri rafveitunnar sagði, að bilanir hefðu orðið fyrir ofan Akureyri. Einnig urðu smátruflanir í bænum, en enginn vatnsskortur er í Laxá, og þurfa bæjarbúar engu að kvíða. Ekki er vitað um nein slys á mönnum í þessum náttúruhamförum.

Á Húsavík hefur verið stórhríð og norðaustan hvassviðri frá því á föstudag og þangað til seinni partinn í nótt. Miklum snjó kyngdi niður í bænum, og skaflar eru orðnir 4 metra háir. Skemmdir hafa ekki orðið verulegar á Húsavík, að því undanskildu, að nokkrar járnplötur fuku af húsi sem er þar í smíðum. Í dag er stillt veður og úrkomulaust. Hafa menn verið að moka frá húsum sínum, en víða var svo skafið að húsdyrum, að fólk varð að setja stóla við dyr, til þess að geta klifrað upp á skaflana úti fyrir, eftir að dyr höfðu verið opnaðar

Veður var vont á Kópaskeri eins og annars staðar norðanlands um helgina, en ekki hefur frést um neinar skemmdir á mannvirkjum né heyskaða í sveitunum þar í kring. Mikill snjór er og stórir skaflar eru á vegum, svo ófærð er mikil. Rafmagn fór af um stund á Kópaskeri, en þar era vararafstöð, svo rafmagnsleysið stóð ekki lengi. Undir venjulegum kringumstæðum fá Kópaskersbúar rafmagn frá Raufarhöfn, en ekki hefur enn verið athugað, hvar línan er biluð á milli þessara tveggja staða.

Á Stöðvarfirði var slæmt veður og brotnuðu nokkrir rafmagnsstaurar af þess völdum. Hefur því verið rafmagnslaust þar, en hægt var að fá rafmagn í nokkur hús í gærkvöld. Einhverjar bilanir munu vera á háspennulinu frá Fáskrúðsfirði. Mikið hefur snjóað á Stöðvarfirði og er allt ófært.

Á Breiðdalsvík urðu litlar skemmdir af völdum veðurs um helgina. Járnplötur fuku af einu húsi og nokkrar rúður hafa brotnað. Þá hafa nokkrar truflanir orðið á rafmagni.

Engar skemmdir eða slys urðu af völdum veðurs í Höfn í Hornafirði um helgina, en veður var þar ekki mjög slæmt. Lítill snjór er nú þar, og fært um allar sveitir milli Jökulsár á Breiðamerkursandi og Lónsheiðar. Í Öræfum var ekki mjög slæmt veður um helgina og eru allir vegir þar færir. Undir Eyjafjöllum hefur veður verið furðulega gott að undanförnu, ef miðað er við aðra landshluta. Snjólítið er að auki og færð með besta móti. Þá hefur verið nokkuð heitt á þessum slóðum, 2—4 stiga hiti. Á Hvolsvelli var ekki mjög slæmt veður og svo að segja lygnt niðri við sjó í Landeyjum. Þá var ekki mikið veður í Fljótshlíð. Ekki er kunnugt um neitt tjón eða slys á þessum slóðum. Vestmannaeyingar sluppu öðrum betur frá óveðrinu um helgina en þar hefur verið lítið veður. Nokkuð hefur kólnað í dag og er þar nú talsvert um brim.

Á Eyrarbakka hafa engar teljandi skemmdir orðið á verðmætum af völdum veðurs, en afspyrnurok hefur verið um helgina og eru allir vegir ófærir. Gríðarstórir skaflar hafa myndast í kringum hús, allt að 4—5 metra háir. Ýtur höfðu í dag lagt af stað frá Selfossi til að ryðja veginn, en einnig á honum höfðu geysiháir skaflar myndast. Muna menn ekki annað eins veður í 20 ár. Í Þorlákshöfn hefur ekki verið mjög slæmt veður um helgina. Þó fóru tveir bátar til Grindavíkur, og biðu þar af sér veðrið. Vegna vindáttarinnar var fremur sjólítið á Þorlákshöfn, en ófært um allt, þar til kl. 15 í dag er veghefill opnaði veginn.

Í Keflavík var versta veður um helgina. Sjór gekk óbrotinn yfir hafnargarðinn og reyndist mönnum erfitt að huga að skipum, við hann lágu. Engin slys urðu á mönnum og engar skemmdir á verðmætum af völdum veðurs og var engum skemmtunum aflýst. Á laugardag hélt kvenfélag staðarins Þorrablót, en í þann mund sem hófið átti að hefjast, fór rafmagnið. Létu menn það ekki á sig fá, og neyttu matarins við kertaljós uns rafmagnið komst á að tveimur tímum liðnum.

Mikið hefur verið um símabilanir vegna óveðursins. Í dag var ekki hægt að ná sambandi við Hólmavík, og erfiðlega gekk að ná til Ólafsvíkur og Hellissands. Þá var biluð lína milli Húsavíkur og Raufarhafnar, sennilega einhvers staðar á Sléttu. Bilun var á Fjarðarheiði, þannig að ekki var hægt að hringja til Seyðisfjarðar, og einnig var linan utan við Stöðvarfjörð slitin, og náðist ekki samband við firðina þar fyrir norðan.

Enn eru fréttir af illviðrinu í Tímanum 2.febrúar:

KT—Reykjavík, þriðjudag. Tíminn hafði i dag samband við nokkur tryggingafélög í Reykjavík til að grennslast fyrir um, hver þyrfti að bera þau tjón. sem orðið hafa á verðmætum af völd um óveðursins, sem geisað hefur um landið að undanförnu. Það kom í ljós, að hér er um mikið vafaatriði að ræða, og ef þak fýkur af húsi og eyðileggur verðmæti í fallinu, er ekki víst, að húseigandi geti talist ábyrgur, og þess vegna ekki tryggingarfélag hans. Er Tíminn hafði í dag samband við deildarstjóra hjá Almennum Tryggingum, Samvinnutryggingum og Sjóvátryggingafélagi íslands, kom það í ljós, að bifreiðaeigendur þeir, sem orðið hafa illa úti vegna óveðursins um s.l. helgi eiga yfirleitt ekki kröfu á hendur tryggingafélögum sínum af þeim völdum. Undantekning er þó ef bifreið fýkur út af vegi og veltur en yfir það tjón myndi kaskótrygging ná. Talsvert öðru máli gegnir um þær bifreiðar sem verða undir þökum húsa, eins og komið hefur fyrir um helgina. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu bifreiðaeigendur kröfu á hendur húseigendum, en húseigendur kröfu á hendur tryggingafélagi, ef hús væri tryggt gegn slíku tjóni. (Ábyrgðartrygging húseigenda). Í tilvikum eins og um síðustu helgi þykir tryggingafélögunum hins vegar málin ekki liggja eins beint við og ella. Ber þeim saman um að í undantekningartilvikum, eins og t.d. í óveðrinu nú um helgina verði það mikið vafamál hvort hægt sé að telja húseigendur ábyrga fyrir tjónum, sem verða af völdum slíks veðurs svo framarlega sem þökin fullnægja reglum um frágang. Gátu deildarstjórarnir þess að þess væru dæmi frá öðrum Norðurlöndum, að fyrir rétti hefðu gengið sýknudómar í málum gegn húseigendum vegna tjóns, sem hús þeirra hafa valdið í ofsaveðrum. Aðspurðir sögðu áðurnefndir aðilar, að því miður væri ekki nógu algengt, að húseigendur tryggðu hús sín með ábyrgðartryggingu. Þess má að lokum geta, að ef til þess kæmi að gengið yrði að húseigendum. er ekki víst, að þeir yrðu dæmdir skaðabótaskyldir gagnvart tjónþolum vegna áðurnefndra tjóna.

FB-Reykjavík, þriðjudag. í óveðrinu á laugardaginn lenti snjóflóð á íbúðarhúsinu að Reykjarhóli i Fljótum. eins og skýrt var frá í blaðinu í dag. Við höfðum samband við Alfreð Jónsson bónda og fengum hann til þess að segja okkur nánar frá snjóflóðinu, og sagði hann þá meðal annars, að þetta mundi vera í annað sinn, sem snjóflóð lenti á bæjarhúsinu að Reykjarhóli, en í annálum segir að snjóflóð hafi fallið þarna árið 1662. Alfreð sagði, að snjóflóðið hefði fallið á húsið um klukkan 14. Þá hafði sonur Alfreðs tæpra sextán ára verið í fjárhúsi, sem var áfast við bæjarhúsið, og verið þar að sinna 30 kindum, sem í húsinu voru. Inni í bænum, sem var einnar hæðar hús með steyptum kjallara voru Alfreð, tengdamóðir hans og sjö ára barn hans. Vissu þau ekki fyrri til, en snjóflóð féll á húsið, tók það með sér og færði um breidd þess fram á hlaðið, þar sem það stendur nú mikið skemmt og hallast nokkuð. Kjallarinn undir húsinu fór í mask, og sagðist Alfreð vera viss um, að hefði einhver verið niðri i kjallaranum, hefði hann ekki komist lífs af. Erfiðlega gekk fyrir þau þrjú sem í húsinu voru að komast út úr því, þar sem allt lauslegt hafði færst úr stað og lent fyrir dyrum, svo illa gekk að opna þær en ekkert þeirra sakaði. Sonur Alfreðs varð ekki undir snjóflóðinu í fjárhúsinu, heldur bar það hann með sér niður á túnið, og meiddist hann ekki. Kindurnar 30 grófust í fönn, og byrjuðu þeir feðgar strax að grafa þær upp, og höfðu aðeins tvær þeirra drepist, en nokkrar voru meiddar. Harðasta stórhríð var í Fljótunum allt frá því aðfaranótt fimmtudagsins, en gömul fönn, mikið frosin var i bæjargilinu fyrir ofan Reykjarhól. Sagðist Alfreð telja, að hinn nýfallni snjór hefði runnið ofan af harðfenninu, enda hafði fannkoma verið mjög mikil og sömuleiðis mikið hvassviðri. Hæðarmismunur frá þeim stað sem snjóflóðið byrjaði og á bæjarhúsunum eru 3—400 metrar en snjóflóðið hefur farið um eins kílómetra langan veg og telur Alfreð, að það hafi verið um 200 metra breitt, þegar það féll á húsunum. Ekki er þó hægt að gera sér fulla grein fyrir breidd þess. þar sem þegar snjóaði yfir það. Jarðstykki fylgdi snjóflóðinu, sem það hefur rifið með sér einhvers staðar i gilinu. Alfreð og sonur hans fluttu konuna og barnið þegar í fjósið eftir þeim hafði tekist að komast út úr húsinu og síðan var fengin hjálp frá öðrum bæjum í nágrenninu. Við erum á hálfgerðum vergangi ennþá sagði Alfreð, en ég hef fengið loforð fyrir sumarbústað að Gilslaug, hér rétt hjá, og þar getum við verið til að byrja með. Annars er ég að fá ýtu til þess að rétta húsið við, og þá verður hægt að sjá, hvort það er mikið skemmt, eða hvort við getum búið í því í sumar. — Hérna féll snjóflóð á bæinn árið 1662, og eftir því sem ég kemst næst mun hann hafa staðið á svipuðum slóðum, og bæjarhúsið stóð nú. Þá var þetta auðvitað torfbær, og tók búrið alveg af. Þar hafði verið inni kona og barn, en náðust lifandi úr fönninni, sagði Alfreð að lokum.

Næsta illviðri gerði strax eftir mánaðamótin, en varð einna verst á Suðurlandi. Ritstjóri hungurdiska minnist þess að í því snjóaði nokkuð í Borgarnesi, en annars var veturinn þar afskaplega snjóléttur. Tíminn segir frá 3.febrúar:

KT-Reykjavík, miðvikudag. Í dag hefur geisað austanrok um allt Suðurland og hafa ýmsar truflanir orðið af þeim sökum. Mest varð veðurhæðin í Vestmannaeyjum eða um 15 vindstig. Þess má geta, að samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar teljast 12 vindstig fellibylur, þó mörkin séu ekki mjög glögg. Umferð hefur lagst niður á stórum svæðum á Suðurlandi og hafa meira að segja mjólkurbílar hætt ferðum af völdum veðurs. Á Norðurlandi hefur veðrið verið miklu skárra, 7—8 vindstig og dálítil snjókoma. Tíminn hafði i dag samband við nokkra staði á Suðurlandi til að spyrjast tíðinda af óveðrinu. Allt er nú orðið ófært aftur á Eyrarbakka, en vegir þar voru ruddir nú fyrir skemmstu. Í dag hefur verið þar versta veður og að sögn fréttaritara liggja menn þar í dvala og fara lítið út úr húsum sínum. Engir bátar eru á sjó. Frá Hvolsvelli bárust þau tíðindi í dag, að þar væri afspyrnurok. Veðrið hefur verið svo slæmt, að mjólkurflutningabifreiðar hafa beðið á Hvolsvelli í dag og ekki lagt út í veðrið. Áætlunarbifreiðin, sem gengur í Fljótshlíðina og til Reykjavíkur missti báðar framrúðurnar á leiðinni inn í Fljótshlíð. Hálfkassabíll frá Kaupfélagi Rangæinga kom í dag neðan úr Landeyjum og hafði öll málning skafist af annarri hliðinni af honum i sandstormi, sem þar geisaði. Má segja að veðrið á Hvolsvelli sé með því versta, sem þar hefur komið. Þá var mjög slæmt veður undir Eyjafjöllum, en eins og kunnugt er, eru menn þar um slóðir ýmsu vanir. Umferð hefur að mestu leyti legið þar niðri i dag og rafmagnslaust hefur verið í Skálahverfi síðan í gærkvöldi. Ofsarok hefur verið í Vík í Mýrdal síðan í gærkvöldi og hafa samgöngur legið niðri af þeim sökum í dag. Hafa mjólkurbílar meira að segja haldið kyrru fyrir, þar sem talið er gjörsamlega ófært um sandana. Í dag hefur verið mjög hvasst á Fagurhólsmýri í Öræfum, allt að 11 vindstig, en lítið hefur snjóað þar. Læknir frá Höfn í Hornafirði var i gær kvaddur á bæ einn í Öræfunum, og er þar veðurtepptur í dag. Á Hornafirði hefur verið frekar leiðinlegt veður í dag, hvasst og nokkur snjókoma og hefur veðrið hert nokkuð seinni hluta dagsins. Stapafellið kom við á Höfn til þess að landa olíu og treysti sér ekki út aftur vegna veðurs. Vegir voru ruddir fyrir skemmstu um Almannaskarð og Lónsheiði, en búast má við að þessir vegir verði illfærir eða jafnvel ófærir á morgun.

MA-Tjaldanesi, miðvikudag. Símasamband er nú aftur komið á við Saurbæinn, en þar urðu feiknamiklar skemmdir á mörgum bæjum í sveitinni. í Saurbænum eru um 40 bæir, og fóru símalínurnar heim að öllum bæjunum úr lagi og ekkert hefur verið hægt að tala þaðan eða þangað síðan fyrir helgina. Verst varð veðrið aðfaranótt sunnudagsins [30. janúar] og á mánudag. Rafmangslína var lögð í Saurbæinn nú fyrir skömmu, liggur línan yfir Gilsfjörðinn, en þar sem kapallinn kemur upp úr sjónum hafði lagst svo mikil ísing á línuna, að 5 staurar kubbuðust niður og fuku úr þeim um allt. Heimtaugar heim að fjórum bæjum slitnuðu niður. Í kaupfélagi Saurbæinga á Skriðulandi brotnuðu tvær stórar tvöfaldar rúður með þeim afleiðingum að vörur kaupfélagsins reif út og fuku þær um allt, og er enn ekki vitað með vissu hve mikið tjón varð á þeim eina stað, en auk þess fór allt þakjárnið af pakkhúsi kaupfélagsins. Í Stóra-Holti brotnaði hlaða og lagðist að miklu leyti niður. Í Ármúla hafði rafveitan átt þrjá vinnuskúra. Fuku tveir þeirra og spýtnabrakið lenti á íbúðarhúsinu. Einn plankinn fór inn um glugga í eldhúsinu og fram hjá húsfreyjunni og lenti síðan á kaf í þilinu fyrir aftan hana. Var mikil mildi, að ekki skyldi verða stórslys af. Á prestsetrinu að Hvoli fauk meiri hluti þakjárns af húsinu. Þar á hlaðinu stóð fólks bíllinn D-81, eign kaupfélagsstjórans á Skriðulandi. Fauk bíllinn marga metra og skemmdist mikið. Í Bessatungu fauk þakið af fjósinu og hlöðu og mikið af íbúðarhúsinu. Jeppinn D-31 fauk margar veltur og lenti niður í skurði og er gjörónýtur. Í Hvítadal eru þrjú íbúðarhús. Eitt þeirra er gamalt og var fólk flutt úr því, en þak hússins fauk gjörsamlega í burtu. Af öðru íbúðarhúsi í Hvítadal fuku 16 þakplötur og pappinn með, svo fólkið horfði á eftir upp í himin gegn um götin. Í Litla-Múla er nýbyggt fjós og mjólkurhús. Fauk þakið að mestu af mjólkurhúsinu og allt járn af fjósinu. Í Máskeldu fauk hálft þak af nýrri hlöðu, sem byggð var í sumar, hér um bil allt af fjósinu og nokkuð af fjárhúsunum. Fyrir utan félagsheimilið í Saurbæ stóð olíutankur, sem tekur um 2000 lítra og var hann um hálfur af olíu. Rifnaði hann upp og slitnaði frá öllum leiðslum. Lauslega áætlað er talið, að tjón af völdum þessa óveðurs sé ekki innan við hálfa milljón króna, en fyrir utan þessi stærri fok, fauk mikið af alls konar lausum hlutum, og auk þess nokkuð af heyi, sem menn telja vart lengur til tíðindi, eftir þessi ólæti. Nokkuð var til af efni á flestum bæjum í sveitinni, og er því langt komið að gera við mestu skemmdirnar.

SJ-Reykjavík, miðvikudag. Starfsmenn Rafmagnsveitunnar hafa verið mjög störfum hlaðnir að undanförnu, unnið nótt með degi, að sögn Guðjóns Guðmundssonar hjá Rafmagnsveitu ríkisins. Það vill svo vel til, að línubyggingar liggja svo til niðri og því óvenju margir menn tiltækir við hjálparstörf úti á landi. Margir viðgerðarmenn hafa verið sendir til aðstoðar við heimamenn, þar sem bilanirnar hafa orðið. Bilanir reyndust einna mestar í Staðarsveit við Breiðuvík. Í gærkveldi var búið að koma Skeiðfosslínunni í lag. Línurnar höfðu slitnað niður við Siglufjörð. Viðgerðarmenn lögðu af stað í dag til að gera við rafmagnsbilanir við Gilsfjörð, en rafmagnsveitunum var ekki kunnugt um bilanirnar fyrr en í gær vegna bilana á símalínum. Á Neskaupstað urðu miklar bilanir, en þangað hefur ekki verið fært, hvorki á láði né legi. Tveir viðgerðarmenn frá Rafmagnsveitunum lögðu af stað í gær til Neskaupstaðar með Heklunni, en eins og segir frá á öðrum stað í blaðinu, bilaði skipið á leiðinni austur. Búist er við að Heklan komi aftur til Reykjavíkur í kvöld, og þá eiga þessir tveir menn að taka sér far með einhverjum Fossanna á morgun og freista þess að komast til Neskaupstaðar til að aðstoða heimamenn þar við að koma rafmagnslínum í lag.

Vísir segir af rafmagnstruflunum í pistli 3.febrúar:

Rafmagnið fór af um stund á níunda tímanum i gærkvöldi á svæðinu allt frá Akranesi til Keflavikur. Er rafmagnið var komið á aftur og útvarpsútsendingar hafnar að nýju var tilkynnt, að fólk skyldi vera við því búið að rafmagnið færi af aftur. Svo varð þó ekki. Vísir hringdi í morgun í Ingólf Árnason verkfræðing hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og spurði hann um ástæður bilunarinnar og hvort enn væri hætta á að rafmagnið færi af sömu ástæðum. — Rafmagnið fór af í gær, sagði Ingólfur, því leiðni myndaðist yfir einangrara vegna seltu og varð þess valdandi að liðavernd í Elliðaárstöðinni fyrir aðallínu austan frá Sogi leysti út.

Í Vísi 5.febrúar er athyglisverð frásögn af vöruflutningum norður í land, kannski dæmigerð fyrir baráttu bílstjóra við illviðri og færð á þessum árum:

Átta vörubílstjórar hafa setið undanfarnar nætur og daga færðar- og veðurtepptir í Varmahlíð í Skagafirði, en hafa nú loksins ákveðið að gefast upp, og senda bílhlössin sjóleiðis frá Sauðárkróki til Akureyrar. Við fórum sumir úr Reykjavík á mánudagsmorgun, sagði Ingi Jóhannesson bifreiðarstjóri, sem ekur hjá Pétri og Valdimar á Akureyri þegar Vísir átti tal við hann i gærkveldi. — En aðrir voru þá komnir upp í Fornahvamm, bætti Ingi við, höfðu farið þangað á föstudaginn Þeir ætluðu þá að komast  yfir Holtavörðuheiði, en hún var þá ekki rudd sökum veðurs, svo þeir urðu að bíða fram á mánudag í Fornahvammi. — Og höfðu síðan samflot við ykkur? — Já. Það var mokað fyrir okkur yfir heiðina og við urðum að mestu leyti samferða — Komust þið alla leið í Varmahlíð á mánudaginn? — Já, ferðin gekk ágætlega og fyrirstöðulaust að heita má, nema lítilsháttar sunnan til i Holtavörðuheiði og nyrst í Húnavatnssýslu En það var ekkert sem orð var á gerandi, og ferðin gekk ágætlega til Varmahlíðar. Svo hafið þið ætlað að halda áfram daginn eftir til Akureyrar — Já, okkur hafði verið gefið vilyrði fyrir því af hálfu Vegagerðarinnar að hún léti ryðja fyrir okkur leiðina yfir Öxnadalsheiði á þriðjudaginn. en sú von okkar brást. — Hvers vegna? — Það voru komnar svo miklar skaflaþiljur á veginn og þar við bættist fannkoma og rok. Það voru einhverjar tilraunir gerðar til að moka en hætt við þær aftur. — Þið hafið ekkert hreyft ykkur frá Varmahlíð? Nei, bara setið kyrrir og beðið átekta. En það hefur ekkert væst um okkur, því fólkið hér á hótelinu hefur gert allt fyrir okkur sem það hefur getað, og við höfum átt hér góða daga. — En nú ætlið þið ekki að bíða lengur? — Nei. Síðasta loforð eða fyrirheit, sem við fengum frá Vegagerðinni var það að Öxnadalsheiði yrði ekki mokuð fyrr en hlánaði. Og við veðurguðina höfum við ekki haft neitt samband, svo við vitum ekki hvenær muni hlána. — Hvað eruð þið þarna margir? — Átta bílstjórar og átta bílar. — Farþegar? — Nei, sem betur fer ekki. — Og hvað takið þið núna til bragðs? — Við förum með bílana út á Sauðárkrók í kvöld, skipum vörunum út í flóabátinn Drang, en skiljum bílana eftir á Sauðárkróki, þangað til okkur gefst tækifæri til að sækja þá. — Farið þið líka með Drang norður? — Það er ekki ákveðið ennþá. Ef til vill líka með flugvél. Það er fljótlegra — ef við þurfum þá ekki að sitja aðra viku veðurtepptir á Króknum og bíða eftir flugveðri.

Meðan mikið snjóaði nyrðra ríktu nær samfelldir þurrkar á Suðurlandi Tíminn segir 16. og 17. febrúar frá vandræðum af þeim sökum - slíkar fréttir urðu fleiri:

[16.] GÞE Reykjavík, þriðjudag. Að undanförnu hefur mikill vatnsskortur ríkt í Vestmannaeyjum, þótt ástandið í þeim efnum hafi oft áður verið verra. Síðan í janúarlok hefur Herjólfur flutt um 120 tonn af vatni frá Reykjavík til Eyja í hverri ferð, en þess hefur ekki þurft með síðan í sumar.

[17.] Stjas, Vorsabæ. miðvikudag. Vatnslítið er nú víða á Suðurlandsundirlendi, þar sem brunna hefur víða þrotið. Er ástandið víða orðið mjög bagalegt, og þá sérstaklega um neðanverða Árnessýslu. Verða sumir bændur að sækja vatn langar leiðir til þess að bjarga sér. Ástæðuna fyrir þessu vatnsleysi telja menn vera úrkomuleysi, en á þessu svæði má segja að hafi verið frost og úrkomulaust síðan í miðjum nóvember. Þá telja menn einnig, að auknar framkvæmdir við framræslu mýra í Flóanum stuðli nokkuð að þessu vatnsleysi.

Aftur af fannfergi eystra. Tíminn 19.febrúar:

GÞE-Reykjavík, föstudag. Gífurlegt fannfergi hefur verið víðast hvar á Austfjörðum í seinni tíð og muna gamlir menn þar ekki eftir öðru eins. Bæði á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík hefur ekki verið fært milli hús og bæja nema á skíðum, en engir snjóbílar eru til þarna. Unnið er nú að því að ryðja vegina. Fréttaritari blaðsins í Breiðdalsvík símaði í dag, að ástandið hefði verið svona síðan í janúarlok. Ekki hefði um neinar samgöngur verið að ræða nema sjóleiðis, en þrjú skip frá Skipaútgerðinni eru þarna alltaf annað veifið, svo að flutningaörðugleikar þar um slóðir hafa ekki verið teljandi. Mjólk frá Breiðdalsvík er yfirleitt flutt til Djúpavogs, en þeir flutningar hafa skiljanlega legið niðri vegna ófærðar. Á Stöðvarfirði hefur sama ástandið ríkt í langan tíma, en verið er nú að ráða bót á því, og hefur verið unnið að því að ryðja vegi þessa dagana. Litla sem enga mjólk hefur tekist að fá flutta til þorpsins, en flutningar hafa algjörlega farið fram sjóleiðis.

Tíminn segir en af vatnsskorti á Suðurlandi og snjóum eystra 22.febrúar:

KT, Reykjavík, mánudag. Eins og skýrt hefur verið frá í blaðinu er mjög víða vatnslítið eða jafnvel vatnslaust á Suðurlandsundirlendi. Blaðið hafði í dag samband við nokkra fréttaritara sína á þessu svæði til þess að kanna, hve víða þessa vatnsskorts gætti. Kom það í ljós, að vatnsskorturinn hefur hrjáð bændur á svæðinu frá Flóa austur í Rangárvallasýslu og norður i Hreppa og Biskupstungur. Er Tíminn hafði í dag samband við fréttaritara sína á fyrrnefndu svæði. höfðu alir sömu sögu að segja. Vatn hefur þrotið á allmörgum bæjum víða er vatnslítið. Eru allar horfur á því að ástandið versni til muna, ef þessu tíðarfari heldur áfram. Vatnsleysið er talið stafa af úrkomuleysi á þessum slóðum, en þarna var þurrviðrasamt s.l. sumar og mjög lítil úrkoma í vetur. Önnur ástæða fyrir þessu vatnsleysi er talin vera aukin framræsla lands á þessum slóðum. Þetta vatnsleysi er, að sögn fréttaritara, algert einsdæmi á þessum slóðum. Má geta nærri, að það eykur talsvert á erfiði bænda að þurfa að sækja vatn fyrir stór bú um langan veg, oft tugi kílómetra.

Sigurbjörn Snjólfsson fyrrum bóndi í Gilsárteigi leit inn í ritstjórnarskrifstofur Tímans fyrir nokkrum dögum, og við spurðum hann fregna að austan. — Á Austurlandi er nú mikið vetrarríki, sagði Sigurbjörn, jafnvel svo að menn töluðu um mestu snjóa í hálfa öld, t.d. uppi í Fljótsdal. Um slíkt er þó erfitt að segja, en snjórinn er mikill. Þetta er raunar orðinn töluverður snjóavetur og gjafafrekur. Fyrir jól setti niður mikinn snjó, og hann tók ekki alveg upp áður en bætti á aftur. Þessi snjóakafli hófst með bleytuhríð, og er neðsta lagið því allhart núna og veldur það erfiðleikum við ruðning vega. Fjarðarheiði er alveg ófær, og nú virðast snjóbílar, vart duga til þess að sigrast á henni, enda ekki nýir. Mjólkurflutningar yfir Fjarðarheiði eru því úr sögunni í bili, en mjólkurþurrð á Seyðisfirði handa þeim mikla mannafla, sem þar vinnur að byggingu nýrra síldarverksmiðja og söltunarstöðva. Reynt var um daginn að senda Seyðisfjarðarmjólkina um Fagradal, sem haldið er opnum enn, niður á Reyðarfjörð, og átti hún að fara með strandferðaskipi til Seyðisfjarðar. Það sneri hins vegar við á Reyðarfirði, og Seyðfirðingar höfðu ekki tiltækan bát að sækja mjólkina. Bjargaði það málinu í það sinn, að varðskip var nálægt og færði Seyðfirðingum mjólkina.

KT—Reykjavík, mánudag. Ófært er nú viða um landið af völdum snjóa, að því er Vegamálaskrifstofan tjáði blaðinu í dag. Færð hefur þó ekki spillst á Suðurlandi.
Aðalleiðir norður og vestur hafa lokast. t.d. Brattabrekka og Holtavörðuheiði. Þá hafa fjallvegir á Snæfellsnesi lokast, svo og leiðin um Strandir til Hólmavíkur. Einnig er Öxnadalsheiði algerlega ófær og Öxnadalur. Það hefur verið stefna Vegamálastjórnarinnar að opna leiðina til Akureyrar frá Reykjavík á hverjum þriðjudegi og föstudegi ef veður hefur leyft. Verður væntanlega reynt að opna leiðina um Holtavörðuheiði á morgun, ef veður leyfir, en að því er Hjörleifur Ólafsson tjáði blaðinu í dag, eru líkurnar á því að takast megi að opna leið um Öxnadalsheiði svo til engar því verkefnið sé svo gífurlegt, að vafasamt sé að reyna við það fyrr en veður skánar. Ekki kvaðst Hjörleifur hafa haft spurnir af færðinni á Austfjörðum, en taldi vist, að leiðin um Fagradal sem opin var fyrir skemmstu, væri farin að versna. Á Vestfjörðum sagði Hjörleifur að fært væri innan fjarða að einhverju leyti. T.d. væri fært milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur og Súðavíkur. Engir fjallvegir væru hins vegar opnir, en slíkt væri ekki óvenjulegt á þessum tíma árs.

Tíminn segir 25.febrúar frá jarðhræringum í Fljótshlíð:

GÞE-Reykjavík, fimmtudag. Heimilisfólkið á Barkarstöðum, sem er innsti bær í Fljótshlíðinni varð vart við talsverðar jarðhræringar seint í gærkveldi og snemma í morgun. Fyrsti kippurinn var kl. 11.15 og annar nokkrum mínútum síðar. Á sjöunda tímanum í morgun varð fólkið svo vart við þriðja kippinn. Að sögn bóndans á Barkarstöðum voru kippir þessir ekki snarpir en fremur líðandi, og ekki varð hið minnsta tjón af völdum þeirra. Samkvæmt upplýsingum, sem blaðið fékk í dag frá jarðeðlisfræðideild Veðurstofunnar mældust á tímabilinu 11:15 í gærkveldi til 6:52 í morgun á að giska sjö kippir á þessu svæði eða í um það bil 150 km fjarlægð frá Reykjavík. Er áætlað að þessar jarðhræringar stafi frá umbrotum á Torfajökuls-Mýrdalsjökulsvæðinu. Svo sem fyrr segir hafa kippir þessir ekki verið snarpir, og svo virðist sem fáir hafi veitt þeim eftirtekt, því að Veðurstofan hafði engar tilkynningar fengið um þá um þrjúleytið í dag. Snemma í morgun hringdi bóndinn á Barkastöðum til Hvolsvallar og sagði frá jarðhræringunum, en þar hafði enginn orðið þeirra var, enda eru um það bil 30 km. milli staðanna. Í stuttu viðtali við blaðið í dag sagði bóndinn á Barkarstöðum, að jarðhræringa yrði afar sjaldan vart á þessum slóðum, og þá sjaldan sem það væri, stæðu þær í einhverju sambandi við umbrot í Heklu. Hins vegar var talið á jarðeðlisfræðideild Veðurstofunnar, að hér væri um að ræða umbrot á Torfajökuls-Mýrdalsjökulsvæðinu, og gæti þetta jafnvel bent til þess, að Katla væri að drepa sig úr dróma, en ekkert væri reyndar um þetta vitað með vissu.

Tíminn segir enn og aftur ófærðar- og snjóþyngslafréttir 26.febrúar:

KT-Reykjavík, föstudag Snjór er nú mikill um allt Norðurland og Norðausturland. Liggur umferð víðast hvar niðri af þessum sökum og hafa þess vegna skapast ýmsir erfiðleikar, t.d. í sambandi við mjólkurflutninga. Tíminn hafði í dag samband við nokkra fréttaritara sina á þessum slóðum til þess að kanna ástandið þar. Geysimikill snjór er nú á Héraði og ófært um allt. Mun þetta vera með mestu snjóum, sem komið hafa þar um slóðir, en snjórinn er um metri að þykkt á jafnsléttu. Af þessu leiðir, að ákaflega erfitt er að flytja mjólk, en það hefur verið gert í dálitlum mæli með ýtum. Er það mjög vafasöm lausn, því flutningskostnaðurinn verður svo mikill, að ekki þykir borga sig að flytja mjólkina á þann hátt. Auk þess er mjólkin orðin svo gömul, þegar hún loks kemst á áfangastað, að hún verður vart notuð til drykkjar. Snjóbíll komst yfir Fjarðarheiði í gær og er það í fyrsta skipti, sem sú leið er farin, síðan um áramót. Snjóbíll hefur farið um Fagradal annað slagið. Snjóþyngslin gera það að verkum, að haglaust er á Héraði annars staðar en á Efra-Jökuldal. Ekki hefur verið hægt að flytja fóðurbæti til bænda í nokkurn tíma og víða er að verða olíulaust. Tveir skipsfarmar af heyi bíða á Reyðarfirði eftir flutningi, en ekki ber mikið á heyleysi enn. Frá Grímsstöðum á Fjöllum berast þau tíðindi, að þar hafi verið versta ótíð að undanförnu. Ástandið hefur þó aldrei orðið mjög slæmt þar, þar sem enga mjólk hefur þurft að flytja þaðan, en póst- og smánauðsynjar hefur verið hægt að sækja í Mývatnssveit með dráttarvél, sem útbúin hefur verið með beltum. Annars eru allar leiðir þar ófærar bílum. Í Bárðardal er mjög mikill snjór og hafa geisað þar stórhríðar dag eftir dag. Sæmilega hefur tekist að flytja mjólk til Húsavíkur, en miklir erfiðleikar eru á samgöngum. Skjálfandafljót er ísi lagt langt inn í land, en Goðafoss hefur ekki sést í margar vikur. Lítið hefur verið hægt að beita fé úti í vetur og hefur því verið gefið óvenju mikið inni. Ekki virðist þó bera á heyleysi, því menn munu hafa verið vel birgir í haust. Mjólkurbíll fór úr Mývatnssveitinni s.l. mánudag til Húsavíkur og hefur ekki komið til baka. Hefur póstur ekki borist til Mývetninga síðan á föstudag. Hægt er að lenda á flugvellinum þar, en hann hefur ekki lokast. Nokkuð mikill snjór er nú á Akureyri og hafa samgöngur teppst af þeim sökum. Þó er fært inn í Eyjafjörðinn frá Akureyri og norður að Bægisá. Eins og fram hefur komið í blaðinu hafa nokkrir örðugleikar orðið á mjólkurflutningum af þessum sökum, en öll ráð hafa verið notuð til þess að flytja mjólkina, m.a. hefur hún verið flutt með ýtum. Víðast hvar þýðir ekki að hreyfa bíla, og hafa margir tekið upp samgönguhætti fortíðarinnar og ferðast á hestbaki eða á sleðum, sem þeir beita hestum fyrir. Eins og skýrt var frá í blaðinu í dag, kom engin mjólk til Sauðárkróks í gær, en í dag var Skagfirðingabraut rudd með ýtum, svo nokkrir bílar komust með mjólk í dag. Þá komu einnig níu dráttarvélar frá bæjum á Hegranesi með mjólk. Á Siglufirði hafa verið hríðarél annað slagið í dag og hefur þar safnast saman óhemju mikill snjór og fyllast vegir þar jafnharðan og þeir eru ruddir, en mjög örðugt er að koma snjónum frá. Vinna hefur þó ekki lagst niður í Strákagöngum af völdum veðursins. Einn bátur, sem gerður er út frá Siglufirði hefur aflað vel að undanförnu, en vegna veðurs hefur ekki verið hægt að sækja sjó undanfarna daga. Á mánudag og þriðjudag urðu miklar skemmdir á verðmætum af völdum veðursins en þá fuku þakplötur o.fl. af húsum. Í veðrinu, sem þá geisaði tókst Volkswagen-bifreið á loft, snerist í loftinu heilan hring og valt síðan, þegar niður kom. Skemmdist bifreiðin mikið við þetta.

Vatnsskorts gætti einnig fyrir norðan. Morgunblaðið segir frá 25.febrúar:

Akureyri, 24. febr. — Allmikið hefur borið á vatnsskorti hér í bæ að undanförnu og hafa sem hverfi orðið vatnslaus með öllu þegar á daginn hefur liðið. Úr lindunum í Hlíðarfjalli fást að jafnaði 100 sekúndulítrar, en nú mun rennslið aðeins vera um 80 sekúndulítrar og fer heldur minnkandi. Þó sagði vatnsveitustjórinn, Sigurður Svanbergsson, að horfurnar væru betri í kvöld, en verið hefði lengi undanfarið og taldi hann, að vatnið væri nægilegt bæjarbúum, ef þeir færu sparlega með það og létu það ekki renna að óþörfu. Sérstaklega kvað hann bagalegt, að allmikið hefur borið á næturrennsli í húsum, þannig að vatnsgeymarnir hafa ekki geta fyllst yfir nóttina. Orsakir þessa vatnsskorts eru fyrst og fremst þær, að undanfarnir vetur hafa verið óvenju snjólitlir og þar við bætist að frosthörkur voru miklar nú um áramótin meðan snjór var lítill á jörðu. Frost mun nú víðast komið á annan metra í jörð niður. — Sv.P.

Morgunblaðið segir frá hvassviðri í Ölfusi í pistli 26.febrúar

Hveragerði, 25. febrúar.Talsvert hvassviðri hefur geisað hér í Ölfusinu undanfarna daga, en ekki hafa þó orðið teljandi skemmdir á mannvirkjum, nema að á bænum Hvammi hér í Ölfusi fauk þak af hlöðu s.l. þriðjudag [22.febrúar]. Á Hvammi býr Guðmundur Bergsson, ásamt konu sinni, Þrúði Sigurðardóttur, og átta börnum þeirra á aldrinum 9—23 ára. Ég hafði tal af Þrúði í dag, og skýrði hún frá því að atvik þetta hefði orðið á níunda tímanum á þriðjudagsmorgun. Börnin voru þá nýkomin inn í skólabifreiðina, en hjónin voru á leið til fjóssins. Svo háttar til á Hvammi að íbúðarhúsið og hlaðan eru sambyggð. Urðu þau hjónin skyndilega vör við að þakið af hlöðunni losnaði frá, fauk yfir íbúðarhúsið og braut niður reykháf íbúðarhússins. Barst það síðan áfram allt að 50 metra spotta frá hlöðunni, þar sem það staðnæmdist á túninu. Var mesta mildi að börnin voru komin inn í bifreiðina, því að annars hefðu þau getað orðið fyrir hlöðuþakinu. Eins og áður segir braut þakið skorsteininn af íbúðarhúsinu, og setti auk þess göt á tveim stöðum í þakjárnið á íbúðarhúsinu. Þrúður skýrði ennfremur frá því, að þetta væri mesta hvassviðri, er hún myndi eftir. — Fréttaritari.

Heyskorts fór að gæta norðaustanlands. Tíminn segir frá 27.febrúar:

PJ—Hvolsvelli, laugardag. Háfermdir heyflutningabílar hafa í haust og vetur sett svip á umferðina hér á Suðurlandi, ávöxtur góðs sumars og arður aukinnar ræktunar. Er gott til þess að vita, að bændur hér um slóðir skuli vera svo aflögufærir og geta hjálpað stéttarbræðrum sínum á Austurlandi. Um 70 bílförmum hefur verið ekið héðan úr Rangárþingi og á hverjum bíl er nálægt 6 tonn af heyi. Þrátt fyrir þetta auka menn búskap sinn og ætla hverjum grip meira fóður en áður tíðkaðist. Þetta sýnir ljóslega hvað ræktað land hefur stækkað. Þegar Hekla gaus árið 1947 þurftu margir þeirra bænda, sem fengu öskuna og vikurinn yfir ábýlisjarðir sínar, að fá hey að. Þá varð að flytja allt hey úr öðru héraði hingað austur. Heyflutningabílarnir aka með heyfarminn ýmist til Þorlákshafnar eða Reykjavíkur um borð í skip er sigla með heyið til hafna á Austurlandi. Vigfús sagði, að flestir bændur hefðu verið birgir af heyjum, en veturinn hefði verið harðari en bændur hafa almennt átt að venjast. Ekki hefur snjóað svo mikið heldur má heita að það hafi verið endalaus kuldi, frost og rok. Auk bænda á Austurlandi hefur hesta mannafélagið Fákur fengið hey úr Árnessýslu.

Enn meiri ófærðarfréttir. Tíminn 1.mars:

GÞE-Reykjavík, mánudag. Ekkert lát virðist á fannkomunni á Austurlandi, og eru þar allir vegir lokaðir, sumir jafnvel ekki færir snjóbílum. Menn hafa nú gefist upp á því að ryðja vegina, þar sem þeir lokast aftur jafnharðan. Segja má, að mjög bagalega horfi með flutninga til fólks í uppsveitum, en þar er nú víða olíulaust, og jafnframt skortur á ýmsum nauðsynjum og ekki nokkurt viðlit að verða sér úti um nýmeti. Á nokkrum bæjum hafa gripahús sligast undan snjóþunganum, skekkst og brotnað, og á Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá féll hluti af fjárhúsþaki ofan á allmargar kindur og drápust sjö af þeim völdum. Allar samgöngur við Austfirði fara fram sjóleiðis, en ógerlegt er að flytja nauðsynjavörurnar frá sjávarþorpunum út í sveitir. Reynt hefur verið eftir megni að halda Egilsstaðaflugvelli opnum og hefur verið flogið þangað endrum og sinnum, en þar er sama sagan, vörurnar til bænda í uppsveitum verða innlyksa í þorpinu vegna samgönguleysis. Í gær var flogið þangað austur og lagði því snjóbíll upp frá Reyðarfirði með farþega og varning, sem komast átti suður. Var bíllinn 6 klst á leiðinni. Einna verst er ástandið hvað viðkemur mjólkurflutningum og reynt hefur verið að sækja mjólkina á ýtum, en það er miklum vandkvæðum bundið og ekki er hægt að fara á hvern stað nema með margra daga millibili, og á marga bæi hefur alls ekki verið farið. Mjólkurlítið er því víða í þorpunum. Fólk fer langar bæjarleiðir á skíðum og jafnvel hefur það borið við, að fólk í uppsveitunum leggi á sig margra klukkustunda ferð ýmist fótgangandi eða á skíðum niður í sjávarþorpin til að verða sér úti um nýmeti í soðið. Algjörlega haglaust er að heita má hvarvetna á Austurlandi, og tekið ei því að saxast allmjög á heyforða bænda, sem síst er of mikill. Liggja nú óhreyfðar á Reyðarfirði heybirgðir, sem nema hátt á annað þúsund hestum en eins og gefur að skilja, er ógerlegt að flytja nokkuð af því til þeirra bænda, sem verst eru settir. Sums staðar er vatnslaust eða vatnslítið sérstaklega á fjörðunum, ástandið í þeim efnum er nokkuð slæmt á Breiðdalsvík, en netaveiðar eru þar að hefjast, og ef ekki rætist brátt úr, verða þar talsverð vandræði í sambandi við fiskvinnslu. Segja má, að blindbylur hafi geisað víðast hvar á Austurlandi í heila viku, í dag birti þó upp, en útlit er fyrir það að hann gangi aftur á með austanátt og snjókoman haldi áfram.

Nú leit út fyrir vandræði í Sogsvirkjunum vegna langvinnra þurrka. Tíminn segir frá 2.mars:

KT—Reykjavík, þriðjudag. Vegna hinna miklu þurrka að undanförnu hefur vatnsborðið í Þingvallavatni lækkað um tæplega metra á undanförnum mánuðum. Ekki hefur þetta enn haft alvarlegar afleiðingar í sambandi við Sogsvirkjanirnar, en ekki er gott að segja um, hvernig fara kann, ef vatnsborðið heldur áfram að lækka. Í viðtali við Tímann sagði Ingólfur Ágústsson rekstrarstjóri hjá Landsvirkjun, að vatnsborð Þingvallavatns hefði lækkað verulega að undanförnu,- eða um 2—3 cm á dag. Væri vatnsborðið nú tæplega metra lægra en þegar mest væri, eða lægra en vitað hefur verið um nokkru sinni fyrr. Þá sagði Ingólfur Ágústsson, að virkjanirnar hefðu getað annað öllum sínum verkefnum fram að þessu, en síðan í september eða október hefði áburðarverksmiðjan í Gufunesi ekki fengið neina afgangsorku eins og fyrr. Að lokum sagðist Ingólfur vona að úrkoman, sem nú virðist vera að koma, myndi hjálpa til, svo að virkjunarmálin við Sogið kæmust í sitt gamla horf.

GÞE—Reykjavík, þriðjudag. Víðast hvar á austanverðu Norðurlandi hefur færð verið afleit að undanförnu, en svo virðist sem eitthvað sé að rætast úr í þeim efnum, enda hefur sleitulaust verið unnið að því að ryðja vegina, þó er aldrei að vita, hvenær þeir lokast aftur, því að það gengur oft á með hríðaréljum. Eftir því sem vestar dregur þar nyrðra fer færð batnandi, og Holtavörðuheiði hefur að mestu verið haldið opinni talsvert lengi. Í síðustu viku ríkti hálfgert vandræðaástand þar nyrðra, allir vegir lokuðust og áætlunarferðir féllu niður víðast hvar, enn er ófært mjög víða, og ekki fært á milli nema á dráttarvélum, snjóbílum og stórum trukkum. Mjólk hefur að mestu verið flutt á dráttarvélum, eða sleðum, sem festir eru aftan í ýtur, en sums staðar hefur verið ógjörningur að flytja mjólkina frá bæjum til þorpa og kaupstaða, og í fyrri viku þurfti sums staðar að skammta mjólk, m.a. á Ólafsfirði. Svo sem fyrr segir, er færðin eitthvað að skána en gjörsamlega haglaust er fyrir búpening víðast hvar á austanverðu Norðurlandi, og er því fé allt á gjöf. Hins vegar eru víða hagar fyrir fé í Hrútafirði og nær sveitum. en þar er vatnsskortur aftur á móti farinn að sverfa að mjög að bændum, og víðast hvar er vatnið frosið í vatnsleiðslunum. Sýnt er, að ef ekki hlánar mjög fljótlega, skapast hreint vandræðaástand i þessum efnum. Vatnsskortur hefur og gert vart við sig víðar, svo sem á Ólafsfirði og nokkuð á Húsavík.

KT—Reykjavík, þriðjudag. Enn er vatnsskortur víða á Suðurlandsundirlendi og hefur ástandið síst breyst til hins betra. Menn verða sem áður að sækja vatn, oft um langan veg, til þess að brynna skepnum sínum, svo og til heimilisnotkunar. Gripið hefur verið til ýmissa ráða til að bæta úr vatnsskortinum, tankbílar hafa verið fengnir með vatn frá Selfossi og víða sér einn bóndi um dreifingu vatns um heila sveit. Tíminn hafði í dag samband við nokkra staði á Suðurlandsundirlendi og kom í ljós, að ástandið er víða mjög bagalegt. Í Vestmannaeyjum hefur vatnsskortur einnig sorfið að og átti um tíma að loka fyrir vatn til fiskimjölsverksmiðjunnar þar og stöðvar þar með rekstur hennar Ástandið er einna skást í Grímsnesi, aðeins fáir bæir munu vera orðnir vatnslausir. Hafa menn sótt vatn í brúsa og þess háttar ef vatnslítið hefur orðið. Á Skeiðunum hefur ástandið verið öllu erfiðara. Hafa menn sótt vatn langar leiðir. Mikið hefur verið tekið af vatni hjá Húsatóftum, og þá helst heitt afrennslisvatn, sem hægt er að flytja án þess að það frjósi. Vatnsskorturinn er víða mjög bagalegur á Skeiðum og eru margir bæir að verða algerlega vatnslausir. Þá hefur vatnsskortur komið illa niður á bændum í Hreppum. Í Hrunamannahreppi eru 20 bæir vatnslitlir eða vatnslausir og fer ástandið heldur versnandi. Flytja menn vatn í tönkum, sem þeir setja á kerrur o.fl. Í Gnúpverjahreppi eru ársprænur að þorna upp af frostum og þurrkum og frýs vatn jafnvel í leiðslum. Hefur einn bóndi tekið að sér að sækja vatn fyrir sveitunga sína niður að Húsatóftum á Skeiðum. Segja kunnugir, að ekki hafi verið samfellt frost í jafn langan tíma og nú síðan árið 1918. Um neðanvert Land, Holt og Ásahrepp er víða alvarlegt ástand í vatnsmálunum og fer versnandi. Hins vegar er ekki erfitt að ná í vatn, þótt brunna þrjóti. Í Þykkvabæ eru flestir brunnar að þorna upp og hafa tankbílar komið með vatn frá Selfossi. Á áðurnefndum svæðum hefur verið úrkomulaust eða mjög lítil úrkoma í dag og eru menn vonlitlir um að fá langþráða úrkomu. Í Vestmannaeyjum var úrhellisrigning i dag og austan rok. Regnið kom að góðum notum, þar sem vatnsskortur hefur verið tilfinnanlegur í Vestmannaeyjum að undanförnu. Hefur vatn verið flutt til Eyja að undanförnu með Herjólfi en um helgina lágu fyrir á þriðja hundrað pantanir um vatn, sem ekki hafði unnist tími til að sinna. Svo fast hafði vatnsleysið sorfið að, að loka átti fyrir vatn til fiskimjölsverksmiðjunnar og hefði rekstur hennar þar með stöðvast, en verksmiðjan notar mikið af vatni.

Viku af mars virtist veðurlag vera eitthvað að breytast. Ritstjórann rámar í einhverja útsynningsdaga í kringum þann 10. En það var allt heldur lint og fljótlega fór allt aftur í sama horf. Tíminn segir frá 8.mars:

GÞE—Reykjavík, mánudag. Ástandið er heldur að batna nyrðra, hvað færð snertir, þótt það sé hvergi nærri gott og sums staðar afleitt. Víða í uppsveitum er skortur á ýmsum nauðsynjum, t.d. olíu, farinn að gera töluvert vart við sig, en mestallar samgöngur á landi fara enn fram á dráttarvélum og ýtum og vitanlega er takmarkað, hvað hægt er að flytja með þeim fararkosti. Það vill svo vel til, að bændur norðanlands eru flestir vel heyjaðir, því að víðast hvar er gjörsamlega haglaust og allt fé á gjöf. Í síðustu viku geisuðu stórhríðar víða fyrir norðan, einkum í Þingeyjarsýslum og einnig nokkuð í Eyjafjarðarsýslu. Fyrir helgina var þar hins vegar frostlaust og snjór hafði sigið, svo að snjóbílar og stórir trukkar voru farnir að brjótast um svæði, sem áður voru þeim algerlega ófær. Um helgina kyngdi hins vegar niður snjó, og aftur er orðið þungfært fyrir stóra bíla a ýmsum vegum, svo sem veginum milli Dalvíkur og Akureyrar, en hann var nokkurn veginn fær fyrir helgi, eftir að hafa verið lokaður talsvert lengi. Víða á Norðurlandi hafa dráttarvélar verið aðalsamgöngutækin um alilanga hríð, og það er ekki laust við, að bændum finnist þessar samgöngur dýrar, en ekkert þýðir um það að fást. Í Skagafjarðarsýslu hefur víða verið fært stórum bílum að undanförnu, einkum framan til í héraðinu, en hins vegar hefur verið afar snjóþungt í Óslandshlíð, Fljótum og á Höfðaströnd og mjög þungfært. Í Húnavatnssýslum hefur ástandið verið stórum betra, og Holtavörðuheiði hefur að mestu verið haldið opinni að undanförnu en í nótt snjóaði talsvert þar um slóðir og heiðin lokaðist. Gert er ráð fyrir því, að hún verði opnuð aftur á morgun og síðan á að reyna að opna leiðina inn í Skagafjörð.

Tíminn segir af lélegum aflabrögðum 9.mars:

SJ-Reykjavík, þriðjudag. Tíminn hafði í gær samband við fréttaritara og útgerðarmenn í Vestmannaeyjum, Grindavík og Höfn í Hornafirði, og voru þeir sammála um að aflabrögð væru með afbrigðum léleg. Á Höfn í Hornafirði voru netabátar að halda í fyrsta róður og var afli sæmilegur, en það gæti bent til að Vestmannaeyjabátar fái betri afla á næstunni. Stöðug norðaustanátt undanfarnar vikur er talin hafa hamlað fiskigöngum.

Tíminn segir af lagnaðarís og vatnsskorti 11.mars:

ED-Akureyri. Í kuldunum fyrir norðan að undanförnu hefur lagís myndast víða við strendur Eyjafjarðar og eins hefur Akureyrarpollur verið lagður þykkum ís. Í gær gekk á með sunnanátt og tók þá ísinn að reka út fjörðinn. Í dag hefur aftur verið norðanátt og rekur nú ísinn inn eftir Firðinum. Getur þetta verið mjög hættulegt fyrir smábáta á þessum slóðum. einkum vegna þess, að það gengur á með hríðarbyljum og hvassviðri.

Tilfinnanlegur vatnsskortur hefur verið í Hafnarfirði undanfarnar tvær vikur. Flesta daga hefur verið vatnslaust 6—10 tíma að deginum. Er þetta þó aðeins í þeim byggðasvæðum, sem hæst eru í bænum. Byrjaði þessi vatnsskortur þegar vertíðarfiskur fór að berast til fiskiðjuveranna, því að þau nota mikið vatn.

Þann 21. og 22. gerði aftur ákafa hríð um landið norðan- og austanvert, eina þá verstu um veturinn þótt veðurharkan og frostið væru ekki alveg eins mikil og í janúarlokin. Lægðin fór yfir landið og snjóaði einnig sunnanlands um tíma (en ekki mikið). Tíminn  segir frá 23.mars:

KT-Reykjavík, þriðjudag. Í dag geisar stórhríð um allt Norðurland og sér víða ekki úr augum fyrir veðurofsanum. Á Sauðárkróki mældist skyggni t.d. 0 metrar og skýjahæð 0 metrar. Víða á Norðurlandi hefur veðurhæðin komist í 10 vindstig og snjó hefur kyngt niður um allt norðanvert landið. Í Skagafirði mældist í dag 19 mm úrkoma í miðri sæluviku. Tíu stiga frost mældist á norðanverðum Vestfjörðum í dag, en snjókoma minni en á Norðurlandi en talsverð þó. Snjókoma var alla leið suður í Borgarfjörð og á Hveravelli og austur á Austfirði. Veður var miklu betra sunnanlands, snjólítið, en víða hvasst, t.d. mældust tíu vindstig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Tíminn hafði í dag samband við nokkra fréttaritara sina á Norðurlandi til þess að kanna ástandið.

Í V-Húnavatnssýslu var komin blindhríð og var skyggni talið 10-20 metrar. Hafði kyngt niður snjó á þessum slóðum, en snjólétt hefur verið þar í vetur. Á Skagaströnd var versta veður í dag, en það hafði versnað mjög eftir hádegið. Alger stöðvun var orðin á umferð vegna dimmviðris. Afleitt veður er í dag á Sauðárkróki, eins og getið hefur verið um. Geisar þar norðanstormur með hörkustórhríð, og komst enginn bíll til staðarins í dag. Nærri má geta, að veðurofsinn kemur á slæmum tíma, því að sæluvika Skagfirðinga stendur nú sem hæst. Karlakórinn Feykir átti að skemmta í dag á Sauðárkróki, en komst ekki til staðarins, svo aflýsa varð söngnum, svo og öllum öðrum skemmtunum í sambandi við sæluvikuna. Þetta er eitt versta veður, sem komið hefur i Skagafirði í vetur, en ekki er talið stætt úti við. Akureyringar hafa ekki farið varhluta af veðrinu í dag, en þar hefur verið afleitt veður. Þó mun óveðrið ekki hafa skollið á fyrr en um kl.15. Drangur, sem átti að fara á Ólafsfjörð, Siglufjörð og Sauðárkrók, varð að snúa við fyrir utan Ólafsfjörð, og þykir það bera vott um, hve veðrið hefur verið ofsafengið. Aftakaveður var í Hrísey í dag, stórhríð og rok, 10 metra skyggni. Drangur kom til Hríseyjar í morgun, en þá var veðrið orðið mjög slæmt, en orðið glórulaust eftir hádegið. Bátar voru að vitja um net sín í gær, en gátu ekki vitjað um nema lítið vegna veðurs. Í Bárðardal í Þingeyjarsýslu var stórhríð í dag og sá ekki úr augum. Svipað var ástandið við Mývatn, en þar skall óveðrið á í morgun. Frá kl. 7.30 til 12.30 var norðvestan blindhríð og snjókoma, en síðan slotaði veðrinu og var gott í þrjár  klukkustundir. Brast þá á norðan- og norðaustan hríð.

HZ—Reykjavík, þriðjudag. Mikil hálka hefur verið í Reykjavík og nágrenni síðustu daga. Aðallega hefur hálkan verið á þeim götum, sem eru í úthverfunum, og eru lítið eknar. Þó er þetta ekki einhlítt, því að ekki hefur reynst unnt að strá sandi eða salti á göturnar vegna þess, að snjóað hefur sleitulaust með nokkru millibili síðan á laugardaginn [19.].

Tíminn segir enn af hríðinni í pistli 24.mars:

KT-Reykjavík, miðvikudag. Óveðrið, sem geisaði um allt norðanvert landið í gær, hefur nú lægt mikið. Hefur norðanáttin gengið mikið niður, en gengið hefur á með éljum norðanlands og jafnvel snjókomu, en sunnanlands er léttskýjað. Frost er talsvert fyrir norðan, allt að 10 stigum og meira. Veðrið hefur gert það að verkum, að nú eru svo að segja allir vegir norðanlands lokaðir, en bílfært var orðið um flest héruð, áður en veðrið skall á. Tíminn hafði í dag samband við fréttaritara sína á norðanverðu landinu og fara frásagnir þeirra af veðrinu hér á eftir. Veðurofsinn var einna mestur á Sauðárkróki í gær. Í dag eru allir vegir í Skagafirði ófærir og hafa engir bílar komist til Sauðárkróks í dag. Hefur af þessum orsökum orðið að fresta sæluvikunni, sem hófst um helgina, þar til 11. apríl, en það er annar í páskum. Í gær var mjólkurbíll á leið úr Hofshreppi til Sauðárkróks, en hann strandaði í Hegranesi og var ýta send til aðstoðar, en án árangurs. Fleiri bílar stöðvuðust í Skagafirði í gær, m.a. áætlunarbifreið, sem stansaði í Varmahlíð. Á Ólafsfirði og Dalvík var allt orðið ófært, er blaðið hafði samband við fréttaritara sína þar. Eins og skýrt hefur verið frá, varð Drangur að snúa við í gær vegna veðurs, en fór síðan í morgun og ætlaði til Siglufjarðar og e.t.v. til Sauðárkróks. Á Akureyri hefur allt lokast af snjó. Mjólkurbílum, sem voru á leið úr Hrafnagilshreppi og Öngulsstaðahreppi, var hjálpað til Akureyrar, en tveir snjóplógar voru sendir á móti þeim. Hins vegar var ekki reynt að halda uppi mjólkurflutningum frá Saurbæjarhreppi. Ekki hefur verið mjög slæmt veður á Húsavík, talsverður snjór, en ekki mjög hvasst. Færðin hefur ekki spillst innanbæjar, en ófært er um sveitirnar, en reynt er í dag að ryðja vegina. Óveðrið skall á um sjöleytið í gær á Héraði, en orðið bjart um kl.6 í morgun. Lokuðust allir vegir á svipstundu, en talsvert hafði verið rutt af vegum í héraðinu. Þá er og ófært á Vopnafirði. Á Bíldudal og Ísafirði varð veðrið ekki slæmt í gær og besta veður var komið þar í dag. Bátar á leið til Ísafjarðar af Breiðafjarðarmiðum áttu þó í dálitlum örðugleikum vegna ísingar. Urðu þeir að leita undir land til þess að berja ísinguna af.

Tíminn segir 31.mars frá óvenjumiklum snjó á Hólasandi:

KT Reykjavík, miðvikudag. Tíminn hafði í dag samband við Pétur Jónsson í Kasthvammi í Laxárdal, en hann fór um mánaðamótin janúar-febrúar inn á heiðarnar. Sagði Pétur að allt væri á kafi í snjó á þessum slóðum og einnig á svonefndum Hólasandi sem er litlu austar. Það sagði Pétur að eftir janúarbylinn hefðu staurarnir sem bera uppi háspennulínuna frá Laxárvirkjun farið að meira eða minna leyti í kaf. Hefði hann séð einn þeirra sem stóð um það bil 1 m upp úr snjónum, en þessir staurar eru 8-10 metra háir. Sagði Pétur að sennilega hefði snjórinn aukist síðan, þannig að búast mætti við að eitthvað af staurunum hefði farið í kaf.

Slide5

Um mánaðamótin mars/apríl var hafísinn nærri landi og um stund leit út fyrir að hann legðist að - rétt eins og árið áður. En austlægar vindáttir beindu honum aftur frá. Tíminn segir frá ísnum í frétt 1.apríl - kortið birtist daginn eftir:

FB—Reykjavík, fimmtudag. Miklar líkur eru nú taldar á því að hafís sé kominn allnærri land austan til við Norðurland, en þar sáu menn í gær hafísröndina úti fyrir, frá Skoruvík á Langanesi. í dag hefur verið stöðug norðanátt á hafinu fyrir norðan land, 7 til 8 vindstig, og hlýtur ísinn að að hafa rekið nær landi. Hins vegar hefur ekki snjóað mikið í dag, og skyggni verið slæmt. Veðurfræðingur Veðurstofunnar sagði í kvöld, að norðanátt væri um allt land, viðast 7 vindstig, og nú snjóaði talsvert norðanlands, og allt suður á Austfirði. Bjart veður var víðast hvar á Vesturlandi og á Suðurlandi. Frost er ekki mjög mikið, yfirleitt ekki yfir 10 stig á láglendi, svipað norðan lands og sunnan. Við sjóinn er víðast 5 stiga frost. Veðurfræðingurinn sagði, að hætt væri við, að ísinn væri kominn all-nærri landi austan til við Norðurland. en þegar síðast var flogið yfir þær slóðir 28. mars, var ísröndin 110 km norður undan. Hafði ísinn þá verið heldur nær fjórum dögum áður, en færst fjær vegna vindáttarinnar. Í morgun var 13 stiga frost á Hveravöllum og fárviðri.

Á þessum árum var virkjun Þjórsár við Búrfell í undirbúningi. Svartsýnir töldu slíka virkjun erfiða og vísuðu mjög til ísvandræða - sem erfitt (eða ómögulegt) yrði að leysa. Um mánaðamótin mars/apríl tók áin upp á því að breyta um farveg. Ritstjóri hungurdiska er ekki nægilega kunnugur ánni til að átta sig á því hversu óvenjulegt ástand þetta var né hverjar urðu afleiðingar þess. En fréttirnar eru nokkuð dramatískar. Vísir segir frá 4.apríl:

Fyrir þá sem komið hafa í Þjórsárdal og kynnst helstu stöðum þar, er nú forvitnilegt og allfurðulegt að koma í dalinn og sjá þau náttúruundur, sem þar hafa verið að gerast síðustu daga, þar sem Þjórsá hefur nú breytt svo um farveg, að hún fellur nú niður eftir Þjórsárdal, í stað þess að hinn venjulegi farvegur hennar liggur austan við Búrfell og fyrir mynni Þjórsárdals. Fréttamaður Vísis skrapp austur í Þjórsárdal um helgina. Hinn nýi vegur upp með Þjórsá og inn að Sámsstaðamúla er allgreiðfær, en úr því fara snjóa lög og jarðvatnsklaki að hindra förina. Allar ár og lækir á þessu svæði voru frosnar og yfir Þjórsá hjá Gaukshöfða er svo mikill og traustur ís, að auðvelt er að ganga yfir ána þar. Þó rennur hún þar undir klakanum og þó maður verði þess ekki var þar upp frá, má sjá það í gljúfrunum við Þjótanda hjá Þjórsárbrúnni að þessi stærsta á landsins er svo kraftmikil, að hennar straumur virðist aldrei stöðvast þö hin mestu frost séu. Þegar komið er svo að hinni nýju brú yfir Fossá í Þjórsárdal skammt fyrir ofan Hjálp, þá ber þar einkennilega sjón fyrir augu. Í stað þessarar bergvatnsár, sem ætti að vera uppþornuð og gersamlega botnfrosin, þá stendur kolmórauður og úfinn jökulfljótsstraumur niður eftir farveginum og jakastykki berast niður með flaumnum. Fyrir þá sem hafa lært að meta fegurð Þjórsárdalsins er það þó stærsta breytingin að koma nú upp að fornbýlinu Stöng og Gjánni þar rétt hjá. Í margra augum er Gjáin einn fegursti blettur á landinu, þar sem hinn tæri og fallegi bergvatnslækur Rauðá kemur niður gljúfur og líðast á milli hins safamikla gróðurs og grænu hvanngrænu vinjar. Nú er þar allt öðru vísi umhorfs, og er það sannarlega furðuleg og stórfengleg sjón, að sjá Þjórsá eða að minnsta kosti mikinn hluta hennar koma æðandi yfir hálsinn og niður Gjárfoss, brjótast þar um klettana og Gjána með ofsa og að því er virðist umturna öllu. Sennilega hefur mönnum ekki verið það ljóst, að Þjórsá myndi nokkurn tíma koma og brjótast í gegnum Gjána í Þjórsárdal og streyma sem stórfljót framhjá Stöng. Það er nú stórfengleg sjón að er kannski lakara, að hugsanlegt er, að Þjórsá valdi nokkrum spjöllum í þessari fögru gróðurvin dalsins, því að útilokað er annað en að flaumur jökulelvunnar hafi í þessum ofsagangi sópað burt einhverju af gróðrinum sem þarna hefur náð að festa rætur, enda fyllir fljótið gjána milli kletta að miklu leyti. Við getum því búist við því að næsta sumar verði heldur ömurlegt að koma í heimsókn á þennan stað og sjá jökulframburð og grjótnúna kletta, þar sem hvannastóðið var áður.

Tíminn segir frá því sama 5.apríl, en ekki alveg á sama hátt:

KT—Reykjavík, mánudag. Eins og kunnugt er af fréttum, hefur Þjórsá nú um skeið flætt að hluta yfir í Rauðá og niður í Þjórsárdal. Auk þess flæddi nokkur hluti árinnar yfir bakka sína að austan og fór þar yfir stór svæði. Er fréttamaður blaðsins brá sér upp með ánni um helgina, höfðu myndast stórar ísbreiður austan árinnar, þar sem hún hefur flætt yfir. Við Tröllkonuhlaup hafði mikill ís safnast við bakkana og var fossinn lokaður af ís að austanverðu. Skammt fyrir ofan, eða á þeim slóðum, sem veita á ánni til virkjunarinnar var víðáttumikil ísbreiða að austanverðu, en áin rann með vesturbakkanum og var lítil að sjá. Var ísinn mannheldur að anni, en nærri lætur, að þegar að ís röndinni var komið, hafi maður staðið í miðri ánni. Ísbreiðurnar stækkuðu eftir því, sem norðar dró, og lokaðist ísinn yfir ánni nærri Klofaey; þar fyrir ofan rennur hluti árinnar yfir í Rauðá og niður í Þjórsárdal. Þá var og talsverður ís í gljúfrunum fyrir neðan áramótin þar sem Tungnaá rennur í Þjórsá.

Tíminn aflýsir ískomu 5.apríl, en segja má að litlu hafi munað - var það mikill léttir:

KT—Reykjavík, mánudag. Að því er Veðurstofan upplýsti í dag, hefur verið austlæg vindátt á norðan og austanverðu landinu um helgina. Hefur þetta valdið því, að ísinn, sem var skammt frá landi fyrir helgina, hefur færst norðar a.m.k. fyrir Norðausturlandi.

Vorið var ekki hlýtt, en stóráfallalítið. En fréttir af aurbleytu og hálfófærum eða ófærum vegum voru fastir liðir á nánast hverju vori. Gott að rifja þetta upp. Tíminn segir frá 29.apríl:

KT—Reykjavík, fimmtudag. Vegna rigninga undanfarinna daga hafa vegir viða stórspillst. Vegagerð ríkisins upplýsti í dag að farið er að takmarka umferð um Suðurland og báðar Þingeyjarsýslur af þessum völdum. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar í dag er umferð um alla vegi á Suðurlandi með nokkrum undantekningum, bönnuð bifreiðum sem hafa meiri öxulþunga en 5 tonn. Undantekning er Suðurlandsvegur í Árnessýslu, Skeiðavegur, Gnúpverjavegur, Þrengslavegur og Þorlákshafnarvegur frá Þrengslavegi. Auk þess hefur um ferð ekki verið takmörkuð um nokkra hliðarvegi í Skaftafellssýslu. Öll umferð um vegi i Þingeyjarsýslum er nú takmörkuð við 5 tonna öxulþunga og segja má, að allir vegir á Austfjörðum séu ófærir öðru en jeppum. Annars staðar á landinu fara vegir hríðversnandi.

Tíminn segir 14., 20. og 26.maí enn af aurbleytu og þungatakmörkunum:

{14.] KJ — Reykjavík föstudag. Tíminn hafði í dag samband við Vegamálaskrifstofuna og spurði um ástand aðalvega út um landið. Margir fjallvegir eru enn á kafi í snjó, og þungatakmarkanir eru víða á vegum. Vegurinn frá Reykjavík og norður til Akureyrar er fær, og í eðlilegu ástandi miðað við þennan tíma árs. Þungatakmarkanir eru á leiðinni frá Kollafirði og að Akranesvegamótum — sjö tonna öxulþungi er leyfður í stað níu og hálfs tonns venjulega. Fært er vestur í Reykhólasveit, en Þorskafjarðarheiði og Þingmannaheiði alófær. Víðast hvar mun vera fært á milli fjarða á Vestfjörðum, nema Breiðdalsheiði á milli Ísafjarðarkaupstaðar og Önundarfjarðar, sem er í kafi í snjó og óvíst hvenær reynt verður að ryðja heiðina. Frá Akureyri er fært til Húsavíkur og upp í Mývatnssveit, en þaðan eru allir vegir lokaðir austur á bóginn. Rutt var úr Mývatnssveit og austur að Grímsstöðum fyrir nokkru, en vegurinn tepptist svo til strax aftur. Í kringum Akureyri eru þungatakmarkanir á vegum, og leyfður 5 tonna öxulþungi í stað 7 tonna venjulega. Aðalvegir austur á Héraði eru flestir færir, en þungatakmarkanir á vegum nema á leiðinni Reyðarfjörður — Eskifjörður. Hér á Suðurlandi eru allir vegir færir, og ekki aðrar þungatakmarkanir en þær sem að framan getur.

[20.] KJ—GÞE — Reykjavík, fimmtudagur. Færð er víða mjög slæm á vegum vegna aurbleytu, og sumir vegir eins og vegurinn austur í Grímsnesi og Flóavegurinn eru alófærir eða illfærir litlum bílum. Fjallvegir á Austurlandi eru flestir lokaðir enn vegna snjóa, og þar sem ekki eru ófært vegna snjóa, eru þungatakmarkanir. Vegurinn austur í Grímsnesi í Árnessýslu má heita alófær litlum bílum, og er mönnum ráðlagt að leggja ekki út í að aka hann, nema brýna nauðsyn beri til. Þá er Flóavegurinn fyrir austan Selfoss mjög slæmur og litlum bílum varla leggjandi í að aka veginn. Mikil rigning var fyrir austan fjall í gærkveldi, og um hádegisbilið í dag rigndi stanslaust í meira en klukkutíma. Vaðlaheiðarvegurinn er orðinn slarkfær, en þar er fjórtán metra hár snjóruðningur efst í heiðinni vestan megin. Aurbleyta er víða í veginum, og rann því ekki nema slarkfær. Færð er ennþá afar slæm á Austurlandi, að því er Vegagerðin tjáði blaðinu í dag. Fjallvegirnir yfir Oddskarð og Lágheiði eru lokaðir svo og Fjarðarheiði, en í dag er verið að moka þar snjó Seyðisfjarðarmegin upp í Efristaði, og frá Egilsstöðum upp að Brún, en þá er eftir 11 km kafli, sem ófært er um nema á snjóbílum. Verið er að opna veginn til Borgarfjarðar eystra, en hann hefur nú verið lokaður um langa hríð. Jeppafært er í Jökuldal upp að Gilsá, og Suðurfjarðarvegur er jeppafær til  Breiðdalsvíkur frá Reyðarfirði. Eins og fram kom í blaðinu í dag, er öxulþungi takmarkaður við 5 tonn á öllum vegum Austurlands nema á veginum milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Hvörf og aurbleyta er víða á þjóðvegum, og skyldu ökumenn gæta varúðar, ef þeir vilja heilum vögnum heim aka.

[26.] Samkvæmt upplýsingum Vegamálaskrifstofunnar í dag, hefur ástand vega á Suðurlandi farið batnandi að undanförnu. Annars staðar eru vegir í mjög slæmu ásigkomulagi vegna aurbleytu og snjóalaga. Munu vegirnir vera mánuði seinna en venjulega að lagast eftir veturinn. Fært mun nú vera um þjóðvegi á Suðvesturlandi og um allt Snæfellsnes. Þá er og fært í Þorskafjörð en ekki lengra vestur. Þorskafjarðarheiði og Þingmannaheiði eru báðar lokaðar, en fært er á milli fjarða á Vestfjörðum, nema um Breiðdalsheiði. Fært er um Holtavörðuheiði til Hólmavíkur og jeppafært til Djúpuvíkur. Vegir eru sæmilegir um alla Húnavatnssýslu, en ófært fyrir Skaga. Í Skagafirði er fært norður í Fljót og í Eyjafirði er fært til Dalvíkur. Vaðlaheiði er að verða fær öllum bílum, en leiðin milli Akureyrar og Húsavíkur hefur verið lokuð bílum með meira en sjö tonna öxulþunga. Fljótsheiði hefur lokast aftur og öxulþungi um Köldukinn hefur verið takmarkaður við sjö tonn. Fært er í Mývatnssveit og jeppafært að Grímsstöðum á Fjöllum. Öræfin suður af Grímsstöðum eru lokuð öllum bifreiðum. Á Héraði eru vegir færir jeppum upp að Gilsá og Oddsskarð er nýrutt og fært jeppum. Opið er í Borgarfjörð eystra. Nú er verið að ryðja Fjarðarheiði og hefur verið unnið að því báðum megin frá. Er nú aðeins eftir um tíu kílómetra langur kafli á háheiðinni, en snjóbíll er þar í förum. Unnið er að því að opna Breiðdalsheiði, en óvíst er, hvenær hún verður fær bifreiðum. Verið er að lagfæra Suðurfjarðaveg og er dágóð færð til Stöðvarfjarðar og jeppafært á Djúpavog. Þaðan er góður vegur til Hornafjarðar. Á Suðurlandi eru allir aðalvegir opnir, en vegurinn um Grímsnesið er hálflokaður um þessar mundir.

Tíminn segir 27.maí frá snjóalögum á hálendinu:

GÞE—Reykjavík, miðvikudag. Þyrla Landhelgisgæslunnar, sem að undanförnu hefur verið notuð til fólksflutninga yfir Fjarðarheiði kom til Reykjavíkur í gærkvöldi. Með henni voru Björn Jónsson flugmaður, og Halldór Eyjólfsson, ísamælingamaður hjá Raforkumálaskrifstofunni. Blaðið hafði samband við Halldór Eyjólfsson, og gerði hann í stórum dráttum grein fyrir leiðinni, sem flogin var. Þeir félagar lögðu af stað í gær kl.10 árdegis frá Egilsstöðum og stefndu inn Jökuldalsheiði og flugu norðan við Snæfell og sunnan við Dyngjufjöll. Síðan fóru þeir norður fyrir Trölladyngju og vestur á Sprengisandsveg um Fjórðungsöldu. Þá flugu þeir fram fyrir Sóleyjarhöfða, þar sem þeir höfðu viðkomu í mælistöð Raforkumálaskrifstofunnar. Ferðin til Reykjavíkur gekk alveg að óskum og telur Björn Jónsson flugmaður hana vera þrjá og hálfa klukkustund með viðstöðulausu flugi. Halldór kvaðst hafa haft auga með snjónum á Suðurhálendinu, og kvað ástandið í þeim efnum síður en svo gott, Sprengisandsvegur væri ekki fær nema inn að Búðarhálsi. en Fjallabaksleið ekki fær nema inn að Laufdalsvatni. Þá væri mikill snjór austan við Þórisvatn og vatnið sjálft algjörlega lagt Þeir félagar flugu í lítilli hæð en þyrlan getur hæst flogið 1000 m yfir sjávarmáli. Mikið var að sjá af hreindýrum á Jökuldalsheiðinni og stefndu þau suður að Kverká.

Tíminn segir 2.júní frá vorverkum og heyflutningum:

SJ—Reykjavík, miðvikudag. Það er lítið um það enn, að bændur séu byrjaðir á vorverkum vegna aurbleytu og klaka í jörðu — sagði Kristján Karlsson, erindreki, er Tíminn átti tal við hann í dag. — Ennfremur hefur verið óvenju kalt í veðri í maímánuði. Í fyrra var maímánuður einnig kaldur fyrir norðan og austan en sunnanlands var þá mun betri tíð. Það er því lítill munur á ástandinu núna og í fyrra, hvað snertir Norður- og Austurland. — Hey eru nú víða á þrotum, en ekki hefur verið tilfinnanlegur heyskortur hjá bændum. Mikið var flutt af heyi í aprílmánuði til austur- og norðausturhluta landsins, allt frá Þórshöfn suður til Geithellnahrepps í S-Múlasýslu. Einnig var flutt lítilsháttar magn vestur í Ísafjarðardjúp. Bændur greiddu sjálfir allt gjald fyrir síðustu heysendingarnar, en það hey, sem kalnefndin hafði lofað að útvega, var greitt að hluta úr Bjargráðasjóði, sem greiddi flutningskostnað og bindingskostnað, en bændur borguðu aftur á móti sjálft heyverðið. Mest allt heyið var keypt á kr. 1,50 kg en hærra verð var greitt fyrir heyið, sem selt var í vor. Í fyrra var sérstaklega hentugt sumar hér suðvestanlands, heyin voru mikil og góð og heyskaparkostnaður í minna lagi vegna tíðarfarsins, þannig að heysalan hefur áreiðanlega gefið mörgum bændum talsverðar tekjur. Margir bændur seldu um 300 — 400 hesta eða fyrir 45—60 þús. kr.

Tíminn ræðir veðurfarsbreytingar á 15 ára afmælisdegi ritstjóra hungurdiska 5.júní:

GB-Reykjavík, laugardag. Þýski veðurfræðingurinn dr.Hans von Rudloff, sem starfar við veðurfræðistofnunina í Freiburg, spáir því, að veðrátta muni fara kólnandi í heiminum áður en langt um líður og því haldi áfram til næstu aldamóta, og eigi þetta ekki hvað síst rót sína að rekja til eldgosa á síðari árum og nefnir í því sambandi Surtseyjargosið og eldgos á Bali, en fleira tilgreinir hann kenningu sinni til stuðnings, setur það m.a. í sambandi við sólbletti og sólkyndla, atómsprengjur og harðnandi ísalög á norðurheimskautssvæðum. Doktorinn setti þessar kenningar sínar í fyrirlestri á veðurfræðingaþingi í München nýlega og hefur ritað bók um efnið, sem kemur úr á næstunni, en í tilefni þessa áttu tveir blaðamenn viðtal við veðurfræðinginn, sem birtist í síðasta tölublaði vikuritsins „Spiegel“. Dr. von Rudloff hefur stundað rannsóknir sínar s.l. átta ár og kannað feiknin öll af gögnum, veðurathuganir í ýmsum löndum, hinar elstu frá Englandi, gerðar 1670 og aðrar  hinar elstu frá Prag, Basel, París og Kasan í Rússlandi, og sér til aðstoðar hefur hann haft tvo veðurfræðinga við þessar rannsóknir. Hann er ekki einn um það, að rekja veðurfar til tíðni sólbletta, setur þá þó ekki í samband við gos á sólinni eins og áður var talið, en tilnefnir annað fyrirbæri, sólkyndla, sem komi til af gasgosum og hafi miklu meiri áhrif á veðurfar á jörðu. Það er fréttnæmast mundi teljast hér á landi við kenningar hins þýska veðurfræðings er það, sem hann hefur að segja um eldgos á jörðunni og áhrif þeirra á veðráttuna. Hann nefnir fyrst hið víðfræga eldgos á Krakatá 1883, er hann telur að hafi átt talsverðan þátt í kólnandi veðráttu á síðustu árum aldarinnar sem leið, því að gosrykið í loftinu hafi minnkað um sex af hundraði að sólargeislarnir næðu til jarðarinnar. Líkur bentu nú til, að hin miklu eldgos síðustu tvo áratugina, t.d. þrjú á Íslandi, Heklugosið, Öskjugosið og Surtseyjargosið, mundu verða til þess að draga sama dilk á eftir sér. Gosefnin, sem berast út í andrúmsloftið, valda einangrun, sem verður hindrun á vegi sólarhitans til jarðarinnar.

Tíminn segir 7.júní af vorleiðangri á Vatnajökul (sem enn eru reglulegir):

KJ-Reykjavík, mánudag. Í gærkveldi kom til Reykjavíkur leiðangur Jöklarannsóknafélagsins sem fór í hinn árlega leiðangur sinn á Vatnajökul til að rannsaka þar snjóalög og breytinguna á Grímsvötnum eftir hlaupið sl. haust. Reyndust snjóalög vera heldur meira en í meðallagi en Grímsvötnin hafa sigið á um 25 ferkílómetra svæði, að því er dr. Sigurður Þórarinsson  jarðfræðingur og leiðangursstjóri í ferðinni tjáði Tímanum í dag.

Tíminn segir 9.júní frá kálræktarvandræðum - og norræna veðurfræðingaþinginu sem í fyrsta sinn var haldið á Íslandi:

EÓ—Þorvaldseyri, Eyjafjallahreppi, miðvikudag. Búast má við erfiðleikum á kálrækt á Suðurlandsundirlendi í sumar og má telja hana útilokaða á mörgum stöðum vegna ótíðar og klaka í vor. Á þetta helst við um útsveitir og uppsveitir á Suðurlandsundirlendi. Hér undir Eyjafjöllum hefur vorið ekki farið illa með bændur. Að vísu er ekkert hægt að eiga við flög um þessar mundir vegna bleytu og rigninga, en grasspretta er ágæt og hafa kýr nægilegan haga á túnum. Í Hreppum og Tungum er aðra sögu að segja. Þar hefur ekki enn verið hægt að hleypa út kúm, þó að þess verði væntanlega ekki langt að bíða úr þessu. Hins vegar eru víða á þessum slóðum öll nýræktarflög á floti og ekki nokkur leið að koma dráttarvélum eða öðrum tækjum inn á flögin. Torveldar þetta mjög kálræktina og má búast við. að hún verði útilokuð á stórum svæðum

SJ—Reykjavik, miðvikudag. Þessa dagana stendur yfir í Hagaskólanum i Reykjavík ráðstefna norrænna veðurfræðinga, og eru gárungarnir svo sem ekki hissa á ótíðinni í Reykjavík og nágrenni. Þegar við hringdum í Veðurstofuna í dag, varð Knútur Knudsen, veðurfræðingur, fyrir svörum, og kvaðst hann ekki búast við, að erlendu veðurfræðingarnir væru ánægðir með veðrið, aftur á móti hefði það getað verið mun verra í dag, en veðurfræðingahópurinn skrapp austur í sveitir í dag til að skoða sig um. í ráði var að fara að Gullfossi og Geysi, ef fært yrði þangað. Á föstudagskvöld munu veðurfræðingarnir verða boðnir til veislu í ráðherrabústaðnum, og er þá gert ráð fyrir að birti til. Horfur eru á suðlægri átt hér sunnanlands næstu daga, en það þýðir að á sama tíma er þurrt og hlýtt fyrir austan og norðan. Á ráðstefnunni, í Hagaskóla sitja um 35 veðurfræðingar frá Danmörku. Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og 18 íslenskir þátttakendur. 28 erindi, um margvísleg veðurfræðileg efni, verða haldin á ráðstefnunni, er lýkur á laugardag.

Seint komu sumarblómin í skrúðgarða borgarinnar. Vísir segir 9.júní:

Fyrstu sumarplönturnar frá ræktunarstöð borgarinnar í Laugardal voru settar niður í gær í Tjarnargarðinn og í dag er verið að gleðja augu vegfarenda í miðbænum með gróðursetningu fyrstu blómanna á Austurvelli. ... Sumarblómin koma óvenju seint á almannafæri að þessu sinni. Það gera frostin i vor sem nærri höfðu riðið ungu plöntunum að fullu, þegar verst gegndi. Klaki hefur líka haldist óvenjulengi i jörðu og hindrað að hægt væri að undirbúa jarðveginn almennilega. Regnskúrirnar síðustu daga hafa hins vegar gert plöntunum mikið til góða og vonandi dafna þær vel.

Tíminn segir fréttir af kornrækt 10.júní:

KT—Revkjavík, fimmtudag. Kornræktartilraunir verða með svipuðu sniði í sumar og að undanförnu, að því er Jónas Jónsson, cand.agr. hjá Búnaðarfélaginu, tjáði blaðinu í dag. Vegna þess, hve vorið er seint á ferðinni, hefur verið erfitt að sá korni nógu snemma víða á landinu. Blaðið hafði samband við nokkra kornræktarbændur, og kom í ljós, að kornræktin verður nú í talsvert smærri stíl en undanfarin ár.

Vegir fóru loks að þorna. Tíminn segir frá 12.júní (en síðar komu meiri aurbleytufréttir):

KT-Reykjavík, laugardag. Vegir eru víðast hvar að batna og verða færir, en eiga þó langt í land að verða góðir. Eru vegirnir miklu seinni að jafna sig eftir veturinn en undanfarið, en klaki er víðast hvar enn í jörðu.

Tíminn segir 14.júní frá aurskriðu í Hvalfirði og leysingum og blautum vegum fyrir norðan:

Um klukkan eitt aðfaranótt sunnudagsins féll aurskriða á Hvalfjarðarveginn skammt innan við Staupastein og varð vegurinn af þeim sökum ófær öllum venjulegum bílum. Gerðar voru ráðstafanir til að ryðja bílunum braut og fór veghefill með ýtutönn af stað frá Reykjavík. Var hann kominn á staðinn rétt fyrir klukkan fimm á sunnudagsmorguninn og biðu þá upp undir þrjátíu bílar beggja megin skriðunnar. Höfðu sumir bílarnir beðið þarna í næstum fjóra tíma og þar á meðal var hópferðabíll á leið upp á Akranes.

FB-KT-Reykjavík, mánudag. Sunnanáttin hefur verið ríkjandi hér á landi síðustu daga, en í kvöld var vindáttin orðin vestlægari, og veðurfræðingar bjuggust víð að meira hægviðri yrði á morgun, og vindáttin ekki eins óstöðug. Norður á Akureyri rigndi í dag, og um hádegisbilið var þar aðeins tíu stiga hiti, en mestur hiti varð þar 17 stig. Í gær komst hitinn upp í 21 stig á Akureyri en hlýjast var þá á Tjörnesi 22 stig. Þessi hlýindi, sem náð hafa inn á öræfi landsins hafa orðið til þess að vöxtur hefur hlaupið í ár, og sömuleiðis hefur veðráttan komið hart niður á vegakerfinu, sem spillst hefur vegna leysinga.

Eins og skýrt hefur verið frá hér í blaðinu, eru vegir víða lokaðir eða illfærir vegna aurbleytu eða snjóa. Nú hefur vegurinn yfir Öxnadalsheiði bæst í hópinn, en þar hefur vatn víða runnið yfir veginn. Vatn hefur leyst úr hlíðinni fyrir ofan veginn í svo stórum stíl, að ræsin hafa ekki getað séð fyrir því. Þrátt fyrir þetta hefur tekist að halda veginum opnum, en mönnum er ráðlagt að fara þennan veg að morgni, eða snemma dags til þess að forðast leysingavatnið.

Þá er það kalið - en fréttir af slíku voru eiginlega fastur liður þessi árin. Tíminn 6.júlí:

KT-Reykjavík, þriðjudag. Talsvert hefur borið á kali í túnum í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Ástandið er verst í sveitunum inn af Skjálfandaflóa og búast nokkrir bændur á þeim slóðum við tæplega helmingi minni heyfeng en venjulega. Við þetta bætist að spretta hefur verið með minna móti í vor og heybirgðir eru víða óverulegar.

Landsmót hestamanna var haldið á Hólum í Hjaltadal - þar hvessti til vandræða. Tíminn segir frá  19.júlí:

KJ—Reykjavík, mánudag Í rokinu og rigningunni, sem gerði að Hólum í Hjaltadal um hádegisbilið á sunnudaginn [17.júlí] fuku mörg tjöld af tjaldstæðinu, og einnig varð vegna roksins að fella stórt og mikið veitingatjald, sem stóð heima við Hólabæinn. Sum tjöldin, sem voru með föstum botnum belgdust út og börðust um í rokinu, þangað til Kári karlinn hafði betur og feykti þeim í burtu með vindsængum, svefnpokum og öllu saman. Þessi suðvestanátt, sem gerði svo skyndilega þarna í Hjaltadalnum er frekar óvenjuleg þar um slóðir, en þegar hún kemur, er hann hvass. Um tíma leit út fyrir algjört neyðarástand á tjaldstæðinu, því ofan á rokið bættist rigning, en þegar lægði og stytti upp, náði fólkið saman föggum sínum, og er vonandi, að hver hafi haft sitt.

Ritstjóri hungurdiska var búinn að steingleyma þessari frétt, en hún birtist í fleiri blöðum. Hvað skyldi hafa verið á ferðinni? Alla vega varð ekkert úr. Vísir 22.júlí:

Rétt þegar blaðið var að fara í prentun barst frétt frá Ingvari Þórarinssyni, fréttaritara Vísis á Húsavík, um nýtt jarðhitasvæði, sem hefur uppgötvast í Þingeyjarsýslu. Eysteinn Tryggvason jarðfræðingur hefur athugað staðinn og telur mögulegt að þarna verði eldgos innan tíðar. Svæði þetta er á Reykjaheiði, nokkur hundruð metra norðan við hið gamalkunna jarðhitasvæði á Þeistareykjum. — Hjörtur Tryggvason, bæjargjaldkeri á Húsavík, sem er þekktur náttúruskoðandi, var þarna á ferð. Tók hann eftir því, að allur júnígróður var farinn að skrælna á nokkur hundruð fermetra svæði á þessum stað Hann stakk þarna niður hitamæli og mældist hitinn um 60 gráður, aðeins þumlungi neðan við yfirborð. Bróðir Hjartar er Eysteinn Tryggvason, jarðfræðiprófessor í Bandaríkjunum, en hann er einmitt um þessar mundir staddur norður í Þingeyjarsýslu. — Hann fór með Hirti á staðinn í gær og athugaði hann. Hann sagði, að hugsanlegt væri, að þarna kæmi hraun þá og þegar og jafnvel án þess að neinir jarðskjálftar yrðu. Þarna hefur ekki mælst áður neinn jarðhiti og vekur því mikla furðu, að hitinn skuli nú vera orðinn 60 gráður við yfirborð jarðar. Undanfarið hafa gerst miklar breytingar á Þeistareykjasvæðinu, og má segja, að það sé til alls víst. Þegar Vísir hafði samband við dr. Sigurð Þórarinsson jarðfræðing í hádeginu, hafði hann einnig frétt af þessu. Taldi hann líklegast af framkomnum upplýsingum, að þarna hefðu orðið mjög snöggar breytingar á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum. Hins vegar væri alveg mögulegt, að þarna væri um byrjun á gosi að ræða, alveg eins og Öskjugosið, sem byrjaði með myndun hvera. Verður þetta mál nú rannsakað nánar. Engin lykt er á þessu nýja jarðhitasvæði.

Slide6

Þann 21. júlí varð gríðarlegt úrhelli víða um landið suðvestanvert, olli það töluverðu tjóni og upp úr því gekk síðan í sérlega óvenjulegt norðanillviðri. Fjallað er um þetta veður og framhald þess í ágætri grein Ólafs Einars Ólafssonar í tímaritinu Veðrinu 1968 - lesið hana. Tíminn segir frá 22.júlí: 

SJ—FB—Reykjavík, fimmtudag. Í vatnsveðrinu í dag urðu miklar skemmdir á öllu vegakerfinu út frá Reykjavík, upp í Hvalfjörð og austur á Þingvelli. Tvær skriður féllu á Hvalfjarðarveginn við Staupastein og Hvítanes, og skriða féll rétt við bæinn Kambshól í Strandarhreppi, og olli þar talsverðum skemmdum á túninu. Úrkoman í Reykjavík mældist frá kl. 9 til 18, 33,5 mm og er það meira en mesta úrkoma sem mældist á sólarhring á tímabilinu júlí — september frá árinu 1931 til 1950, en hún var 33,4 mm. — Það má búast við veðri eins og því, sem verið hefur hér á Suðvesturlandi í dag, að meðaltali einu sinni á 20 árum, sagði Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, þegar við hringdum til hans í dag til þess að fá sem gleggstar upplýsingar um úrkomuna. — Samkvæmt skýrslum frá 1931 til 1950 varð mesta sólarhringsúrkoman á tímabilinu júní til september 33,4 mm, en í dag hafði mælst 33,5 mm frá kl.9 til kl.18 hér í Reykjavík — Úrkoman fer sjaldan yfir 20 mm á sólarhring hér, en ég man nú reyndar einu sinni eftir, að hér rigndi 17 mm á hálftíma, sagði Páll. Mest rigndi á Þingvöllum í dag frá 9 til 18, 42 mm, úrkoman mældist 34 mm á Hellu, 37 í Síðumúla, en annars rigndi víðast hvar eitthvað á öllu landinu í dag. Einu staðirnir, sem tilkynntu ekki rigningu voru Fagurhólsmýri, Akureyri, Hornbjarg Kjörvogur og Æðey. Í dag var suðvestanátt og hitinn í Reykjavík kl.18 mældist 11 stig. Hlýjast var á Staðarhóli 17 stig, og 16 stig á Akureyri. Á morgun er spáð norðvestan og norðan átt og búist við að létti til í Reykjavík.

Um 4 leytið í dag fékk Vegagerð ríkisins fyrst fréttir af spjöllum vegna hinnar gífurlegu rigningar — bifreið, sem var búin talstöð skýrði frá því að skriða hafði fallið á móts við Hvítanes í Hvalfirði. Tveir vegheflar voru á þessari leið og tókst þeim að ryðja veginn, en skömmu síðar féll önnur skriða, sem vegheflunum tókst ekki að ryðja af veginum og var þá send ýta frá Vegagerðinni. Þegar ýtan var á leið um Kjalarnesið, var hún rétt komin fram hjá ræsi við Móa, er vatnsflaumurinn skolaði því burtu, og eftir það var ófært. Ýtan komst alla leið inn í Hvalfjörð og tókst með hennar aðstoð að ryðja veginn á ný og var þeim aðgerðum lokið, um 7 leytið í kvöld. Ýtan átti að vera í Hvalfirði í nótt, en ekki er gert ráð fyrir, að skriðuföll verði meiri, þar sem veður spáin var orðin hagstæð í kvöld. Starfsmenn Vegagerðarinnar sögðu, að í mörg ár hefði ekki komið svo mikil úrkoma á þessum tíma árs. Búist var við, að vegarkaflinn við Móa myndi senn verða fær bílum, og um leið vegurinn fyrir Hvalfjörð. Þá hafði Vegagerðinni borist fregnir af því, að skriða, hefði fallið yfir Dragaveg og lokað fyrir alla umferð. Enn fremur var ófært í Svínadal og ár flæddu yfir vegi í Norðurárdalnum.

Tíminn hafði spurnir af því í dag, að skriða hefði fallið rétt hjá bænum Kambshól í Strandarhreppi í Borgarfjarðarsýslu, og náði blaðið sambandi við bóndann á Kambshól, Vilhjálm Þorsteinsson 33ja ára, og sagði hann m.a. — Við vorum öll inni þegar við heyrðum heilmikla skruðninga, og álitum fyrst, að þetta væri flugvél, en þegar Við komum út, fór um við ekki í neinar grafgötur með, hvað hefði gerst — skriða hafði fallið úr bröttu fjallinu fyrir ofan, yfir túnið, og rétt framhjá bænum. Hefði skriðan lent á bænum, hefði hún örugglega valdið spjöllum á honum. Okkur leist ekki á að dvelja lengur á bænum með börnin, og fór ég með konu mína og fimm börn yfir að næsta bæ, sem heitir Eyri, og þar ætlum við að dvelja í nótt. — Það hafa áreiðanlega margir orðið fyrir tjóni af völdum skriðuhlaupa, talsvert, stórt svæði af túninu á Kambshól er grafið undir skriðunni, sem er u.þ.b. fet á þykkt, þar sem hún er þykkust. Árnar hér í kring, Landá, Súlá, Glammastaðaá, og Grjótá flæddu allar yfir bakka sína og gerðu mikil spjöll á veginum, sem varð alveg ófær bílum, og ætla vegagerðarmenn að reyna að koma aftur á vegasambandi á morgun.

Geysilegur vatnsflaumur var á flestum götum Reykjavíkur í dag, og mátti sjá gusurnar ganga yfir bæði bíla og menn, sem létu hafa sig út í rigninguna. Niðurföll stífluðust víða, og gekk nokkuð seint að lagfæra þau, þar sem starfslið er nú með minnsta móti vegna sumarleyfa. Lögreglumenn voru á ferð um allan bæ og reyndu þeir að fylgjast með því, að börn færu sér ekki að voða í húsagrunnum og skurðum sem fljótlega fylltust af vatni. Upp úr hádeginu voru menn byrjaðir að halda vatninu í skefjum að sem mestu leyti. Ekki hafði Lögreglan spurnir af neinum slysum eða vandræðum vegna veðursins hér í Reykjavík, en þó hafði flætt alveg yfir Háaleitisbrautina á einum stað, og sömuleiðis yfir Borgartún ið fyrir framan Klúbbinn.

Mest úrkoma í dag var á Þingvöllum, 42 mm. Fréttaritari blaðsins í Þingvallasveit sagði í dag, að vegir þar væru erfiðir og lítil umferð um þá. Nefndi hann að lækur einn, sem venjulega er þurr á sumrum, hefði nú komið fram. Þá féll skriða inn á sumarbústaðaland við Helgafell í Mosfellssveit og gerði talsverð spjöll á girðingu og í garðinum kringum sumarbústaðinn. Eigendurnir, sem voru í bústaðnum, þegar skriðan féll, höfðu undanfarið lagt mikla vinnu í að snyrta og fegra garðinn.

Slide7

Morgunblaðið birti þann 26. ítarlega frétt af skriðuföllum á Kjalarnesi. Klippan hér að ofan er efri hluti hennar. Í sama úrhelli féll einnig mikil skriða í Eystra-Seleyrargili í Hafnarfjalli. Þar var elsta stíflumannvirki vatnsveitu Borgarness. Miklar skemmir urðu, en til allar hamingju hafði önnur stífla verið reist í vestara gilinu fáeinum árum áður þannig að ekki kom til stórfellds vatnskorts. Þeir sem vita af þessu skriðufalli geta enn séð afleiðingarnar, en þau dyljast sjálfsagt öðrum nú orðið. 

Og svo gekk í afspyrnuslæma norðanátt. Tíminn segir frá 24.júlí:

HZ-Reykjavík, Stjas-Vorsabæ, laugardag. Hvöss norðanátt var um allt landið í nótt og búast mátti við að veðrið haldist óbreytt í dag og á morgun. Sunnanlands og vestan var hiti 7—10 stig, þurrt að mestu og 6—8 vindstig. Á Norður- og Austurlandi var hvasst á annnesjum og rigning. Hiti var 4—5 stig, aðeins 1 stigs hiti á Hveravöllum og snjóaði í fjöll. Eins og skýrt var frá í blaðinu á föstudag, voru bændur sunnanlands orðnir uggandi um heyskapinn vegna langvarandi ótíðar. Í fyrrakvöld létti til, og bændur fóru að slá, en í dag er orðið svo hvasst, að ekki er nokkur leið að ná saman því heyi, sem þurrt er orðið. Virðist því lítið hafa ræst úr fyrir heyskapnum enn.

KT—Reykjavík, fimmtudag. Úrkoma hefur verið mikil síðustu daga á Suðurlandsundirlendi og hefur hún tafið mikið fyrir heyskap, að því er fréttaritarar blaðsins sögðu í dag. Víðast. hvar var búið að slá, en víða lá hey á túnum, þegar rigningin gekk í garð. Liggur því mikið hey undir skemmdum meðan menn sitja næstum aðgerðalausir og bíða eftir að stytti upp. ... Tún eru kafloðin þar sem ekki hefur verið slegið og verða þau víðast hver úr sér sprottin ef ekki verður hægt að slá þau á næstunni. Eru margir því uggandi um heyskapinn í sumar.

Slide8

Kortið sýnir stöðuna að kvöldi 23. júlí. Þá er haugarigning og hvassviðri um allt norðaustanvert landið og nær hvassviðrið suður um, t.d. eru 10 vindstig á Hellu á Rangárvöllum og 11 á Stórhöfða. Snjókoma er á Grímsstöðum á Fjöllum. Alhvítt varð þar 2 morgna, snjódýpt 10 cm að morgni 24. og hefur aldrei mælst meiri snjódýpt í byggð á Íslandi í júlímánuði. 

Tíminn segir enn af norðanveðrinu mikla í frétt 26.júlí:

FB-Reykjavík, mánudag. Sunnlenskir bændur urðu fyrir miklu tjóni um helgina, og muna menn ekki annað eins veður á þessum árstíma. Þök tóku af húsum, og útihús fuku og gjöreyðilögðust. Mörg hundruð hestar af heyi fuku, jafnvel á þriðja hundrað hestar á einum og sama bænum. Heyið dreifðist út um allt, og er það undir veðráttu næstu daga komið, hvort nokkru verður bjargað. Sums staðar lagðist heyið á girðingar og sligaði þær alveg niður.

KT-Reykjavík, mánudag. Fyrir helgina myndaðist lágþrýstisvæði vestur af Jan Mayen, um leið og loftþrýstingur hækkaði yfir Grænlandi. Varð um 30 millibara munur á þessum svæðum og olli það miklum norðanvindi hér á landi um helgina. Þessar upplýsingar gaf Páll Bergþórsson, veðurfræðingur í kvöld. Norðanveðrið hófst á föstudag [22.júlí] og náði hámarki á laugardagskvöld. Náði vindurinn víða 9—10 stigum, sérstaklega á annesjum norðanlands og á miðunum. Fylgdu rigning og kuldi þessum vindi. Komst hitinn niður í 3—1 stig mjög víða, en niður undir frostmark í hæstu byggðum. Á Suðurlandi var þurrt víðast hvar og mun hlýrra. Mestur vindhraði mældist á Mýrum í Álftaveri, 12 stig. Á aðfaranótt sunnudags rigndi mikið á landinu. Úrkoman mældist mest á Staðarhóli i Aðaldal, 32 mm frá kl.9 á laugardagmorgni til sama líma á sunnudag. Á sunnudag gekk veðrið niður. Þá mældust 10 vindstig á Akureyri á hádegi, en lægði síðan.

JG-Norðurhjáleigu, Álftaveri, mánudag. Aftaka illviðri var hér í fyrradag, einna verst var veðrið um klukkan 6 á laugardaginn [23.] og um miðnóttina. Gífurlega mikið heytjón varð á flestöllum, bæjum hér í Álftaveri. Margir bændur höfðu slegið óvenjumikið fyrir helgina og búist við þurrki, og lá því heyið flatt. Á sumum bæjum fuku hundruð hesta af heyi. Smávegis kann að verða hægt að bjarga, því heyið lenti á girðingum og niður í skurðum, en vatn er í mörgum skurðanna og er því vart við öðru að búast en heyið verði töluvert skemmt, ef það þá næst upp. Ríður nú á, að næstu daga verði þurrkur, svo hægt verði að sinna björgunarstarfinu. Elstu menn muna ekki annað eins veður og þetta hér um slóðir.

JRH-Skógum, mánudag. Hér hefur gengið mikið á frá því aðfaranótt laugardags og fram eftir nóttu í nótt. Víða hefur allt fokið, sem fokið getur, og á sumum bæjum hafa fokið mörg hundruð hestar af heyi. Húsþök létu víða á sjá í rokinu t.d. fauk hálft þak af nýju húsi á Lambafelli, og hlöðu tók upp á Raufarfelli og brotnaði hún öll. Víða hafa rúður brotnað í húsum í þessu stórviðri, og rúður brotnuðu í allmörgum bílum hér um slóðir um helgina af grjótfokinu. Óveðrið byrjaði aðfaranótt laugardagsins og var síðan að magnast fram á sunnudag en dró úr því seinni hluta nætur í nótt og í morgun. Úrkomulaust var, og ekki sérlega kalt. Á mörgum bæjum má sjá hey á girðingum, og er ömurlegt yfir að líta eftir þetta hvassviðri. Þar sem hey var flatt fauk það að mestu og annars staðar, t d. á Skógasandi, þar sem búið var að galta tók jafnvel galtana upp, Hafa bændur orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, ekki síst hvað heyið snertir, þar eð fram til þessa hafði verið óþurrkasamt, og heyið lá flatt á flestum bæjum.

SÁÞ-Vík í Mýrdal, mánudag. Í Mýrdalnum var veðrið einna verst um tíuleytið á laugardagskvöldið [23.], og muna menn ekki annað eins veður á þessum slóðum, á þessum tima árs. Mikið tjón varð á bænum Norðurhvammi, þar fauk þak af hlöðu og súrheysturni og hjallur, sem stóð norðan við bæinn fauk upp af grunninum og gjöreyðilagðist. Allt hey, sem Mýrdalsbændur áttu flatt er fokið út í veður og vind, en mjög mikið var flatt víðast hvar. Galtar og sæti fuku einnig. Einna mestur var heyskaði bóndans í Giljum, en hann telur, að hátt á þriðja hundrað hestar af heyi hafi fokið af túninu, og nú mun hann eiga eftir, sem svarar einu kýrfóðri, að því er sagt er. Í Pétursey fuku bæði galtar og sæti, og svipaða sögu er að segja á flestum öðrum bæjum í sveitinni. Á Völlum fauk þak af fjósi og hlöðu, og braggi, nýbyggður, í Eyjahólum skemmdist mjög.

SJ-Reykjavík, mánudag. Á Norður- og Austurlandi var víða aftakaveður um helgina og urðu allmikil spjöll á mannvirkjum á sumum stöðum. Skiptist á úrhellisrigning eða snjókoma, og á Möðrudal var í dag 6—7 cm. djúpur snjór, og gengu þar enn yfir snjóél. Yfirleitt muna menn ekki annan eins veðurofsa á þessum tíma árs. Hér fer á eftir frásögn nokkurra fréttaritara Tímans á þessu svæði.

ED-Akureyri, mánudag. Samkvæmt fréttum frá Dalvík er talið að þar hafi í norðangarðinum króknað fé, sem var nýrúið. Mikið af heyi lá úti og varð það gegndrepa þótt það væri komið upp í sæti. Í Mývatnssveit var ekki mikið hey úti. en greinar af hríslum brotnuðu og kál í görðum skemmdist. Þar gránaði niður í byggð og er haft eftir gömlum mönnum þar að þeir muni ekki eftir snjókomu í byggð á þessum tíma árs. Á Fosshóli var úrhellisrigning og mjög mikið af uppsettu heyi á bæjum í kring varð gegnblautt, en skemmdir urðu engar á  mannvirkjum. Á Svalbarðsströnd urðu nokkrar skemmdir á kartöflugörðum, en þar er annað stærsta kartöfluræktarsvæði á landinu, en ekki er enn vitað hve skemmdirnar urðu miklar Garðarnir eru svartir af mold, og því erfitt að slá hvort grösin séu mikið skemmd eða ekki. Tvær trillur sukku við bryggjuna á Svalbarðsströnd. er skriða hljóp yfir veginn norðan við staðinn. Þá þykir í frásögur færandi, að í ofviðrinu var nokkur trjáreki á fjörum þarna um slóðir. Talið er sennilegt, að þetta sé reki sem var land fastur við Gjögur og þar í kring og að hann hafi tekið út í ofviðrinu og rekið inn með firðinum. Í Saurbæ í Eyjafirði mun hafa brotnað mjög gamalt og stórt grenitré, er stóð við Grundarkirkju. Einnig brotnuðu þar greinar af trjám. Frammi í sveit fuku haftyrðlar á land og þar voru þeir teknir af mannahöndum, en þeir eru heldur ósjálfbjarga á landi. Slíkt gerist stundum í aftaka veðrum á vetrum, en ekki er vitað til að haftyrðlar hafi rekið langt upp á land vegna óveðurs á miðju sumri. Hér í bænum rifnaði stórt reynitré upp með rótum á laugardaginn og talsverð spjöll urðu í Lystigarðinum. Götur voru eins og að haustlagi — lauf og brotnar greinar lágu á víð og dreif. Á Þórshöfn var 0 stiga hiti í gærkveldi, þar hvítnaði niður undir bæi. Þar hefur verið rigning síðan á fimmtudag og heyskaparútlit ekki glæsilegt.

PJ-Dalvík, mánudag. Engar skemmdir urðu hér á Dalvík í veðurofsanum. Svo mikill sjógangur var í höfninni, að ekki þótti annað þorandi en láta skipin Sigurey (áður Þorsteinn þorskabítur) og Björgvin sigla til Akureyrar. Heyskaparhorfur eru mjög alvarlegar, þar sem hér hefur verið látlaus ótíð hátt á aðra viku. Sláttur byrjaði seint, og er gras nú vel sprottið, en það lamdist niður í ofsanum, og verður áreiðanlega mjög erfitt að slá það. Óhemju úrkoma var á laugardaginn og í dag hefur rignt annað slagið. Fjöll eru hvít niður í miðjar hlíðar og fremst í dalbotninum er hvítt niður að bæjum. Þetta tíðarfar er mjög óvanalegt á þessum tíma árs og er líkast haustveðráttu.

IGÞ-Akureyri, mánudag. Í gær var gífurlegt vatn á vegunum hér norðanlands, lækir runnu yfir vegina og vatn lá á þeim í tjörnum. Á laugardaginn, þegar vatnselgurinn var hvað mestur, drap fjöldi bíla á sér og menn urðu að ganga frá þeim og sóttu þá aftur í gær, þegar veðrið tók að lægja. Á Vallárbökkunum t.d. þar sem vegurinn liggur mjög lágt, var vatnið allt upp í mjóalegg, og var þar sérstaklega erfitt yfirferðar.

KS-Grímstungu [væntanlega misritun fyrir Grímsstaði], mánudag. Hér hefur verið hríðarveður síðan í fyrradag, enn er alhvít jörð snjórinn 6—7 cm djúpur, og gengur á með snjóéljum í dag. Talsvert umferðaröngþveiti var hér í fyrrinótt, og yfirgaf sumt fólk bílana og gekk til bæja, en aðrir dvöldu um kyrrt í bílunum og biðu eftir aðstoð. Engum mun þó hafa orðið meint af volkinu. Í gær ruddi hefill leiðina og er vegurinn nú fær bílum. Hér var ekki mikið stórviðri, en við munum ekki til að svo mikið og lengi hafi snjóað á þessum tíma árs. Kýr hafa ekki verið á beit í tvo daga. Sláttur var að hefjast, og er góð grasspretta.

BS-Ólafsfirði, mánudag. Í fyrradag gerði hér norðvestan rok með úrhellisrigningu og olli nokkrum skemmdum. Aðfaranótt laugardagsins rigndi mjög mikið og hélst rigning sleitulaust, þar til fór að draga úr henni seinnipartinn í gær en þó  helst rigningarlemjan enn, og er orðið grátt niður í miðjar hlíðar. Um hádegi á laugardag fór hann að hvessa af norðvestri og jók þá úrkomuna svo, að skýfalli var líkast. Síðari hluta laugardags gekk á með slíkum ofsabyljum, að vart var hundi út sigandi. Í þessum ofsalega veðurham fór margt laust og fast af stað. Hér í bænum fuku þök af húsum, af einu í heilu lagi, af öðru reif pappa og eina og eina járnplötu. Á söltunarstöðinni Stígandi fór allt af stað — síldarkassar, úrgangsrennur, ljósastaurar, bjóð, og var um að litast eins og sprengju hefði verið varpað niður. Vatn fór víða inn í kjallara, og nýuppslegnir grunnar röskuðust og fóru jafnvel af stað í vatnsflaumnum. Þá fuku þök af húsum í Hólakoti og Skeggjabrekku. Í gær sneri hann meira til norðanáttar og hafði þá lægt mesta veðurofsann, en mikill sjór var. Mótorbáturinn Stígandi var á leið frá Jan Mayen í þessum veðurham. Varð hann stundum að halda sjó, og sigla hæga ferð. Á leiðinni tók út léttabátinn hjá honum. Elstu menn muna vart slíkt óveður í júlímánuði.

BJ-Siglufirði, mánudag. Í fyrradag skall hér á norðvestan stórviðri og snjóaði það mikið á Siglufjarðarskarði, að áætlunarbifreiðin, sem var á leið til Siglufjarðar, komst ekki yfir skarðið og þurfti að fá Volvobifreið frá Siglufirði á móti fólkinu. Fólkið skildi við bílana og gekk að sæluhúsinu, en þangað sótti Volvobifreiðin það og ók með það til bæjarins. 4—5 bílar eru nú fastir í skarðinu, en reiknað er með að skarðið verði rutt í kvöld, en von er á ýtu frá Sauðanesi til að ryðja veginn og bjarga bifreiðunum úr sjálfheldunni. Í gærmorgunn var skarðið fært fyrir bíla með keðjur, en ekki tókst að senda út fréttir um lokun skarðsins fyrr en kl.10 i gærkvöldi, þannig, að ef fréttin um snjóþyngslin hefðu borist fyrr, hefðu bílarnir ekki lagt í að aka yfir skarðið. Siglufjarðarskarð hefur oft lokast að sumarlagi, en þetta undirstrikar þörfina fyrir að opna Strákagöngin sem fyrst. Margt aðkomufólk bíður færis að komast á brott frá Siglufirði. Engar skemmdir urðu í bænum af völdum veðurs, og ekki snjóaði nema niður í miðjar hlíðar. Í dag er rigning, en veðurútlit er batnandi.

GJ-Grímsey, mánudag. Í ofviðrinu, sem gekk hér yfir um helgina, varð ekkert tjón. Allmörg skip lágu hér í vari í fyrradag, og opnir bátar leituðu vars í höfninni. Veðurofsinn stóð í allan gærdag en nú er veðrið heldur tekið að lægja. Veðurhæðin komst mest í 13 vindstig. Í sumar hefur verið hér óvenju góð handfæraveiði, bátarnir stunda veiðar hér skammt undan og salta aflann. 8—10 trillubátar róa stöðugt héðan og hér eru einnig handfærabátar frá Færeyjum.

HA-Egilsstöðum, mánudag. Um helgina var hér hvöss norðanátt með rigningu og snjókomu og lokaðist Möðrudalsfjallgarður á tímabili, en hefill var sendur þangað í gærmorgun og opnaði hann leiðina. Einnig var hefill sendur á Fjarðarheiði, en hún var erfið yfirferðar á tímabili í gær. Veðurhæðin í gærmorgun komst upp í 80 hnúta. Það var að sjá í gærmorgun sem talsvert hefði fokið af heyi á bænum Felli og svo virtist sem kartöflugrös hefðu skemmst í rokinu, en frost var aldrei í byggð aftur á móti er enn snjór á fjöllum. Í gær lá flug alveg niðri. Flugvél FÍ, sem var á leið frá Ísafirði um Akureyri, gat ekki lent hér og varð að lenda á Höfn í Hornafirði. Þaðan fór fólkið, sem ætlaði hingað, með leigubifreiðum og er það 6—7 tíma ferð, eða um 260 kílómetra leið. Meðal þessa fólks var leikflokkurinn, sem sýnir „Sjóleiðina til Bagdad.“ Leikritið átti að sýna hér í gær, en sýningin féll niður vegna þessa óvænta útúrkróks. Mikið annríki hefur verið á flugvellinum hér í morgun, hér lentu m.a. tvær flugvélar frá Flugsýn — önnur var í áætlunarflugi en hin var að fara fullsetin með hóp Austfirðinga á Ólafsvökuna í Færeyjum og var flest af því fólki frá Neskaupstað, en þar gat vélin ekki lent, hvorki í gær né í dag. Færeyjaferðinni hefur því seinkað um einn dag, en hópurinn ætlar að dvelja um vikutíma í Færeyjum og sækir Flugsýnarvélin hann aftur. Ekki er vitað um neitt tjón á mannvirkjum.

FB-Reykjavík, mánudag Alvarlegt ástand er nú að skapast í kartöflumálum hér á landi. þar eð kartöflugrös féllu víða eða stórskemmdust nú um helgina í stórviðrinu sem gekk yfir Suður-, Norður- og Austurlandið. Fréttaritari blaðsins í Skógum sagði að þar hefðu kartöflugrös fallið eða orðið svört, og tjón kartöfluræktenda virtist ætla að verða mikið. Þar sem kartöflur eru ræktaðar í sandgörðum skóf jarðveginn frá grösunum. og þau féllu. Sömu sögu höfðu fréttaritarar að segja bæði fyrir norðan og austan. Bætist þetta nú ofan á það. að seint var sett niður i vor vegna langvarandi kulda og klaka í jörðu, og má því búast við, að uppskeran geti orðið rýr. Einkum óttast menn að haldist norðanáttin verði skammt í næturfrost og eftir það er varla von á, að kartöflur spretti mikið.

Tíminn fjallar um heyskaparhorfur 29.júlí:

KT—Reykjavík, fimmtudag. Heyskapur gengur víða illa fyrir norðan um þessar mundir vegna ótíðar. Gras er víðast hvar vel sprottið, en ekki hægt að þurrka það. Er útlitið annað en gott, ef tíðin batnar ekki á næstunni. Kom þetta fram, er Tíminn hafði samband við fréttaritara sína fyrir norðan í dag. í Skagafirði gengur heyskapurinn seint. Ekkert hefur verið hægt að þurrka s.l. hálfan mánuð. Grasspretta hefur verið góð og fer grasið að spretta úr sér. Dauft hljóð er í mönnum yfir ástandinu, en heyskapurinn hefur gengið miklu seinna en í fyrra. Í sveitunum inn af Skjálfandaflóa urðu, eins og kunnugt er miklar skemmdir á túnum í vor og hefur spretta því verið lítil í sumar. Auk þess hefur tíðin verið óhagstæð, svo heyskapur er skammt á veg kominn. Flestir eru búnir að hirða eitthvað af heyjum en fyrri sláttur er ekki hálfnaður. Á Hólsfjöllum hefur heyskapur gengið einna verst í sumar. Þar hefur verið kalt og þurrkalaust að undanförnu og bleytur. Heyskapur var lítillega hafinn, áður en óveðrið gekk yfir um helgina en ekkert hefur enn náðst inn af heyjum Gras er orðið mjög mikið og bíða menn þar nú eftir þurrki.

HZ—Reykjavík, fimmtudag. Góð spretta hefur verið á Austurlandi i sumar og kemur tvennt til. Í fyrsta lagi var lítið kal í jörðu vegna mikilla snjóa í vetur, en klaki var þar, sem snjóa leysti snemma. Í öðru lagi skal nefna, að í sunnanáttinni fyrir rúmri viku voru góðir þurrkar fyrir austan og notfærðu bændur sér tíðina vel. Lítil hætta er á því, að Austfirðingar verði heylitlir í vetur.

Enn var ótíð fyrir norðan og austan. Tíminn 10.ágúst:

GÞE-Reykjavík, þriðjudag. Mjög mikil ótíð hefur verið norðan lands og austan sl. þrjár vikur, úrhellisrigning og kuldi. Víða hefur varla komið þurr dagur síðan um miðjan júlí, og horfir mjög óvænlega með heyskap, ef ekki rætist bráðlega úr veðrinu. Á Suður- og Vesturlandi hefur hins vegar verið mjög góð tíð að undanförnu, en óvíða mun fyrri slætti lokið, vegna þess að heyskapur hófst seint vegna vorkulda, og lélegrar grassprettu. Á Héraði hefur heyskapur að mestu legið niðri undanfarið vegna kulda og óþurrka. Aftur á móti áraði vel fyrri hluta júlímánaðar og voru margir bændur búnir að ná inn töluverðu af heyjum um miðjan mánuðinn. Spretta hefur verið þar betri en víðast hvar annarsstaðar á landinu og ef bráðlega gerir þurrka, verður heyfengur sæmilegur, en ellegar horfir til vandræða. Fyrri sláttur er víða tæplega hálfnaður, og að öllum líkindum verður ekki um neinn síðari slátt að ræða hjá mörgum bændum austanlands. Hitinn hefur yfirleitt ekki farið upp fyrir 8 stig um hábjartan daginn upp á síðkastið, og fyrir skömmu snjóaði víða niður í miðjar hlíðar. Heyskaparhorfur norðanlands virðast litlu betri en eystra, enda hefur spretta þar um slóðir verið nokkuð léleg vegna þurrka, kulda og kals í vor. Fréttaritari blaðsins í Svarfaðardal símaði í dag, að síðan byrjað hefði verið að slá hefðu einungis 4—5 þurrkdagar komið, svo að útlitið væri mjög slæmt þar um slóðir. Víða þar nyrðra eru menn ekki búnir að ná neinu strái inn, og annars staðar er heyfengur afar lélegur. Útlitið er einnig mjög slæmt þar nyrðra, hvað garðrækt snertir, og eru menn mjög uggandi um, að uppskera verði lítil sem engin. Á Vesturlandi er útlitið miklu betra, enda hefur verið brakandi þurrkur og mjög góð tíð síðasta hálfa mánuðinn. Hefur hirðing því gengið vel, en gras er víðast hvar illa sprottið, svo að heyfengur er tæplega í meðallagi. Fyrri slætti er óvíða lokið, enda hófst hann fremur seint og yfirleitt ekki fyrr en um miðjan júlí. Fréttaritari blaðsins í Vorsabæ hermir, að á Suðurlandi hafi margir bændur lokið fyrri slætti túna, eða séu komnir vel á veg með að þurrka sína töðu, enda hafi veríð mjög góður þurrkur flesta daga í síðustu viku. Heyverkun sunnanlands hefur yfirleitt verið ágæt en heymagn er með minna móti vegna misjafnrar sprettu og hinna miklu heyskaða er urðu á Suðurlandi 21. júlí s.l. Hins vegar verður háarspretta léleg, og grænfóðurrækt er afar lítil, vegna þess, hve klaki fór seint úr jörðu. Lítilsháttar er byrjað á engjaheyskap í Flóanum og hafa margir bændur áhuga á að drýgja heyfenginn með því að heyja áveituengi. Garðrækt í Flóanum er illa á vegi stödd, og má tíðin verða sérlega góð, ef uppskera á að ná meðallagi.

Það þýðir ekki að búast við góðri kartöfluuppskeru, og ekki einu sinni sæmilegri, nema því aðeins að tíð verði sérstaklega góð næstu vikurnar, og ekki komi næturfrost fyrr en í september, sagði Sigurbjartur í Hávarðarkoti í Þykkvabæ, þegar við hringdum til hans í dag og spurðum frétta af væntanlegri kartöfluuppskeru.

Minni ferðamannastraumur við Mývatn en venjulega. Tíminn 18.ágúst:

KJ-Reykjavík, miðvikudag. Það eru fleiri en bændur og sjómenn, sem eiga afkomu sína undir veðurguðunum, og má í því sambandi nefna þá, sem að hótelrekstri eða ferðamálum starfa. Var blaðamanni Tímans tjáð norðan úr Mývatnssveit að helmingi minni ferðamannastraumur hefði verið þangað eftir að norðanhretið gerði þar í júlí. Gistirými hótelanna hefur að vísu verið svo til fullt í allt sumar, enda er þar mestu um að ræða fólk, sem búið er að panta herbergi með miklum fyrirvara — og þá sérstaklega útlendingar. Hins vegar hefur matsala og t.d. bensínsala verið helmingi minni en á sama tíma í fyrra síðan hretið gerði, og er það kannski að vonum þar sem veður var ekki sem hagstæðast þar nyrðra þar til seinnihluta síðustu viku að létti til. Skartaði þessi margrómaða sveit öllu sínu fegursta um síðustu helgi, og mátti þá strax merkja aukinn ferðamannafjölda þar. Þess má geta að þegar hretið gerði, flúðu allir úr tjöldum sínum og í hús, og þeir sem ekki komust í hús leituðu skjóls í nálægum hellum. Þá er það áberandi þar nyrðra hvað minjagripasala hefur verið miklu minni til útlendinga, og á það áreiðanlega rót sína að rekja til hækkandi verðlags á öllum viðum, og þá hvað útlendingar fá miklu minna fyrir gjaldeyri sinn hér núna.

Morgunblaðið segir frá 21. ágúst:

Nú fyrir helgina kom hlaup í Kolgrímu í Suðursveit. Flæddi um brúna og tók af veginn vestanmegin hennar. Talsverður jakaburður var í fljótinu. Nokkrir bílar lokuðust inni í Suðursveitinni, þar á meðal mjólkurbíllinn, svo bændur geta ekki komið frá sér mjólk í nokkra daga.

Tíminn segir enn af heyskap 23.ágúst:

KT-Reykjavík, mánudag. Í viðtali við Tímann í dag sagði Gísli Kristjánsson, ritstjóri, að nú liti út fyrir, að heyskapur á þessu ári yrði í meðallagi og þar fyrir neðan. Um allt land væri útlit fyrir háarsprettu slæmt og segðu menn víða um land, að þeir mættu þakka fyrir að fá nóg til haustbeitar. Mætti því segja, að annar sláttur yrði um allt land sáralítill, svo að heyöflun byggðist næstum eingöngu á fyrri slætti. Gísli Kristjánsson, ritstjóri, hefur nýlokið við yfirlit yfir heyskapinn í sumar. Fara upplýsingar hans hér á eftir. Á Suður- og Suðvesturlandi er heyverkun með allra besta móti. Grasvöxtur er misjafn af fyrra slætti og útlit fyrir litla háarsprettu. Fyrra slætti er sums staðar lokið. Um Vesturland er svipaða sögu að segja. Nýting er góð, heymagn lítið og á nokkrum bæjum alltof lítið. Í Borgarfirði var klaki t.d. lengi í jörðu og heyskapur á ýmsum bæjum frekar rýr. Háarspretta er sára takmörkuð og víða ekki nema til beitar. Svæðið kringum Hrútafjörð er líklega verst sett á öllu landinu hvað varðar heyskap. Þar var grasleysi og kal meira en víðast gerist. Margir bændur á því svæði hafa beðið um aðstoð til þess að geta haldið bústofni sínum. Á stöku bæjum hefur eftirtekjan verið helmingi minni en í meðalárferði. Í Eyjafirði gekk heyskapur vel og lauk snemma. Við utanverðan Eyjafjörð og í Skagafirði hafa menn verið að hirða að undanförnu. Í útsveitum á Norðurlandi er hey úti enn og ekki alls staðar lokið við að slá tún. Í Þingeyjarsýslum er til kal í túnum. Gengið hefur illa að þurrka i utanverðri sýslunni, næst sjónum, en betur uppi í dölunum. Eftirtekja er þar talsvert misjöfn, en ekki ofan við meðallag. Víða er hún neðan við meðallag. Á norðausturhorni landsins eru menn illa settir vegna óþurrka. Þar eru óþurrkar orðnir svo langvinnir, að hey er orðið hrakið. Sæmilegt og gott gras er á túnum og engjum, en óþurrkar hafa hamlað reglulegum heyskap. Á Austurlandi er nóg gras, en heyskapur hefur gengið heldur stirðlega. Slætti er ekki lokið og talsvert mikið er úti af heyjum. Ekki er enn hægt að fullyrða um, hver útkoma heyskaparins verður, því nú veltur á veðráttunni. Í Skaftafellssýslum hefur heyskapur verið með allra besta móti, bæði að vöxtum og gæðum. Bændur misstu að vísu nokkuð hey í foki á nokkrum bæjum, en eftirtekja er að öðru leyti góð.

Tíminn segir 24.ágúst frá fréttum af Sprengisandsleið:

KJ—Reykjavík, þriðjudag. Á laugardaginn kom til byggða vegavinnuflokkur Eysteins Einarssonar, sem verið hafði í vikutíma við lagfæringar á Sprengisandsleið, allt frá kláfnum á Haldi og norður að Fjórðungskvísl. Er klaki enn í veginum, eftir að komið er norður hjá Nýadal, og er því ekki útlit fyrir, að klaki fari úr veginum í ár þar sem hitastig var við frostmark sumar næturnar, sem vegavinnuflokkurinn var inni á öræfum. Blaðamaður Tímans talaði við Eystein Einarsson, vegaverkstjóra í dag og sagði hann, að flokkurinn hefði verið með veghefil auk vörubíls og krana og gert nokkrar breytingar á leiðinni fyrir innan Kistuöldu, sem styttu leiðina nokkuð. Vegavinnuflokkur að norðan hefði fyrir nokkru farið með hefil suður á Sprengisandsleið, en sleppt að hefla og laga til grjóthöft á leiðinni, sem þeir hefðu núna lagað til, tínt úr grjót og borið í á nokkrum stöðum. Er því sæmilegasti sumarvegur kominn inn að Fjórðungskvísl, en norðan Nýadals er klaki j veginum og hann varasamur — alls ekki fær nema tveggja drifa bifreiðum. Ekki sagði Eysteinn, að þeir hefðu farið niður að Sóleyjarhöfða eða Eyvindarkofaveri, eða þar sem hin forna Sprengisandsleið lá, en það er allmikill krókur að fara þangað frá Nýadalsleiðinni, þ.e. þeirri leið sem nú var hefluð og löguð. Þá var leiðin frá Sprengisandsleið og austur í Veiðivötn líka hefluð og löguð til og þaðan niður að Hófsvaði. Einnig ruddu þeir 26 km af leiðinni austur í Jökulheima.

Allmikið hvassviðri og vatnavexti gerði á landinu seint í águst. Ritstjóranum þótti smáhaustbragð af - þrátt fyrir að hlýtt væri í veðri. Tíminn segir af því 26.ágúst:

KJ—Reykjavík, fimmtudag. Þó nokkrar vegaskemmdir urðu í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær og í dag, og verður t.d. lokað fyrir alla umferð á morgun föstudag til Skóga, Víkur og þar austur um, við Kaldaklifsá undir Eyjafjöllum. Mestar urðu vegaskemmdirnar undir Eyjafjöllum og suðvestan til á Vestfjörðum þar sem vegir hafa verið lokaðir í dag. Hafursá, sem sameinuð var Klifanda fyrir austan Pétursey í V-Skaftafellssýslu, braut varnargarð í gær fór fram með fjallinu í gamla farveginum og fram á veginn hjá Skeiðflöt. Lítil ræsi voru þar í veginum, en þau tóku eðlilega ekki við öllu vatnsmagninu sem rauf skarð í veginn. Kom þarna 4—5 metra breitt skarð, sem stórir bílar fóru yfir í dag áður en ánni var beint í annan farveg. Vegavinnuflokkur undir stjórn Brands Stefánssonar í Vík vann að viðgerðum í dag. Í morgun braut Holtsá undir Eyjafjöllum 200 metra skarð í varnargarð fyrir ofan gömlu brúna, en þarna er unnið að því að byggja nýja brú. Flœddi áin þarna um allt í öllu sínu veldi, en ekki munu hafa orðið stórkostlegir skaðar af völdum hennar. Í dag tók bílstjóri eftir því að staurar voru að fara undan brúnni á Kaldaklifsá undir Eyjafjöllum, og er að var gáð kom í ljós að staurarnir eða okið, eins og vegavinnumenn kalla þá, voru farnir undan brúnni. Fjögur höft eru milli okanna og var það miðjuokið sem fór undan. Á okunum hvíla bitar, en þeir þola ekki að ekið sé á brúnni fari eitt okið undan. Var því öll umferð um hana bönnuð í dag og á morgun, og verða því engar samgöngur við Skóga, Vík, Kirkjubæjarklaustur eða sveitirnar þar fyrir austan fyrr en búið er að gera við brúna. Brúarvinnuflokkurinn er vinnur við að setja nýja brú á Holtsá var strax kallaður til að gera við Kaldaklifsbrúna, og í kvöld var verið að senda viðgerðarefni héðan úr Reykjavík. Verður vart hafist handa að ráði við viðgerðina fyrr en í fyrramálið, þar sem illt er að athafna sig vegna vatnsflaums. Á Vestfjörðum urðu nokkrar vegaskemmdir, og voru vegir sumstaðar lokaðir þar í dag. Skriða féll og skarð kom í veginn á Kleifaheiði í gær, sem teppti alla umferð um Vestfirði, en um miðjan dag var vonast til að vegurinn yrði fær á ný. Þá tepptist vegurinn frá Hvalskeri og niður á Rauðasand þar sem hann liggur um svokallaðan Bjarngötudal. Féll skriða þar á veginn og gat mjólkurbíllinn ekki farið þar um fyrst í morgun. Fossá í Suðurfjörðum flæddi yfir þjóðveginn og var vegurinn ófær af þeim sökum í dag, en væntanlega verður hægt að koma honum í lag á morgun. Á Þingmannaheiði var einn bíll í vandræðum í gærkveldi vegna vegaskemmda, og fór jeppi frá Brjánslæk bílnum til aðstoðar. Var vegurinn erfiður eins og alltaf i vætutíð, en ekki er vitað um neinar stórkostlegar skemmdir á honum. Auk þessarar upptalningar mun víða hafa runnið úr þjóðvegum landsins, þótt þeir hafi ekki teppst af þeim sökum, og ennfremur munu smáskriður víða hafa fallið á vegi og tafið fyrir umferð.

Hlaup kom í Skálm seint í ágúst. Tíminn segir frá 31.ágúst:

KJ—Reykjavík þriðjudag. Í gær [29.] og í fyrradag hljóp mikill vöxtur í Skálm í Álftaveri, en upptök árinnar eru í Höfðabrekkujökli. Í dag var aftur á móti farið að sjatna í ánni, og vegurinn yfir Mýrdalssand, sem verið hafði í mikilli hættu, úr allri hættu. Tíminn hafði í dag tal af fréttaritara sínum í Vík Stefáni Árm. Þórðarsyni og Jóni Gíslasyni bónda í Norðurhjáleigu, og spurði þá um þennan mikla vöxt í Skálm. Sögðu þeir að svo hefði hækkað í ánni að hún hefði verið komin upp undir bita á brúnni á aðalþjóðveginum, og legið meðfram honum á kafla. Var vegurinn um tíma í nokkurri hættu, og komin skörð í hann á nokkrum stöðum, en Brandur Stefánsson vegaverkstjóri í Vík fór í dag með vegavinnuflokk til að lagfæra það sem aflaga hafði farið. Var haft eftir honum að nú kæmi áin á sama stað undan jöklinum og árið sem vatnavextir voru hvað mestir á Mýrdalssandi, þegar vegarskemmdir urðu miklar. Úrkomulítið hefur verið undanfarna daga á þessum slóðum, og haft var eftir mjólkurbílstjórum að í engri á væri eins mikið og Skálm þarna eystra. Afarmikill forargormur var í ánni eins og Jón komst að orði en flugið í ánni er nú lítið hjá því sem það var í gær, þótt enn megi merkja nokkurn vöxt í henni. Við þessa frétt má bæta að austan af Sólheimasandi bárust þær fréttir í dag að frá Jökulsá væri óvenju mikill brennisteinsþefur, og bæri hún nú uppnefni sitt með rentu og væri réttnefndur Fúlilækur.

Tíminn birti 4.september fregnir af yfirvofandi ferskvatnsskorti í heiminum - svo virðist nú sem eitthvað hefi verið gert í málinu (hafi spárnar verið réttar):

NTB-Summerville, laugardag. Í ræðu, sem Johnson Bandaríkjaforseti flutti í kvöld skoraði hann á allar þjóðir heims að gera nauðsynlegar ráðstafanir í tíma til að koma í veg fyrir þær hroðalegu afleiðingar, sem ferskvatnsskortur í heiminum myndi hafa í för með sér. Ferskvatnsskortur væri þegar farinn að segja til sín og ef ekki væru gerðar róttækar ráðstafanir til úrbóta yrði neyðarástand í heiminum um næstu aldamót vegna almenns vatnsskorts. Forsetinn flutti þessi varnaðarorð í ræðu, sem hann hélt í til efni af opnun vatnsvirkjunar í Summerville í Vestur-Virginíu í dag. Sagði hann, að nauðsynlegt væri að margfalda vatnsbirgðir þær sem nú væru fyrir hendi, næstu 40 ár, ef kapphlaupið við hungursneyð, sjúkdóma og fátækt ætti að vinnast fyrir aldamót. Skýrði forsetinn frá því að kölluð hefði verið saman alþjóðleg ráðstefna til að ræða þessi mál, sem væru alvarlegri, en menn gerðu sér almennt grein fyrir. Ef þjóðir heims taka ekki nú þegar upp samstarf um að auka og tryggja nægilegt magn ferskvatns, mun skortur á því skapa algert neyðarástand víðast í heiminum innan minna en 40 ára. Sagði forsetinn að þegar væri alvarlegt ástand í löndum, sem fátæk væru af vatni og kæmi sá skortur fram í mörgum efnum. Maður getur ekki fundið sannan frið í eyðimörk og allur herafli Bandaríkjanna gæti ekki tryggt slíkan frið, sagði forsetinn. Síðan vék hann sérstaklega að ástandinu í Bandaríkjunum og á að alvarlegur vatnsskortur hefði verið víða í norð-austurríkjunum síðast liðin fimm ár. Benti hann sérstaklega á nauðsyn þess að auka framleiðslu ferskvatns úr saltvatni og lagði til að kölluð yrði saman alþjóðleg ráðstefnu sérfræðinga til að vinna að bættri tækni við slíka vatnsvinnslu. Skýrði forsetinn frá því, að Bandaríkjastjórn hefði nú lagt fram 700 milljónir dollara til byggingar kjarnorkustöðvar í Kaliforníu, sem m.a. er ætlað að framleiða ferskvatn.

Tíminn segir 9.september frá næturfrosti - en slíkt er auðvitað ekki óalgengt á þeim tíma árs. 

KT—Reykjavík, fimmtudag. Að sögn Ólafs Sigurðssonar var frost í nótt í Þykkvabæ í eina 9 tíma. Komst frostið í 3 stig og nægði það til að eyðileggja öll grös. Í nótt hefði verið gerð tilraun til þess að vernda grösin með því að úða þau með vatni, en Ólafur sagðist álíta, að byrjað hefði verið of seint á þeim ráðstöfunum og því hefði farið sem fór. Frostið í nótt tekur fyrir frekari sprettu og verður því allt tekið upp nú. Sagði Ólafur, að bændur í Þykkvabænum hefðu verið byrjaðir að taka upp kartöflur, áður en frostið kom en venjulega væri byrjað á því um 1. september. Að lokum sagði Ólafur að kartöfluuppskera í Þykkvabænum yrði með allra minnsta móti. Myndi hann ekki eftir svo lélegri uppskeru. Má nærri geta, hvert áfall það verður bændunum, sem styðjast að mestu leyti við kartöflurækt.

Tíminn segir enn af júlíillviðrinu í frétt 13.september - og síðan heyskap eystra:

Tíðarfar hefur verið fremur stirt hér á Upp-Héraði um nokkurt skeið. Þann 22. júlí s.l. gerði hér ofsaveður af norðri, sem reyndar landsfrægt er orðið, með rigningarslytringi af og til í byggð, en snjókomu til fjalla. Stóð veður þetta í fjóra sólarhringa, nærri samfleytt, og olli margs konar tjóni, t.d. fauk meira og minna af heyi á flestum bæjum, þakplötur af húsum o.s.frv. Kartöflugrös stórskemmdust, urðu víða nærri svört, en ekkert sá á byggakri Fljótsdælinga á Valþjófsstaðanesi, og spáir það vel fyrir kornræktinni hér. Vegirnir um Möðrudalsöræfi og Fjarðarheiði urðu ófærir vegna snjókomu um tíma, og varð að ryðja þá. Mjög er veður sem þetta óvenjulegt svo snemma sumars, og muna menn varla annað eins. Síðan óveður þetta leið, hefur verið hér ríkjandi norðaustlæg átt, oft með rigningu og kulda, stundum hefur jaðrað við næturfrost. Þó komu nokkrir góðir þurrkdagar í kringum 14. ágúst, og núna í rúma viku verið sunnan átt og hlýindi og ágæt heyskapartíð, sem miklu hefur bjargað. Sem að líkum lætur hefur heyskapur gengið stirðlega í sumar, þrátt fyrir mikla grassprettu, og hey hrakist. Almennt munu menn þó hafa náð inn miklu af heyjum, en misjöfnu að gæðum. Háarvöxtur verður lítill sem enginn vegna kuldanna, en heyskapur mun þó treinast fram eftir næsta mánuði.

Hitaveita Reykjavíkur átti í ýmsum erfiðleikum á þessum árum. Tíminn segir frá 14.september:

HZ-Reykjavík, þriðjudag. Á fyrsta kalda degi haustsins gerðust þau tíðindi, þegar fólk á hitaveitusvæði í eldri hverfum Reykjavíkur ætlaði að notast við hitaveituna, að lítið hitnaði í íbúðum þeirra. Stafar þetta af því að aukning sú sem orðið hefur á hitalögnum
að undanförnu nær fram úr vatnsmagninu. Mun því verða borið við, þegar spurst er fyrir um þetta, að bilað hafi dæla. Hins vegar er þær fregnir að hafa t.d. frá Reykjum, að vatnsmagnið, sem fari þaðan til Reykjavíkur, þegar nú hefur kólnað, sé það mesta sem þaðan geti komið, alveg eins og í verstu vetrarhörkum.

Enn er rætt um afleiðingar júlíillviðrisins í Tímanum 18.september:

KJ-Reykjavík, laugardag. — Héðan verður sama og ekkert hey selt í ár, og er það vegna hinna miklu heyskaða sem bændur undir Eyjafjöllum urðu fyrir af völdum hvassviðris í lok júlí, sagði Árni Jónasson bústjóri að Ytri-Skógum er Tíminn ræddi við hann um heyskap á 270 hektara túninu á Skógasandi — líklega því langstærsta á Íslandi. Árni sagði að heyskapartíð hefði verið slæm undir Eyjafjöllum í sumar, og auk þess hefðu bændur þar orðið fyrir miklum heysköðum af völdum hvassviðris í lok júlí, en þá sópuðust svo að segja heilu flekkirnir í burtu og fuku annað hvort eitthvað út í buskann eða þá heyið festist i girðingum og skurðum svo ekki svaraði kostnaði að hirða það.

Um mánaðamótin september/október snjóaði talsvert norðanlands. Það er ekki beinlínis óalgengt, en hinum óvana ritstjóra hungurdiska þótti þetta heldur athyglisverð byrjun á vetrardvöl á Akureyri. Tíminn segir frá 4.október:

Vetur gekk í garð um norðan og austanvert landið á sunnudag, og á Akureyri, ... var hálka á götum og svo sannarlega vetrarlegt um að litast. Siglufjarðarskarð lokaðist, og hefur ekki verið rutt, en aftur á móti fór hefill um Möðrudalsöræfi í gær, en þar var orðin þung færð. Fimm menn í litlum bíl ætluðu á sunnudaginn yfir Möðrudalsöræfi, en festu bílinn og komu til byggða í morgun. Tíu bílar munu hafa snúið við í Möðrudal á sunnudaginn, en komust allir yfir í dag í slóð hefilsins.

Október var þurr á Suðvesturlandi og áhyggjur voru enn uppi vegna þurrka og lágrar vatnsstöðu til rafmagnsframleiðslu. Tíminn segir frá 22.október:

KJ—Reykjavík, föstudag. Rennslið í Soginu er nú það allra minnsta síðan árið 1951 og ef ekki bregður til vætutíðar á næstunni, má búast við mjög alvarlegu ástandi í rafmagnsmálum á orkuveitusvæði Sogsvirkjananna. Ingólfur Ágústsson, verkfræðingur, rekstrarstjóri virkjananna, sagði í viðtali við Tímann í kvöld, að vatnsmagnið í Soginu væri nú með því allra minnsta, sem það hefði nokkru sinni verið, og er þegar búið að draga mikið úr orku til Áburðarverksmiðjunnar. Fær verksmiðjan nú enga umframorku frá Soginu til ammoníak-framleiðslu. Á hverri nóttu er ein vélasamstæða stöðvuð í orkuverunum þrem við Sogið: Ljósafossstöðinni, Írafossstöðinni og Steingrímsstöð, en vélasamstæðurnar eru þrjár í tveim þeim fyrrnefndu og tvær í Steingrímsstöð. Er þetta gert til þess að nýta vatnið í Soginu sem best og eins til að freista þess að hækka vatnsborðið í Þingvallavatni, en það hefur lækkað um 10 sentimetra frá s.l. mánaðamótum. Toppstöðin við Elliðaár er starfrækt af fullum krafti til að auka raforkuframleiðsluna og í nóvembermánuði tekur væntanlega til starfa ný vélasamstæða í toppstöðinni, sem á að bæta ástandið í rafmagnsmálunum mikið. Þetta er sjöunda árið í röð, sem vatnsmagnið í Soginu fer undir meðallag, og í ár til septemberloka hefur úrkoman verið 10% undir meðallagi og rennslið í Soginu 80% af meðalrennslinu. Meðalrennsli er 110 rúmmetrar á sek, en er nú undir 80 rúmmetrum á sek. Sagði Ingólfur, að þeir væru áhyggjufullir um ástandið, ef ekki færi að rigna, en vatnsmagnið í Elliðaánum hefur minnkað í sama hlutfalli og fyrir austan Að lokum sagði hann, að allt væri gert til þess að halda orkumálunum í eðlilegu horfi, og enn hefði ekki komið til þess að takmarka þyrfti rafmagn til annarra en Áburðarverksmiðjunnar, og þá aðeins umframorkuna. Allir venjulegir orkukaupendur fengju því alla þá raforku, sem þeir þyrftu á að halda.

Um mánaðamótin breyttist veðurlag mjög. Í stað fremur rólegra austlægra og norðlægra átta tóku við harla ruddalegir umhleypingar með úrkomu í öllum landshlutum. Tíminn segir frá 2.nóvember:

KJ—Reykjavík, þriðjudag. Í rigningunni sem gerði fyrir helgina hækkaði vatnsborðið í Þingvallavatni um 9 sentimetra, en þá hafði vatnsborðið lækkað um 36 sentimetra miðað við hæsta leyfilegt vatnsborð. Í dag hafði vatnsborðið aftur lækkað um l sentimetra, vegna þess að lítið hefur verið um úrkomu nú síðustu daga. Ingólfur Ágústsson stöðvarstjóri í Elliðaárstöðinni tjáði Tímanum í dag að, haldið væri áfram þeim rafmagnssparnaðarráðstöfunum er upp voru teknar er vatnið fór að minnka um miðjan október. Ein vélasamstæða er tekin úr sambandi á nóttunni í hverri hinna þriggja aflstöðva austur við Sog og Áburðarverksmiðjan fær enga umframorku til sinna nota. Upp úr miðjum nóvember er vonast til að nýja vélasamstæðan í Toppstöðinni við Elliðaár geti tekið til starfa, en þessi nýja samstæða framleiðir 10.500 kílóvött, en sú sem er fyrir framleiðir 7.500 kílóvött. Bætir nýja samstæðan mjög úr rafmagnsmálunum, þegar hún tekur til starfa, og einnig mun nýja samstæðan hafa þau áhrif að hitaveitan í Reykjavík á að vera miklu tryggari en nú er.

Vindur setti fólkflutningabifreið út af vegi í Hvalfirði og þann 17. fauk vöruflutningabifreið út af vegi undir Hafnarfjalli (Veðráttan). Tíminn segir frá 10.nóvember:

KJ-Hvalfirði, miðvikudag. Í dag fór áætlunarbifreið frá ÞÞÞ á Akranesi útaf veginum fyrir neðan túnið hjá Þyrli. Bílstjórinn taldi að sviptivindur hefði verið valdur að því að bíllinn fór útaf veginum. Bíllinn valt ekki en rann alla leið niður í fjöru, um 50—60 m vegalengd. Þar sem bíllinn fór útaf var vegkanturinn 7—8 m. hár. Bílstjórinn, sem var einn í bílnum, slapp ómeiddur, en bíllinn sem er af gerðinni Mercedes Benz er mikið skemmdur.

Tíminn segir 22.nóvember frá skriðu í Kjós:

KJ-Reykjavík, mánudag. Í hinu mikla votviðri sem var hér sunnan og vestanlands í dag kom 7 metra stórt skrað í þjóðveginn við Skorá í Kjós, skammt vestan við Félagsgarð eða Laxá. Stöðvaðist öll umferð um veginn af þessum sökum og því engar samgöngur frá Reykjavík á landi vestur og norður um land.

Slide10

Undir lok mánaðar gekk mikið óveður yfir landið. Það var ákafast sunnudaginn 27. nóvember. Þá upplifði ritstjóri hungurdiska norðlenska stórhríð í fyrsta sinn. Er það mjög minnisstætt. Slíkar hríðar gerir aldrei í Borgarnesi.

Tíminn segir af hríðinni 29.nóvember - einnig segir þar af Skaftárhlaupi:

KJ-Reykjavík, mánudag. Mikið óveður gekk yfir suma landshluta nú um helgina og urðu skemmdir á húsum af völdum veðurofsans, bátar sukku á legum símalínur slitnuðu, en þrátt fyrir snjókomu og hvassviðri tepptust vegir minna en búast mátti við, og var t.d. góð færð yfir Fjarðarheiði í allan dag og sæmilegt færi er traustum bílum frá Reykjavík til Akureyrar. Veðrið byrjaði að versna á Akureyri síðari hluta aðfaranótt sunnudagsins [27.] og um hádegisbilið var veðurhæðin komin upp í 11 vindstig með mikilli snjókomu. Ekki þótti þorandi að stór skip lægju inni á höfninni þar og biðu þau fyrir utan. Umferð lagðist mestu niður á Akureyri um miðjan dag á sunnudag, en nú er þar slarkfært um allar götur og ágætis veður. Færð er nú sæmilega góð á öllum vegum út frá Akureyri en um helgina tepptust þeir vegna veðurs og eins voru driftir á vegum víða. Vaðlaheiði er að vísu fær, en farin er Dalsmynnisleið til Húsavíkur og austur í Mývatnssveit, en þær leiðir eru aðeins færar stórum bílum og jeppum.

Símasambandslaust var í allan dag við Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn, og var því engar fréttir þaðan að fá um veðurofsann. Frá Vopnafirði komu þær fréttir að veðrið hefði verið slæmt, en ekki væri hægt að tala um aftakaveður í því sambandi. Engar skemmdir urðu á mannvirkjum. Á Húsavíkurhöfn sukku tvær trillur, og þá þriðju rak á land. Sjór fór í margar aðrar trillur á höfninni, en annars urðu engar skemmdir á mannvirkjum á landi þótt veðurofsinn væri mikill. Samkomu var aflýst á Húsavík vegna veðurofsans.

Undir Eyjafjöllum var mjög hvasst um helgina, eins og venjulega, þegar norðanátt er, og mikla sviptivindi lagði ofan af fjöllunum. Hálft þak fauk af íbúðarhúsi að Skógum undir Eyjafjöllum og hálft þak af fjósi að Rauðafelli í Austur-Eyjafjallahreppi Þá fauk jeppabifreið út af veginum en engin slys urðu á ökumanni eða farþegum. Mikið grjótfok var á vegum undir fjöllunum, og er vitað til þess, að afturrúða brotnaði á einum bíl vegna grjótfoks.

Á Seyðisfirði var á sunnudaginn harðasta veður, sem komið hefur um langan tíma og urðu töluverðar skemmdir á mannvirkjum vegna veðursins. Mest varð tjónið hjá Fjarðasíld, en það er síldarverksmiðjan sem verið er að byggja rétt utan við Seyðisfjarðarkaupstað. Verksmiðjubyggingin er 104 metra löng, og var búið að klæða aðra hlið hennar að helmingi til með álplötum. í veðurofsanum slitnuðu 85 plötur af hinni nýju klæðningu. Þá bilaði rafall hjá Fjarðasíld og var því ljóslaust og kalt í mötuneytinu og íveruskála. Fólkið var því allt flutt þaðan. Fjórðungurinn af þakinu á mötuneytisbyggingu Síldarverksmiðja ríkisins fauk af, og hefur verið unnið að því að lagfæra þakið. Járnplötur fuku víða af húsum á Seyðisfirði og brotnuðu rúður. Á einum stað fauk tómur smurolíubrúsi, braut glugga í svefnherbergi og hafnaði á kodda þriggja ára barns, sem til allrar hamingju var ekki komið í rúmið. Atburður þessi gerðist í gærkvöldi. Stórt U-járn fauk af þaki á gömlu fatahreinsuninni á Seyðisfirði og í gegn um gafl á efri hæð Útvegsbankaútibúsins. Engar skemmdir urðu á rafmagnslínum. Þrátt fyrir allan veðurofsann, og mikinn snjó, sem kyngdi niður, var Fjarðarheiði fær í dag, og virðist svo sem snjóinn hafi hvergi fest. Í Hrísey var mikið óveður og slitnaði rafmagnslínan út í eyna. Trilla sökk á bátalæginu við Árskógsströnd og önnur er var á bátalæginu við Hauganes í Eyjafirði. Aftur á móti náði veðurofsinn ekki að ráði til Dalvíkur, og engar skemmdir urðu þar á bátum eða mannvirkjum. Framangreindar fréttir eru fengnar frá fréttariturum Tímans og kunnugum mönnum á viðkomandi stöðum.

KJ—Rvík, mánudag. Í óveðrinu, sem geisaði í Eyjafirði á sunnudaginn slitnaði togarinn Hrímbakur upp og rak upp í fjöru við svokallaða Sandgerðisbót, norðan við Glerá. Skemmdir hafa ekki verið fullkannaðar, en vatn er í vélarrúmi skipsins. Gísli Konráðsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyrar, sagði, að skipið hefði slitnað upp einhvern tíma í óveðrinu í gær. Þar sem skipið lægi nú, væri sandfjara og nærri því hægt að ganga út að því þurrum fótum á fjöru. Hins vegar eru sker rétt fyrir utan og hugsanlegt að skipið hafi steytt á einhverju þeirra, en það mál er ekki rannsakað enn. Farið var út í togarann í dag, og var þá vatn í vélarrúminu, en ekki er vitað, hvort gat hefur komið á skipið, eða hvort vatnið hefur komið eftir öðrum leiðum. Legufæri Hrímbaks slitu sæsímastrenginn, sem liggur frá Akureyri og yfir á Svalbarðsströnd og til Grenivíkur. og fóru öll samtöl til þessara staða fram á varalínu þess vegna í dag. Nánari rannsókn fer fram á skemmdunum á strandstaðnum af eigendum og tryggjendum skipsins.

FB—Reykjavík, mánudag. Hlaup hófst í Skaftá á laugardagsmorguninn [26.], náði það hámarki á sunnudagsmorguninn, en er nú farið að réna. Hlaupið á rætur að rekja til sigs, sem orðið hefur norðvestan við Grímsvötn í Vatnajökli, og samkvæmt upplýsingum, sem Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lét blaðinu í té í dag, eftir að hann hafði flogið inn yfir jökulinn og rannsakað vegsummerki, hefur orðið mikið sig í jöklinum á þessum slóðum. Sigið er um 120 m djúpt og um einn km í þvermál, og er það ívið meira en í síðasta Skaftárhlaupi, sem varð árið 1964. Vatnið rennur um 42 km leið undir jöklinum og út í Skaftá á svipuðum slóðum og verið hefur áður. Mikill vatnsflaumur hefur verið í ánni og hafa vatnavextirnir skemmt brúna yfir Eldvatn við Ása. Þar fór einn stólpi undan og er gjörsamlega horfinn í flauminn. Einnig skemmdist lítil brú skammt frá brúnni austan við Stóra-Hvamm og er því ófært bæði til austurs og vesturs frá Kirkjubæjarklaustri. Mikla brennisteinsfýlu hefur lagt yfir bæi í Skaftártungu og í gær settist rauðleitur vökvi á hús og þök og glugga þarna fyrir austan. Blaðið hafði í dag tal af Kristjáni Pálssyni bónda í Skaftárdal í Skaftártungum, og sagði hann að vatnið væri heldur að fjara út, en þó færi það seint. Væri leðjan mikil, sem eftir stæði. Ekki bjóst hann við að menn færu upp að jöklinum til þess að líta á, hvað gerst hefði þar, enda þyrfti að fara mjög langan veg til þess að sjá nokkuð að marki. Veður var slæmt fyrir austan nú um helgina, en heldur að skána í dag. Síðasta hlaup í Skaftá var árið 1964, en þar áður var það í september 1955.

Veðráttan segir að þann 26. hafi þak tekið af fjárhúsi á Arnarstapa. 

Tíminn segir 2.desember frá mikilli ófærð í Hvalfirði:

KJ-Reykjavík, fimmtudag. Á tímabili í gærkvöldi voru fjörutíu bílar a.m.k. tepptir vegna ófærðar á þjóðveginum skammt frá Kalastöðum á Hvalfjarðarströnd, og voru þeir allir á leið vestur og norður um land. Þarna voru bæði á ferðinni litlir fólksflutningabílar, jeppar og stórir áætlunar- og vöruflutningabílar. Var ófærðin á veginum þarna mikil, allt norður fyrir Fiskilæk í Melasveit, en úr því fór færðin að batna. Að vísu var ekki samfelld ófærð á þessum kafla, en víða var mjög slæmt yfirferðar, og alófært öllum bílum. Veghefill ruddi brautina fyrir bílana, en það tafði nokkuð er hann fór út af veginum við Laxárbrú. Stórir bílar sem fóru frá Reykjavík um klukkan fimm og upp í Borgarnes, voru ekki komnir á leiðarenda fyrr en undir miðnætti, en venjulega er þessi vegalengd farin á þrem tímum. Háir ruðningar eru komnir sumstaðar beggja megin vegarins á þessari leið, en þess á milli er vegurinn alauður. Búast má við að þungfært verði þar sem ruðningarnir eru í kvöld, ef heldur áfram að skafa, en í morgun og fram á miðjan dag var þessi leið sæmilega fær. Ekkert vit er í að leggja upp á litlum bílum, án þess að hafa nákvæmar spurnir af færðinni áður, eða þá að vera í samfloti við aðra bíla. Þrengslavegurinn hefur verið þungfær í dag, og ekki farandi þar um nema á stórum bílum og jeppum.

Slide12

Mikið illviðri gekk yfir dagana 7. til 9. desember. Þann 8. var veður einkennilega skipt. Meginlægðarmiðjan var tvískipt, hluti fyrir austan land, en kröpp smálægð yfir Tröllaskaga. Vestan hennar var glórulítil hríð - sem náði allt til Suðurlands, en austanlands var bjartviðri og besta veður. Varla var hægt að segja að hríðin kæmist til Akureyrar - ritstjóra hungurdiska til nokkurra vonbrigða. 

Slide13

Tíminn segir frá þann 9.:

FB-Reykjavík-fimmtudag. Óskaplegur veðurofsi var í Hveragerði í nótt og fauk þá þak af stóru gróðurhúsi hjá Hauki Baldvinssyni í Lindarbrekku. Iðulaus stórhríð og hvassviðri var á þessum slóðum í alla nótt og muna menn vart annað eins óveður. Gróðurhús það, sem eyðilagðist í nótt var 400 fermetrar að stærð. Var það byggt úr báruplasti og aðeins tveggja ára gamalt, að sögn Hauks. Fór þakið gjörsamlega af húsinu, þó ekki í heilu lagi, heldur lítur út fyrir, að það hafi tæst af, því flyksur úr því sáust á víð og dreif allt í kring og jafnvel í allmikilli fjarlægð. Er talið líklegt að krókar hafi bilað, og síðan vindurinn náð að komast undir plöturnar og spennt þær burtu hverja af annarri. Það var lán í óláni hjá Hauki, að hann var nýbúinn að fá síðustu uppskeru úr þessu gróðurhúsi, og ekki von á nýrri uppskeru fyrr en með vorinu. Er óvíst, hvernig gengur að koma húsinu í nothæft ástand aftur, þar sem ekki er til í landinu það efni, sem nauðsynlegt er til lagfæringarinnar. Haukur hefur orðið fyrir miklu tjóni, en eftir því sem blaðið hefur fregnað er beint efnistjón vart ofmetið milli eitt og tvö hundruð þúsund krónur, og i er þá ekki reiknuð með sú töf og það óhagræði, sem hann verður fyrir, varðandi ræktun blómanna.

KJ-SJ-Rvík fimmtudag. Óveður hefur gengið yfir vestanvert landið í dag, og verið að færast austur á bóginn. Var komin iðulaus stórhríð í Hrútafirði um hádegið, í Skagafirði hafði skollið á hríð í morgun, en létti svo aftur til um hádegið, en búist var við hríð seinni hluta dags. Mikið hvassviðri hefur verið á suðvesturhluta landsins í dag, og nokkrar umferðatafir af þeim sökum, en lítið sem ekkert hefur snjóað. Færð hefur verið erfið í Þrengslunum í dag, og hafa orðið þar þó nokkrar tafir, ekki aðallega vegna snjóalaga, heldur vegna veðurofsans sem þar hefur verið og skafbyls. Hefur skafið inn á vélar bifreiða sem þar hafa átt leið um, og sumar þeirra hafa stöðvast af þeim sökum. Mikill skafl er á Þrengslaveginum við Meitilinn, en að öðru leyti er ekki mikill snjór á leiðinni. Færð var þung í Laugardal og Grímsnes i dag, en annars var sæmilega greiðfært austur um sveitir í Árnes og Rangárvallasýslu. Allar eru þessar færðarlýsingar miðaðar við stóra bíla og jeppa. Á Vesturlandsvegi var færðin hvað verst í Kollafirði og á stöku stað í Hvalfirði. Mikið hvassviðri var í Mela- og Leirársveit. Einn bíll a.m.k. hélt kyrru fyrir vegna hvassviðris, en það var stór óhlaðinn stórgripaflutningabíll, sem tók mikið á sig og var léttur. Áætlunarbílar frá Borgarnesi og Akranesi héldu striki sínu, enda eru t.d. Borgarnesbílarnir frá Sæmundi og Valdimar sérstaklega útbúnir að aka í hvassviðri. Hefur verið komið fyrir í þeim ballest, steypuklumpum og öðrum þungum hlutum og farþegarnir látnir sitja á ákveðnum stöðum í bílunum. Þetta hafa reyndir bílstjórar fundið út, og það hefur sýnt sig að með fyllstu gœtni má komast allra sinna ferða þótt vetrarveður geisi, ef ballest er höfð í bílunum. Engir bílar munu hafa farið um Holtavörðuheiði í dag, og heldur ekki um Bröttubrekku. Á Bröttubrekku var mikill jafnfallinn snjór í dag og tveir bílar sem lögðu á hana fóru út af veginum, og sneru aftur í Hreðavatnsskála. Bíll fór frá Borgarnesi í morgun og var ferðinni heitið upp að Hvammi í Norðurárdal til að ná bíl er hafði farið þar útaf, upp á veginn. Vegna hríðar varð ekki komist lengra en í Hreðavatnsskála um miðjan dag. Á morgun, föstudag, á að ryðja snjó af veginum á Holtavörðuheiði og sömuleiðis af veginum á Bröttubrekku. Verður Brattabrekka rudd á föstudögum, auk þriðjudaganna, fram yfir nýár, eða eins og Holtavörðuheiði.

IS-Suðureyri, fimmtudag. Hér hefur verið linnulaus stórhríð í alla nótt og í dag. Heldur virðist vera að draga úr veðrinu undir kvöldið. Mjög mikil ótíð hefur verið hér í allt haust og í gefur sjaldan á sjó. Engar fréttir hafa enn borist af ísnum sem er á reki undan landi.

Krjúl-Bolungarvík, fimmtudag. Sleitulaus stórhríð hefur verið hér í nótt og dag [8.]. Í gær var frekar milt veður og lítið frost, en þegar leið að kvöldi dimmdi yfir og hvessti og vindátt snerist. Bátar, sem komu að um miðnættið, höfðu farið í róður norður fyrir ísinn og sögðu sjómennirnir að mikil ísbreiða væri norður frá Kögri, Straumnesi og Rit um það bil 2—3 sjómílur undan. Við erum mjög uggandi yfir þessum tíðindum, því að þessi ísspöng nær alveg þvert fyrir mynni Ísafjarðardjúpsins. Komi hér hvassviðri að norðan getur ísinn algjörlega lokað fyrir siglingaleið út og að Ísafjarðardjúpi. Í morgun þegar menn komu á fætur var svo iðulaus stórhríð að ekki sást milli húsa. Á götunum voru mittisdjúpir skaflar og varð að aflýsa kennslu i dag vegna stórhríðarinnar. Í haust hefur snjóað óvenju mikið hér og er því orðið mjög snjóþungt. Hins vegar hefur verið reynt að halda opinni leið milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, og hefur það tekist fram að þessu, en nú er vegurinn algjörlega tepptur. Mestallur jólavarningur er ókominn, þar á meðal jólabækurnar, en þær en væntanlegar. Blöð höfum við ekki fengið síðan á þriðjudag, en þá höfðum við síðast fengið blöð á fimmtudag.

G-S Ísafirði, fimmtudag. Hér skall á ofsaveður í morgun, eitt það versta sem hér hefur komið. og er varla fært á milli húsa, í verstu hryðjunum. Snjóskarir sem fuku á loft i rokinu lentu í rúðum nokkurra húsa niður á Eyrinni og brutu þær. Ágætisveður var hér á Ísafirði í gær, bátar á sjó, og komu sumir með 8 tonna afla að landi eftir róðurinn. Nokkur rekís var á miðum bátanna, og þurftu þeir að færa sig undan ísnum.

JJ-Skagaströnd, fimmtudag. Hér var versta veður í morgun og foráttubrim. Fram til þessa hefur verið fremur snjólétt, en í dag hefur ekki verið hægt að flytja mjólk hingað frá Blönduósi, en lítil mjólkurframleiðsla er hér í nágrenninu og á innvigtunargjaldið sinn þátt í því. Nokkrar rafmagnstruflanir urðu af völdum ísingar og roks í morgun. Hér má heita algjört atvinnuleysi, þar sem ekki gefur á sjó nema einstaka sinnum. 120 tonna bátur er nýkominn hingað af síldveiðum, en hann kemst ekki til veiða vegna sífellds gæftaleysis.

Tíminn segir 20.desember enn næsta illviðri:

SJ—Reykjavík, mánudag Aðfaranótt s.l. fimmtudags [15.desember] skall á austan hvassviðri í Reykhólasveit og nágrenni með þeim afleiðingum að 60 símastaurar brotnuðu vestan Gilsfjarðar, 10 staurar austan Gilsfjarðar og 30 rafmagnsstaurar.

Slide14

Eftir fáeina til þess að gera rólega daga dró enn til tíðinda þann 21. Kortið að ofan sýnir hæð yfir Grænlandi og lægðardrag fyrir sunnan land. Fyrir tíma háloftaathugana hefði verið mjög erfitt að átta sig á framhaldinu, jafnvel þótt nægilegur fjöldi veðurkeyta hefði borist til að hægt væri að greina kortið. En árið 1966 var aðgengi að háloftathugunum orðið allgott - flesta daga, þótt þær hafi vissulega verið gisnar. 

Slide15

Veðurfræðingar hafa þó haft kortið hér að ofan (eða ámóta) fyrir augum. Það leynist engum að illviðri er skammt undan. Jökulköld háloftabylgja yfir Suður-Grænlandi á hraðri ferð til austurs. Ákveðin merki um ört dýpkandi og hraðfara lægð. Enda fór það svo.

Slide16

Aðeins 18 klukkustundum síðar var kröpp lægð yfir landinu á hraðri leið austur. Foráttuveður var á Vestfjörðum, og enn verra úti á miðunum. Lægð þessi olli sjósköðum, bæði minni hátta rsem og hörmulegum. Tíminn segir fyrst frá 23.desember - og líka frá áhyggjum af hafísreki:

EJ—SJ—Reykjavík, GS—ísaflrði, fimmtudag. Á sjötta tímanum í dag strandaði breski togarinn Boston Weilvale FD-209 við svonefnd Ytri-hús í Arnardal, rétt við Arnarnes. Togarinn tók niðri um 10—15 metra frá landi í norðaustan stórhríð og 9—10 vindstigum. Björgunarmenn komu fljótlega á vettvang en erfiðlega gekk skipverjum að ná línunni. Það tókst þó eftir nokkrar tiltraunir og um kl. 21:15 í kvöld var fyrsti skipverjinn tekinn í land. Var búið að ná 17 mönnum í land skömmu fyrir klukkan 11, og aðeins skipstjórinn eftir um borð, en hann neitaði að yfirgefa skipið.

SJ-Reykjavík, fimmtudag. Samkvæmt frásögn fréttaritara Tímans á Bolungarvík telja sjómenn þar að ísinn sé skammt undan landi, 2—3 mílur, en erfitt er að afla staðgóðra upplýsinga þar sem skip sem hafa siglt á þessum slóðum hafa aðeins orðið vör við ísinn í radar. Um leið og reður leyfir mun verða flogið yfir svæðið og kannað hve ísbreiðan er umfangsmikil. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni í dag var veðrið harðast á Vestfjörðum og sums staðar á Suðurlandi. Kl. 17 voru 11 vindstig á Hvallátrum, snjókoma og 5 stiga frost. Einnig voru 11 vindstig á Mýrum í Álftaveri. Á Vestfjörðum var víðast hvar 9 vindstig og mikil snjókoma. Á Norðurlandi var snjókoma ekki eins mikil og vestanlands. Gert er ráð fyrir að norðanáttin gangi niður á vestanverðu landinu á morgun. Framundan virðist vera kalt veður og umhleypingasamt.

Tíminn birti 24.desember vondar fréttir af vélbátnum Svan frá Hnífsdal:

SJ—Reykjavík, GS—Ísafirði, föstudag. Óttast er nú um, að vélbáturinn Svanur RE-88, sem gerður er út frá Hnífsdal, hafi farist í gær [22.], en síðast var haft samband við bátinn kl. 15 í gær, og var hann þá staddur 14—16 mílur norðvestur af Sigahlíðarhorni á Vestfjörðum.

Svansslysið var aftur í fréttum í Tímanum 28.desember. Í sama blaði segir einnig af mikilli ófærð í nágrenni Reykjavíkur:

S.T-Reykjavík, þriðjudag. Fullvíst er nú. taliS að vélbáturinn Svanur RE 88 hafi farist með 5 manna áhöfn, en síðast fréttist af bátnum um kl.15 á fimmtudag. Þann dag skall á mjög skyndilega hið versta veður og var Svanur á leið til lands er síðast fréttist til hans.

Kj-Reykjavík, þriðjudag. Á jóladagskvöld tepptist svo til öll umferð á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur vegna stórhríðar sem geisaði á tiltölulega litlu svæði eða frá Arnarnesinu og suður fyrir Hafnarfjörð. Skafl myndaðist á veginum í Silfurtúninu, rétt við Vífilsstaðalækinn, og sneru tugir bíla þar við, en aðrir skildu bíla sína eftir, og gengu yfir skaflinn. Lá svo til öll umferð niðri um veginn frá þvi um hálf níu og fram yfir miðnætti, en þá var veðrið farið að lægja og vegurinn ruddur. Á nýja veginum fyrir sunnan Hafnarfjörð fóru margir bílar útaf í hríðinni eða stoppuðu vegna þess að rafkerfin blotnuðu. Voru sumir þeirra yfirgefnir og þar á meðal bíll af Keflavíkurflugvelli sem tvívegis var ekið aftan á. Stór skafl teppti alla umferð af Vífilsstaðaveginum og inn á „Flatirnar“ í Garðahreppi, og urðu víst margir af jólaboðum í Garðahreppinum vegna ófærðar. Mikið skóf að húsunum við Vífilsstaðaveginn, og voru viða mannhæðarháir skaflar og hærri þar um miðnættið, sem er sjaldgæft hér á suðvesturhorni landsins, en Norðlendingum bregður víst ekki í brún við slíka skafla.

Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður of tíðarfar á árinu 1966. Að vanda er talnasúpa (meðaltöl, útgildi ýmis og fleira) í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 5. júní 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 37
  • Sl. sólarhring: 54
  • Sl. viku: 528
  • Frá upphafi: 2343290

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 480
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband