Alþjóðaveturinn

Alþjóðaveðurfræðistofnunin telur vetur á norðurhveli ná til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Alþjóðaveturinn er því styttri en vetur á Íslandi, við teljum mars með - enda oft kaldasti mánuður ársins hér á landi. Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár reiknað meðalhita alþjóðavetrarins hér á landi og fjallað um niðurstöður þeirra reikninga. 

Þegar þetta er skrifað er reyndar rúmur dagur eftir af þessum alþjóðavetri, en óhætt er að alá á meðalhita hans í byggðum landsins. Útkoman er -1,5 stig, -1,3 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,6 eða -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu vetra. Þetta reiknast kaldasti alþjóðaveturinn á öldinni, og sá kaldasti síðan 1994 til 1995. Þá var nokkru kaldara en nú. Á líftíma ritstjóra hungurdiska hefur alþjóðaveturinn 17 sinnum verið kaldari en nú - af því má sjá hve mikið hefur hlýnað. 

Mjög hlýtt hefur verið á landinu undanfarna daga og svo er að sjá að hlýindi haldi áfram linnulítið út vikuna - þó kannski fari mesti broddurinn að verða úr þeim. Hvað svo gerist er harla óvíst. Langtímaspár hallast þó fremur að því að hann gangi í norðanátt og kólni um eða upp úr næstu helgi. Kannski verður atburðarás svipuð og var í desember. Þá höfðu mikil hlýindi gengið um skeið (reyndar mun lengur en nú). Um viku af desember kólnaði verulega, en veður hélst þokkalegt í rúma viku til viðbótar áður en illviðri og snjókoma skall á. 

Það er ekki óalgengt að hlýjar fyrirstöðuhæðir austan eða suðaustan við land þoki sér vestur til Grænlands og langvinnar norðanáttir komi í kjölfarið - ritstjórinn gæti jafnvel talið sér trú um að þetta væri regla - en svo er þó alls ekki. Það er allt til í dæminu - engin festa í leiksýningu náttúrunnar hvað þetta varðar. En ætli væri samt ekki hægt að telja það til kraftaverka ef ekki kæmu einhverjir (einn eða fleiri) harðir frostakaflar til vors. Mars er alloft kaldasti mánuður vetrarins. Keppni við sérlega kaldan desember gerir slíkt vinningssæti ólíklegt að þessu sinni - mars sem var kaldari heldur en nýliðinn desember hefur ekki sést á landinu í heild síðan 1979.  

 


Bloggfærslur 27. febrúar 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 59
  • Sl. viku: 406
  • Frá upphafi: 2343319

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 367
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband