Kuldakast (páskahret)

Það virðist stefna í snarpt kuldakast um helgina og að það verði viðloðandi á einhvern hátt alla næstu viku. En spár gefa nú (að kvöldi skírdags) til kynna að við sleppum við mesta hvassviðrið - það ryðst til suðurs fyrir austan land. - Nóg samt. 

w-blogg010421a

Við sjáum hér spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hita í Reykjavík næstu daga, frá fimmtudegi - fram á fimmtudag í næstu viku. Höfum í huga að margs konar staðhætti vantar í líkan reiknimiðstöðvarinnar - en aðalatriði koma vel fram. Hitakvarðinn er lengst til vinstri, af honum má ráða að hiti á að vera á bilinu 4 til 6 stig fram undir kvöld á laugardag - en þá kólnar snögglega (sé að marka spána) og á sunnudagskvöld á að vera komið -7 stiga frost. Þrettán stiga hitasveifla - sem er býsna mikið í Reykjavík við það að „skipta um loft“, Síðan á að hlýna nokkuð aftur - en búist er við öðru kasti á miðvikudaginn með þónokkurri hitasveiflu og ámóta frosti.

w-blogg010421b

Kortið hér að ofan sýnir spá um hita í 850 hPa-fletinum (litir) og þykkt (heildregnar línur) um hádegi á páskadag. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs - því minni sem hún er því kaldara er loftið. Það er sjaldan sem við sjáum svona lágar tölur við landið í apríl. Ekki stefnir þó í met að því er sýnist - þó ekki muni mjög miklu. 

Ef hægt er að tala um að eitthvað sé hagstætt í þessu miðað við ámóta eldri tilvik má nefna tvennt: Annars vegar að hreyfistefna kuldans er okkur hagstæð - hann er á mikilli siglingu til suðausturs - og kaldasta loftið fer fljótt hjá. Hvassviðrið nær sér eitthvað á strik - sérstaklega austanlands - en það stendur ekki lengi og versta veðrið er alveg austan við landið. Hins vegar er mjög lítill ís í norðurhöfum og sjór er hlýr norðan við land miðað við það sem hann var t.d. 1968 og 1963 þegar þykktin (og hiti í 850 hPa) varð jafnlítil eða minni heldur en nú. Það þýðir að sjórinn nær að hita kaldasta loftið um nærri 1 stig á klukkustund á leið þess frá ísjaðrinum til landsins. Því var t.d. ekki að heilsa 1968 eða 1963. 

Bæði 1963 og 1953 lenti vindstrengurinn yfir landinu og lá þar - sem virðist ekki eiga að gerast nú. Kastið 1968 var líkara því nú hvað vind varðar. Við eigum líka fleiri ámóta köst á lager, t.d. páskahretið fræga 1917 - sem var mjög líkt 1863 hretinu (nema gróður varð ekki eins illa úti vegna þess að hann var ekkert kominn á legg þegar kastið reið yfir). Sömuleiðis var svipað uppi á teningnum 1920. 

En þó óneitanlega sé ættarsvipur með þessu yfirvofandi hreti og þeim fyrri er hvert og eitt með sínum sérstöku einkennum - ekkert þeirra er nákvæmlega eins. Norðvestanátt á að ríkja í háloftum næstu vikuna - hún er afskaplega svikul - henni fylgir oft hið besta bjartviðri - jafnvel hlýindi á þeim tíma árs sem sól er hæst á lofti - en oft er hún hið allraversta sem yfir okkur getur gengið - með ísköldum norðansveljanda og hríðarköstum heilu vikurnar út - jafnvel þótt langt sé komið fram á vor. 


Bloggfærslur 1. apríl 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 382
  • Sl. viku: 1582
  • Frá upphafi: 2350209

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1455
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband