Af árinu 1843

Fremur svalt var í veðri árið 1843, meðalhiti þó nærri næstu tíu árum á undan. Sumarið byrjaði með þurrkum, sólskini og jafnvel hlýindum á daginn, en kuldum á nóttu. Síðan þótti það nokkuð erfitt sökum vætu, en fékk þó misjafna dóma. Meðalhiti ársins í Reykjavík var 4,0 stig, en reiknast 3,0 í Stykkishólmi. Ekki hefur enn verið unnið úr veðurmælingum á Norður- og Austurlandi. Októbermánuður var óvenjukaldur, og einnig var kalt í janúar, febrúar og nóvember. Fremur hlýtt var hins vegar í ágúst og nokkuð hlýtt í maí, júní og september. 

ar_1843t 

Fimmtán dagar voru mjög kaldir í Reykjavík, 2.febrúar kaldastur að tiltölu. (Listi yfir dagana er í viðhengi). Einn dagur var mjög hlýr, 6.ágúst. Hiti marði 20 stig tvisvar sinnum í Reykjavík, 23. og 29.júlí.

Árið var úrkomusamt í Reykjavík og mældist 926 mm. Desember var fádæma úrkomusamur, þá mældist úrkoman 246 mm, það mesta sem vitað er um í þeim mánuði. Úrkoma var einnig mikil í nóvember, janúar og ágúst, en óvenjulítil í október, þá mældust aðeins 2 mm - það langminnsta sem vitað er um í Reykjavík í október. 

Loftþrýstingur var sérlega lágur í ágúst og einnig lágur í janúar og júlí, en sérlega hár í maí og einnig hár í febrúar, mars, júní, september og október. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Reykjavík þann 5.desember, 950,1 hPa, en hæstur 1035,7 hPa þann 14.febrúar. 

Hér að neðan eru helstu prentaðar heimildir um árið teknar saman, stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Fáeinar ágætar veðurdagbækur eru til sem lýsa veðri frá degi til dags, en mjög erfitt er að lesa þær. Hitamælingar á vegum Bókmenntafélagsins voru gerðar víða um land, en þótt nokkuð hafi verið unnið úr þeim vantar enn nokkuð upp á að þær séu fullkannaðar. Engin fréttblöð greindu frá tíðarfari eða veðri á þessu ári - nema Gestur vestfirðingur mörgum árum síðar - og þá í mjög stuttu máli. Annáll 19. aldar telur fjölda slysa og óhappa - við sleppum flestum þeirra hér, enda tengsl við veður óljós eða þá að dagsetninga er ekki getið. Rétt er að geta þess að um sumarið gekk mjög skæð landfarsótt með beinverkjum og hita. Flestir urðu fyrir henni og kom hún víða illa niður á heyskap. Mikill fjöldi lést.  

Gestur Vestfirðingur lýsir árferði 1843, en ekki fyrr en í 1. árg 1847:

Ár 1843 var gott meðalár. Fyrstu tvo mánuði ársins var vetrarfar hart og hagleysur; komu þá hagar upp, nema í Strandasýslu, þar var harðara, og lengi vetrar hafís fyrir landi. Vorið var jafnaðarlega þurrt og kalt, sumarið vætumeira, haustið og síðustu mánuðir ársins umhleypingasamir, vetur lagðist að með blotum og jarðleysum, þó leysti nokkuð jökul af jörð fyrir sólstöður. Meðal-grasár og nýting góð. Vetrahlutir undir Jökli hæstir fjögur hundruð; í Dritvik meðalhlutir; steinbítsafli vestra í besta lagi. Árið 1843 um veturinn týndist skip í hákallalegu frá Önundarfirði, og á því 8 menn [Annáll 19.aldar segir þetta hafa verið 29.mars]; þá fórst og skip með 5 mönnum frá Skutulsfirði.

Suðurnesjaannáll segir um árið:

Oftast hörkur og byljir á góu. Frusu lömb í hel, sem eigi voru tekin í hús. ... Óþurrkar miklir um sláttinn og hraktist hey mjög. Þá drukknuðu fyrir jólaföstu tveir menn í Garði, í lendingu í myrkri, en þeir komu úr Keflavík. Var haldið, að þeir drukknir og votir úr sjónum hafi komist upp í fjöruna og lagt sig þar fyrir. Hafi þeim liðið í brjóst, en frost var mikið um nóttina. Fundust þeir um morguninn fyrir ofan flæðarmálið örendir og frosnir í hel.

Brandsstaðaannáll [vetur]:

Eftir nýár varð fyrir sunnan bleytuhríð, jarðlaust til lágsveita, en brotajörð um tíma til hálsa og fjalllanda. Hélst norðan-og austanátt oft með snjókomu og kafaldi til 3. viku þorra. Var þá gaddur og fannkyngja mikil komin. Þá um 3 vikur stillt og gott veður, hjarnaði og gaf vermönnum vel suður. 7. mars skipti um aftur með fönn og 11. byrjaði harður hríðarkafli. Í góulok kom góður bati, vikuþíða. Voru þá hey sumra nærri þrotin. Ýmsir höfðu líka létt og skemmd hey eftir óþurrkasumar, helst Laxdælingar.

Saurbæ 8-2 1843 [Einar Thorlacius] (s109) Hér norðanlands var vetur frostmildur og veðráttublíður allt til sólstaðna, síðan hefur viðrað stirt og fallið af austri ákafur snjór.

Bessastöðum 2-3 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s207) Vetur hefur verið harður með köflum eða frá nýári til miðþorra. Sést hefur hafís fyrir Norðurlandi, um það ber öllum saman. Að hann sé landfastur segja sumir, en aðrir bera það aftur. ... en hér er nú stillt veður venju fremur.

Sr. Jón Austmann í Ofanleiti), úr veðurskýrslu: Febrúar 1843: 14. Nóttina til þessa dags var fádæma rigning og stormur; Frost -14°R 3. febrúar. Apríl 1843: Ofsaveður aðfaranótt 2.apríl, var eitthvert hið mesta er menn muna. Þ.19. ofsaveður síðdegis af suðvestri. Í dögun þann 24. var -8 stiga frost. 

Brandsstaðaannáll [vor]:

Vorið varð gott, þurrt, stillt og hretalaust, oft hitar, en meðfram náttfrost.

Bessastöðum 8-6 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s209) Héðan er að frétta kalt vor og gróðurlítið.

Annáll 19.aldar segir í löngu máli frá sjóskaða sem varð í róðri frá Skinneyjarhöfða í Mýrasveit í Hornafirði þann 3.maí. Frásögnin er að líkindum fengin úr Austra 1886 og hefst hún í 29.tölublaði, 11.desember. Vísum við áhugasömum þangað. Stóðu þar 8 bátar á sandi þennan morgunn. Einn þeirra lagði reyndar ekki frá landi - því formaður taldi eftir langa umhugsun að norðanveður væri í vændum. Þar segir að nálægt miðmunda [milli hádegis og nóns] hafi dregið yfir kófél í logni, er varaði í svosem hálfan klukkutíma, en þegar því linnti hafi brostið á ofsalegt norðanveður með grimmdarfrosti, svo að ekkert varð við ráðið. Í þessu veðri dóu 14 menn og marga til viðbótar kól. Þessa daga fór frost í -6,3 stig í Reykjavík og hámarkshiti þann 4. var þar -2,5 stig. Ólafur á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir þann 3.maí: „Norðan hríð, mikill stormur, heljarfrost“. 

Brandsstaðaannáll [sumar]:

Um fráfærur voru sterkir hitar og þar til 7. júlí, að skipti um til votviðra, svo grasvöxtur varð góður. Sláttur átti að byrja 17. júlí. Gáfust þá rekjur, en lítill þerrir mánuðinn út. Varð heyskapur mistækur vegna veikindanna. Með ágúst þornaði upp. Hirtu þeir þá töðu, er minnstan fatla fengu, en margir luku túnaslætti í miðjum ágúst. Eftir þann 6. kom aldrei þerridagur til kvölds. 16. ágúst gerði óviðráðanlegt sunnanveður (s141). Allt hey blés og þornaði í gegn og sæti reif allt í sundur. Um kvöldið, nóttina og daginn eftir rigndi ógnarlega af vestri og norðri, svo allt vöknaði í gegn, en engu varð bjargað. Lagði snjó mikinn á fjöll og hálsa. Þiðnaði það brátt og varð vatnsagi mikill, þó norðanstormar með rigningu kæmi á eftir. Kvaldist mjög veikt og kraftalítið fólk við að ná upp og þurrka mikið hey. Hirtu flestir túnin 26.ágúst. Út allan sláttinn kom aldrei regnlaus dagur, þó oft væri stormar og góð þerristund, en hjá heilbrigðu fólki þurftu ei heyskemmdir að verða með góðri fyrirhyggju allan sláttartímann. Gras dofnaði snemma, en almennt heyjaðist mikið í september, þá fólk var heilbrigt orðið. Þann 25. hirtu flestir og urðu miklar slægjur eftir. Allt sumarið var mikill vöxtur í jökulvötnum og stórflóð 12.-16. sept.

Þann 22.ágúst er minnst á snjó í byggð bæði í Hvammi í Dölum og á Valþjófsstað. Þorleifur í Hvammi segir að frost hafi þá verið þar í morgunsárið kl.4 5il 5.  

Friðriksgáfu 29-8 1843 [Grímur Jónsson] (s127) Sumarið er og hefur verið það versta sem ég man, með hráslaga og kulda, +2 til 6° daglega, og frost um nætur þegar upp hefur birt, en annars snjóað niður í mið fjöll oftlega.

Brandsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]:

1.október kom fyrsta hausthret. Það hey, er þá var úti, náðist ekki. Fyrri part hans [sennilega átt við október] var snjór og stillt veður, en síðari kafaldasamt og lagði mikla fönn á útsveitir, en minni til framdala. 11. nóv. tók upp snjóinn vel fremra og eftir það meðalvetrartíð, óstöðugt, útsynningasamt og frostalítið, utan 3 hörkudaga fyrir nýárið. Þó vorið væri gott, varð mörgum málnyt í versta lagi vegna ofþurrka eftir fráfærur og hirðingarleysis um veikindatímann [landfarsótt mikil gekk í júlí] og skemmd á töðum, en, hvar þetta náði ei til, í meðallagi. Grasmaðkurinn gjörði enn skemmdir miklar að austanverðu í dölum, þar sem þurrlent var. Voru menn því óvanir í Norðurlandi. (s142)

Bessastöðum 13-11 1843 [Ingibjörg Jónsdóttir] (s212) Hér er nú árferði heldur í lakara lagi. Heyskapur varð bágur vegna sjúkdóma og svo rigning.

Einar Thorlacius í Saurbæ segir í bréfi 6. febrúar 1844: (s110) Fyrri hluti næstl. sumar var með svo sterkum hitum, að ekki einasta sólbrann allt harðvelli, heldur elnaði við það umgangssóttin. Haustið var til þrauta rigningasamt, svo vart (s111) fékkst þurr dagur. 

Dagbók Jóns Jónssonar (hins lærða) í Dunhaga er ekki auðlesin, frekar en venjulega. Ritstjórinn ábyrgist ekki að þau brot sem hér eru tínd upp (ekki orðrétt) séu rétt eftir höfð: 

Janúar: Má kallast mjög harður - þó helst vegna jarðbanna. Febrúar fyrri partur í harðara lagi en síðari partur stilltur. Fyrstu dagar marsmánaðar voru stilltir og þann 18.nefnir Jón að fullt sé af hafís útifyrir og lagnaðarís á Eyjafirði. Apríl allur stilltur að veðráttu en jarðleysur fyrsta hluta, en með skírdegi birtist jörð smám saman. Maí í harðara lagi og loftkuldi mikill og náttfrost. Júní allur mjög bágur, loftkaldur og þurr - mikill maðkur í jörðu [Þó er minnst á mjög hlýja og sólríka daga innan um]. Júlí að sönnu sæmilegur upp á veðráttuhlýindi, en óþurrkar. Ágúst að vísu ei mjög kaldur að veðráttu en votsamur í frekara lagi. September má seinast og fyrst heita allgóður. Svo er að sjá að talvert hafi verið um frost í október. Jarðlaust að mestu í lok nóvember. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1842. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaða- og Suðurnesjaannála. Fáeinar tölur má finna í viðhengi. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 28. febrúar 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1498
  • Frá upphafi: 2348743

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1304
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband