Sumarmeðalvindáttir í háloftunum

Við höfum svosem gefið þessu máli gaum áður - en það hlýtur að vera í lagi að gera það aftur - með tilbrigðum. 

Lítum á mynd:

w-blogg210720c

Ekki er hún auðveld - við fyrstu sýn, en hér má sjá slegið á meðalvindátt og meðalvindhraða mánaðanna júní til ágúst, á hverju ári síðustu 100 árin (1920 til 2019). Því lengra sem við erum til hægri á myndinni því eindregnari hefur vindur úr vestri verið þessa mánuði - hægra megin við núllið hefur meðalvindátt sumarsins verið af austri. Við sjáum að slíkt er sárasjaldgæft - gerðist 1950 (mest) en síðan líka 2015, rétt svo 2011 og 2006 og 2019 eru líka alveg við áttaskiptin. - Öll ártölin nema 1950 eru á þessari öld (dálítið merkilegt - en sjálfsagt bara tilviljun). 

Því ofar sem við erum á myndinni því meira hafa sunnanvindar verið ríkjandi það sumar. Neðan bláu línunnar hefur norðanátt ríkt. Þar sker 2012 sig úr, við sjáum líka 1928, 1929, 1993, 1952, 1951, 2010 og nokkur til viðbótar sem eru alveg á mörkunum. Þeir sem hafa lengi fylgst með veðri hafa e.t.v. einhverja tilfinningu fyrir einkennum slíkra sumra - þau eru góð fyrir grillið í Reykjavík - en kannski ekki alveg jafnhagstæð nyrðra (misjafnt þó). 

Á hægri hliðinni sker hið illræmda sumar 1983 sig úr - vestanáttin með fádæmum sterk - og sunnanáttin býsna öflug líka. Sunnanáttin var hvað sterkust 1947, 1955 og 1976 - allt fræg rigningasumur á Suður- og Vesturlandi. Þarna eru líka 1995 (heldur óspennandi) og sumarið 1940 - hefðu þjóðverjar ætlað að gera innrás það sumar með tilstyrk flugflutninga hefði slíkt ekki gengið. Heppilegur dagur til slíks kom ekki fyrr en í október (mætti kannski fjalla nánar um það síðar). 

Árin frá 2011 til og með 2019 eru merkt með rauðu letri - við munum kannski eitthvað af þeim. Til hægðarauka má á myndinni einnig sjá hallandi strikalínu - hallar niður til hægri. Við gætum til skemmtunar (aðeins) kallað hana rigningasumrastrikið - ofan við hana (og til hægri) eru rigningasumrin. Þar eru tvö rauðmerkt ár, 2013 sem og hið (já) illræmda 2018. Þeir sem sjá vel geta einnig greint bæði 1989 og 1984 - ekki skemmtileg sumur suðvestanlands.

Sumarið 1950 (austanáttasumarið mikla) var ódæma rigningasamt austanlands - enda austanátt ríkjandi. Sumarið 2015 - annað austanáttasumar - var vægast sagt óhagstætt eystra. 

Við sjáum að mjög væg fylgni (ómarktæk reyndar) er á milli styrks vestan- og sunnanáttanna. Greina má að punktadreifin er lítillega teygð upp til hægri og niður til vinstri - það vantar enn sumur þar sem norðvestan- eða suðaustanáttir eru ríkjandi. Þau eru ábyggilega til í hillum almættisins - en lítið er framleitt af þeim, trúlega vegna þess að Grænland hefur áhrif á ríkjandi háloftavinda á svæðinu - erfiðara er fyrir vind að blása þvert á það heldur en meðfram því. Við megum alveg taka eftir því að stefnuásinn þar sem punktahneppið er þéttast er ekki fjarri vestsuðvestri - eða nálægt stefnunni til Hvarfs á Grænlandi. En sumarið þegar vestanáttin verður jafnsterk og 1952 - eða sterkari og norðanáttin jafnsterk og 2012 verður ekki kræsilegt - ekki heldur sumarið þegar sunnanáttin verður jafnsterk og 1947 og austanáttin jafnsterk eða sterkari 1950 - þá mun einhver blotna vel og mikið. 

Skýrara eintak af myndinni er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Í jafnvægi

Hafið umhverfis Ísland er að meðaltali hlýrra en loftið sem yfir því er, skynvarmi streymir frá sjó í loft. Á þessu ástandi eru þó undantekningar, streymi mikið af hlýju lofti langt sunnan úr höfum í átt til landsins kælir yfirborð sjávar það á leið hingað - sama á við um hlýtt loft sem hingað kemur stundum frá meginlandi Evrópu að sumarlagi - og jafnvel á það við þegar loft sem hlýnað hefur yfir sólvermdu yfirborði Íslands streymir út yfir sjó. Það síðastnefnda er nægilega algengt til þess að í fáeinar vikur að sumarlagi er sjór oftar kaldari en loft við strendur landsins. - Það er kannski hið eiginlega íslenska sumar. Á öðrum tímum árs er meðaltalið ákveðið á hinn veginn - sjórinn er hlýrri en loftið (oftast). 

Í veðurlíkönum er nauðsynlegt að reikna þessi varmaskipti lofts við yfirborð lands og sjávar út - slá á það tölum. Skynvarmaskiptin eru reyndar ekki þau einu - vatn gufar upp af yfirborði - eða þéttist á því. Geislunarferli koma líka við sögu. 

w-blogg210720a

En korti hér að ofan er tilefni þessara skrifa. Litirnir sýna skynvarmaflæði á milli yfirborðs og lofts eins og evrópureiknimiðstöðin spáir að þau muni verða kl.3 nótt (aðfaranótt miðvikudags 22.júlí). Ekki mikið um að vera. Rauði liturinn - sem hvergi er sterkur sýnir svæði þar sem varmi streymir frá yfirborði til lofts - það gerist í norðvestanáttinni milli Íslands og Noregs - norðanloftið streymir út yfir eitthvað hlýrra sjávaryfirborð. Hinn kaldi kroppur Grænlandsjökuls kælir það loft sem hann fær að snerta (grænt) - annars er flest í jafnvægi. Dálítil sunnanátt við Suðausturland ber loft af slóðum hlýsjávar undan Hornafirði til norðausturs inn á kalda tungu Austuríslandsstraumsins - heimili austfjarðaþokunnar. 

Myndin er töluvert öðruvísi að deginum. Þá vermir sólin landið og varmi streymir frá yfirborði þess og í loftið. Harmonie-spákort sem gildir kl.15 í dag (þriðjudag sýnir það).

w-blogg210720b

Við sjáum enn blettinn undan Suðausturlandi - líkönin þó ekki alveg sammála. Sömuleiðis eru kælingarblettir yfir jöklunum - og hæstu fjöllum Norðurlands - þar sem enn er snjór - sólin getur auðvitað brætt hann (og gerir það) en ræður ekki við að koma yfirborðshitanum yfir núllið - snerting við loft er því kalt. Á hábungu Vatnajökuls er loftið væntanlega í núlli hvort eð er (það eru engin hlýindi yfir landinu) - og yfirborðið hitar hvorki loft né kælir. - Þegar kvöldar dofna rauðu litirnir - og hverfa að mestu um miðnæturbil. Upplausn harmonie-líkansins er þó það miklu betri en líkans evrópureiknimiðstöðvarinnar að við sjáum bæði græna og gula bletti á næturkortunum. 


Bloggfærslur 21. júlí 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 392
  • Sl. sólarhring: 490
  • Sl. viku: 1708
  • Frá upphafi: 2350177

Annað

  • Innlit í dag: 352
  • Innlit sl. viku: 1555
  • Gestir í dag: 342
  • IP-tölur í dag: 330

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband