Af hitafari á Vestur-Grænlandi - og fleiru

Lesendur hungurdiska kannast vonandi orðið vel við hitasveiflur síðustu 200 ára eða svo á Íslandi. Við lítum nú til Vestur-Grænlands. Mælt hefur verið í Nuuk (Godthaab) nokkurn veginn samfellt frá 1866 en eldri mælingar á fáeinum stöðvum hafa verið notaðar til að giska á eldri tölur - á svipaðan hátt og giskað hefur verið á hita í Stykkishólmi fyrir 1846. Ekki hefur þó enn tekist að búa til samfellda röð lengra aftur en til ársins 1840 - eldri tölur eru á stangli.

w-blogg140620a

Myndin sýnir þessa samsuðu. Hún fylgir röðinni frá Nuuk í aðalatriðum - sveiflur eru þær sömu. Súlurnar sýna einstök ár en rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal - [sú tímalengd er alltaf í nokkru uppáhaldi hjá ritstjóra hungurdiska]. Á 19.öld vekur kannski helst athygli okkar hér að 8.áratugurinn er áberandi hlýrri heldur en sá 9. - og mesti kuldinn á þeim 7. ekki eins langvinnur og hér á landi. Þó er kaldasta árið 1863. 

Það hlýnaði hægt og bítandi undir lok 19. aldar og fyrstu 2 áratugi þeirrar 20. - rétt eins og hér á landi og eftir 1920 hlýnaði snögglega - líka eins og hér á landi. Eftir 1947 fóru hlýindin aðeins að gefa sig - ekki ósvipað og hér á landi líka. Hér á landi kólnaði strax 1965 og 1966 - en ívið síðar á Vestur-Grænlandi (sem ekki frétti strax af auknum hafís austan Grænlands) - en skömmu síðar kólnaði verulega þar líka. Kuldaskeiðið nýja stóð svo ámóta lengi á Grænlandi og hér - en sá var munurinn þó að síðasti þriðjungur þess - sem var heldur hlýrri hér á landi en þeir tveir fyrstu - var kaldastur, þá komu fjölmörg afskaplega köld ár í röð á Vestur-Grænlandi. Kaldasta árið í syrpunni var þó 1983 - í öðrum þriðjungi kuldaskeiðsins. 

Um aldamótin hlýnaði verulega - hlýindin hafa heldur gefið eftir allra síðustu árin. Árið 2015 var t.d. nokkuð kalt - en árið 2010 sker sig úr hvað hlýindi varðar - enda ótrúlega „ruglað“ ár á flestan hátt. 

Við skulum nú bera 7-árasveiflur í Nuuk og í Stykkishólmi saman - og skjóta Englandi inn í líka.

w-blogg140620b

Hér er hiti í Nuuk á vinstri kvarða - og ferill blár, en hiti í Stykkishólmi á þeim hægri og ferill rauður. Hér má glöggt sjá að stærstu sveiflurnar eru í aðalatriðum samtíma - hliðrast í mesta lagi til um 2 til 3 ár - en nokkuð sitt á hvað. Athugið að það munar 5 stigum á kvörðunum. Sveiflurnar í Nuuk eru heldur stærri. Hlýindin um 1930 eru að tiltölu enn meiri þar en í Hólminum og kuldinn á síðasta þriðjungi kuldaskeiðsins síðasta miklu meiri. Núverandi hlýindi hafa ekkert gefið sig enn í Hólminum - en varðandi Grænland er rétt að hafa í huga að vægi ársins 2010 eins og sér er mikið - um leið og það datt út úr 7-ára keðjunni datt meðaltalið niður. 

Af myndinni sjáum við glögglega að Ísland og Grænland eru nágrannar í veðrakerfi heimsins.

w-blogg140620c

Hér sjáum við sama feril fyrir Stykkishólm (rautt - hægri kvarði) - en á vinstri kvarða (blár ferill) er hiti á Mið-Englandi. Hér munar 6 stigum á kvörðunum tveimur. Samræmi er ekki sérlega mikið - jú, 20.aldarhlýskeiðsins gætir aðeins á Englandi, en ekki líkt því eins og hér (og á Grænlandi). Hlýindin á síðustu áratugum eru einstök á Englandi - og þar fór að hlýna heldur fyrr en hér - en hér munar enn ekki mjög miklu á núverandi hlýskeiði og því fyrra. 

Hlýindi síðustu áratuga einskorða sig ekki við norðurslóðir við Atlantshaf - eins og 20.aldarhlýskeiðið - þau eru miklu víðtækari.


Bloggfærslur 14. júní 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 95
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 1844
  • Frá upphafi: 2348722

Annað

  • Innlit í dag: 85
  • Innlit sl. viku: 1615
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband