Skriðuföll á Seyðisfirði

Nú flettum við upp í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska og leitum þar að skriðuföllum á Seyðisfirði. Atburðaskráin nær aftur til ársins 1874 og fram til 2011. Nýrri atburðir eru þar ekki. Auðvitað er skráin ófullkomin og fjölmarga atburði vantar - eða þeir hafa hugsanlega verið rangt flokkaðir. 

seydisfj_615_1959-07

Gamla veðurstöðin á Seyðisfirði 25. júlí 1959 (ljósmynd: Þórir Sigurðsson, úr safni Veðurstofunnar). 

Allmikið er um skriðuföll á Seyðisfirði, enda brött fjallshlíð ofan við bæinn. Lítum nú á listann - hver færsla byrjar á dagsetningu: ár - mánuður - dagur, fyrsti atburðurinn er merktur 1882 10 20 -> 20.október árið 1882:


1882 10 20 sk Rigning og krapahríð á Austfjörðum olli skriðum, m.a. úr Bjólfinum á Seyðisfirði, féll þar á hús, en braut ekki.

1892 7 3 sk Skriða úr Strandartindi á Seyðisfirði olli tjóni. Skriðan rann á og í gegnum hús Pöntunarfélags Héraðsmanna, braut húsið og skemmdi vörur.

1897 8 14 sk Mikil skriðuföll á norðanverðum Austfjörðum, tjón á Seyðisfirði, Mesta skriðan féll á Búðareyri og olli miklu tjóni, litlu minni skriða, en skaðalítil, féll úr Strandartindi. Fjölmargar fleiri skriður féllu í firðinum og gerðu sumar þeirra tjón. Skriða skemmdi tún á Úlfsstöðum í Loðmundarfirði og skriður ollu skaða í Mjóafirði.

1903 1 14 sk Skriða féll úr Strandartindi á Seyðisfirði niður á Búðareyri

1905 8 5 sk Stórrigning á Austfjörðum. Mikil skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði eyðilagði bræðsluhús.

1912 9 1 sk Skriður gerðu landspjöll á Seyðisfirði.

1921 8 1 sk Mikil skriðuföll urðu á Austfjörðum, sennilega 1. til 3., en engar úrkomumælingar voru á því svæði. Bæjarhús hrundu á Hrjót í Hjaltastaðaþinghá og tún stórspilltist í Skógum í Mjóafirði. Búðaá á Seyðisfirði flæddi yfir bakka sína og skemmdi tún, vegi og garða.

1935 9 14 sk Skriðuföll úr Strandartindi við Seyðisfjörð ollu miklu tjóni, einnig urðu skaðaskriður í Norðfirði (Skorrastað, Skálateigsbæjum og Miðbæ) og Eskifirði.

1950 8 19 sk Mikil skriðuföll urðu á Austfjörðum og ollu verulegu tjóni á Seyðisfirði, Eskifirði og Reyðarfirði, fjárskaðar urðu í Hjaltastaðaþinghá þegar vatn gekk á tún og engjar. Geysileg skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði, fimm manns, þar af fjögur börn, fórust og mikið tjón varð á húsum. Á Eskifirði hljóp vatn á hús, en skemmdir urðu ekki miklar. Víðar féllu skriður sama dag, m.a. við utanverðan Eyjafjörð og í Ólafsfirði og tepptu vegi.

1958 9 30 sk Skriða féll úr Strandartindi á Seyðisfirði og skemmdi húsin Hörmung og Skuld og þriðja húsið skemmdist talsvert. Einnig eyðilögðust fjárhús, hlaða og geymsluskúr auk minni háttar spjalla. Innan bæjarmarka féllu 5 skriður, en 16 í nágrenninu.

1960 7 30 sk Minniháttar skriðuföll á Seyðisfirði, vatn rann í hús og vatnsleiðslur fylltust af aur.

1974 8 25 sk Skriðuföll austanlands, við Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð og í Mjóafirði. Margar skriður féllu úr Strandartindi á Seyðisfirði og eyðilagðu fjárhús og spilltu lóðum, gróðri og girðingum. Vegaskemmdir í Vopnafirði.

1981 9 25 sk Aurskriður féllu á Seyðisfirði og Eskifirði. Á Eskifirði varð tjón á lóðum og kjallari fylltist. Skriður féllu bæði úr Bjólfi og Strandartindi á Seyðisfirði, en tjón varð lítið.

1989 8 11 sk Allmikil skriðuföll úr Strandartindi á Seyðisfirði, m.a. braut skriða enda á geymsluhúsi.

2001 10 1 sk Allmikil skriðuföll austanlands, aurskriður féllu á Seyðisfirði þ.1., tjón varð lítið.

2002 11 12 sk Aurflóð féll úr Botnum á Seyðisfirði og lenti á hús við Austurveg. Mjög stór skriða féll við Brimnes í Fáskrúðsfirði.

Í annarri skrá (bandaríska endurgreiningin) getum við flett upp meðalvindátt á svæðinu kringum Ísland - og líka í háloftunum þessa daga. Þá kemur í ljós að flest tilvikin eru svipuð - áttin er oftast af austnorðaustri (sitt hvoru megin við 60 gráður á áttavita) - en í fáeinum frekar nær norðaustri. Stefnan í háloftunum er svipuð - þó oftar ívið suðlægari í háloftum (þá hlýtt aðstreymi lofts) - en ekki munar miklu. Vindur er meiri niðri heldur en uppi - og þykktarbratti lítill. [Stöku maður myndi tala um efri hlýjan geira - tengdan samskilum - en við förum ekki út í slíkt].  

Það er þó ekki þannig að allir dagar sem eiga svipað vindamynstur séu skriðudagar - langt í frá. Fleira þarf til - langvinnt rakaaðstreymi verður að vera til staðar. Auk þess er viðbúið að máli skipti hvernig aðstæður eru í jarðvegi. Mikil og áköf úrkoma veldur ekki alltaf skriðuföllum. 

Gömul þumalfingurregla (erlendis að) segir að fari sólarhringsúrkoma yfir 6 prósent af meðalársúrkomu sé rétt að fara að hugsa um möguleg skriðuföll. Þau mörk eru í kringum 100 mm á Seyðisfirði. Úrkoma mældist nokkrum sinnum meiri en það meðan mannaðar athuganir áttu sér stað í bænum, 23 sinnum á 68 árum tæpum. Við getum sagt þriðja hvert ár. Fimm sinnum mældist hún meiri en 130 mm, gróflega einu sinni á áratug. Mest 140,6 mm þann 12. febrúar 1974 - þá var meiri snjóflóða- heldur en skriðuhætta. 

Úrkoma hefur einnig verið mæld á Hánefsstöðum, utar í firðinum. þar hafa séet enn hærri tölur, 20 sinnum á 18 árum yfir 100 mm, sú hæsta 201,1 mm þann 4.júlí 2005. 

Sjálfvirkur mælir var fyrst settur upp á Vestdalseyri, hæsta sólarhringtalan sem við höfum enn séð úr honum er 159,7 mm, mæld 11.nóvember 2002 - þetta er atburður á skriðulistanum hér að ofan. Næsthæsta talan er 153,6 mm, mæld 1.október 2001 - líka atburður á skriðulistanum. Sjálfvirka stöðin í bænum á Seyðisfirði hefur aðeins verið starfrækt í nokkur ár. Hæsta tala sem þar hefur enn sést (fram að atburðunum nú) er  er 170,2 mm á sólarhring, þann 23.júní 2017 - ritstjóri hungurdiska veit reyndar ekki hvort sú tala hefur hlotið heilbrigðisvottorð.

Nokkurn tíma tekur að gera upp úrkomuna þessa dagana - bæði sólarhringsúrkomu og úrkomu nokkra daga í röð. Svo vill til að vinna er í gangi á tveimur vígstöðvum varðandi aftakaúrkomu á Íslandi almennt - og úrkomu á Seyðisfirði sérstaklega. Ritstjóri hungurdiska er ekki flæktur í þessi verkefni og því alls ekki nægilega fróður um útkomuna. Skýrslur verða væntanlega ritaðar um atburðina nú. 


Hálfur desember

Hlýtt hefur verið síðustu daga og meðalhiti mánaðarins það sem af er er kominn í 2,6 stig í Reykjavík, +1,6 stigi ofan meðallags fyrri hluta desember 1991 til 2020, en +2,4 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára og í 5.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni, langt þó neðan við þau hlýjustu. Hlýjast var 2016, meðalhiti þá 6,2 stig, kaldastir voru dagarnir 15 árið 2011, meðalhiti þá -3,4 stig. Á langa listanum er hiti nú í 20.sæti (af 145), hlýjast var 2016, en kaldast 1893, meðalhiti þá -5,9 stig.

Á Akureyri stendur meðalhiti nú í -0,3 stigum, í meðallagi áranna 1991 til 2020, en +1,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Tiltölulega hlýjast hefur verið á Suðurlandi, hiti þar í 6.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu á Vestfjörðum og Austurlandi að Glettingi, hiti í 12.hlýjasta sæti aldarinnar.

Á einstökum veðurstöðvum er að tiltölu hlýjast á Húsafelli, hiti +3,2 stig umfram meðallag síðustu tíu ára. Kaldast, að tiltölu, hefur verið við Upptyppinga. Þar er hiti -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma hefur mælst 26,1 mm í Reykjavík, um 2/3 hlutar meðalúrkomu, en á Akureyri hefur hún mælst 118,4 mm - um þrefalt meðaltal sömu daga. Enn meiri, hefur úrkoma mælst austanlands, var í morgun (þriðjudag) komin yfir 300 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði - en þá vantar enn úrkomuna síðasta sólarhringinn, en úrhelli hefur verið víða á Austfjörðum í dag, sýnist vera yfir 170 mm á Seyðisfirði á þeim tíma (óstaðfest).

Sólskinsstundir hafa mælst 2,8 stundir í Reykjavík það sem af er mánuði - um 4 stundum neðan meðallags.


Bloggfærslur 16. desember 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 87
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 1836
  • Frá upphafi: 2348714

Annað

  • Innlit í dag: 78
  • Innlit sl. viku: 1608
  • Gestir í dag: 73
  • IP-tölur í dag: 73

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband