Af árinu 1878

Heldur var kalt lengst af á árinu 1878. Meðalhiti í Reykjavík reiknast 3,4 stig, 2,7 stig í Stykkishólmi og giskað er á 2,1 stig á Akureyri (ekki var mælt þar). Enginn mánuður var hlýr, en sumarmánuðirnir þrír, júní, júlí og ágúst voru þó nærri meðallagi (allra tíma), sömuleiðis var febrúar í meðallagi hvað hita varðar. Aðrir mánuðir voru kaldir og desember meðal þeirra allra köldustu. Allmikil hafís var við landið um vorið og skætt hret gerði í maí. Í september og október gerði mjög hörð áhlaup.

Um þessar mundir voru engar opinberar veðurstöðvar inni í landi. Hámarks- og lágmarkshitatölur eru því heldur hóflegar. Hæsti hiti ársins mældist á Djúpavogi 29.júní, 19,0 stig. Hann hefur vafalítið einhvern tíma árs farið hærra inni í sveitum. Þann 24.janúar fór frost í -20 stig í Papey og reyndist lægsta tala ársins. Er það með nokkrum ólíkindum ef rétt er - en engar opinberar mælingar voru í innsveitum eins og áður sagði. 

ar_1878t

Hér má sjá daglegt hitafar. Efri línan (oftast) sýnir hæsta hita hvers dags (ekki hámarkshita) í Reykjavík, en sú neðri meðalhita hvers dags í Stykkishólmi. Enginn dagur telst mjög hlýr í Reykjavík - og ekki heldur í Stykkishólmi, en allmargir kaldir, 13 í Reykjavík (þar af 5 í desember) og 14 í Stykkishólmi (þar af 7 í maí). Listi yfir mjög kalda daga á þessum stöðum er í viðhenginu. Við sjáum á myndinni að fyrstu mánuðina er stöðugt flökt á hitanum - þíða og frost skiptast á (eins og tíðum), kuldakastið í maí er áberandi og eins kuldarnir í desember. 

ar_1878p

Ekki virðist hafa verið mikið um þrýstiöfga á árinu 1878. Þrýstiflökt frá degi til dags var sérlega lítið í háþrýstingnum óvenjulega í nóvember og desember. 

Árið 1878 var mjög þurrt, meðal þeirra allraþurrustu í Stykkishólmi - en úrkoma var aðeins mæld á þremur stöðum á landinu þetta ár. Sérlega þurrt var í nóvember og desember. Mánaðartölur má sjá í viðhenginu. 

Í fréttayfirlitum ársins er áhersla lögð á haustveðrin tvö, mikið hret um miðjan september og svo annað síðari hluta októbermánaðar. Minna þau í hörku sinni nokkuð á áfellin tvö haustið 2012 og margir muna. 

Hér að neðan eru dregnar saman helstu fréttir af veðri, tíð og veðurtengdu tjóni á árinu 1878 og vitnað í samtímablaðafréttir og fleira. Stundum eru þær styttar lítillega og stafsetning er að mestu færð til nútímahorfs. Sem fyrr má finna tölulegt yfirlit í viðhenginu. 

Valdimar Briem segir frá í ritinu „Fréttir frá Íslandi“:

Árferðið var nú í mörgum héruðum landsins að ýmsu leyti fremur í lakara lagi, og veðuráttufar engu mildara að öllu samtöldu en árið áður. Eftir nýárið var fyrst hart rúman viku tíma, en þá brá til hlýinda, er stóðu fram undir marsmánuð, en þó var oft umhleypingasamt um þessar mundir, og talsverðir snjóar nyrðra. Hafíshroði sást endur og sinnum fyrir Norðurlandi, en eigi rak hann algjörlega inn að landinu fyrr en seint í marsmánuði. Dreif hann þá inn á hvern fjörð og langt suður með landi að austan. Með ískomunni skipti um veður, sem vant er, og gjörði harðindi mikil um tíma um Norður- og Austurland, en óstöðuga tíð og hryðjusama sunnan lands og vestan. Nálægt miðjum apríl fór ísinn aftur að reka frá landinu og dreif til hafs. Þá batnaði tíðarfarið aftur hvervetna, sér í lagi á Suðurlandi. Jörð tók að leysa upp, og töluverður gróður var kominn víða snemma í maí. En nær miðjum maímánuði skipti aftur um. Ísinn rak aftur að landinu og inn á hverja vík; það var borgarís, fullur af snjó; stóð svo um hríð, að hafþök voru fyrir öllu Norður- og Austurlandi, svo að hvergi sá út yfir; en seint í maí rak ísinn aftur frá, alfarinn að mestu. Þegar ísinn rak að landinu í seinna sinnið, gjörði hörkur um allt land, og meðan hann var landfastur, var hvervetna kuldatíð.

Yfir höfuð var vorið upp frá því kalt og fremur þurrviðrasamt víðast um land, þangað til í miðjum júnímánuði, en upp frá því gjörði fyrst reglulega sumarblíðu; víðast hvar var þó heldur gróðurlítið. Frá því snemma í júlímánuði og fram undir miðjan september var þerrilítið og rosasamt á Suðurlandi, og líkt viðraði á Vesturlandi nema þar var þurrviðrasamara í ágústmánuði; en á Norður- og Austurlandi var tíðarfarið gagnstætt lengst af um þennan tíma, með því að þar voru sífelld þurrviðri. Um miðjan september gjörði hríðaráfelli yfir allt land, með frosti og fannfergju nyrðra og eystra; það stóð hér um bil í viku; upp frá því var allgóð tíð sumstaðar nyrðra fram á haustið, en miklu lakari á Austurlandi. Sunnan lands og vestan var haustið kalt og þurrviðrasamt. Seint í október dundi annan áfellið yfir allt land með miklu ofsaveðri; það stóð einnig nálægt viku. Eftir það var haustið fremur hryðjusamt þangað til seint í nóvember, en þaðan frá voru stillt veður, en mikil frost allt til ársloka. Nálægt jólum varð vart við hafíshroða fyrir Norðurlandi, en hann hörfaði frá aftur um nýárið.

Hin miklu áfelli, er tvisvar um haustið gengu yfir landið, mega vel teljast annálsverð, en með því bæði að rúmið er lítið og enda missagnir nokkrar um sumt, verður að eins minnst á þau með nokkrum orðum. Í fyrra áfellinu, er stóð frá 12.—20. september, kyngdi niður miklum snjó í norðaustursveitum landsins. Það bar svo brátt að, að fénaði varð víða eigi undan bjargað, enda var margt fé langt frá bæjum. Urðu því víða stórkostlegir fjárskaðar, einkum í Vopnafirði, Jókuldal og Fljótsdalshéraði. Á Hallfreðarstöðum var sagt að fennt hefðu 3 eða 4 kýr; fjölda fjár vantaði víða, sumstaðar að sögn svo hundruðum skipti. Fiskiskip 2 útlend rak á land í Vopnafirði, hlaðin af fiski; týndist farmurinn að mestu og svo skipin sjálf, en menn komust af. Í þeim veðrum strandaði og skip á Papós, hlaðið með útlendar vörur. Þá urðu og stórkostlegir heyskaðar víða. 15. sept. var svo mikið ofsaveður undir Austur-Eyjafjöllum og í Mýrdal, að fullorðnu fé sló niður til bana, en hey týndust að miklum mun. Víðar urðu þá stórskaðar, þó þeirra sé hér eigi getið. Í seinna áfellinu, er stóð hér um bil frá 20.—26. okt., var ofsaveður enn meira og tók víðar yfir, enda urðu skaðarnir þá enn almennari og stórkostlegri; skip og báta tók upp í veðrinu, og braut meira og minna; þök tók af húsum, hey rauf og fauk, o.fl. Sjógangur var þá svo mikill, að landbrot varð, rekavið tók út, og sumstaðar sópaði sjórinn fjárhúsum burtu með öllu fénu, er í var, en snjóflóð annarstaðar. Í veðri þessu sleit upp 4 skip norðanlands, 2 á Blönduósi, en 2 á Sauðárkróki, og 1 sunnanlands, í Reykjavík; skipin skemmdust og brotnuðu, en menn komust af. Veðrinu fylgdi mikil snjókoma allstaðar, nema á Suðurlandi; fennti bæði fé og hross á stöku stóðum. Mest er sagt að kveðið hafi að fjársköðum í Skagafirði, Húnavatnssýslu, í Dölum og á Mýrum, og týndist þar á sumum stöðum fé svo hundruðum skipti. Við fjárbjörgun er sagt að nokkrir menn hafi týnst. Annars urðu hvorug þessara áfella mannskæð á móti því, sem þau urðu stórkostleg að öðru leyti.

Eldgos kom upp í hrauninu norðaustur frá Heklu. Það er talið með Heklugosum, og telja sumir það hið 19. en sumir hið 20. gos hennar. Gos þetta hófst 27. febrúar og stóð með nokkrum millibilum þar til í aprílmánuði, en eigi varð glögglega séð sökum dimmviðra, hve nær það hætti algjörlega. Þetta gos var með vægari Heklugosum, og varð eigi mein að því, það er teljandi sé, nema það spillti högum á afrétt Landmannasveitar sumarlangt, og gjörði ógreiðari vegi fjallreiðarmönnum.

...
Heyskapur manna gekk mjög misjafnlega, og mjög ólíkt á Norðurlandi og Suðurlandi, bæði að því er snerti grasvöxt og nýtingu. Allstaðar leit raunar fremur vel út með gróður, áður en vorkuldarnir komu um miðjan maímánuð, og kipptu mjög úr. Grasvöxtur var þó talinn allgóður nyrðra í úthaga og á votengi, en nokkru miður á túnum og harðlendum hólum, og brunnir voru af beiskjuþurrkum. Sumstaðar var kvartað um grasmaðk í túnum, einkum í Borgarfirði suður. Á Suðurlandi voru tún og harðlendi töluvert betur sprottin en votengi, og yfir höfuð var þar betri grasvöxtur til fjalla en í lágsveitum. Á Austur- og Vesturlandi var grasvöxtur talinn allgóður. Nýting á heyjum varð ágæt fram í september á Norður- og Austurlandi, og sæmileg vestanlands, en á Suðurlandi miklu lakari; hröktust þar mjög víða töður manna, og úthey framan af engjaslætti. Best nýttist hey þar undir sláttulokin, þá er þau fór að hrekja annarstaðar. Yfir höfuð varð heyaflinn að tiltölu rýrastur á Suðurlandi, og mikið af honum létt til fóðurs. Heyskaðanna, sem urðu um haustið, er áður getið. Kál, rófur og kartöflur spruttu, að því er frést hefur, víðast hvar í besta lagi.

(s17) Sjávaraflinn heppnaðist nú víða fremur vel, og sumstaðar afbragðs-vel, og mátti að því leyti telja gott árferði. ... (s19) Í Njarðvíkum, sunnanvert við Faxaflóa, vildi til óvenjulegt happ seint í júlímánuði, þar sem þar voru unnin yfir 200 marsvín. ... (s23) Slysfarir virðast einnig hafa orðið í minna lagi eða manntjón af þeim orsökum. Að minnsta kosti hafa fœrri og minni skiptapar orðið, en oft hefur verið. Í mars drukknuðu 7 menn úr Njarðvíkum, og aftur í desember aðrir 7 úr sömu sveit í Garðsjó í sunnanverðum Faxaflóa. Í maí drukknuðu 3 menn úti fyrir Fáskrúðsfirði, og aftur í desember 4 á hinum sömu stöðvum. Í ágúst drukknuðu 4 á Skagafirði, í nóvember 4 á Ísafjarðardjúpi, og aftur 2 nokkru síðar. Í ám drukknuðu fáir. Þar á móti urðu að tiltölu nokkuð margir úti í illviðrum bæði um veturinn og aftur um haustið, einkum norðan lands og vestan. 2 menn fórust um haustið í snjóflóði í Svarfaðardal, 1 hrapaði um haustið fyrir Ólafsfjarðarmúla, en 2 um sumarið í Vestmannaeyjum.

Janúar: Fyrsta vikan hörð, en síðan allgóð tíð.

Skuld segir af tíð eystra þann 14.janúar:

Það sem af er þessu ári hefir verið kalt og umhleypingasamt, og þó varla ört eins óstöðug tíðin, sem fyrir nýár.

Þjóðólfur segir þann 24.janúar:

Með nýju ári og nýrri tunglkomu brá óðara til vægara vetrarfars allstaðar, er til hefur spurst; hafa síðan gengið þíður eða rigningar annað veifið, en stundum kafald, oftast útsynningsátt, en frost lítið eða ekkert; kom jörð upp víðast hvar hér syðra. Til sjóar hafa þó gæftir verið stopular mjög, enda má segja, að hver stund hafi verið vel og duglega notuð hér á inn-nesjum, þegar tiltök hafa verið til suðurferða; eru hinir svo nefndu Garðtúrar engar skemmtiferðir héðan um þetta leyti árs, og eyða oft heilum vikum í einu. Þessa síðustu daga hafa aftur gengið harðindi og kafaldshríðir, og mun batinn hafa orðið mjög endasleppur í hærra liggjandi sveitum. ... Austanpóstur kom aftur 20. þ.m. og hafði hreppt stirða tíð og erfiða yfirferð. Vetrarfarið um austursýslurnar hefur verið sviplíkt og hér; batinn í þessum mánuði hafði náð austur fyrir land.

Norðanfari birti þann 20.febrúar nokkur bréf utan af landi, dagsett í janúar:

Vopnafirði 17.janúar: Síðan á kom í haust, hefir tíðin verið nærri því með þeirri verstu, þó hafa jarðir verið meiri og minni hér í aðalsveitinni (jarðlaust alla tíð á innstu bæjum), en oft hefir snjó tekið með illviðrum hafutan í stórrigningu, (i dag er komin góð hláka og nú komin upp meiri jörð, en nokkru sinni hefir verið á vetrinum), eru því gripir manna með magrasta móti, enda var fé í haust óvanalega mörlitið en í meðallagi á hold, aftur er það góð bót, að fé er með hraustara móti og heita má að ekki hafi orðið vart við bráðafárið. Í áhlaupaveðrunum fyrstu í haust, urðu hér ekki miklir fjárskaðar nema á 5 bæjum, og munu þar hafa farið hér um bil samlagt, 300 fjár, en þar af langmest á Hauksstöðum, hjá Birni óðalsbónda. Bátatjón varð mikið nálægt 20 fórust og flestir af þeim að öllu leyti, því við örfáa má gjöra aftur. Í því veðri varð kvenmaður úti og annar 2. þ.m. Heilbrigði er almenn.

Seyðisfirði 23.janúar: Tíðarfarið hefir verið það besta síðan á nýári; þann 18. þ.m. voru hér 13 gráðu hiti á R [16°C] og fannst golan glóðvolg. Hér voru allar sveitir orðnar auðar að kalla, en nú í dag er norðaustan hríð og er komin mikill snjór eftir stuttan tíma.

Múlasýslu 25.janúar: Það sem af er vetri, hefir tíð verið mjög óstöðug og umhleypingasöm, stórviðrasamt en snjólítið. Má varla telja að nokkurn dag hafi logn verið allan, frá því um veturnætur til þess 8. þ.m., þá var logn og hægt frost í þrjá daga og úr því ekki alveg eins óstöðugt og áður. Frost voru hörðust um jólin og eftir frá 13°—16° á R [-16 til -20°C], Jarðir hafa víðast verið sæmilegar austan Lagarfljóts, þó tekið hafi fyrir þær dag og dag. Svellalög og gljá hafa mest hindrað beit, það er því ekki en búið að gefa fullorðnu fé nokkuð að mun, eða þá óvíða og víða ekkert. Lömb gengu víða til jóla og jafnvel nýárs, í fjörðum.

Skógum [Hallormsstað] 25.janúar: Fram að þrettánda var tíðin hryðjusöm og þó oftast jarðir. Þá gjörði blíðu hlákur, sem efalaust hafa hjálpað öllu Norðurlandi, já öllu landinu. Síðan voru mestu blíður þangað til í gær, þá var ófært dimmviðri. Í dag er frostið 11° og bjartviðri með éljadrögum. Fljótið er lagt upp undir Hallormsstað og nú er að leggja lónið, sem eftir er. Það er um 1/4 mílu á breidd og 1 míla á lengd, 60—90 faðma djúpt i miðju. Svo var það, en það hefir nú eflaust grynnst um margar álnir af þeim ósköpum sem í það hafa fallið og runnið af öskunni. Hljóta nú leirurnar óðum að færast út í botn þess, þær hafa færst út, líklega um 1/2—2/3 mílu síðan um landnámstíð. Það væri ekki ófróðlegt að skrifa lýsingu Lagarfljóts, um breidd og lengd og dýpi annars kafla þess, en það gjörir engin fyrir ekkert, að mæla það allt. Enda má segja að það væri engum til nytsemda. 

Húnavatnssýslu 27.janúar: Það er óhætt að fullyrða, að frá því fyrir jólaföstu og fram yfir nýár var hin rosasamasta og óstöðugasta veðurátta, er menn muna. Á hverjum laugardegi í desember, nema þann 15. voru stórrigningar útsunnan, en þess á millum fannkomuhríðar, og mátti kalla að jarðlaust væri orðið yfir allt um nýár, bæði í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. 9. þ.m. blotaði lítið eitt svo nokkuð hreinsaðist af hnjótum, þar sem snjóbert var, en viku fyrir þorra gjörði góða hláku, svo heita mátti að snjólaust yrði í lágsveitum, og víðast sem nokkur jörð kom upp. Nú er aftur komin talsverður snjór, en þó víðar hagar. Hross voru almennt komin á gjöf, og þau voru orðin mögur vegna skakviðranna. Sumstaðar voru hross á heiðum fram í desember sér í lagi á Auðkúluheiði og gekk mjög illa að finna þau, sökum illviðranna, sum fundust dauð og að dauða komin og nokkur vantar, sem talin eru af.

Febrúar: Fremur hlý en umhleypingasöm tíð.

Norðanfari birti þann 20.febrúar bréf af Skagaströnd, dagsett 2.febrúar:

Eins og þér líklega hafið heyrt, hefir veturinn hér verið mjög harður, með snjókomum, frostum og einlægum illviðrum, svo til vandræða hefir horft með útigangspening og mun hafa verið komið á fremsta hlunn hér sumstaðar að fækka hrossum; í Skagafirði hefir eitthvað verið drepið af þeim, en talsvert drepist af gliðsum á svellum [gliðsa = úr mjaðmarlið]. Nú er víðast hvar komin upp góð jörð og hið mildasta sumarveður og þíða.

Þann 28. birti Norðanfari bréf úr Reykjavík og Seyðisfirði:

Reykjavík 2.febrúar: Tíðarfarið hefir verið mjög stormasamt í vetur, útsynningskaföld, stundum blotar á millum og jarðbannir, útigangspeningur hrakist, stundum þotið upp á norðan með gaddi, 5 logndagar í okt. 4 eða 5 i nóv. 2 í des. og 6 í janúar. Frost mest 27. des. 17°, 8. jan. 14°, 9. og 10. jan. gjörði þíðu svo jörð kom allvíða um Borgarfjörð og eystra en spilltist aftur. 29. gekk í þíðvindi og helst enn við, er nú logn og blíðviðri og víða tekin upp allur snjór.

Seyðisfirði 10.febrúar: Tíðin hefir verið ágæt með köflum í vetur, einkum seinni hluta [janúar], voru þá regluleg sumarveður og 10—12 gr. hiti, stundum á morgnana. Í þessum góðviðrum hefir líka allstaðar komið upp jörð nema ef til vill á köldustu útkjálkum. Nú hafa verið hríðarveður nokkra daga en ekki mikil snjókoma.

Þjóðólfur segir þann 6.febrúar:

Nú l 1/2 viku hefur hagstæð og skörp hláka gengið yfir allt Suðurlandið, og eflaust meira og minna yfir allt Ísland; eru því hagar hvervetna komnir upp.

Norðanfari birti þann 16.mars bréf úr Skagafirði og Siglufirði, dagsett í febrúar:

Siglufirði 16.febrúar: Héðan er fátt að frétta, nema dæmafáa óstillingu á veðráttu, stundum er hálfan daginn krapahríð með ofsa stormi helst suðvestan, en aftur hinn helfinginn norðan stórhríð; vegna þess hvað tíðin er óstöðug og þó einkum vegna þess hvað sjóharka er mikil, eru menn hræddir um að hafísinn sé ekki langt undan landi.

Skagafirði 23.febrúar: Tíðarfarið er mjög óstöðugt, en þó víðast nægar jarðir, síðan með þorrakomu, þó er útigangspeningur venju framar aðþrengdur um þennan tíma árs, sem von er eftir veðurlagi og jarðskorti, er verið hefir.

Þjóðólfur segir þann 27.febrúar:

Þorrinn, sá er nú leið til enda, mátti heita einn sífelldur blíðu- og blessunardagur fyrir allt suðurlandið. Samfara auðri jörð allt til fjalla, jókst þegar með þorrakomunni fiskiganga hér um útsuðurhluta flóans, svo að allur almenningur hefur náð í töluverðan afla; hafa menn að vísu sótt mestan þann fisk út undir Garðskaga, en þar sem flestir öfluðu vel í hverri ferð, og veðurátt var hagstæð, munu margir þykjast ekki hafa keypt þennan afla dýrara, en afli kostar af miðum hér, er misjafnar ganga gæftir; því hér er útræði langt og háskasamlegt á vetrum, en þar syðra veiða menn með landi fram. ... Að norðan fréttist, að vor blíði þorri hafi þar víðast hvar verið hvítur og kæft niður snjóum miklum. Maður hafði nýlega orðið úti milli Hrútafjarðar og Dala. Bátur hafði og farist úr Eyrarsveit með 2 mönnum, eigi langt frá Stykkishólmi.

Þann 30.mars birti Norðanfari bréf úr Axarfirði, dagsett 1.mars. Þar segir meðal annars:

[Er] sannfrétt að hafísinn sé kominn að Sléttu og jafnvel á hverja vík í Þistilfirði, svo mönnum fer nú ekki að lítast á blikuna.

Þann 27.febrúar hófst eldgos austan Heklu í kjölfar jarðskjálfta. Blöðin segja allítarlega frá gosinu. Hér birtist aðeins hluti af þeim lýsingum. Ísafold segir frá þann 28.:

Eldur uppí (?). Rúmri stundu fyrir miðaftan í gærkvöldi fundust hér í bænum glöggt þrír jarðskjálftakippir hver eftir annan, og skömmu fyrir miðnætti sáu ýmsir, er á ferli voru, eldbjarma yfir austurfjöllunum, í þá átt, sem Vatnajökull er héðan.

Þann 23.mars segir Ísafold aftur af gosinu:

Eldgosið. er vér gátum fyrir skemmstu, var í hrauninu norður og austur af Heklu, á þrem stöðum, að því er næst hefir orðið komist. Það byrjaði 27.[febrúar] og stóð næstu dagana á eftir, með töluverðum jarðskjálftum, og nokkru öskufalli; en virðist hafa slotað síðan. Að minnsta kosti hefir enginn mökkur sést héðan síðan snemma í þ.m. Askan er að dómi landlæknis vors hin sama og sú sem féll í Heklugosinu síðasta, 1845, mjög skaðleg mönnum og skepnum.

Mars: Gott tíðarfar eystra, en áfreðar nyrðra, en rosasamt syðra og vestra.

Skuld segir af tíð eystra þann 4.mars:

Veðrátta hefir verið nú síðast, eins og jafnan síðan um nýár, heldur óstöðug, en sífellt mild, og heldur hlákusamt til jafnaðar; en stundum hefir frosið snögglega eftir hlákurnar, og viljað þá setja storku yfir alla rót. En yfir höfuð má segja að þessi þorri hafi verið hér austanlands með mildasta móti, og sama það sem af er góu.

Norðanfari segir 30.mars:

10. [mars] laust hér á norðanbyl með gaddhörku, urðu þá úti: aldraður kvenmaður, ... frá Stafshóli innsta bæ á Höfðaströnd sem ætlaði að Hofstaðaseli í Viðvíkursveit, en villtist ofan á Héraðsvötn, yfir þau og upp í Hegranes nálægt Ási, hvar hún fannst örend. Hið sama kvöld hafði annar kvenmaður, frá Hvammi í Laxárdal í Skafs.[Skagafjarðarsýslu] verið líka á ferð og orðið úti. 

Þjóðólfur segir af slysförum í frétt þann 14.mars:

Laugardaginn 9. þ.m. var hér framan af degi ískyggilegt verður en þó vindur hægur á austan; réru þá fáir hér á innnesjunum. Þegar áleið daginn skall á bráða-vestanrok með stormi og dimmu kafaldi. Í því áhlaupi týndist skip með 7 mönnum frá Birni óðalsbónda á Þórukoti í Ytri-Njarðvíkum; rak það upp fyrir innan Vatnsleysur.

Ísafold segir frá tíð í pistli þann 23.mars:

Vetrarfar hefir verið hið örðugasta á Norðurlandi: snjóar miklir og sífelldir umhleypingar; víða orðið heytæpt. En nú að líkindum kominn þar bati. Hér syðra var og ótíð fyrra part þ.m.; stakasta gæftaleysi. En nú góðviðri nokkra daga. ... 

Þjóðólfur segir þann 20.mars:

Austanpóstur kom 16. þ.m., en norðanpóstur þann 18. Veðráttufar sviplíkt um allt, því sem hér hefur gengið, þó meiri snjókoma, eins og vant er, á Norðurlandi: Færð og veðráttu á þessari slæmu góu hrepptu póstar hið versta.

Skuld segir þann 25.mars:

Síðan síðasta blað kom út var hér mesta vorblíða fram að 20. þ.m. Þá gekk i norðanstorm með allsnörpu frosti, er stóð í 2 daga; 22.mildaði aftur og lygndi, en gekk aftur í norðanveðrið um kvöldið, og hélst það þar til í gærkveld að lygndi. 

Þjóðólfur segir af eldgosinu í alllöngum pistli þann 13.mars:

Að kvöldi 27. dags febrúarmánaðar fundust jarðskjálftar allmiklir hér í bænum, svo að hús bifðust og lausir hlutir hristast, en engir urðu skaðar af. Sama kvöld sást og eldur á lofti norðanvert við Hengilinn eða í sömu stefnu og Hekla liggur. Næstu daga eftir fréttist að austan, að eldur mikill hefði komið upp nálægt Heklu hið sama kvöld og hér varð vart við jarðskjálftann; urðu og enn meiri brögð að hræringunum austanfjalls en hér, þó er ekki getið skaða af þeim völdum neinstaðar, nema á Urriðafossi í Flóa; þar hrundi fjós. Við öskufall hefur nokkuð orðið vart hér og þar, en þó lítið. Vér höfum sent áreiðanlegum mönnum eystra orð, og beðið um svo greinilega skýrslu um stað og atburð, sem unnt er. Síðan gosið hófst, hafa gengið illviðri og umhleypingar miklir, oftast útsynningar, og fyrir því hefur sjaldan verið heiður himinn, en þegar bjart hefur verið í austri hefur kvöld og morgna héðan sést til mökks eða elds, þó ekki á daginn. Væntum vér í næsta blaði að geta gefið nákvæmari skýrslu, en bætum her við kafla úr bréfi frá séra Guðmundi Jónssyni á Stóruvöllum dags. 28. [febrúar] (Stóruvellir liggja fáar bæjarleiðir frá Heklu).

„Um kl. 4 1/2 í gærdag e.m. fóru að koma smá hræringar, og héldust þær, þó vægar, þar til kl. átti hér um bíl 5 mínútur eftir til 5, þá kvað svo mikið að þeirri hræringu, sem þá varð, að öll hús léku á reiðiskjálfi, svo vatn gekk í smáöldum á íláti, sem var uppi á lofti, og síðan 5 mínútum eftir 5 kom önnur enn verri, hélst þá enginn hér við inni í bæ, og líkast var, sem kirkjan ætlaði að hrynja með braki, og iðaði til og frá hjálmur í henni; þó hlaust hér ekki af skaði. Þegar rökkva tók (allt af héldust við smá hræringar) fórum við að hyggja að til austurs, hvort við sæjum ekki eldsuppkomu, og urðum við þess eigi varir fyrr en kl. um 8, en þá stóð eldsmökkur hátt á lofti, rétt yfir norðuröxl Heklu, rétt í miðsmorguns-stað héðan. Og það þykir mér furða ef hann er uppi í fjarska, því á þeirri hlið Krókatinda, sem hingað veit, var albjart héðan að sjá, og sem vita-samloði væri á fjallabrúnum fyrir austan Næfurholtsfjöll. Ég vil nú samt ekkert geta til um upptökin, en engin jöklafýla hefur fundist, og við öskufall höfum við ekki vör orðið" [lýkur hér bréfinu frá Stóruvöllum].

Í dag, 10. mars, segja oss nýkomnir menn austan af Skeiðum að gosið haldi áfram; séu gígirnir tveir og standi eldurinn í háloft upp úr báðum, en langt bil sé á milli. Eldur þessi — segja þeir — er á Landmanna-afrétt í austnorður frá Heklu, líklega upp úr miðju hraunflæmi því, er þar liggur — hve langt frá Heklu er enn óvíst. Öskufalls urðu menn að eins varir daginn eftir er gosið hófst, enda hefur vindur borið reyk og ösku oftast norður og austur. Hans Stephensen á Hlemmiskeiði á Skeiðum hefur sagt oss, að hann hafi verið á ferð, og horft á er gosið hófst; hafi það verið líkast feykistórum flugeldum (rakettum) er skyndilega þutu upp undan norðausturbrún Heklu, en sem á lítilli stundu var orðið afarhátt bál, tilsýndar tvöfalt hærra en Hekla; nóttina eftir var lesbjart víða um efri hluta héraðsins milli fjalla, og var þó loft þykkt; síðan er eldurinn nokkru minni.

Veðrátta, aflabrögð. Síðan góa byrjaði hefur gengið ótíð og gæftaleysi, oftast útsynningsumhleypingur með stormum, frosthríðum og blotum til skiptis. Þá sjaldan róið hefur verið hefur aflast vel hvervetna af þorski og stórýsu, allt á haldfæri. Engin slys til þessa, svo spurst hafi, en hrakfarir nokkrar, enda er nú sjór sóttur með miklum kappsmunum. Útundir Jökli er sagður besti afli, allt um kring.

Norðanfari birti þann 10.apríl tvö fréttabréf dagsett í mars:

Skógum í Múlasýslu [Hallormsstað] 16.mars: Síðan um nýár hefir tíðarfarið oftast nær verið hið besta, þó nokkrum sinnum hafi komið snjóar (alla tíð helst af austan eða suðaustan áttum) og orðið jarðlitið, og ýmist grimm norðanveður, þó hefir áttin breyst, jafnóðum oft á 1 dægri og komið suðvestan hlákur og hlýinda blíða, stundum hitamolla eins og á vorum (líkt og var hér næst eftir Dyngjufjallagosið mikla, þegar hitavelluna var alla tíð að smá spýja upp úr gjánni). Af þessu tíðarfari hefi ég staðið á því, að mikil hitavella hér inn og vestur í jökli mundi smá gjósa upp, verma loft með hitastraumum frá sér og snúa áttunum, og mundi nú síðan eftir nýár kveða miklu meira að þessu og vera stöðugra en framan af vetrinum. Þá sást eitt sinn héðan úr sveitum eldglampi inn og vestur til jökulsins, og eitt kvöld, sem ég var á ferð í myrkri hér út frá snemma á jólaföstu, sá ég tveim eldleiftrum, eins og af glóandi steinum bregða upp í sömu átt, svo sem inn og vestur af Kverkfjöllum, þar sem eldurinn hefir verið að smá koma upp mörg fyrir farandi ár. Strax eftir nýárið kom hér hitablíðu hláka, aftur önnur milli þrettánda og þorra, snjóaði drjúgum á milli. Mestallan þorrann besta tíð, en á góunni, sem af er, ýmist snjókomur af útsynningi (austri suðaustri) ýmist hörð norðanveður, ýmist hlákur og blíða. Vikuna nýliðnu voru þrenn veðrin: fyrst snjókomur og bleytuhret, svo jarðlítið varð 2—3 daga, svo grimmt norðan veður með 10 til 15 stiga frosti, síðan mesta hláka og blíða með 8 til 11 stiga hita um hádag — 5 stig á morgna.

Á Héraði 20.mars: Hér má heita sumar en ekki vetur, suðvestan og sunnan hlákur nótt og dag og hafa þær nú staðið í dagstæða viku, svo kalla má að öríst sé orðið í byggð og mikið þiðnað á fjöllum uppi, enda álít ég engu meiri snjó nú en var í fardögum i fyrravor; loftshiti hefir verið þessa vikuna síðan batnaði frá 3—9°R., eins nátt sem dag. Vetrarríkið hefir verið í vetur eitthvert hið minnsta, er menn þykjast muna, því að þó hagskart hafi verið endrum sakir á freða og eins nokkra daga í senn, þá hafa hægviðrin verið allajafna og jarðir því notast vel enda þiðnaði jafnan eftir fáa daga. Fjárhöld eru víðast góð nema sumstaðar.

Apríl: Hart fram í miðjan mánuð, en batnaði síðan.

Skuld segir af tíðarfari og hafís í nokkrum pistlum og bréfum í apríl:

[1.] Hafísinn hefir verið að drífa suður með nú í ofsunum, sem gengið hafa nokkra daga; þó ætla menn að það sé að eins talsvert hrul, en engin hafþök. Vindstaða virðist hafa verið og vera enn austanstæð til hafs.

[6.] 4. þ.m. lægði fyrst fyrir fullt og allt inn mikla storm, sem svo að segja látlaust hafði blásið hér síðan 20. [mars]. — Tók þá ísinn að drífa inn, er áttleysa var í loftið komin. Í dag (6. þ.m.) er fjörðurinn hér orðinn fullur, og svo mun allt suður í Lón, því þangað kvað ísinn ná. Nú er sagt sé hafþök, er hvergi sér út yfir.

[13.] Síðan síðasta blað kom út hefir verið sífelld sunnan og vestanátt, og er nú alautt haf að sjá fyrir utan, og sumir firðir auðir; hér liggur hafísinn inni á Reyðarfirði út að Vattarnestanga. Eftirskrift: 12. apríl.— Í morgun austanstætt fyrir austan land; ísinn var að reka að aftur, svo langt sem eygði.

[17.] Fregnbréf úr Norðfirði (frá hr. sýslunefndarmanni og hreppstjóra B. Stefánssyni): Ormsstöðum, 27. mars 1878. Héðan er ekki að frétta, nema fremur góða tíð síðan um nýár. Að sönnu kom nokkurt snjókast um og fyrir þorrann og aftur í 1. viku góu. En óttaleg svellalög hafa verið síðan um nýár, svo elstu menn muna ekki þvílík, og af og til jarðlítið, þar til 14. [mars] gerði vestan-hláku, svo það er víðast hvar dálítil jörð hér í sveit. Ísinn sást hér í fyrradag fyrir utan land. 9. apríl. Síðan ég skrifaði þér síðast, hafa hér gengið stöðugir norðaustanstormar, svo allt fyllti með hafís, sem ekki sá út yfir af hæstu fjöllum. — 5. þ.m. kom hér mikill snjór og þ. 8. dreif niður bleytusnjó, og gekk þá til sunnanhláku, svo nú í dag er víðast hvar komin jörð, og mestallur ís rekinn út úr firðinum. Það er líka gagn, því margir eru í þröng með hey. Þann 7. þ.m. kom til smalans á Bakka bjarndýr; það hafði verið á stærð við vænan sauð. Maðurinn var staddur naumt á fjörubakka, þegar bangsi kom að honum; bangsi kom svo nálægt, að smalamaður sló með staf sínum í hausinn á honum. Bangsi yggldi sig dálítið og snautaði burt; sigaði smalinn þá hundi á dýrið, en það labbaði undan. — Þegar smali kom heim, fóru 2 menn með byssur á vit við björninn, röktu þeir slóð hans út á ísinn, en sáu hann hvergi; en hér og hvar sáust bæli eftir hann.

Eskifirði, 16. apríl. Ísinn er nú aftur kominn inn á Norðfjörð. Hér er enn fullt af ís í firðinum og allt orðið samfrosta af lagís milli jakanna, svo fjörðurinn er að líkindum manngengur. Ísinn lá enn á Seyðisfirði og Mjóafirði þegar vér síðast fréttum (fyrir 3 dögum). Yfir Fáskrúðsfjörð var farið á bát í fyrradag, og var ísinn þar enda sagður skipgengur í gær. Eitt (eða tvö?) skip sjást hér stöðugt fyrir utan ísbrúnina; því hér er autt haf að sjá fyrir utan firðina; er að væntanlega skip Tuliniusar kaupmanns. — „Ingólfur" (Djúpavogsskipið) kvað hafa þekkst út af Papey og halda sér þar við. ... Veðurspá. Í tímaritinu „Nature" spáir skosku stjörnufræðingur og veðrafræðingur, Piazzi Smith að nafni, ströngum vetri í ár í Norðurálfu, og miklum hitum sumarið 1879.

[24.] Á Jökuldal, 15. apríl. Veturinn fer nú bráðum að kveðja, hann hefir verið umhleypingasamur, en frostalítill og má teljast með bestu vetrum, einkum að austanverðu Jökulsár. Að norðanverðu árinnar hefir verið miklu snjómeira og þiljugaddur síðan 10. október í haust á ystu bæjunum, Hvanná og Hauksstöðum þangað til nú, að hlánaði svo ágætlega í vikunni sem leið. Hey hafa eyðst ótrúlega og reynst með langvesta móti. Hálftunnan eða kneppið hefir verið hálfu léttara að vigt en undanfarin ár. Þannig hefir kneppið vegið um 20 merkur, í staðinn fyrir 36—40. Á Efradal, þar sem askan er meiri, hefir ekki borið á þessum mismun á heygæðum, því að á Hákonarstöðum vóg útheyskneppið í vetur 44 merkur. Þó nú sé faríð að kólna aftur og snjóað hafi nokkuð, síðan 13. þ.m., þá er þó fé víða látið ganga sjálfala, síðan kólnaði, og menn verða tregir til að taka það inn, nema því meir versni tíðin. Jörðin bregst aldrei, er á hana gefur, svo vænu fé er óhætt eftir þetta. Vopnafirði, 13. apríl 78. Fr á því 14.—17. f.m. mest af hláka hér og auðnaði sumstaðar í sveitinni, en lítið eða ekki til heiða. Heiðarbúar hafa nú gefið inni stöðugt í 26 vikur. Frá 20. [mars] til 6. þ. m. voru hér norðan-brunastormar og hríðarhreitingur, en snjóaði þó ekki mikið niðri í byggð; frost daglega frá 6 til 13 gr.; þá rak ísinn hér inn. Frá 6. þ.m. til þessa dags mestu þíður, fjarska-leysing og þann 10. sunnanvindur; öllu betur tók hér nú en í fyrra batanum. Síðustu 2 daga utanátt og þykkt. — Ekkert fjarlægist ísinn. — Hafþök af honum norðan við Langanes, sagði maður, sem þaðan kom 3. þ.m.

[30.] Síðustu daga hefir verið hér suðvestan vindur og í dag (29.) sunnanstæður og hvass. Ísinn er nú víst að mestu rekinn úr hafinu; en fullum heldur hann firðinum hér og líklega norðurfjörðunum. Suðurfirðirnir munu vera farnir að auðna mikið.

Borgarfirði austur, 10. apríl 1878. Loksins ætla ég nú að skrifa yður, herra ritstjóri, helstu fréttir héðan úr hreppnum á liðna árinu, og á þessu, það sem liðið er af því. Frá nýári í fyrra var hér óstöðug tíð sem hélst út veturinn; vorið var kalt með snjóbleytum og stormum, svo skepnur manna, sem annars voru í allgóðu standi undan vetrinum, og litu út fyrir að gjöra gott gagn, hröktust af illveðrunum — einkum ær, svo þær máttu ekki lakari verða. Eftir vortíðinni varð grasvöxturinn, svo sláttur varð ekki byrjaður fyrr en í 14. viku sumars hjá flestum á túnunum; þau voru allstaðar með lakasta móti, og fékkst af þeim allt að þriðjungi minni taða á sumum bæjum en í fyrra. Eftir túnaslátt var útengi orðið sláandi. Sumarið var blautt og óþurrkasamt, svo úthey, sem var slegið eftir túnaslátt, varð ekki hirt fyrr en í september, þá voru þurrkar og góð tíð um tíma. Úthey varð nokkuð að vöxtum hjá mönnum, en hefir verið létt til afgjafa. Haust og vetrartíðin fram að sólstöðum var óstillt með snjóum og krapahríðum, en oftast var snjólítið í byggðinni; skepnur manna hröktust því í þessum veðrum, einkum í skaðaveðrinu 11. október, þá fennti hér víða fé til dauðs. Sjórinn gekk óvanalega á land og mölbraut um nóttina 12 báta hér í hreppnum, og er slíkt ekki alllítill skaði. Síðan um nýár hefir tíðin verið norðlæg og þurr; jarðir af og til í vetur; en víða nú orðið heylítið, þar heyfyrningar voru litlar hjá mönnum í fyrravor, og sumarheyin lítil og létt til fóðurs. Hafísinn rakst hér inn 28. f.mán. 8. þ.mán. gekk bjarndýr af honum hér á land, en flúði út á ísinn aftur áður skoti varð komið á það.

Norðanfari segir af ís þann 10.apríl:

Hafþök af is eru sögð hér norðan fyrir landi og töluverður ís kominn inn á Eyjafjörð.

Þjóðólfur segir þann 10.:

Í norðanveðrinu fyrstu daga þ.m. rak í strand frönsk fiskiskúta: „Etoile de la mer“ á Suðurnesjum, skip og vörur að miklu leyti óskemmt að sögn.

Þjóðólfur segir þann 23.apríl:

Síðan póstskip fór 23.[mars] hefur veðrátta verið fremur óstöðug, en sjaldan frost eða kafald, heldur hafa stormar, þó eigi miklir, skipst á við rigningar eða gott veður. Hafíshrakningur hafði sést nærri landi norður við Skaga um síðustu mánaðamót, og enda fréttist þá af hafís við Langanes. Almenn tíðindi góð að öðru leyti, og er útlit fyrir að vetur þessi, sem fram eftir var einn hinn harðasti, muni enda sem meðalvetur, að minnsta kosti fyrir Suður- og Vesturlandið.

Þann 30.apríl segir Ísafold af hafís:

Með póstskipinu fréttist, að fullt sé af hafís fyrir öllu Austurlandi, svo að kaupskip hafa orðið að snúa þar aftur. Póstskipið hitti í Þórshöfn á Færeyjum skonnert „Sophie", Larsen, sem fór frá Khöfn 18. [mars] og átti að fara til Tuliniuss á Eskifirði, en komst eigi inn þangað fyrir hafís og sneri frá landi aftur 15. [apríl], eftir margar tilraunir til að komast inn. Það hafði hitt þar við ísinn skonnert „Harriet", er átti að fara til Norðurlands, en komst hvergi; hafði hitt ís 8—10 mílur undan landi undan Borgarfjalli. Harriet hafði haft tal af 3 skipum öðrum, sem norður áttu að fara, en urðu frá að hverfa, og héldu vestur fyrir land til þess að reyna að komast áfram þeim megin. Það voru „Alfred", „Hanna" og „Anine". Enn fremur lá við ísinn briggskipið „Hertha" og saltskipið frá Liverpool til Seyðisfjarðar. Ísinn náði þar 2—3 mílur undan landi við Eskifjörð og á harða-reki suður eftir.

Þann 20.apríl sagði Ísafold af lokum eldgossins austur af Heklu. Í greininni er skýrsla frá Sr. Hannesi Stefhensen (svo ritað) dagsett 21.mars. Hannes fór á eldstöðvarnar 17.mars. Er lýsing hans öll hin fróðlegasta. Við sleppum öllu hér nema lýsingu hans á jarðskjálftunum og upphafi gossins:

Hinn 27. dag febrúarmánaðar nálægt nóni (kl. 3—4) varð vart við litlar hræringar, sem óðum fóru vaxandi, eftir því sem á kvöldið leið; hræringar þessar voru ekki jafnmiklar á sama tíma, í öllum hinum næstu héruðum. — Þannig komu hinar mestu þeirra á ofanverðum Rangárvöllum og Landi kringum miðaftan (kl.5—6), en hin sterkasta hræring, sem fannst í Fljótshlíð, var nálægt kl.8. Í þeirri hræringu féll gaflhlað úr baðstofu í Árkvörn og fjós á Neðri-Þverá, hvorttveggja fornt og að falli komið; með snarræði tókst að skera á böndin á kúnum og koma þeim út. Annað tjón varð ekki af jarðskjálftunum í Fljótshlið, og er sama að frétta úr öðrum sveitum í nánd við eldinn. Mest mun hafa kveðið að jarðskjálftum þessum á ofanverðum Rangárvöllum og Landi, því þar fór á mörgum bæjum mestöll mjólk úr trogum; þó er þaðan ekki getið um neitt tjón á mönnum eða skepnum. Menn flúðu víða bæi, sem vonlegt var, einkum þá er fornir voru og óstæðilegir, og létu fyrir berast ýmist í heygörðum eða úti á bersvæði. Einnig hleyptu margir út fénaði, sem beðið gat tjón afhúshruni; þó munu fæstir hafa leyst út kýr. — Í Fljótshlíð varð eldsins fyrst vart af bjarma, er lagði upp á loftið kl. 6—7, en eftir stærsta jarðskjálftann (kl.8) sló dökkrauðum bjarma nálega upp á mitt loft, og fóru hræringarnar úr því rénandi, til þess um miðnætti. Allan þenna tíma (frá kl.3—12) var nálega aldrei með öllu kyrrt, heldur voru sífelldar smáhræringar milli hinna stærri kippanna. — Þegar leið frá miðnætti, urðu hræringarnar miklu aflminni, svo leið og langt bil á milli þeirra, sem alveg var kyrrt. Vart varð þó við lítinn ókyrrleika öðru hvoru hina næstu dagana. Allar stefnur bentu til þess, hvaðan sem á eldinn var litið, að hann mundi ekki vera langt frá Heklu, í austurnorðaustur.

Þjóðólfur segir af eldgosinu í pistlum þann 23.apríl. Þar segir m.a. um jarðskjálftana við upphaf gossins:

Þó að jarðskjálftarnir að kveldi hins 27. [febrúar] yrðu víða all harðir hafa þeir þó að líkindum hvergi orðið eins voðalegir og í Næfurholti sem er næsti bær við Heklu og er það þakkað því, að þök og veggir voru freðnir, að ekki varð stórskaði á húsum, þó hrundi baðstofugaflinn, en mjólk og annar lögur spilltist, blöð og bækur og allt sem lauslegt var, flaug sem drífa, en allir brothættir munir höfðu verið bornir út á víðan völl, þegar fyrst varð vart við kippinn.

Maí: Góð tíð fyrri hlutann, en síðan harðindi og kuldi.

Þjóðólfur segir af tíð og fleiri þann 8.maí (lítillega stytt hér):

Póstskipið sigldi 6. þ. mán. ... Fáum tímum áður kom norðanpóstur, en vestanpóstur degi fyrr. Höfðu þeir báðir, og þó einkum norðanpóstur, hreppt illa færð og ófær vötn sökum leysinga. Þeir sögðu að öðru leyti allbærilegt tíðarfar; hefur almenningur haldið skepnum sínum, þótt í stöku stóðum yrði að leita kornfóðurhjálpar, því víða voru menn komnir nær þrotum, er jörð leysti upp um páskana, Af Vesturlandi fréttist góður afli, einkum úr Bolungarvík. ... Um 20. f.m. var farið að aflast vel við Eyjafjörð og þar víðar bæði af þorski og hákarli. Af hafísnum er það að segja,að þá er póstur fór úr Norðurlandi, voru allar líkur til að hann væri á förum, enda staðfestir veðurblíða sú, sem nú gengur, það nær því til vissu.

Kirkjubruni. Aðfaranótt hins 10. [apríl] brann kirkjan á Lundabrekku í Bárðardal í Þingeyjarsýslu með öllu sem í henni var til kaldra kola. Urðu menn fyrst varir við eldinn frá Halldórsstóðum hinu megin fljótsins, en er að var komið, var hjálpin um seinan. Ætlað er að lofteldur hafi valdið brennunni. Mestallan mars og framan af apríl gekk norðanátt fyrir öllu Norðurlandi með talsverðum frostum (mest 14—16°R [-17 til -20°C] á Akureyri um fyrri mánaðarmót). Skip voru hvergi komin. Á Austurlandi hefur afliðinn vetur verið bestur, „eitthvert minnst vetrarríki sem menn muna“. skrifar maður úr Héraði 20. mars, til Norðanfara.

Hér syðra gengur nú hin besta tíð, og gróður kominn töluverður. Eldgosið við Heklu er mælt að nú hafi tekið sig upp aftur með nýjum krafti.

Ísafold er ánægð með tíð 6.maí:

Veðrátta hefir verið einkar-blíð og hagstæð lengi að undanförnu hér sunnanlands; jörð farin töluvert að gróa. Sama er að frétta að vestan, með póstinum þaðan.

Ísafold birtir hafísfréttir þann 15. og 29.maí:

[15.] Ný frétt er að norðan, að ísinn hafi rekið inn aftur á Húnaflóa fast að landi og sjái hvergi út yfir. Það er bæði lagnaðarís og borgarís, og snjór á honum allmikill. Þessi slæmu tíðindi komu eigi á óvart, eftir veðráttunni hér sunnanlands undanfarinn vikutíma: norðangarður, með allmiklu frosti.

[29.] Skiptjón í hafísnum. Hinn 28. [apríl] týndist í hafísnum úti fyrir Héraðsflóa, skammt undan Langanesi, kaupskipið „Abelone“ (75 smálestir), á leið frá Kaupmannahöfn til Hólaness. Af því að þoka var á, vissu skipverjar eigi fyrri til, en þeir voru umkringdir af ísnum á alla vegu og sáu hvergi út úr. Þetta var aðfaranóttina hins 28., kl.3. Um morguninn kl.7 voru þeir þó búnir að smeygja sér út í auðan sjó, við illan leik, enda hafði og skipið komist svo mikið við, að það var orðið hríðlekt. Það vildi skipverjum til lífs, að þeir höfðu meðferðis meðal annars flutnings stóran uppskipunarbát, og yfirgáfu þeir skipið í honum kl.9, allir 6, með nokkrar vistir, föt sín og fleira. Kl. 10 1/2 sökk skipið. Þetta var á að giska 10 vikur sjávar undan landi [um 80 km], og náðu skipverjar landi á bátnum eftir 2 sólarhringa, í Höfn í Borgarhreppi eftir mikla þraut og við illan leik.

Þjóðólfur segir fréttir þann 18.maí:

Þessa daga gengur norðanhret mikið — stormar, heiðríkt loft að mestu, en mistur allmikið, frost á nóttum, mest 5°R. Frést hefur og þessa daga með ferðamanni vestan úr Dölum, að hafísinn hafi rekið aftur inn á hvern fjarðarbotn norðanlands, og sjáist eigi i auðan sjó af fjöllum; er sagt að ísinn sé borga-ís og fullur af snjó. 11. þ.m. hafði og is legið fyrir öllu Austurlandi að Ingólfshöfða.

Jónas Jónassen lætur þess getið í pistli 18.maí 1889 (í einmuna sumarblíðu) að þann sama dag 1878 hafi verið norðanbál og blindbylur í Reykjavík. 

Norðanfari segir af veðri og aflabrögðum þann 24.maí:

Síðan 10. þ.m. hefir hér norðanlands verið sífelld norðanátt og stundum harðviðri og snjókoma, frost oftast á hverri nóttu, 4—8°R. Hafísinn allajafna hér norðan fyrir landi og stundum landfastur inni á fjörðum og flóum. 

Skuld segir þann 31.maí:

Loksins er hafísinn farinn héðan af Austfjörðum í þetta sinn. — Skip eru nú komin loksins bæði á Berufjörð, Eskifjörð og Seyðisfjörð (og líklega á Vopnafjörð, þótt vér höfum eigi heyrt það enn). Tíðin hefir þennan mánuð verið mjög hvikul; fyrri partinn voru hér mikil logn og hæg sunnan og vestan átt. 11. þ.m. gekk til norðaustanáttar og kulda, og 16. gekk í ofsaveður með snjóbyl og talsverðum gaddi.

Í veðurbók frá Hvammi í Dölum er þess getið að snjóað hafi í sjó niður þar um slóðir að morgni 24.maí. 

Júní: Kalt fram yfir miðjan mánuð, en síðan sumarveðrátta.

Skuld segir af tíð og skipatjóni í pistli þann 8.júní:

Með mönnum, sem komu hingað úr Þingeyjarsýslu vikuna, sem leið fréttist, að ís lægi enn við Norðurland; hafði rekið að aftur í kóngsbænadagsveðrunum [bænadaginn bar upp á 17.maí]. — 3 skip höfðu verið komin á Akureyri, en ella skipalaust á norðurlandshöfnum. Tvö skip (eða fleiri) til Akureyrar höfðu legið inni á Ísafirði. Skiptjón. Hólanes-skipið sökk í apríl úti fyrir Langanesi; menn komust af og inn á Borgarfjörð (eystra). — Skipið „Alexander" til E.Möllers á Akureyri sökk nálægt Langanesi. Norskt selaveiðaskip sá vegsummerki, að skip var sokkið, og grunaði að menn mundu hafa bjargast í bát. Leitaði þetta norska skip á þriðja sólarhring mannanna, enda fundu þeir bátinn að lokum og björguðu þannig skipshöfninni; sigldu með þá undir Kolbeinsey og fundu þar skonnert „Baldur" (hákarlaskip af Eyjafirði), og komu þar af sér skipbrotsmönnum. Fór Norðmönnum þetta allt drengilega og vel. — 16. maí strandaði skipið „Ægir" á Fúluvik (rétt utan við Raufarhöfn); menn komust allir af, utan stýrimaður fórst (rotaðist af ísjaka í sjónum?). 

Ísafold segir af vandræðum við strandsiglingar og talar um tíð þann 7. og 15.júní:

[7.] Strandferðaskipið Díana kom í fyrradag úr ferð sinni kringum landið, sömu leið og hún fór: varð að snúa aftur við Melrakkasléttu, fyrir hafís. Hún komst hér um bil tafarlaust svo langt, en hitti þó ís á leiðinni hér og hvar, einkum á Eyjafirði (stóra spöng, sem henni tókst að eins að smeygja sér hjá), og aftur í leið hitti hún Húnaflóa alþakinn ís, og aðra ísspöng fyrir Hornströndum, komst aðeins inn á Reykjarfjörð, á milli spanganna, sem síðan bar saman, svo hún var inni lokuð 2 daga, laugardag og sunnudag 1. og 2. þ.m. Síðan losnaði ísinn þar frá Ströndunum austur á bóginn, svo að henni opnaðist leið vestur fyrir, fyrir Horn; úr því sá hvergi til íss. Hún hélt 10 mílur vegar norður með ísspönginni við Melrakkasléttu, ætlaði norður fyrir hana, en sá hvergi fyrir og sneri þá við. Farþegana á austurhafnirnar fór hún með inn á Ísafjörð, og kom eigi annarstaðar við aftur i leið, nema á Reykjarfirði. Nú liggur hún hér til hins 15. þ.m., og leggur þá af stað sömu leið aftur samkvæmt áætluninni. Nokkru af þessum legutíma hér virðist annars hefði verið betur varið til þess að skjótast austur fyrir sunnan land, inn á hafnirnar eystra, sem nú missa algjörlega af fyrstu ferðinni. Harðindi eru mikil nyrðra sakir hafíssins svo sem nærri má geta, einkum í Skagafirði; sagður þaðan mikill hrossafellir.

[15.] Vorið hefir verið þurrt og kalt, stöðug norðanátt, aldrei komið deigur dropi úr lofti að kalla, þangað til nú fyrir 3 dögum, að brá til sunnanáttar. Kuldarnir fyrir norðan ákaflega miklir, 4—6° frost á hverri nóttu, enda hafísinn lengst af legið þar landfastur eða því nær, og óvíst að hann sé farinn enn, þrátt fyrir veðrabrigðin hér syðra. Sigling mjög lítil komin til Norðurlands sakir íssins, og því orðið matvörutæpt mjög þar víða. Góður afli á Austfjörðum; óminnilegur landburður af fiski við Eyjafjörð, við Ísafjarðardjúp sæmileg aflabrögð, og mikill síldarafli á Ísafirði, er síðast fréttist. Hér við Faxaflóa sunnanverðan allgóð vorvertíð, og ágætur afli á þiljuskipin.

Ísafold birti þann 5.ágúst bréf úr Borgarfirði, dagsett 12.júní:

Þann tíma, sem liðinn er af sumrinu, hefir veðráttan verið fremur þurr og köld. Fyrstu tvær vikurnar var að sönnu hlýtt og gott veður, en með 11. maí brá til norðanáttar í fullar tvær vikur með frosti á nóttunni, svo að eigi þiðnaði á daginn nema þar sem sólin náði til. Gróður, sem þá var kominn í betra lagi, varð af því veðri fyrir miklum hnekki af kali. Síðan hafa norðanáttir gengið öðru hvoru, og veðurátt verið mjög þurr og stundum köld, svo jörðin hefir blásið og þornað mjög, en lítið aukist gróðurinn. Hér er því fremur að óttast fyrir grasbresti í sumar, enda hefir og orðið vart við grasmaðk í jörð, einkum í túnum, sem mun vera gróðrinum mikið til spillis, því hann grefur sig niður í rótina og eyðir henni, svo að grasið deyr. Maðkur þessi er dökkur að lit, margliðaður, og verður 1/2 til 1 þumlungur á lengd. Hann myndar smágjörvan vef eða hismi um sig, og er jörðin af því grá niður í rótinni sumstaðar á stórum bletti. Einkum veitist hann að fífilsúrunni, og eru þá ból hans eins og hreiður, því hann eyðir blöðunum og rótinni, og deyr blómið þá er maðkurinn tekur að vaxa. Þessi maðkur spillir þann veg mjög grasvextinum þar sem hann er, og mun eigi hægt að gjöra við því, og eins er líklegt að hann valdi óhollustu í heyinu, og að af honum leiði veiki í fénaði þeim, sem heyið er gefið. Það væri því æskilegt að þeir, sem þekkti ráð til bóta í þessu efni, vildu unna alþýðu leiðbeiningar í meðferð fóðursins, þegar grasmaðkur er í því.

Þjóðólfur segir frá í þrem júnípistlum:

[12.] Veðrátta hin fegursta og stilltasta nú fullar 3 vikur, en aldrei úrkoma, og spilltist því mjög úr þessu jörð og grasvöxtur, ef ekki skiptir um. Er þetta hrein og bein hafísveðrátta, þótt furðulítið beri á frosti og kulda. Sama veðrátta gekk nyrðra fyrir hátíðina [hvítasunnu, 9.júní], nema þokur tíðari þar og kuldi meiri. Um uppstigningardag [30.maí] var þar víða sárlítill gróður kominn og vor orðið hart og kalt; hefur og töluvert fallið af hrossum einkum í Skagafirði. Af siglingu til norðurlandsins var og ekki gleðilegt að frétta, er Díana fór þar um: í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum hafði aðeins ein jagt komist inn (á Skagaströnd); aftur voru nokkur skip komin á Akureyri, en tvö voru löskuð af ís. Tvö skip þeirra Gudmanns og Steinckes, saltskip, og timburskip höfðu strandað í ísnum, og engu orðið borgið af, en menn héldu lífi með nauð og hrakningum, utan stýrimaðurinn af öðru. Þriðja skipsins sömu verslunar var og saknað, hins gamla, farsæla skips „Herthu“. Ýmis skip, sem ætluðu norður um Horn, hafa legið á Ísafirði, en önnur verið á hrakningi í ísnum, og er það hið mesta neyðarlíf. Enn er eitt skip, sem farist hefur í ísnum: Abelone til Skagastrandar. Það fórst 28. apríl útifyrir Héraðsflóa, og björguðust skipverjar til lands 10 mílur sjávar á báti frá skipinu.

[22.] „Díana“ lagði af stað norður um aftur 15. þ.m. og með henni fjöldi ferðafólks til ýmsra viðkomustaða; þar á meðal skólasveinar að vestan og austan, en piltar úr Norðurlandi þorðu ekki sakir íssins með henni að fara. Hafði skipstjóri í ráði að snúa við og sigla til Seyðisfjarðar suður um, ef ísinn hindraði aftur norðurleiðina. Annars eru líkur til að ísinn hafi lónað frá, því síðan þann 12. þ.m. hafa gengið sunnan-landsunnan rosar; en kalt mjög hefur þó verið í veðri.

[29.] Veðrátta gengur nú góð og blíð en þerrirlítil.

Skuld segir þann 22.júní (dagsetur pistil á Eskifirði þann 20.):

Veðrátta er nú loksins orðin hlý og sumarleg og hefir nú um hríð gengið sunnanátt og þó nokkuð vestanstætt. Er vonandi að hafísinn sé nú rekinn til fulls frá norðurlandinu. 

Júlí: Þerrilítið og kalt sunnan- og vestanlands en sífelld þurrviðri á Norður- og Austurlandi.

Þann 14.september birti Norðanfari bréf af Hallormsstað [Skógum], dagsett 27.júlí:

Veðurátta hefir verið hér hin blíðasta síðan áfellinu linnti í maí. Seinni hluta júní og allan þenna mánuð hafa verið mestu hitar, en aldrei rignt síðan 2.júní, þangað til að skúrar hafa komið þessa daga. Ég held að eldur sé allatíð uppi syðra og 24. þ.m. heyrðust hér 3 dunreiðar í Heklu átt. Grasvöxtur orðinn með besta móti hér upp á sveitum. Síldarafli hefir verið geysimikill í Seyðisfirði, aldrei svo snemma áður, fiskafli einnig víða hvar hér í fjörðum.

Þjóðólfur segir þann 31.júlí:

Allan umliðinn mánuð hefir gengið hin mesta vætutíð yfir land allt, svo að nálega öll taða liggur hvervetna á túnum og undir meiri og minni skemmdum. Grasvöxtur er aftur góður í flestöllum héruðum, og annað tíðarfar, svo sem heilsufar, aflabrögð á þilskipum, o.fl. í betra lagi. 

Skuld er jákvæðari sama dag (31.):

Veðráttan hefir verið með sömu sumarblíðu, sem fyrr; í fyrri vikunni rigndi dálítið af og til.

Ágúst: Þurrklitíð syðra, skárra vestanlands, en áfram þurrkar norðaustanlands.

Þann 14.september birti Norðanfari nokkur fréttabréf dagsett í ágúst:

Barðastrandarsýslu 6.ágúst: Síðari hluta vorvertíðarinnar og framan af slætti allt fram að síðastliðna helgi [4.ágúst], hefir hér verið vætutíð, óþurrkar lengst af síðan hvítasunnu [9.júní], en miklar og stöðugar rigningar síðari hluta júlímánaðar, næstum ávallt af suðri. Sá hluti fiskifanga, er um þennan tíma aflaðist, hefir því legið undir skemmdum, og töður hrakist og skemmst til muna. Elstu menn muna varla eins langvinnan stöðugan rigningakafla. Sakir rigninganna hefir og eigi verið fært að síga í bjarg, þar eð grjótið er sífellt að hrynja úr því þegar vætutíð er, og hafa margir af sveitarmönnum hér misst þar sannan bjargvætt að miklu leyti.

Austur-Skaftafellssýslu 12. ágúst: Nú er héðan ekkert sérlegt að frétta nema góða tíð en þerrirlitla síðan sláttur byrjaði; gras á túnum víðast í meðallagi, en útjörð lakara sprottin; aflabrögð engin; heldur kranksamt millum manna af taki og kvefsótt, en fáir deyja hér um pláss.

Hálsþinghá [Hamarsfirði] 15.ágúst: Héðan er allt tíðindalítið. Eins og ég ritaði yður síðast var vorið hér fremur kalt, og svo þurrviðrasamt, að aldrei kom deigur dropi úr lofti. Leit því út fyrir hina mestu neyð, hvað grasvöxt áhrærði. En í júnímánuði fóru að koma vætur nokkrar, og spratt grasið þá furðanlega á stuttum tíma. Hér eru nú flestir búnir að slá og hirða tún sín, og mun mega telja, að grasár sé hér um svæði í minna meðallagi, en þó betra en í fyrra. Grasmaðkur hefir hér verið mikill í sumar og spillt mjög gróðrinum. Fiskafli (ýsa og smáfiskur) hefir verið talsverður í Berufirði í sumar, enn menn gjöra sér þann óleik, að hafa skelfisk til beitu, og verður að sækja hann langa vegu að. Væri fiskinum eigi komið á skelfiskinn, þá ætla menn hann mundi eins vilja til á auðfengnari beitutegundir.

Breiðdal 30.ágúst: Héðan er allt meinlaust að frétta, blíða tíð og þurrviðrasamt en þurrkalítið samt nú um tíma. Grasvöxtur vel í meðallagi á útjörð, en tún voru laklega sprottin. Afli góður allstaðar.

Ísafold birti ódagsett bréf frá Akureyri þann 5.ágúst. Þar segir um tíð:

Grasvöxtur í úthaga má heita í besta lagi einkum þar sem votlent er en tún misjöfn, hólar og harðlendi í þeim brunnið svo að ekki sést stingandi strá upp úr, sem vonlegt er þar síðan í vor hafa verið breiskjuþurrkar og sólhiti, en enginn regndropi komið úr loftinu nokkurn tíma. Gamlir menn segjast ekki muna eftir öðru eins staðviðri síðan árin 1843 til 44, hvort nokkur tilhæfa er í því að þá hafi viðrað svo veit ég ekki, því það var fyrir mitt minni. 

Þjóðólfur segir þann 17.ágúst:

Veðráttan helst enn góð, en gæðaspör hvað þerri snertir. Þó hafa nú flestir, að ætla má, náð töðum sínum í garð, en þó mjög misjafnlega hirtum.

September: Skánandi syðra, en annars nokkuð votviðrasamt. Viku hríðarkast um miðjan mánuð.

Norðanfari segir þann 14.september:

Síðan er vér sögðum seinast frá veðuráttufarinu [15.ágúst], hafa úrkomurnar verið talsverðar suma daga, og þann 11. [september] snjóaði hér á fjöll, en aftur í milli komið góðir þurrkdagar og sunnanátt, svo að allir munu hafa náð heyjum sínum með góðri verkun, og þau, að sögn, með meira og sumstaðar mesta móti. Fisk- og ýsuafli er sagður góður á Húsavík og Flatey á Skjálfanda, einnig hér utarlega í firðinum.

Skuld segir þann 19.september:

Sumarið hér eystra mátti heita í þurrasta lagi og allhitasamt. Síðari partinn hefir þó heldur komið nokkuð úr lofti, en nú með helginni [sunnudagur 15.] brast á mikið áfelli, afarveður með rigningu, austan í fyrstu, en gekk svo til norðausturs, og snjóaði í fjöll á sunnudaginn og niður í byggð þann 16., að minnsta kosti innantil í firðinum hér. Í Héraði hefir ugglaust snjóað meira. — Í fjöllum eru skaflar svo, að eitthvað hefir fennt af fé, og hafa þegar fundist nokkrar kindur (lifandi) í sköflum hér í fjallinu; en nokkrar hafa fundist ófenntar, sumar dauðar, en sumar verr leiknar, en dauðar, sem stormurinn hefir kastað upp í loft, og hefir það svo höggvist og meiðst á grjótinu. Veðrákafinn var svo sumstaðar, að nokkrir telja þetta versta veður, er þeir muna, á þessari ársins tíð. Það er auðvitað, að sumstaðar hefir hlotið að verða skaði á heyjum. Heyskap mun nú lokið við áfelli þetta víðast. Hann mun hafa verið orðinn í betra lagi víðast hér eystra í sumar. Vöxturinn sumstaðar í meðallagi, og sumstaðar betri, en nýtingin hvervetna ágæt.

Skaðar í veðrinu. Í dag, 18. september, fréttist, að í Norðfirði hafi bæði rofið hey og orðið bátskaði. Af innsveit Reyðarfjarðar er sagt heldur verra, en héðan úr kálkinum, fé hrakið og fennt, og hávaði manna á hey undir snjóum og mun svo vera víðast hér um firði. Maður úr Skriðdal sagði í gær að snjór hefði verið jafnfallinn í mjóalegg á nesinu niður af Arnhólsstöðum; á þeim bæ hafði hest fennt, ekki að tala um fé, sem mikið eða mest mun vera í fönn þar efra.

Þann 1.október segir Skuld enn af tjóni í þessu veðri:

Áfellið það ið mikla, 16. september, er vér gátum um í 25.nr., hefir orðið víða skaðvænna, en hér í sveit, þó hér hafi nóg að orðið. — Það er minnst frétt, síst greinilega, hingað um það ógurlega tjón, sem þetta óvænta áfelli um þennan árstíma hefir leitt yfir ýmsar sveitir og einstaka menn, einkum til Héraðs. Vér höfum þannig frétt, að Þorvarður læknir Kjerúlf á Ormarsstöðum hafi átt að missa allar sínar kvíær, eins og þær voru til; en Páll umboðsmaður Ólafsson kvað hafa misst kýr sínar flestar (4?), svo að hann hafði að eins átt eftir kálf og gamalkú, er lóga átti í haust. — Þetta er rétt sem sýnishorn þeirrar eyðileggingar, er áfelli þetta hefir valdið. Vér höfum heyrt, en vonum að það sé ýkt, að svo rammt kveði að í Jökulsárhlíð, að þar finnist engin kind lifandi sumstaðar eftir áfellið. Yfir höfuð hefir snjókoma verið meiri til jafnaðar til Héraðs, en hér neðra, og þó verra á Úthéraði að tiltölu, en á Upphéraði. Ef menn minnast þess ódæmaskaðaveðurs, sem féll yfir þessar sýslur í fyrra 9. október, og gerði stórtjón bæði á gripum, bátum, afla og fleiru, og svo þessa, sem nú dundi yfir í ár nær mánuði fyrr, þá má sannlega segja, að veslings Austurland fær hverja eldraunina á fætur annarri, og geisa hér yfir fleiri tilfinnanlegar landplágur en eldgos og öskufall.

Í sama tölublaði Skuldar er bréf úr Laxárdal, dagsett 27.september:

Ljótar eru fréttir af tíðinni og sköðunum. Gífurleg snjóburðarhríð skall hér yfir rétt fyrir göngurnar; fennti þá bæði fé og stórgripi í byggð. Hér um slóðir mun allmarga vanta um helming fjár. Þegar í veðrið gekk áttu flestir hey úti, og sumir talsvert; mun þess varla að vænta að í þau náist héðan af, þótt upp taki í byggð. Af og til gengur hér krapahríð með veðurofsa og tíð yfir höfuð versta.

Ísafold segir af ofsaveðri í frétt þann 30.:

Sunnudaginn þann 15. [september] var þvílíkt ofsaveður undir Austur-Eyjafjöllum, í Mýrdal og þar austur eftir, menn vita enn þá ekki hve langt, að hávaði manna missti eitt eða fleiri kýrfóður af heyi. Á Raufarfelli undir Eyjafjöllum sló niður 8 fullorðnum kindum til dauðs. 

Þjóðólfur gerir þann 25.september upp tíð við sláttarlok:

Nú við sláttarlok muna menn trauðlega meiri óþurrkatíð en þá, sem gengið hefir yfir suðurlandið síðan fyrri hluta júlímánaðar; aftur hefir veðráttan eystra og nyrðra verið all-hagstæð allt fram undir höfuðdag. Af Vestfjörðum hefir oss verið skrifað, að júlímánuður hafi þar verið votur en ágúst þurr.  Heyskaparlokinn fara nú eftir þessu. Víðast um Suðurland mun heyafli manna ekki ná meðallagi og bæði töður og úthey hafa all-víða hrakist meir eða minna; grasvöxtur var og að jöfnuði minni syðra en nyrðra. Og þótt engin neyð virðist standa af tíð þessari, er það víst, að margir bændur munu mjög svo þurfa að draga úr heyásetning í haust. Síðan 12. þ.m. hefir gengið eitt af hinum lakari hausthretum yfir landið, ýmist norðan frosthríðir með fannfergju á fjöllum, eða vestan íhleypur; urðu menn nyrðra að taka kýr og ásauði á hús og hey; standa nú yfir fjallleitir og óttast menn misjafnar heimtur. Verkun á fiski og eldiviði hefir einnig gengið afar erfiðlega í sumar hér syðra, enda hefir það ábættst, að kaupmenn hafa orðið að þurrka nálega alla fiskivöru sína upp aftur; hefir slíkt kostað þá ærna fyrirhöfn og töluvert fé.

Norðanfari birti þann 6.nóvember bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 23.september:

Tíðarfar hefir verið hér í vor og sumar líkt og annarstaðar á Norðurlandi. Grasvöxtur víðast í besta lagi, nema mýrarslægjur hafa ekki orðið betri en í meðallagi. Nýting á heyjum hefir líka orðið góð, þó heldur brigði til votviðra með september, en um miðjan mánuðinn, gjörði eitthvert hið fárlegasta hríðarkast og fannkomu, svo trautt mun annað eins komið hafa fyrir fjallgöngur síðan 1835. Þessu linaði fyrst hinn 10. þ.m. eftir fulla viku. Í austur-sýslunni munu kýr annarstaðar hafa verið teknar á gjöf þann 12. [september] og víðast eða allstaðar mun þeim hafa verið gefið, síðan þann 16. þ.m. Snjófallið varð svo mikið, að í sumum lágsveitum mun hafa gengið frá heyskap allt að viku, en nálægt austurfjallgarðinum, nefnilega millum Skagafjarðar og Húnavatnssýslu, má telja tvísýnt að snjó þenna taki svo upp aftur í haust, að hey það náist sem úti var þegar hann féll. Þar má telja víst að fennt hafi margt af fjallafé. Á Vesturlandi hefir tíðarfar, grasvöxtur og nýting verið líkt og hér. Fiskafli kringum Jökul verið mjög rýr. Hér í kringum Húnaflóa, er sagt að fiskafli hafi verið með minna móti, en nú mun heldur vera farið að líta betur út með hann.

Október: Allgóð tíð norðanlands, lakari eystra, kalt og þurrviðrasamt sunnanlands. Harðindi síðasta þriðjunginn.

Skuld segir þann 14.:

Veðrið hefir verið með versta slag síðan síðasta blað kom út, sífelldar hellirigningar, stundum krapableyta og snjór til fjalla, af og til rosaveður, mest á norðaustan.

Ísafold greinir þann 13.nóvember frá miklu illviðri sem hófst þann 21.október:

Þann 21. október gjörði hér ofsarok á norðan, sem að heita má stóð í 6 daga. Urðu af því víða tjón bæði á húsum og skipum. Víða fauk þak af húsum, og tók opin skip og báta upp. Hey tók og upp á Kjalarnesi. — Maður kom 9. [nóvember] norðan af Borðeyri. Hann flutti þá fregn, að 4 hafskip hefðu rekið á land, 2 á Blönduós og 2 á Sauðárkrók. Ekki hafði hann frétt lengra að norðan. Sauðfé hafði svo að segja almennt fennt og hrakið, og er eigi til spurt um hve stórkostlegt tjón hefir af því orðið. Borist hefir sú fregn, að á einum bæ í Dölum hafi smalinn farist og 200 fjár, og á öðrum bæ 100 fjár. Í Staðarsveit urðu úti 2 menn við fjárbjörgun, og á Fróðárheiði varð maður úti, Böðvar Guðmundsson að nafni. Þann 28. október kom skip í Hafnarfjörð, sem ætlaði til Borðeyrar; það hafði verið 50 daga í sjó frá Danmörku og orðið fyrir hrakningum miklum, eins og nærri má geta eftir þeim veðrum, sem hér hafa gengið.

Norðanfari birti þann 11.nóvember bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 26.október:

Illviðri þau er gjörði um miðjan september, enduðu þann 20. eða hér um bil í byrjun 22 viku sumars, voru síðan stöðug góðviðri og besta haustveðrátta til 20. [október], þó stundum talsverð frost. ... Seinni hluta dags hinn 20. [október] rauk upp á einhver hinn voðalegasti norðangarður með ofsaveðri og blindhríð. Þykir flestum að veðurhæðin og hríðardimman hafi gengið næst skaðabylnum 12. október 1877 þegar strandaði skip Svb. Jacobsens á Grafarós er Petersen skipstjóri Gránufélagsins var formaður á, og skip sem fara átti á Hólanes, rak upp á Vatnsnes. Hríðargarð þennan hefir ekki algjörlega birt upp fyrri enn í dag kl. 4 e.m. [26.] [Þann] 21. þ.m. slitnuðu festar Hólanesskipsins á Blönduós og rak það upp á Þingeyrasand, eftir sem síðar sást til, en ekki hefir frést hvort menn hafi komist lífa af eða hve mikið skipið hefir laskast. Nóttina eftir kl. 4 slitnuðu einnig festar á skipi Jóhanns Möllers og rak það i land nálægt Hjaltabakka. Þar komust menn allir af því skipið dreif upp á þurrt, og er sagt óbrotið að mestu. Ekki hefir frést hverjar eða hve miklar vörur hafa verið í skipum þessum, og ekki er heldur kunnugt um það hvenær uppboð verður haldið. Þegar hríðin skall á var fé allstaðar óvíst, og er fjöldi af því ófundið enn, og er talið víst að margt hafi farist, en ekkert er enn tilspurt um það né heldur hvað snjófallið hefir orðið stórkostlegt í ýmsum sveitum. ... 

Blaðið heldur svo áfram með frekari fréttir af sama veðri:

21. [október] vantaði 125 kindur á Höfða á Höfðaströnd er menn töldu víst að hefði fennt eða farið í sjóinn. Að Skálá í Sléttuhlíð, tók snjóflóð 70 sauði, sem voru þar í og við beitarhús, af sauðunum fundust 10 lifandi. 3 hross fennti á Á í Unudal og 1 á Ljótsstöðum á Höfðaströnd, 40 fjár vantaði á Kambi en 80 í Stafni í Deildardal. Frá Lónkoti, sem er innsti bær í Sléttuhlið, og allt út að Mósvik í Fljótum, er sagt að flest för og skip hafi meir og minna laskast og brotnað. Eitt af Gránufélagsskipunum, sem hafði komið með vörur i haust á Hofsós, hafði sloppið þaðan rétt fyrir hríðina 21.[október] og komst út á Siglufjörð. ,.. 26. [október fórust 2 menn i snjóflóði í Svarfaðardal á svonefndum Holtsdal, er voru í kinda- eða hrossaleit, annar maðurinn var bóndi Jóhann Jónsson frá Ytra-Holti, en hitt unglingur sem vér höfum ekki heyrt nafngreindan. Um sömu mundir hafði rekið á Böggvistaðasandi siglurá af útlendu skipi.

Þjóðólfur greinir líka frá þessu mikla veðri í pistlum 2., 15., 28. og 30.nóvember:

[2.] Dagana frá 21. til 26. [október] dundi yfir eitthvert hið mesta afspyrnuveður, sem menn muna; það stóð norðan og útnorðan. Að kvöldi hins 22. rak hér upp í strand skonnortan „Helene frá Hamborg“, sem hafði flutt vörur til Siemsens konsúls. Menn björguðust á skipsbátnum, með því fjöldi manns stóð í fjörunni og tók í móti. Annars eru hér nálega engin bjargarúrræði til ef líkt eða lakara ber að höndum. Skipið brotnaði mjög í botninn og skemmdust þær vörur, sem í því voru, en þær voru ekki mjög miklar. Skipskrokkurinn með siglutrjám og reiða var seldur við uppboð fyrir 865 kr. Í veðri þessu urðu ýmsir skaðar hér í bænum, bátar og eitt eða fleiri skip fuku eða brotnuðu, svo og útihús, þök og þil; skaðar hafa og orðið víða um nærsveitirnar á heyjum, húsum og skipum (1 skip fauk á sjó út frá Móum og annað frá Leirárgörðum; timburstofa brotnaði á Leirá, o.s.frv.). Fyrir norðan land ætla menn að rok þetta hafi mörgum orðið að skaða, en einkum ugga menn um skip þau, sem annaðhvort hafa legið á misjöfnum höfnum, eða hreppt veðrið nærri landinu.

[15.] Hið mikla ofviðri, sem geisaði yfir landið frá 21. til 25. [október], hafði ollað, eins og við var að búast, hinum mestu sköðum og hrakningum í ýmsum eða flestum héruðum, og hefur þó enn eigi frést, hvorki af Austurlandi né af Vestfjörðum; 4 skip ráku upp og brotnuðu fyrir norðan, 2 á Sauðárkróki, er þeir kaupmenn þar, Hoepner og Jacobsen, áttu sitt hvor, og 2 skip á Blönduósi, (J. Möllers annað og Brydes hitt). Voru það allt sláturskip,  meira og minna fermd, og skyldi allt selja við uppboð, skip og vörur. Af slysum og fjársköðum, sem urðu í ofviðrinu, er stórkostlegast tjónið í Ásgarði í Dölum, hröktust þar í sjó út 300 fjár (af 400) og týndist allt [síðari fréttir drógu úr]. Menn tveir voru yfir fénu, og komst annar af en hinn varð úti. Frá Görðum í Staðarsveit urðu og úti tveir menn, sem vildu bjarga fé. Á Hreðavatni í Mýrasýslu fórst fjöldi fjár, og sama spyrst víðar frá. Þykir þetta veður hafa verið eitt hið grimmasta, sem gamlir menn muna.

[28.] Með norðanpósti, sem kom 22. þ.m., bárust fyrst greinilegar fregnir um hina miklu skaða og hrakninga, er orðið hafa á þessu hausti víða um norður- og austursveitir landsins. Mun þetta hafa verið einstakt og ómunalegt skaðahaust. Í hinu fyrra eða fyrsta stórhretinu, sem hófst á Austurlandi 12. september, urðu þar stórskaðar á fé og heyjum; einkum urðu þar afskaplegir fjárskaðar á Vopnafirði og Jökuldal, svo og í Fljótsdalshéraði; frá Hofteigi vantaði 200 fjár, frá Hallfreðarstöðum fenntu 3 kýr, o.s.frv. Fiskiskip tvö,annað frá Hjaltlandi, en annað frá Færeyjum hlaðið 28 þús. af fiski ráku á land 13.september á Vopnafirði. Menn komust af, en bæði skipin fórust og nálega allt, sem á þeim var. Á Papós strandaði í þeim veðrum haustskipið, hlaðið með útlendar vörur. (Þar strandaði einnig haustvöruskip í fyrra). Svo almennir og ógurlegir hafa þessir austfirsku fjárskaðar orðið, að því er alvarlega hreyft í blaðinu «Skuld», að eldgossgjafanna, sem eru á vöxtu, verði nú útbýtt til hjálpar og hugnunar þeim, sem mest hafa misst. Aftur er þess ekki getið, að stórslys hafi orðið í aftökum þessum. Í hinu mikla síðasta veðri frá 21. til 25. [október] urðu og geysimiklir fjárskaðar, einkum í nyrðri hluta Húnavatnssýslu og í Skagafirði, en þar sem fé var komið á gjöf, urðu skaðar eðlilega minni. Strandmennirnir af þeim 4 skipum, sem í því veðri strönduðu á Sauðárkróki og Blönduósi, eru nú komnir hingað suður til að taka sér far á póstskipinu. Skip og bátar brotnuðu eða fuku víða, t.a.m. í Húsavík 5 för, í Grenivík 2, o.s.frv.

[30.] Vestanpóstur kom 26. þ.m., og ber sviplíkar fréttir vestan úr sveitunum, eins og getið er annarstaðar frá. Fjárskaðar í októberhretinu urðu afarmiklir í ýmsum sveitum: Gufudals-, Reykhóla-, Geiradalssveit og víðar. Læknirinn í Bæ á Króksfirði missti t.a m. 70 fjár og 3 hesta. Fjárskaðinn í Ásgarði var þó hálfu minni en áður var hermt í blaði þessu. Við Ísafjarðardjúp urðu nokkuð vægari skaðar.

Norðanfari birti þann 9.janúar 1879 bréf frá Patreksfirði dagsett 29.október:

Haustið hér var stormasamt mjög, oftast norðanveður, stundum ofsarok, þannig reif skemmu ofan að veggjum á einum bæ hér í sveit í næstliðinni viku. Ógæftir hafa og verið hinar mestu. Fée hefur reynst illa. Hér kom snjór 13. september svo mikill, að aftók nautahaga, en ófærð kom á fjöll, en þann snjó tók þegar upp aftur, næstu daga á eftir. Nú er aðeins grátt í rót og nokkur snjór í lautum. Frost, 2-3°R.

Nóvember: Skammvinn norðanskot og óhagstæð tíð, meinlítil syðra.

Skuld segir af veðri þann 13.:

Síðan á sunnudagskvöld (10. þ.m.) hefir verið snjókafald af og til, grimmdar-kuldi og hvass á norðan.

Þann 18.desember birti Norðanfari nokkur fréttabréf, dagsett í nóvember:

Norður-Þingeyjarsýslu 18.nóvember: Frá því kuldunum linnti í vor var hér blíðasta og hagstæðasta veðurátta. Grasvöxtur varð í betra meðallagi og heyfengur eftir því, og hefði víðast heyjast með besta móti, ef að hin sama tíð hefði haldist til gangna, en það var öðru nær, þurrkarnir voru alveg úti 20 vikur afsumri, og hinn 15.september gekk í hið mesta óveður, vatnsveður fyrst í byggð, og síðan með fannkomu mikilli, sem hélst í 2 sólarhringa. Kom þá svo mikill snjór á afréttir, að líkur voru til að fátt eitt af fé væri lifandi, og undravert hvað heimtist, jafnvel þó allur fjöldi hafi farist yfir höfuð. En þó veit ég ekki hvað margt vantar hér í hrepp, flest á heimili er það um 40 en aftur fátt á sumum. — Á veturnóttum var hér orðið alveg jarðlaust, meira fyrir hörkur en snjódýpt, og frá því um göngur hafa hestar verið á gjöf.

Vopnafirði 18. nóvember: Héðan er ekki að frétta nema hina mestu erfiðleika manna á millum og veðurfar hið óblíðasta og afleiðingar þess meðal margra hinar hörmulegustu. Fjarskinn allur hefir týnst af fénaði manna í hinum óttalegu illviðrum. Guðmund á Torfastöðum vantar 170, herra prófast Halldór Jónsson á Hofi 160 og herra Björn á Hauksstöðum 150, og svo á mörgum bæjum, sem vantar 50, 60, 70, 80, 90, og svo ýmist fleiri eða færra fyrir neðan 50. Það tekur þó út yfir, að þau litlu hey, sem menn voru búnir að afla sér, hafa drepið í hlöðunum, einnig eldiviður manna.

Reyðarfirði 24. nóvember: Fréttir þær helstu, er hin vonda tíð, sem verið hefir síðan í miðjum september og haldið alltaf áfram í 2 mánuði að undantekinni einstöku daga hvíld; illviðrableytan og snjórinn hafa dregið úr öllum bjargarútvegum til sjós og lands og af því hlotið miklir skaðar. Laugardaginn 2 nóv. fórst bátur úr Fáskrúðsfirði með 4 mönnum ungum og efnilegum.

Seyðisfirði 26. nóvember: Veðuráttan hefir verið hin stirðasta og versta síðan í 20. viku sumars, nærfellt alltaf ófær rigningaveður og krapahríðar, svo kaupstaðarferðir urðu flestum mjög erfiðar. Víða fennti fé í fyrstu snjóunum, sem kom, einkum voru talsverð brögð að því til uppsveita. Afli var hér með besta móti í sumar og í haust gekk hér stór fiskur alveg inn að Leirubotni, svo hlaðfiski var um tíma, en sökum illviðranna varð það lítt að notum.

Norðanfari birti þann 9.janúar 1879 nokkur bréf dagsett í nóvember:

Miðdölum í Dalasýslu 11.nóvember: Helstu fréttir héðan eru afleiðingar af hinu mikla norðanveðri með kafaldi, sem byrjaði hinn 20. [október] og hélst í viku, svo sem fjármissir meiri og minni til og frá, og fennt hefir og hrakist í sjó og vötn; á einum bæ í Haukadal vantar allt að 100 fjár. Frá Ásgarði í Hvammssveit varð úti 16 vetra gamall piltur, sem dó í höndunum á manni skammt frá bænum, voru þeir að reyna að bjarga fénu; af þeim bæ misstist á annað 100 fjár, rak nokkuð af því fyrir sunnan Hvammsfjörð. Frá Ytri-Görðum i Staðarsveit er sagt að allt féð hafi hrakið í sjó og hafi bóndinn og annar maður til verið að leita að því og komist heim svo þjakaðir, að þeir hafi dáið litlu síðar. Viða lengra að, er að heyra fjárskaða bæði fyrir vestan og norðan, og er enn eigi til spurt hvað viða. [Innskot blaðsins: Auk þess hér talda, höfum vér frétt með mönnum úr Dalasýslu, sem komu hingað [Akureyri] nú fyrir jólin, að mennirnir frá Ásgarði hefðu verið 3 og að þeir hefðu staðið yfir fénu á 3. dægur. Ennfremur að á Brekku í Gilsfirði hefði tapast, nær því allt féð og hjá héraðslækni Ólafi Sigvaldasyni á Bæ í Króksfirði um 60 fjár. Fiskilaust undir Jökli, en a Völlunum, innan við Ólafsvík, nokkur afli. Heilsufar manna i betra lagi. Bráðapestin á stöku bæjum]. Á Suðurlandi hafði veðrið verið fjarskalegt, en ekki snjókoma. Menn muna ekki eins langsamt áfelli á hausti, en síðan því linnti hefir verið allgóð veðurátta. Heyskapur varð hér um pláss í betra lagi, því að grasvöxtur var góður á túnum og harðvelli og nýting góð á meiri hluta heyaflans.

Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi 12. nóvember: Sumarið var hér allgott, þó það byrjaði seint og yrði endasleppt, menn fengu hey með sæmilegri nýtingu, þó hraktist það sem síðast var slegið og varð undir snjó. Haustið allt hefir verið í lakara lagi, mjög storma- og illviðrasamt, einkum var síðasta skotið 19. — 25.[október] fádæma vont, með fjarska harðviðri og fannkomu, fennti þá víða fé eða rak í sjó, þó eigi til muna hér í sýslu, og 15 hurfu úr Borgarey og hefir nokkuð af því fundist dautt og lifandi. Fiskafli innandjúps hefir verið lítill og helst fengist smáýsa til matar.

Af Suðurnesjum 27. nóvember: Héðan af Suðurnesjum er að frétta allgóða haustveðuráttu en fiskileysi fremur venju. Betri aflabrögð á Vatnsleysuströnd hvar brúkaðar hafa verið lóðir, en mjög smár hefir sá fiskur verið, sem þar hefir fengist, helst smáýsa. ... Frost hefir orðið talsvert en engin snjókoma. Í mikla veðrinu, sem víða mun hafa ollað skipatjóni og slysförum, feykti miklum sandi á tún á Miðnesinu, einkum í Kirkjubólshverfi.

Desember: Lengst af stillt veður en mikil frost.

Norðanfari segir enn af tjóni í októberáhlaupinu þann 3.desember:

Með mönnum, sem nýlega hafa komið hingað að vestan úr Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum höfum vér frétt að 90 fjár hefði vantað á Geitaskarði eftir hríðina (21. okt.) 50 á Holtastöðum og 2 hesta; og 1 á öðrum bæ. Á Sævarlandi á Ytra-Laxárdal hafði flætt út eða fennt um 70 fjár, og á Skíðastöðum í sömu sveit fennt á annað hundrað fjár og 3 hross. Á Þangskála, sem er ystur bær á Skaga austanverðum, hafði í oftnefndri hríð brimið gengið þar yfir háan malarkamb, sem aldrei í nú lifandi manna minnum kvað skeð hafa og sópað þar burtu fjárhúsi í hverju að voru 40 kindur, og heyi sem stóð við húsið, er allt barst í einn haug ásamtmöl og urð, er þar að auki barst á túnið og tók helming þess af. Á flestum bæjum á Skaga kvað enn vanta samtals margt fé og þar á meðal í Höfnum á milli 30—40, auk fjölda fjár sem fundist hefir í fönnum flest dautt. Í Höfnum rak í hríðinni 60 karfa og nokkra fiska dauða á land, sem brimið hafði rotað einnig margt af æðarfugli og nokkrir fundust i fönninni ýmist lengra eða skemmra frá sjó. það er sagt að Jóhann óðalsbóndi Jónsson á Höfða á Höfðaströnd, fyrrum hreppstj. og sýslunefndarmaður í Ólafsfirði, hafi tapað í sjó og fannir í haust um 120 fjár og auk þess misst 3 báta og búð. Á öllum útkjálkum, sem vita mót norðaustri og sjór í stórbrimum fellur ekki í bakka eða björg, hafði sérílagi í fyrstu illviðrunum rekið talsvert af við en þó einkum á Skaga. Aðfaranótt hins 22. eða 23. okt. þ á., hafði fannfergjan stíflað læk á Hesjuvöllum í Lögmannshlíðarsókn hér í sýslu, svo að hann hljóp í fjárhús og drekkti þar 23 kindum. — Í seinustu hríðinni, sem hér skall á 11. [nóvember] höfðu 27 kindur lent í snjóflóði á Baugaseli í Hörgárdal.

Norðanfari birti þann 9.janúar 1879 bréf úr Mýrasýslu dagsett 3.desember:

Heilsufar fólks er í besta lagi og fáir deyja. Fénaðarhöld góð, því bráðapest er í minna lagi; málnyta af kúm víða í lakasta lagi, og sumstaðar eru þær nær því gagnslausar, kenna menn um léttum heyjum og of mikilli útbeit í haust; heyafli varð góður í sumar. Veðurátta það af er vetrinum eigi slæm, að fráteknu kastinu 21.—26. okt. sem þó eigi hafði hér eins vondar afleiðingar og víða annarsstaðar, því óvíða urðu hér fjárskaðar það teljandi sé. - Verslun höfðum við í sumar allgóða eftir því sem nú er um að gjöra á Borgarnesi við Brákarpoll, þar er nú loksins búið að reisa 2 timburhús.

Þann 18.janúar 1879 birti Norðanfari bréf úr Hrútafirði, dagsett 8.desember:

Tíðin er alltaf indælisgóð síðan kastið mikla í haust. Það gjörði hér svo sem engan skaða nema á 1 bæ, Prestbakka, þar fórst milli 30—40 fjár. Kaupstaður vor er nú allslaus, því skip þeirra Munch og Bryde laskaðist og liggur vetrarlangt í Hafnarfirði syðra. Lítur því illa út með bjargræði fólks í vetur, margir biðu of lengi í von um þetta skip.

Þann 12.desember birti Norðanfari bréf úr Skagafirði, dagsett þann 5., aðallega er fjallað um illviðrið í október:

Eins og þér hafið heyrt og getið er þegar í blaði yðar, þá ráku í land bæði skipin á Sauðárkrók, „Dorthea" skip Popps og „Sylphiden" skip Jakobsens, aðfaranóttina 21. október þ.a., kl.5 um morguninn. „Dorthea" slitnaði fyrst upp úr festum sínum kl. að ganga 10 um kveldið þann 20., en kom akkerum sínum fyrri í sjó svo hún fór eigi upp fyrri en kl. 5. f.m. þann 21., en „Sylphiden" rak fyrir 3 akkerum alla nóttina, þareð festar eigi voru greiðar, og fleygðist hún á land rétt á eftir „Dortheu" og það svo nærri, að heppni mesta var, að eigi lentu skipin saman; mannfjöldi var í fjörunni alla nóttina, og því heppnaðist að bjarga mönnunum af báðum skipunum. Hafís hefir sést æðimikill út af Húnaflóa, nú rétt nýlega.

Blaðið segir einnig af tíð:

Veðuráttan hefir nú um tíma verið fremur hæg og úrkomulítil. Víða er sagt jarðskarpt og á sumum útsveitum jarðlaust, aftur er sögð nóg jörð í fremri hluta Eyjafjarðar og Skagafjarðar, helst að vestanverðu. Fiskafli var hér minni og meiri á firðinum helst utarlega, þá síld var til beitt en i byrjun þ.m. fór hann að minnka, og mest af fiskinum sem nú aflast smátt. 7. þ.m. hafði Jónas óðalsbóndi á Látrum gengið út á Kjálkanes og þar til fjalls, sá hann þá undir ísbrúnina - fyrir öllu hafi austur fyrir Grímsey og talsvert komið af honum inn á Grímseyjarsund og landfastur orðinn fyrir austan Keflavík, og nú nokkrir jakar sagðir komnir hér inn á fjörð.

Skuld segir þann 14.desember af tíð eystra:

Tíðarfar hefir nú um hríð verið úrkomulítið og stilltara. Marauð jörð víðast hér í suður-fjörðum; en jarðlítið sagt í Seyðisfirði og jarðlaust í Loðmundarfirði og Borgarfirði. Hart um jörð yfir höfuð úti á Héraði, þannig jarðlítið eða jarðlaust út með Fljóti; en jörð í Fellum og Upp-Völlum; og eins í Skriðdal, Skógum og Fljótsdal. Rosaveður núna síðustu daga.

Þjóðólfur segir af tíð og aflabrögðum í pistlum í desember:

[17.] Nú í fullan mánuð hefir mátt heita blíðviðristíð hvervetna, en þó all-óholl veðurátt, hélur miklar, frost og þíður til skiptis og oft þokur. Aflabrögð lítil, þótt vel hafi orðið vart við fisk hér og þar. Að norðan er oss sögð sama tíð. Í byrjun þ.m. var auð jörð allt norður að Öxnadalsheiði, en gaddur og fannir þar norður af. Jarðlítið má heita hér víða á Suðurlandi sakir áfreða.

[30.] Alla jólaföstuna gekk stöðugt blíðviðri, en frost mikið 8-9°R að meðaltali. Mannskaði. 21. þ.m. drukknuðu 7 menn í Garðsjó,... Veður var gott í birtingunni, en hvessti við sólaruppkomu; frosthart var og ókyrr sjór; þeir reru einskipa.

Svo segir í veðurbók frá Hvammi í Dölum 10.desember; „Kl.5 e.m. Sást eldhnöttur í svip er sprakk og sundraðist með dunum“. 

Jónas Jónassen getur þess í pistli á Þorláksmessu 1885 að á jóladag 1878 hafi í Reykjavík verið logn, fagurt veður 5° frost og snjólaust. Snjóað hafi í fyrsta skipti á haustinu á aðfangadag.  

Norðlingur segir 31.desember:

Síðari hluta jólaföstu hafa hér verið mestu heljur, mest frost á 3. í jólum 19°. Eyjafjörður lagður útundir Hrísey þar sem hafísinn tekur við.    

Þann 26.apríl 1879 birti Skuld yfirlit úr Norðfirði yfir árið 1878:

Fyrsta janúar var stillt veður með mjög litlu frosti, en annan janúar gekk veðrið til snjódrífu, og upp frá því var frost og snjógarri þar til 16., þá gerði vestan-þíðu og hleypti í svell þar til nóttina milli 21. og 22., þá gjörði mikinn snjókafalds-byl, og varði sú snjóhríð til 26., þá kom þíða og hleypti í svell að nýju; eftir það var fremur góð tíð og jarðsnöp, þar til 14.mars, gjörði þá vestan-hláku svo að kom upp nokkur jörð, en samt voru þó einhver hin mestu svellalög, að elstu menn mundu ekki slík. 25. mars rak hér ís fyrir, sem lá við til 27. apríl; gekk þá veðráttan til suðvestan og sunnanáttar, og rak þá ísinn alveg burtu; kom þá góð jörð, enda voru þá margir komnir í þröng með hey, en gripir í allgóðu standi; þessi tíð hélst til þess 14. maí, þá gekk veðráttan til snjóhríða og frosta, sem varði til Úrbanusmessu [25.maí]; eftir það kom aldrei snjór, en sífelldir kuldar og frost á nóttum, þar til um þrenningarhátíð [16.júní], þá gekk veðráttan til hlýinda, og svo til rigninga með sólstöðum, sem varði af og til til þingmaríumessu [2.júlí]. Spratt þá gras fremur fljótt á túni og einkum á mýrarengi, svo fljótt varð farið að slá, í 12. viku [10.júlí] og byrjun 13. [17.júlí]; valllendi varð fremur lélegt, en tún með betra móti; nýting var með betra móti, því varla gat heitið að regn kæmi fyrr en með 10. september, þá gekk til óstöðugrar veðráttu, en samt voru menn búnir að ná heyi í garð 14. september; en nóttina milli 14. og 15. gerði óttalegt snjóbleytuveður, sem varði af og til til þess 19., þá gekk veðrið til frosta, enda var allt haustið með ónotalegum kringhlaups-byljum og illviðrum til októberloka, og varð haustheyskapur léttvægur; fjárheimtur fremur slæmar, einkum í Héraði, því víða hafði þar fé fennt til stórskaða í fyrstu veðrunum, eins og blaðið „Skuld" um getur. Með nóvembermánuði breytti veðráttan sér til norðan- og norðvestanáttar, sem varði til ársloka, og var jafnaðarlega frostasamt og fremur óhrein jörð með svellstorku, einkum til útkjálka, eður útnesja. ... Með betra móti heyjaðist, en það hafa menn komist að raun um, að hey er fremur létt til fóðurs, einkum sér í lagi taða; hún er með versta móti til afnota, enda var málnytja á búsmala mjög léleg, svo menn sögðust varla muna eins lélegt, og vilja menn kenna um þurrkum, og svo sandöskunni, sem víðast hvar liggur niðri í grasrótinni, svo grasið verður svo þurrt í þurrkatíð, að fénaður fær lítinn vökva, enda var fjallafé rýrt á mör og kjöt. Ritað 3. janúar 1879.

Lýkur hér að sinni yfirferð hungurdiska um veðurfar ársins 1878. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhengi.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tuttugu ágústdagar

Ágúst hefur hingað til verið heldur kaldur miðað við tískuna á þessari öld. Meðalhiti það sem af er mánuði er 10,8 stig í Reykjavík, +0,1 stig ofan meðallags sömu daga 1961-1990, en -0,8 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn er í 16.hlýjasta sæti (af 19) á öldinni í Reykjavík. Dagarnir 20 voru hlýjastir árið 2004, meðalhiti þeirra þá var 13,5 stig, en kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 10,2 stig. Á langa samanburðarlistanum lendir hitinn nú í 79. sæti af 145 (sum sé nærri miðjum hóp). Sömu dagar 2004 eru líka hlýjastir á þessum langa lista, en kaldastir voru þeir árið 1912, meðalhiti 7,6 stig.

Á Akureyri er meðalhiti mánaðarins hingað til 8,8 stig, -1,6 neðan meðallags 1961-1990 og -2,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára - það er mikið. Daglegar athuganir eru aðgengilegar á Akureyri frá 1936. Síðan þá vitum við um sjö kaldari ágústmánuði (20-daga að segja). Kaldast var 1943, meðalhiti 7,1 stig, og 7,2 stig 1958.

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á landinu öllu. Minnst er neikvæða vikið á Kambanesi, -0,2 stig, en mest -3,0 stig við Siglufjarðarveg. Þetta er kaldasta ágústbyrjun aldarinnar við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi. Að tiltölu er hlýjast við Faxaflóa, á Austfjörðum og á Suðurlandi, þar er hitinn í 16.sæti - eins og í Reykjavík.

Úrkoma hefur verið sérlega lítil um landið sunnan- og vestanvert. Fer að verða næsta óvenjulegt. Hingað til hefur úrkoma í mánuðinum aðeins mælst 2,8 mm í Reykjavík og hefur aðeins þrisvar mælst minni á sama tímabili í ágúst. Það var 1956 þegar hún hafði mælst 1,3 mm, 1907, þá hafði hún mælst 0,9 mm og 1903, aðeins 0,1 mm.

Á Akureyri hefur úrkoma það sem af er mánuði mælst 58,2 mm, um þreföld meðalúrkoma sömu daga, en hefur nokkrum sinnum verið meiri.

Metþurrt er á allmörgum stöðvum t.d. á Keflavíkurflugvelli þar sem mælt hefur verið frá 1952 og Hjarðarfelli á Snæfellsnesi þar sem mælt hefur verið frá 1970. - En met í hina áttina finnast líka, t.d. á Sauðanesvita (mælt frá 1991), á Vöglum í Fnjóskadal (mælt frá 1958) og Staðarhóli í Aðaldal (mælt frá 1961).

Óvenjumargar sólskinsstundir hafa mælst í Reykjavík, 181,3 alls, og hafa aðeins tvisvar mælst fleiri sömu daga, það var 1960 (216,3) og 1943 (190,2).


Bloggfærslur 21. ágúst 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 26
  • Sl. sólarhring: 68
  • Sl. viku: 424
  • Frá upphafi: 2343337

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 382
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband