Leiðinlegt veður - skemmtileg lægð

Norðanhryssingurinn sem gengur yfir landið nú og næstu daga er heldur leiðinlegur. Einhver sagði þó (sennilega afkomandi Pollíönnu) að verra gæti það verið - og verra hafi það orðið á þessum tíma árs. Það er svosem satt - en leiðinlegt er þetta samt. Hins vegar er kerfið sem þessu veldur býsna skemmtilegt. Kuldapollur kom á dögunum norðan úr Ballarhafi í átt til landsins.

w-blogg100819a

Myndin sýnir tvö spákort úr safni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Á þeim báðum má sjá hefðbundnar jafnþrýstilínur heildregnar (með 4 hPa bili). Af þeim ráðum við vindstefnu og vindhraða. Litir sýna hæð 500 hPa-flatarins (en ekki þykktina), skipt er um lit með 60 metra bili. 

Kortið til vinstri sýnir stöðuna síðdegis á morgun, laugardag 10.ágúst, en það til hægri stöðuna sólarhring síðar, síðdegis á sunnudag. Í báðum tilvikum má sjá mjög greinilega háloftalægð, miðja hennar er í græna litnum. Lægðin nær upp í veðrahvörf og er þar ámóta skörp og í 500 hPa. En á laugardagskortinu gætir lægðarinnar nær ekkert við jörð - að vísu má sjá lægðardrag norðan háloftalægðarinnar, en annars virðast jafnþrýstilínurnar lítið vita af háloftalægðinni. Ritstjóri hungurdiska hefur stundum minnst á það sem hann (en enginn annar) kallar þverskorna kuldapolla. Á vetrum (þegar mun meira afl er í veðrakerfinu heldur en að sumarlagi) eru þeir vandræðavaldar á okkar slóðum - oft meira að segja stórvarasamir. 

Þessi sem heimsækir okkur nú er ættingi hinna illu - svipmótið furðumikið þó hásumar sé. Enda fer ekki sérlega vel. Aðeins sólarhring síðar er komin bærilega öflug lægð skammt undan Norðausturlandi - hefur dýpkað um nærri 15 hPa á einum sólarhring - það er mikið á þessum tíma árs - og mjög mikið þegar heimskautaröstin kemur ekkert við sögu. 

Rætist þessi spá verður vonskuveður kringum lægðarmiðjuna og hugsanlega nokkuð vestur og suður fyrir hana. Við vitum ekki hvort spáin rætist - né heldur hversu vestarlega mesti vindurinn og veltingurinn nær. Rétt að fylgjast með spám Veðurstofunnar í því sambandi. 

En þetta er ein gerð sumarhroða. Í kaldara veðurlagi fyrri tíma hefði vafalítið snjóað niður undir sjó norðanlands við ámóta árás að norðan. Dæmi eru um slíkt snemma í ágúst (og auðvitað fjölmörg eftir 20. - meira að segja ekki svo mjög gömul).  


Bloggfærslur 10. ágúst 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 50
  • Sl. sólarhring: 124
  • Sl. viku: 1799
  • Frá upphafi: 2348677

Annað

  • Innlit í dag: 47
  • Innlit sl. viku: 1577
  • Gestir í dag: 47
  • IP-tölur í dag: 47

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband