Almennt af óvenjulegu veðri

Sólin skín enn um landið sunnan- og vestanvert - komin fram úr því sem mest er vitað um áður í júníbyrjun. Við tökum betur á því máli í tíudagauppgjörinu þegar það hefur borist. Fyrir nokkrum dögum var hér á hungurdiskum minnst á einkennilega spá evrópureikninmiðstöðvarinnar um methita í þessari viku. Það fór eins og ritstjórann grunaði að þessi spá var strax dregin til baka - en samt er enn spáð góðum hlýindum víða í nokkra daga - einkum þó á Suðurlandi. 

Við skulum fyrst líta á spá sem gildir á sama tíma og spáin afbrigðilega (sjá fyrri pistil) - seint að kvöldi fimmtudags 13.júní. 

w-blogg100619a

Hér má sjá þykkt (heildregnar línur) og hita í 850 hPa-fletinum (litir). Ekki eru mikil líkindi með þessu korti og methitaspánni. Kuldapollur hefur náð að skjóta sér úr norðri suður með Austurlandi og þar með þrengja hlýjasta loftinu vestur fyrir. Hámarkshlýindin eru hér alveg vestan við land 5610 metrar. Það er að vísu mjög mikið, en samt 3 stigum minna en þeir 5670 metrar sem var áður spáð - og þykktin yfir landinu er mun minni en spáð var. 

En nú er miðvikudagurinn sá hlýjasti í þykktarspánni - hvað sem svo verður. Kortið að neðan sýnir spá sem gildir á miðvikudagskvöld 12.júní. 

w-blogg100619b

Þykktin við Grænland er í hæstu hæðum, m.a. vegna niðurstreymis á þeim slóðum. Það er mjög sjaldan sem við fáum að njóta grænlensks niðurstreymishita - en hlýindin yfir Íslandi vestanverðu eru mjög mikil. Kuldapollurinn sem áður var minnst á er hér í norðausturhorni kortsins á hraðri leið til suðvesturs eins og örin (og fyrra kort sýna) - og stuggar við hlýindunum.

Hlýindi þessi eru þó ekki beinlínis upprunnin á Grænlandi (þó það bæti í þau) heldur fylgja þau óvenjulegum hæðarhrygg sem verður yfir landinu á þriðjudag og miðvikudag. Loftþrýstingi er spáð yfir 1036 hPa hér á landi, en svo hár þrýstingur er mjög óvenjulegur í júnímánuði og hefur aðeins tvisvar svo vitað sé farið yfir 1038 hPa - og einu sinni í 1040 hPa. Þetta þykir ritstjóra hungurdiska merkilegur viðburður - ef spár rætast. 

Sömuleiðis er hæð 500 hPa-flatarins spáð nærri meti. Mesta hæð 500 hPa sem vitað er um yfir Keflavík í júní er 5860 metrar - mælt þann 9.júní 1988. Rétt hugsanlegt er að það met verði slegið nú rætist spár - og hitti rétt í athugun (aðeins tvær háloftaathuganir eru gerðar á sólarhring). 

w-blogg100619c

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (litir) og sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) á miðvikudag 12.júní kl.18. Hæsta talan á kortinu er 5890 metrar. Í endurgreiningum má finna hærri tölu - í hitabylgjunni miklu í júní 1939 (sama dag og háþrýstimetið var sett). 

Við erum nú að sjá stöðu sem minnir að ýmsu á þessa fornu hitabylgju - en kerfið sem um hana sá virðist þó hafa verið sjónarmun öflugra heldur en þetta - og hitti líka heldur betur á landið. Þetta er fáeinum breiddarstigum of vestarlega til að við njótum þess til fulls.

Í hitabylgjunni 1939 náði hiti í Reykjavík ekki 20 stigum - þoka kom í veg fyrir það. Nú eru spár einmitt að gera ráð fyrir svipuðu nú - að þoka eða köld hafgola leiki um borgina og haldi raunverulegum hlýindum þar í skefjum. Reynslan hefur þó sýnt að erfitt er að spá um þokuna. Fari allt sem nú horfir (munum þó að spár eru alltaf að bregðast) ætti hitabylgja þessi að verða mest á Suðurlandi - hlutar Suðausturlands geta líka komið vel út - og stöku staður inni í sveitum í öðrum landshlutum. Sem stendur er hámarkshita spáð á bilinu 20 til 25 stig - en hitti vel í vind og sól gætu talsvert hærri tölur sést á stöku stað. 

Innan um öll þessi óvenjulegheit er eitt atriði til viðbótar sem rétt er að minnast á. Nær engri úrkomu er spáð um landið vestanvert á miðvikudag - en samt er heildarrakainnihald veðrahvolfsins í hæstu hæðum - nærri því eins og í verstu haustrigningum.

w-blogg100619d

Korið sýnir þetta - litir og tölur í mm. Allt yfir 20 mm telst hátt, og meir en 25 mm mjög hátt. Einhver ský hljóta að fylgja (og spilla sólaryl) - og e.t.v. verða þessi ský eitthvað skrítin fyrst ekki fellur úr þeim úrkoma. 

Viðbót - um fyrstu tíu daga júnímánaðar:

Fyrsti þriðjungur júnímánaðar er nú liðinn - bjartur og þurr syðra en svalur nyrðra. Meðalhiti í Reykjavík 8,9 stig, +0,5 stigum ofan meðallags 1961-1990, en -0,6 neðan við meðallag sömu daga síðustu tíu árin, hlýjastir voru sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá 11,5 stig, kaldastir voru þessir sömu dagar árið 2011, meðalhiti 6,5 stig. Hitinn er í 15.hlýjasta sæti (af 19 á öldinni). Á langa listanum er hiti í 52.sæti (af 145) - 2016 er þar á toppnum, en kaldast var.1885, meðalhiti 4,9 stig.

Kalt hefur verið á Akureyri, meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins þar er 5,9 stig, -2,5 stigum neðan meðallags áranna 1961-1990, en -3,4 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu 10 árin.

Að tiltölu hefur verið hlýjast á Kambanesi, hiti þar +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Gagnheiði, -5,4 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Þurrt hefur verið um nær allt land. Úrkoma hefur aðeins mælst 1,9 mm í Reykjavík, sú næstminnsta sömu daga á öldinni - sjónarmun þurrara var sömu daga 2012. Árin 1924 og 1935 mældist engin úrkoma í Reykjavík fyrstu tíu daga júnímánaðar og 11 sinnum hefur úrkoma mælst minni en nú. Á Akureyri hefur úrkoma aðeins mælst 3,0 mm, langt neðan meðallags.

Sólin hefur skinið af fádæma ákafa á landið suðvestanvert. Nú hafa 157,5 sólskinsstundir mælst í Reykjavík, 15,7 á dag, um 100 stundir umfram meðallag sömu daga. Næstflestar mældust sólskinsstundirnar í Reykjavík sömu daga árið 1924, 145,4, en fæstar voru þær þessa daga árið 2013, aðeins 13,4. Í fyrra mældust 22,9 sólskinsstundir fyrstu tíu daga júnímánaðar. Við Mývatn hafa til þessa mælst 65 sólskinsstundir í júnímánuði.


Bloggfærslur 10. júní 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 113
  • Sl. sólarhring: 222
  • Sl. viku: 2355
  • Frá upphafi: 2348582

Annað

  • Innlit í dag: 100
  • Innlit sl. viku: 2063
  • Gestir í dag: 90
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband