Smávegis af maí

Nú stendur þannig á helgi að mánaðaryfirlit Veðurstofunnar birtist varla fyrr en seint á mánudag eða þriðjudag. Maímánuður var afskaplega ólíkur almanaksbróður sínum í fyrra. Þá ríktu suðvestlægar áttir nær sleitulaust allan mánuðinn, en nú skiptust norðlægar og suðlægar á, þær norðlægu höfðu þó betur - en vestlægar áttir gerðu varla vart við sig, ólíkt því sem var í fyrra. 

Loftþrýstingur var líka með öðrum hætti. Meðalþrýstingur í Reykjavík var nú 1020,2 hPa. Það eru nokkur tíðindi því svo hátt mánaðarþrýstimeðaltal hefur ekki sést þar síðan í febrúar 1986 - og ekki í maí síðan 1975, en þá var það jafnt meðaltalinu nú. Á fyrri tíð má finna 6 hærri þrýstimeðaltöl í maí, en fjögur þeirra eru svo lítið hærri að ómarktækt er. Þau tvö hæstu eru frá 19.öld (1840 og 1867) og margs konar óvissa fylgir þeim tölum - en á báða vegu. 

Í maí í fyrra var mánaðarmeðalþrýstingur hins vegar með allra lægsta móti - sá 9.lægsti í maí í nærri 200 ára samfelldri sögu þrýstimælinga. 

Hitafar nú var einnig með allt öðrum hætti heldur en í fyrra. Taflan sýnir meðalhitavik á spásvæðum landsins - og í hvaða röð hitinn lendir meðal maíhita á öldinni (19 mánuðir alls). Vikin miðast við síðustu tíu ár.

w-blogg010619a

Hiti var ofan meðallags um landið vestanvert og mánuðurinn meðal 5 til 6 hlýjustu á öldinni, en svalara var um landið austanvert og kaldast að tiltölu á Suðausturlandi þar sem maí hefur aðeins þrisvar verið kaldari það sem af er öldinni. Tvö kuldaköst gerði í mánuðinum - það sem enn stendur og svo annað sem stóð stóran hluta fyrsta þriðjungs mánaðarins. Mjög hlýtt var hins vegar á milli þessara tveggja kuldakasta. 

Meðalhiti í Reykjavík endaði í 7,7 stigum og í 5,9 á Akureyri. Svo fór að maí varð kaldari heldur en apríl mjög víða á Norður- og Austurlandi. Talnafíklar geta farið í viðhengið og athugað málið og séð að neikvæði munurinn var mestur á Mánárbakka, þar var maí -1,5 stigum kaldari en apríl. Á hálendinu sunnaverðu hlýnaði hins vegar verulega milli apríl og maí, mest við Setur, +2,7 stig. Trúlega hefur óvenjusnemmbær snjóleysing á þessum slóðum ýtt undir þetta.

Á landsvísu var meðalhiti apríl og maí hinn sami. Það kemur fyrir endrum og sinnum að maí er kaldari en apríl. Á landsvísu síðast 1979 og 1958. Tíðni slíkra atburða er mun meiri á Norður- og Austurlandi heldur en syðra. Á Akureyri varð maí síðast kaldari en apríl árið 2011 og það gerðist einnig 2007 og 2003. Aftur á móti er munurinn nú með allra mesta móti - þarf að fara alveg aftur til 1883 til að finna ámóta tölu. Á Dalatanga varð maí síðast kaldari en apríl árið 2015, og miklu munaði árið 2011. Í Vestmannaeyjum þarf hins vegar að fara aftur til 1979 til að finna dæmi þess að maí hafi verið kaldari en apríl. Í Stykkishólmi þarf að fara alveg aftur til 1884 til að finna dæmi og í Reykjavík aftur til 1873. En höfum í huga að það var aprílmánuður sem var hinn afbrigðilegi hvað hita snertir - vikatölur maímánaðar sem við sjáum í töflunni hér að ofan eru ekki stórar.

Það sem hér fer á eftir er uppfærsla á pistli sem fyrst birtist 31.maí 2017 - nú hafa þrír maímánuðir bæst við. Þar á meðal hinn arfaslaki maí í fyrra (2018) og nýliðinn maí - sem kemur nokkuð vel út á þessum (vafasama) kvarða.

Undanfarin ár hefur ritstjóri hungurdiska leikið sér að því gefa sumarmánuðum og heilum sumrum einkunn. Aðferðafræðin er skýrð í fyrri pistlum. Sú óraunhæfa krafa kemur stundum upp að meta beri veður í maí á sama hátt - og það heyrist meira að segja að menn taki kalda, sólríka þurrkþræsingsmaímánuði fram yfir vota og hlýja. Slíkt er hins vegar í töluverðri andstöðu við það sem tíðkast hefur þegar vortíð er metin.

Gott og vel - við skulum nú bera saman maímánuði í Reykjavík eins og um sumarmánaðakeppni væri að ræða.

w-blogg020619a

Hér má sjá að nýliðinn maímánuður fær 12 stig - vel yfir meðallagi. „Bestur“ var maí 1932 með fullt hús stiga - en jafnlakastir eru allmargir mánuðir með aðeins 2 stig, maí í fyrra þar á meðal. Við skulum taka eftir því að hinn hræðilegi og kaldi maí 1979 er hér metinn góður - fær 12 stig (rétt eins og sá nýliðni). Jú, sólin skein og úrkoma var lítil og úrkomudagar fáir - mánuðurinn fékk hins vegar 0 stig (af fjórum mögulegum) fyrir hita.

En það er kannski að nútíminn vilji hafa veðrið þannig - menn geta vökvað garðinn sé þurrviðrasamt - en erfiðara er að verjast rigningu.

Til gamans er hér útgáfa meira ræktunarmiðuð - hér viljum við hita og sólskin og úrkomu - en líka til gamans eins og allir þessir einkunnarreikningar.

w-blogg010619c

Gróðrarmaímánuðir ríkjandi um 1930 (mesta furða hvað hinn óþægilega þurri maí 1931 kemur út - en leiðindastand um 1980. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 1. júní 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1539
  • Frá upphafi: 2348784

Annað

  • Innlit í dag: 45
  • Innlit sl. viku: 1343
  • Gestir í dag: 42
  • IP-tölur í dag: 41

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband