Dálítið tímaraðafyllerí

Við skulum nú fara á dálítið tímaraðafyllerí. Þó raðir sem þessar séu sjaldséðar í veðurfræðiritum eru þær samt allrar athygli verðar - að mati ritstjóra hungurdiska - enda hefur hann fjallað um þær áður og birt af þeim myndir. Kominn er tími á endurnýjun. Skilgreiningar má finna í eldri pistlum. Að þessu sinni verður ekki farið lengra til baka en 70 ár - til ársins 1949. 

Við byrjum á stormum og vindi.

w-blogg030419-stormadagar

Ritstjóri hungurdiska hefur lengi haldið úti lista um illviðri á landinu. Þar með er listi um daga þegar fjórðungur veðurstöðva eða meira segir frá meiri vindi en 20 m/s einhvern tíma dags. Fjöldi slíkra daga er mjög breytilegur frá ári til árs - og ekki er að sjá að teljandi leitni sé í fjölda þeirra síðustu 70 árin. Síðustu 3 ár hafa verið róleg - en árið 2015 var fjöldi daganna vel yfir meðallagi. Við sjáum líka veruleg áratugaskipti. Þessi öld hefur hingað til verið fremur róleg miðað við árin í kringum 1990. Leitnin er ómarktæk. 

w-blogg030419-medalvindhradi

Ámóta breytileika má sjá í meðalvindhraða á landinu. Það truflar okkur nokkuð að framan af var logn oftalið (um það vandamál má lesa í eldri pistli). Vindhraði virðist hafa verið meiri á árunum í kringum 1990 heldur en algengast hefur verið á síðari árum. Síðustu 3 ár hafa verið mjög hægviðrasöm - en árin 2015 og 2011 var vindhraði meiri. 

Nokkuð samband er á milli ársmeðalvindhraða og ársmeðaltals óróa í loftþrýstingi frá degi til dags. Við skulum líka líta á mynd sem sýnir meðalóróa hvers árs. 

w-blogg030419-oroavisir

Hér sjást sömu áratugasveiflurnar enn, hámark í kringum 1990, en lágmark um 1960 og á þessari öld. Árið 2015 sker sig nokkuð úr - enda var það mjög umhleypingasamt eins og margir muna. Hér er enga leitni að sjá - allt með felldu. 

w-blogg030419-snjokoma

Snjókomu og snjóélja er getið sérstaklega í veðurskeytum. Við teljum saman hversu mörg slík skeyti eru á ári og reiknum hlutfall þeirra af heildarfjölda skeyta ársins - setjum síðan á mynd. Ekki er fjarri að hér sé um það bil eina athugun af hverjum 20 að ræða (50 af þúsund). Hæst var hlutfallið árið 1949 - þá var mikill snjóavetur á Suður- og Vesturlandi og mjög kalt vor - snjóaði fram á sumar norðanlands. Á myndinni má líka sjá að snjókoma var mjög tíð flest ár frá 1966 til og með 1983 - en hún var fátíð á árunum kringum 1960 - svo fátíð að leitnin sem reynt er að reikna og færð er inn á myndina getur varla talist mjög marktæk - og segir auðvitað ekkert um framtíðina. - En snjókoma er samt fátíðari á þessari öld en tíðast var á síðari hluta þeirrar síðustu. Enn er það árið 2015 (það kaldasta á öldinni það sem af er) sem sker sig nokkuð úr (ásamt 2008). 

w-blogg030419-snjohula

Snjóhuluröðin sýnir svipaða mynd. Hér er meðalsnjóhula landsins í hverjum mánuði reiknuð (í prósentum) - og mánaðargildin lögð saman í árssummu. Talan 300 þýðir því að alhvítum og flekkóttum dögum hefur verið safnað saman í þriggja mánaða samfellda snjóhulu. Hæstu tölurnar eru árin 1979 og 1983 - kannski var snjór þá þrálátastur. Það eru 1964 og 1960 sem eiga lægstu tölurnar. Nokkur þáttskil virðast (já, virðast) verða rétt upp úr aldamótum - þegar mest hlýnaði. Síðan þá hafa snjóalög verið heldur rýr á landsvísu, helst að árin 2008 og 2015 sýni viðleitni til fyrri vega. Við leggjum ekki mikið upp úr leitninni hér heldur - framtíðin ræðst þó af hitaþróun. Gögnin sýna ótvírætt að hlý ár eru að jafnaði snjóléttari en köld.

w-blogg030419-mistur

Þá er það tíðni misturs. Mistur er ekki algengt í veðurskeytum - en virðist þó hafa verið mun algengara fyrr á árum en síðar. Við sem munum mestallt þetta tímabil skynjum líka þessa breytingu. Evrópsk mengunarblámóða fyrri ára er horfin (henni fylgdi ákveðin stemning) - það er hún sem heldur misturhlutfallinu uppi fram yfir 1970. Toppar eftir það eru athyglisverðir. Eldgosin 2010, 2011 og 2014 koma mjög greinilega fram, aska og öskufok 2010 og 2011 (og öskufok 2012) - og brennisteinsmóða 2014 - og toppurinn 1991 til 1992 gæti tengst eldgosum líka - þetta eru þrátt fyrir allt árin sem Pinatubogosið hafði áhrif um heim allan. Svo er toppurinn 1980 tengdur Kröflueldum og einu af löngu gosunum í júlí það ár. Rétt spurning hvort gosið í Surtsey hefur hækkað misturhlutfall árin 1964 og 1965 - eftir að hraungosið í eynni hófst. 

w-blogg030419-thykktarbratti

Síðasta mynd þessa pistils er líklega sú sem erfiðast er að skilja. Hér má sjá „þykktarbratta“ við Ísland. Eins og þrautseigir lesendur hungurdiska vita segir þykktin frá hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarbrattinn sem hér er settur á mynd segir af hitamun á milli 60. og 70. breiddarstigs. Við skulum ekki hafa áhyggjur af einingunum en lesendur mega trúa því að talan 36 þýðir um 6 stiga mun, og talan 24 um 4 stiga mun. Myndin sýnir að þessi hitamunur virðist hafa minnkað jafnt og þétt - og hefur aldrei verið jafnlítill í mörg ár í röð og nú þau hin síðustu. Við vitum ekki hvort þessi þróun er óvenjuleg eða ekki - né heldur hvort hún kemur til með að halda áfram - en hún er raunveruleg engu að síður. 

Það verður þó að teljast ólíklegt að öllu lengra gangi - við búumst alls ekki við því að hlýrra verði fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan það. En þetta er líklega tengt þeirri almennu hlýnun sem orðið hefur á norðurslóðum - norðanáttir eru í raun og veru yfirleitt hlýrri en áður var - en minna munar í sunnanáttunum. Við höfum í huga að myndin segir ein og sér ekkert til um það hvort þverrandi hitamunur stafi af hlýnun fyrir norðan eingöngu. Taki hlýnun við sér fyrir sunnan land - eða kólni fyrir norðan - vex þykktarbrattinn umsvifalaust aftur. 


Bloggfærslur 4. apríl 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband