Nokkur umskipti?

Þó ekki sé hægt að segja að veður hafi verið slæm í nýliðnum marsmánuði er því ekki að neita að umhleypingar hafa verið talsverðir - fjölmargar lægðir af ýmsu tagi hafa runnið hjá landinu. Loftþrýstingur hefur líka verið undir meðallagi. Við byrjum pistil dagsins á því að líta á meðalkort marsmánaðar í 500 hPa-fletinum (og þökkum Bolla Pálmasyni og evrópureiknimiðstöðinni fyrir kortagerðina).

w-blogg020419b

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - og liggja stórhlykkjalítið um kortið þvert. Lögunin er reyndar ekki svo fjarri meðallagi, en eins og sjá má af vikamynstrinu (litir) hefur vestanröstin yfir Norður-Atlantshafi verið nokkuð sterkari en að meðallagi, línurnar liggja þéttar en vant er. Hæðarmunur á Landsenda á Spáni (Finisterre) og Scoresbysundi er um 500 metrar, um 140 metrum meiri en meðaltal segir til um. 

Nú er spáð breytingu. Kryppa á að koma á vestanáttina og sýnir kortið hér að neðan hvernig líkanið reiknar næstu tíu daga.

w-blogg020419a

Mikill viðsnúningur á að verða - hæðarvik eru í litum sem áður - og jafnhæðarlínur heildregnar. Köld lægð á að setjast að á Biskajaflóa, en hæð við Ísland. Þetta er meðalkort - á að sjálfsögðu ekki við alla dagana - og þar að auki ekki fullvíst að spáin rætist. En rætist þessi spá er úti um stöðugan lægðagang - (smálægðir ekki útlokaðar) - sú síðasta í bili kemur að landinu síðdegis á morgun - miðvikudag. Við sjáum blikubakka hennar nú þegar á lofti. 

Í fljótu bragði virðist þessi staða nokkuð vorleg - en sannleikurinn er samt sá að þetta er ekkert sérlega hlý hæð - þá daga sem ákveðinnar landáttar gætir fer hiti í henni þó trúlega vel yfir 10 stig á stöku stað. Kannski koma einhverjir góðir austanáttardagar á Suðvesturlandi. Kalt getur orðið á björtum nóttum. 

Gallinn við hæðir af þessu tagi er sá að í þeim er „stolið“ vorloft. Jú, það brúar kannski bilið þar til hið raunverulega birtist - en vetrarkuldi norðurslóða er langt í frá horfinn og það er ekki óalgengt að borga þurfi fyrir fyrirstöðublíðu í apríl með kuldanæðingi síðar. Ritstjórinn hefur þó ekki reiknað út hversu oft slíkrar „greiðslu“ er krafist. Gæti verið í þriðjungi tilvika (kannski tekst að skipta henni á nokkrar afborganir - ef það er þá nokkuð betra). En hið raunverulega vor er auðvitað á sinni leið til okkar - við vitum bara ekki hvenær það kemur. 


Bloggfærslur 2. apríl 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband