Af árinu 1827

Ekki segir mikið af veðri og tíð á árinu 1827 - við vildum gjarnan frétta miklu meira. Hita- og þrýstimælingar voru ekki gerðar nema á einum stað á landinu, í Nesi við Seltjörn - og höfðu þær ekki náð fullum gæðum. En miklu betra er þó að hafa þessar mælingar frekar en ekki neitt. Þær leyfa okkur að giska á meðalhita í Reykjavík og í Stykkishólmi - heldur óáreiðanlegar tölur að vísu, segja ársmeðalhita í Reykjavík 3,2 stig, en 2,5 í Hólminum. 

Þær segja okkur einnig að líklega hafi júní, október og nóvember verið nokkuð hlýir. Mikil hlýindi voru einnig á þorranum - en þau skiptust nokkuð á janúar og febrúar, afgangar þeirra mánaða voru ekki sérlega hlýir. Janúar telst því kaldur og febrúar í meðallagi, tölurnar segja júní einnig nokkuð hlýjan, og vel má vera að svo hafi verið í heildina - og suðvestanlands, en mikið er í heimildum úr Húnavatnssýslu og Skagafirði kvartað undan miklu hríðarillviðri sem gerði um hann miðjan. Mars var sérlega kaldur - einn þeirra köldustu sem vitað er um, einnig var kalt í apríl, maí, júlí og desember. 

ar_1827t

Við sjáum hér morgunhitamælingar Jóns Þorsteinssonar, gerðar í Nesi, um hálfellefu að morgni að okkar tíma. Þorrahlýindin sjást vel - flestir dagar frostlausir. Síðan kemur mikill kuldakafli, frost fór í -17,5 stig þann 6.mars og vel má vera að lágmarkshiti hafi orðið enn lægri, hafi hann verið mældur. Þessa daga var -5 til -6 stiga frost í loftvogarherbergi Jóns norðanmegin í Nesstofu. Um sumarið fór hiti nokkrum sinnum yfir 15 stig og sleikti 20 stig þrisvar sinnum (sem þykir nokkuð gott). Góð hlýindi gerði snemma í október. 

ar_1827p

Myndin sýnir daglegar loftþrýstimælingar Jóns. Við sjáum að mikill háþrýstingur hefur fylgt þorrahlýindunum - gaman að geta séð svona fornar fyrirstöðuhæðir - þá lagði Thames við London í norðaustankuldum. Meðalþrýstingur febrúarmánaðar varð óvenjuhár. Annað háþrýstisvæði ríkti í fyrstu sumarviku. Þrýstingur var venju fremur lágur í maí og júní. Líklega er mælingin 17.júní rétt - þá gekk mikið illviðri yfir landið norðanvert (og e.t.v. víðar) - en í Reykjavík var áttin vestlæg og hiti ekki mjög lágur. Var að vísu ekki nema 6. stig á loftvog Jóns að morgni 18.júní - 17.júní [16. afmælisdagur Jóns Sigurðssonar] hefur trúlega verið sólarlaus - og nóttin á eftir afskaplega köld, þó hiti utandyra hafi verið komin í 8,8 stig fyrir hádegi. Þegar kom fram í ágúst var þrýstingur aftur orðinn hár - og hefur bjargað heyskap syðra. Þrýstiórói var mikill í desember og þrýstingur með lægra móti.

Þetta má lesa um hafískomu að Austurlandi 1827 í Íslendingi 31.júlí 1852:

1827 kom ísinn með annarri viku góu inn á flóa og firði; hér um allt að tveim vikum áður gengu stillingar og hélufall hverja nótt, svo síðast var það orðið mikið, allt að því í skóvörp; þar fyrir, eða fyrra part þorra, var þægileg vetrartíð og litlir vindar, en við norðanátt; þegar ísinn rak fyrir og inn að landi var [norðaustan og austnorðaustan] hægviðri, dimmur til sjós og þokuslæðingur í fjöllum, ísinn fór að mestu burt fyrir messur; það var fjall- og helluís.

Annáll 19. aldar segir svo frá:

Frá nýári var víðast um land góð tíð til þorraloka, góa hörð og svo einmánuður og löngum stormar, fjúk og kuldar fram yfir fráfærur. Jörð greri seint og var víða kalin. Töður litlar en nýttust nokkurn veginn. Sumar votsamt er á leið og hröktust úthey. Haust vinda- og hretviðrasamt og snjóalög fyrri hluta vetrar. Hafís kom norðanlands inn á firði í mars, mun hann síðan hafa lagst um meiri hluta lands og eigi farið fyrr en langt var komið fram á sumar, og féll töluvert af peningi bæði austan lands og vestan. Fiskafli var í meðallagi undir Jökli, en minni syðra og fuglafli lítill við Drangey. 

Annállinn segir af fjölda skipskaða og óhappa en fæst af því er með dagsetningum. Þó segir:

Aðfaranótt hins 28.desember braut í leysingu snjóflóð bæinn Hryggi við Gönguskörð, dó þar inni kvenmaður og barn. Í sömu hríð drap Víðidalsár 5 hesta frá Þorkelshóli. 

Hið fræga Kambsrán var framið 9.febrúar. Hundadrepsótt gekk um landið og hundar dýrir. 

Espólin er heldur stuttorður um árið allt:

Espólín: CLI. Kap. Þá gjörði vetur þungan, er á leið, og þó vorið verra, og allt sumarið eftir voru löngum stormar, fjúk eða kuldar, og fall allmikið á kvikfé, nema lítinn kafla gjörði góðan í Julio; síðan urðu miklir kuldar og rigningar en stundum veður eða frost og snjóar, og mundu menn varla verra sumar, þar til haustaði. 

Skírnir segir heldur ekki margt um árið 1827:

Skírnir 1829 (bls. 74-75): Veturinn 1827 var víðast hvar á Íslandi harður, og vorið kalt og gróðurlítið, féll peningur því töluverður; einkum á Austur- og Vesturlandi. Grasvöxtur varð það sumar góður, en vegna rigningar hröktust hey víða, og reyndust því eftirá mjög dáðlaus.

Vetur:

Brandstaðaannáll: Stillt og frostamikið veður til þorra, en hann varð einhver hinn besti, með stöðugu blíðviðri og stundum þíðum, svo snjólausar voru heiðar. Gaf vermönnum æskilega, sem ekki biðu til góu. Á föstudag 1. í henni [23.febrúar] kom snjór og á eftir stöðugar hörkur og hríð ytra, en þar hélst um 2 vikur, en hér kóf, svo á snjólítilli jörð var lítt beitandi. Í góulok [fyrir 20.mars] mikil hláka 2 daga, eftir það snjór og óstöðugt, gott um páskahelgarnar [páskar 15.apríl].

Bjarni Thorarensen ritar tvö bréf snemma í mars og segir lítillega frá vetrarfari - sem er gott til þess tíma, m.a. nefnir hann að svo mildur hafi vetur ekki verið hérlendis frá 1799.

Gufunes 3-3 1827 (Bjarni Thorarensen): Jeg frygter nu meget for at De i Danmark have havt en (s55) overmaade stræng Vinter, da vores lige til for 8te Dage siden har været saa mild at der siden Aaret 1799 ikke har været en saadan, og maaske Veiret har nu netop ved denne Tild forandet sig i Danmark. ... Öefields Jökkelen ryger endnu og man har villet i Vinter have lagt Mærke til enkelte Ildglimt af samme, men ikke af Betydenhed. (s56)

Lausleg þýðing: Hræddur er ég um að sérlega kaldur hafi veturinn verið hjá ykkur í Danmörku því okkar vetur hefur - þar til fyrir átta dögum verið svo mildur að ekki hefur komið slíkur síðan 1799, e.t.v. breyttist veðrið í Danmörku á sama tíma. Eyjafjallajökull rýkur enn og í vetur hafa menn þóst sjá stöku eldglampa úr honum, en ekki svo máli skipti.

Gufunesi 4-3 1827 (Bjarni Thorarensen): Eyjafjallajökull rýkur enn stundum, og Sr. Jón Halldórsson á Barkarstöðum mágur minn skrifar mér að vart hafi orðið við eldglampa úr honum á jólaföstu, en ekki hefir þó nein virkileg eruption orðið. ... Hey eru hjá mörgum skemmd ... (s173) P.S. Þið hafið víst geysi harðan vetur í Danmörk því okkar kom ei fyrri en fyrir 8 dögum ... (s174)

Vor: 

Brandstaðaannáll: Á annan [páskadag, 17.apríl] byrjaði aftur frosta- og snjóakafli allan apríl og mestu vorharðindi. Óþolandi hörkur í maí til þess 12., að nokkra þíðu gerði vikutíma, síðan norðanþokur og ísing, svo gróðurlaust var i úthaga um fardaga. Norðanhríð á uppstigningardag  [24.maí] og á hvítasunnu [3.júní] versta veður. Varð lambadauði þann dag mikill. Eftir það 2 vikur allgott, svo gróður kom. 16. júní kom á dæmalaus hríð, er varaði 6 daga. Varð stórfenni til hálsa, en neðra þíðaði af hnjótum mót sólu eftir miðdegi. Fá var hýst og gefið utan hjá þeim, er áttu heiðarland og fé í góðu standi.

Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir í dagbók dagana 16. til 21. júní [íbr 36 8vo]:

[16.] Norðan þokufullur og stundum mikið snjómok, kyrrt áliðið og birti, seinast sunnan kaldur og hríð í fjöll. Rak hafís inn að Oddeyri..
[17.] Ýmist sunnan eða norðan, kaldur, regn og krapi um tíma.
[18.] Norðan mög kaldur, þykkur, þokufullur, úrfelli áliðið, seinast snjókoma. Fjörðurinn stappaður af ís.
[19.] Norðan hvass og mikið kaldur, stundum krapahríð.
[20.] Sama veður, úrfellislaust um tíma, en seinast snjókoma.
[21.] Sama veður, súld framan af, þó bleytuhríð, seinast kyrrt og bjartari.

Magnús Stephensen segir frá lakri tíð. Hann nefnir m.a. ísrek meðfram suðurströndinni allt vestur til Grindavíkur. 

Viðeyjarklaustri 4-7 1827 (Magnús Stephensen): (s64) ... mestu hafþök af ísum fyrir öllu Norðurlandi og Austurlandi, rak ís hér vestur með allt að Grindavík sem fádæmi eru. Engin skip nyrðra því enn sögð komin í höfn. Þar mikill fjárfellir og bágindi í Skagafjarðar og Húnavatnssýslu, sífelldir kuldar, stormar, þyrringar og gróðurleysi yfir allt land, hér syðra dágott fiskirí.

Sveinn Pálsson í Vík í Mýrdal segir frá þessari hafískomu í veðurbók sinni. Stóð hann furðulengi við. Kom að því er virðist 6.maí og rak þá til suðvesturs. Allmikil snjókoma var þá um morguninn milli kl. 7 og 8. Í vikuyfirliti sem Sveinn ritar þann 11.maí getur hann þess að frost hafi verið suma dagana þrátt fyrir suðvestanátt. Frá og með 18.maí og til mánaðamóta er getið um ís eða ísrek á hverjum degi og að sjá einnig 2 til 3 fyrstu daga júnímánaðar. 

Sumar:

Brandstaðaannáll: Eftir sólstöður lét ég kýr fyrst út, en lambfé komst af í veðursælum heiðardrögum. Gróðurleysi á fráfærum til heiðanna í júnílok. 3. júlí fyrst brotist í lestaferð. Um lestatíma stormur og kuldi á norðan og vestan, sjaldan hlýtt veður og fór grasvexti seint fram. 26. júlí byrjaði sláttur. Varð töðubrestur mikill. 30. júlí kom hret og óveður, er endaði óveðrakafla þennan. Eftir það viðraði vel og varð grasvöxtur í meðallagi. Víða hitnaði í töðum, því hálfsprottin tún voru slegin og snjókrapið varð mikið í þeim, er ei náði vel að þorna. Sláttatíminn varð notagóður. Gras dofnaði seint. Voru nú göngur færðar í 22. viku, því seint áraði og sumarauki var. 21.-22. sept. kom mikið norðanveður. Flæddi við það nokkuð hey í Þinginu og með Flóðinu.

Bjarni Thorarenssen segir frá vetrarlokum, vori og sumri í bréfum sem hann ritar í ágúst. Þar segir hann m.a. frá eldgosi í Austurjöklum (Vatnajökli) sem litlar eða engar aðrar heimildir finnast um. 

Gufunes 19-8 1827 (Bjarni Thorarensen): Slutningen af Vinteren og Foraaret var meget strengt ... (s57) Græsvæxten har her været meget maadelig, med Höebiergningen gaare det derimod taaleligen – i Österjöklerne har der i Foraaret været stærk Ildsprudning men som dog ikke har giort synderlig Skade, da der paa den tid herskede bestandig Nordenveir – ellers frygter jeg alletider Ildsprudninger fra hine Egne, da de i Aaret 1783 förte virkelige Giftpartekler med sig. (s60)

Lausleg þýðing: Vetrarlok og vor voru mjög hörð ... Gras hefur sprottið „hóflega“, en heyskapur er aftur á móti þolanlegur. Í vor voru mikil eldsumbrot í Austurjöklum, en hafa ekki valdið tjóni þar sem á var stöðug norðanátt - annars óttast ég alltaf gos á þeim slóðum þar eins og varð árið 1783 með raunverulegum eiturögnum.

Gufunesi 24-8 1827 (Bjarni Thorarensen): Veturinn byrjaði fyrst að gagni þegar póstskipið fór og vorið var hart. ... Grasvöxtur hefir verið í lakara lagi en heynýting bærileg það sem af er. (s175)

Ólafur í Uppsölum segir frá morgunfrosti 3. og 4. ágúst (vel má þó vera að ekki hefði mælst frost í hitamælaskýli). 

Það er að skilja á Jóni á Möðrufelli (mislesi ritstjórinn hann ekki illa) að ágúst hafi þar verið góður, hlýr, þurr og heyskap hagkvæmur. 

Hallgrímur á Sveinsstöðum í Húnaþingi lýsir tíð ársins fram til sumarloka - nefnir m.a. hina einstaklega blíðu þorraveðráttu - og júníhríðina miklu. 

21. september 1827 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): (bls. 180)

Nú kem ég til að drepa á helsta árferðissögu ágrip hér í sýslu og nálægum norðursveitum. Fyrsta vika ársins var frostasöm og rosafengin, síðan stillt til þorrakomu, en mestallur þorri var há-sumri líkastur með miklum þíðum, svo örísa varð uppí háfjöll og tók að gróa kringum bæi, svo sáust fíflar og jafnvel bifukollur. En þá fimm dagar voru af góu, lagðist vetur að algjörlega með frosthörkum, fannkomum og hafþökum af Grænlandshafís kringum allt Norðurland og Vestfirði, og þessi stranga veðurátta hélst oftast með feikna kulda og frostum til bænadags [11.maí], gjörði þá viku hláku, þaðan frá þokur, kuldasvækjur, snjókomur og kraparigningar á víxl til 5.júní.

Batnaði þá um tíma, en kom á aftur þann 15.s.m. með ákefðar krapa og snjó-hríðum, sem héldust nótt og dag til þess 21. Króknuðu þá folöld og fullorðin hross til dauðs, og sauðfé dó hrönnum bæði í byggð og á afréttum. Kvenmann kól þá til örkumla á grasaheiði og karlmann í júlí í lestarferð. Oftast var veðurátta kulda og rosasöm til 4. ágúst, þá fyrst kom hér algjörlega sumarveðurátta, er hélst til 7. [september], oftast með hitavindum og hagstæðri heyskaparveðuráttu, svo töður nýttust víðast vel og úthey, er til þess tíma slegin voru. En síðan hefir heyskapur verið mjög erfiður vegna storma og úrfella af ýmsum áttum, svo sumstaðar fuku hey til stórskaða, og nú eru þau víða svívirt og hrakin úti, komin á flot af stórrigningum. Peningsfellir varð víðast mikill norðanlands á næstliðnu vori, nema í Þingeyjarsýslu, og unglambadauði ákafur. Gras tók mjög seint að spretta, en heyjafengur hefði þó að lokum orðið í góðu meðallagi víða (sumstaðar þó minni), ef nýting hefði heymegni samboðið.

Þessar lýsingar á hagstæðri tíð þegar á leið sumar eru í nokkurri mótsögn við Espólín sem hallmælir öllu sumrinu. 

Haust:

Brandstaðaannáll: Haustið síðan stillt og gott. 3. nóvember fyrst snjór og mesta harka. Ruddu sig brátt flestar ár. Síðan 7. nóvember góð hláka og vetrarfar, lengst auð jörð utan 13.-28. desember snjóakafli, þó fjárbeit góð. Á fjórða [28.desember] mikil hláka og vatnsgangur. Árferði var nú þungt vegna vorharðinda, málnytubrestur yfir allt, lamba- og fjárdauði  ýmislegur. Í Víðidalsfjalli króknuðu allmargir sauðir.     

Í athugasemdum sem Jón Þorsteinsson lætur fylgja með veðurathugunum sem hann sendi til Danmerkur í marsbyrjun 1828 segir m.a. (og átt við 1827):

Ved et blik paa denne Liste, bemærkes meget Let det Islandske Climats Særkjende, nl [nemlig]: at det er saa liden Forskjel mellem Sommer og Vinter: thi et stormfuldt Efteraars Vejrlig, vedvarer næsten uafbrudt det heele Aar;

Lausleg þýðing: Þegar litið er á listann (þ.e. veðurathuganaskrána) sést megineinkenni íslensks veðurlags léttilega, nefnilega að lítill munur er á sumri og vetri, stormasöm hausttíð viðvarir næstum því linnulaust allt árið. 

Úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1827:

Sveita vorra vetrar tíð
var að þorra lokum blíð
góa og vor með gæða hlé
gáfu hor og dauða fé.

Hjörð af sveltu helju fann
hafís belta landið vann,
gróðann freri svæfði um svörð
seint því greri kalin jörð.

Töðu brestur túnum á
trú ég flestum yrði hjá.
rýttust þær en huldi hríð
Hnikars mær um engja tíð.

Haustið veitt vind og skúr
vætu hreytti lofti úr
hrinu yglið himna ský
heyin mygluð urðu því.

Vetrar kaflinn veifði snjó,
veittist afli norður þó
Snæfells-sveit um síldar vað
syðra heitir minna um það.

Hér lýkur (að sinni) umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1827. Ýmislegt er enn á huldu varðandi hafís, eldgos og fleira og vonandi að það upplýsist síðar. Ritstjórinn þakkar Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt texta úr árbókum Espólíns. Smávegis af tölulegum upplýsingum er í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 1. apríl 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg120324a
  • w-blogg080324a
  • w-blogg010324c
  • w-blogg010324b
  • w-blogg010324a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 971
  • Frá upphafi: 2341345

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 889
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband