Af árinu 1891

Tíðarfar var hagstætt landsmönnum árið 1891, okkur nútímamönnum hefði þó þótt hitinn í lægra lagi lengst af. Ársmeðalhiti í Reykjavík var 3,9 stig, 3,7 í Stykkishólmi og 3,2 á Akureyri. Marsmánuður var sérlega kaldur og auk þess voru maí, ágúst, september, nóvember og desember líka kaldir, en hlýtt var í febrúar, júní og október. Töluverðar öfgar voru í hita einstakra daga, hann náði t.d. 20 stigum fjóra daga sumarsins í Reykjavík, en slíkt er óvenjulegt meira að segja á síðari árum og átta daga fór lágmarkshiti í Reykjavík niður í -15 stig eða neðar. En lengst af fór vel með veður til landsins og heyskapur gekk vel. Ógæftir voru töluverðar til sjávarins. Skaðaveður voru í færra lagi. 

Hæsti hiti ársins mældist í Möðrudal þann 25.júní, 27,8 stig. Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi áður trúum við háum hitatölum í Möðrudal þessi árin illa - þó ekki sé efast um að hlýtt hefur verið í Möðrudal þennan dag. Næsthæsta talan er öllu trúlegri, 26,6 stig á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi þann 17.júlí og í Reykjavík fór hiti hæst í 24,7 stig sem var met sem stóð allt fram til ársins 2004 og er enn hæsti hiti sem mælst hefur í júnímánuði í Reykjavík. Kannski er þessi tala ekki alveg nákvæm að kröfum nútímans en óvenjuhlýtt var í Reykjavík þennan dag - ekki efi á því. Þann 9.júní fór hiti í Reykjavík í 22,3°C. Sú tala er í þriðjahæsta júníhitasætinu. 

Mest frost ársins mældist í Möðrudal þann 6.desember, -25,2 stig. Nóttina eftir fór frost í -20,0 stig í Reykjavík, en nokkur vafi er á sveimi varðandi þá mælingu. Líklega er að villa sé í úrvinnslu dönsku veðurstofunnar og að lágmarkið hafi í raun verið í kringum -15 stig, nóg samt. En við látum töluna samt standa þar til annað verður ákveðið. 

ar_1891t

Hiti í janúar og febrúar einkenndist af miklum sveiflum, snörp kuldaköst komu, en góðar hlákur á milli. Mesta kuldakast ársins gerði fyrri hluta marmánaðar og varð hann eins og áður sagði í hópi þeirra allraköldustu. Mjög leiðinlegt kuldakast gerði síðan seint í apríl og við tók heldur kaldur maímánuður með miklum þurrkum viðást hvar á landinu, en veður þóttu samt meinlaus lengst af. Mjög hlýir dagar komu í júlí eins og áður hefur verið minnst á. Hiti náði 20 stigum þrjá daga í Reykjavík. Aftur voru hlýindi í júlí, en ágúst og september nokkru kaldari. Mjög hlýir dagar komu í október en síðan haustaði að. Snemma í desember gerði snarpt kuldakast og frost mældist -20,0 stig í Reykjavík. 

Við leit fundust 20 mjög kaldir dagar í Reykjavík á árinu, þar af sjö í röð, 6. til 12.mars. Þrír kaldir dagar komu í röð 26. til 28.apríl með frosti um land allt. Þrír mjög kaldir dagar voru í Reykjavík í ágúst, þann 27. var hámarkshiti dagsins í Reykjavík aðeins 4,7 stig. Ekki er vitað um lægri hámarkshita dags í ágúst í Reykjavík. Í viðhenginu er listi yfir alla köldu dagana. En í Reykjavík voru líka á árinu fjórir mjög hlýir dagar, allir í júní, sá 9., 24., 25. og 27. 

Árið var mjög þurrt í Reykjavík, heildarúrkoma ekki nema 595 mm og litlu minni í Stykkishólmi. Það voru mars, maí og júní sem voru einna þurrastir að tiltölu. Sjá má mánaðarúrkomusummur í viðhenginu.

ar_1891p

Hæsti þrýstingur á landinu mældist í Vestmannaeyjum þann 14.janúar, 1051,1 hPa, en lægstur á sama stað þann 29.desember, 942,2 hPa. 

Við látum nú blaðafréttir lýsa atburðum ársins. Stafsetningu er oftast hnikað til nútímahorfs. 

Ísafold lýsir almennri tíð ársins 1891 í pistli þann 2.janúar 1892:

Það mátti heita, að árið 1891 gengi hvarvetna vel í garð. Sumstaðar var alauð jörð um nýársleytið, og hvergi snjóþyngsli, og framan af árinu mátti heita ágæt tíð, víðast hvar blíður og stillur, en sumstaðar hægir umhleypingar. Með góunni harðnaði eigi óvíða nokkuð um, og urðu allsnörp frostaköst og snjókomur nokkrar um hríð, en aldrei með aftökum, og má telja veturinn með mildari vetrum. Skepnuhöld urðu því víðast hvar góð, og urðu víða venju fremur heyfyrningar. Þó gáfust hey sumstaðar upp og skepnur drógust fram að kalla, er sjálfsagt hefir einkum stafað af ógætilegum ásetningi, þó að menn vildu um kenna skakviðrum. Vorið mátti og gott heita víðast hvar, enda var hafís eigi landfastur til lengdar og gerði enga tálmun. Gróður kom nokkuð seint. Þó varð grasvöxtur víðast í meðallagi og betur, og sumarið varð eitthvert hið ágætasta, og nýting heyja hin besta.

Haustveðuráttan mátti líka heita góð og vetrartíðin allt til þessa, þó að einstaka hretviðraköst hafi gjört, svo sem í Mýrdal og Álftaveri 17.september, og í Barðastrandarsýslu og Dala 5. október.,er almennur fjárskaði varð að. Þannig hefir árið mátt heita árgæsku-ár eitthvert hið mesta til landsins. Aflabrögð á opnum skipum hafa aftur viða verið með rýrasta móti, einkum kringum Faxaflóa og austur með landinu, og á Vestfjörðum. Þó var vorvertíðin allgóð í Grindavik og mikið góð í Höfnum og á Miðnesi. Undir Jökli (að norðan og sunnan) var mokfiski frá því nokkru fyrir páska og fram eftir sumri. Á Skagafirði og Eyjafirði var góður afli síðari hluta vorsins og fyrri hluta sumars. Í Múlasýslunum var dágóður fiskiafli all-lengi sumars, jafnvel landburður um tíma, einkum á djúpmiðum, og sumstaðar inn á fjörðum. Síldarafli var þar og talsverður í haust. Hákarlsafli brást mjög fyrir norðurlandi og á Ströndum næstliðið vor. En á Vestfjörðum var steinbítsafli góður (í júní) og heilagfiskisafli á Barðaströnd. 

Janúar: Mild og góð tíð.

Ísafold birti þann 17. bréf af Eyrarbakka, dagsett þann 8.:

Jafnvel þótt veðurátta hafi verið hér óstöðug í vetur, hefir hún samt mátt heita fremur góð, það sem af er. Nú er góð hláka, og hiti +6° á C í fyrradag, Annan og þriðja janúar reru hér nokkur skip, en öfluðu sárlítið, hæst 3 í hlut. Þá var og róið fyrir hákarl og öfluðu þeir dálítið betur. Síðan hefir ekki verið róið.

Þjóðviljinn birti þann 14.febrúar bréf úr Inndjúpi, dagsett 11.janúar:

Veðráttan sú sama og verið hefir, það sem af er vetrinum, sífelldar þíður og votviðri, svo að varla sér snjó nema í giljum, og alls 4 eða 5 daga, það sem af er vetrinum, hefir frost náð 7-8°R.

Þjóðviljinn segir frá Ísafirði þann 17.:

Vikutíma eftir nýjárið voru blíðviðrisstillur, en síðan óstöðug tíð, frost, snjókoma og blotar skipst á.

Þann 31. segir Þjóðviljinn:

Síðari hluta þessa mánaðar hefir verið fremur stormasamt, og frost nokkurt, mest 9-10 gr. Reaumur, frostleysur þó annað slagið.

Ísafold birti þann 31. bréf úr Húnavatnssýslu vestanverðri, dagsett 15.jan:

Tíðin hefir verið einmuna-góð nú lengi, en útlit fyrir, að nú sé að skipta um til lakara.

Þann 25.febrúar birti Ísafold bréf úr Þingeyjarsýslu dagsett 18.janúar:

Tíðarfar ágætt, má heita alauð jörð, oftast sunnan-hlákur, eða þá vestanátt með litlu frosti. Smá-austanhríðar hefir að vísu gjört, en þann snjó strax tekið upp aftur.

Þann 21.febrúar birti Ísafold bréf úr vestanverðri Barðastrandarsýslu, dagsett 23.janúar:

Um áramótin var alauð jörð í byggð og jörð nærri alþíð. Fyrstu 5 daga ársins var logn og blíðviðri, og að eins lítið frost suma dagana, 1 og 2 stig R. Þá fór aftur að bregða til storma og úrkomu, oftast rigningar, og suma daga lítils snjóar, til hins 18. þ.m.; en miklu voru veður yfir höfuð vægari og árfelli minni en fyrir hátíðar. 17. var enn alautt og vötn í byggð alleyst. En aðfaranótt hins 18. tók að snjóa, og þann dag (18.) var suðvestan stórviðri með allmikilli fannkomu; næstu daga lygndi, en nokkur fannkoma og frost allt að 11 gr. R., og svo hefir veðrátta haldist síðan, en áttin nú orðin hæg norðanátt, linara frost i dag, -2 til 4°, og engin fannkoma í gær né dag. Snjór er þó enn lítill á jörð og hagar nægir, en beit er orðin heldur létt eftir svo langar eyður.

Þann 28.febrúar birtist bréf, dagsett í Norður-Múlasýslu 22.janúar, í Ísafold:

Tíðin hefir verið mikið góð síðan ég skrifaði síðast, nema hvað nú í nokkra daga hefir verið norðanstormur og talsvert frost, allt að 14°R. Alauð jörð enn í byggð og úrkomur hér á Héraðinu að heita má engar, enda muna elstu menn varla eftir annarri eins öndvegistíð, eins og þeirri sem af er þessum vetri. Víðast nýfarið að hára ám, en hvergi farið að gefa geldu.

Þjóðólfur segir þann 23:

Þ.18. og 19.þ.m. kyngdi niður talsverðum snjó, 20. var norðangarður síðan stilling á veðri, en talsvert frost, allt að 13 stig á C.

Febrúar: Mild og góð tíð, snjólétt. Spilltist undir lok mánaðarins.

Þjóðólfur birti þann 6.mars bréf úr Dalasýslu, dagsett 2.febrúar:

Tíðarfarið er hér um sveitir hið ágætasta, hægviðri og blíður síðan á nýári og frost mjög lítil. Jörð er hvervetna nóg, þar eð snjólaust má heita upp á fjallabrúnir. 

Þjóðólfur birti þann 27. bréf frá Seyðisfirði, dagsett 2.febrúar:

Sama öndvegistíð má heita að haldist hafi síðastliðinn mánuð. Að vísu gerði hríðarskot 21 jan. með 11° frosti og féll þá nokkur snjór, en hann tók þegar upp aftur að mestu.

Ísafold birti þann 25. bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 10.febrúar:

Árið gekk hér mjög blíðlega í garð. Á nýársdag var jörð svo alauð hér um miðbik sýslunnar, að varla sást svell í flóum og ár yfirferðar eins og á sumardag. Margur hafði orð á því þennan dag, að eigi væri harðindalegra að horfa yfir landið en á haustdegi. Allan janúarmánuð mátti heita að hver dagurinn væri öðrum blíðari, og veðráttufar stöðugra en um jólaföstuna og fyrir hana. En síðan febrúar byrjaði virðist meiri vetrar-bragur kominn á tíðarfarið, og undanfarna daga hefir verið norðan-hríðarveður.

Þjóðólfur segir:

[13.] Tíðarfar má stöðugt heita ágætt um þennan tíma árs, yfir höfuð frostvægt og oft hlákur, þangað til síðustu daga, að talsvert frost hefur verið og nokkur snjór kominn.

[20.] Tíðarfar hefur norðanlands og vestan verið líkt og hér: nokkuð óstöðugt stundum, en frostvægt mjög og snjólítið; hagar allstaðar nógir.

Þann 28.febrúar birti Ísafold tvö bréf úr Skaftafellssýslu:

Skaftafellssýslu miðri 10.febrúar: Veðrátta hefir mátt heita mild og góð síðan ég skrifaði síðast, samt fremur umhleypingasöm. Um miðjan janúar gjörði nokkurt kuldakast, varð þá frost mest 7° á R. Nú er víða hart til haga; samt er lítill snjór en illa gerður.

Skaftafellssýslu vestanverðri 16. febrúar: Tíðin alltaf ágæt, oftast marar og frostleysur og auð jörð, þó hefir einstaka sinnum komið frost og snjógráði; kvað mest að því nú fyrir skömmu, setti þá niður nokkur snjó í vestan-éljum, en hann tók fljótt upp aftur. Í næstliðinni viku mun frostið hafa stigið um 8 stig á R. Hæst hefir frostið stigið hér um bil 13 st. á sama mæli; var það dagana 20.-25. janúar þ.á., þá svo sem tvo eða þrjá daga. Þó hefir verið bæði hrakviðra-og hvassviðrasamt; er því fénaður, einkum hross, farinn að láta hold. Þó hefir raunar verið mikil bót í máli, að hríðarveðrin hafa miklu fremur verið á nóttu en degi, en þó hefir það oft komið fyrir, að fénaður hefir á daginn orðið að hörfa heim í þeim. Lítið hefir orðið vart við trjáreka þó hin tíðu feikna-hafveður hafa verið til að flytja að landi, hefði nokkuð verið nálægt. Um annan reka er ekki að tala um þennan tíma árs, því síldar- og fiskigöngu er varla von enn þá.

Þjóðviljinn segir af tíð vestra í febrúar:

[14.] Tíðarfarið hefir verið mjög stirt, það sem af er þessum mánuði, oftast stórstormasamt, ýmist suðvestan eða norðanveður með töluverðri fannkomu og stundum blotar; frostið hefir orðið 8—10° R,. en í gær var 5° hiti.

[26.] Sama umhleypingatíðin helst enn, sífelld suðvestanveðrátta með frostleysum og blotum.

Norðurljósið á Akureyri segir af tíð þann 26.febrúar:

Veðrátta óvanalega mild en oft talsvert óstöðug hér nyrðra að undanförnu. Eitt hið mesta frost, sem komið hefir í vetur, var 11. þ.m. (14°R.) En daginn eftir var kominn 8° hiti. 16. þ.m. var hér ofsa suðvestan veður.

Fjallkonan birti þann 10.mars bréf úr Dalasýslu, dagsett 23.febrúar:

Það sem af er þessum vetri hefir mátt heita svo snjóa og frostalítið, að gamlir menn muna eigi hvorttveggja slíkt. Veturinn 1846-47 mun hafa verið snjómeiri framanaf, en frosthægur var hann, og á nokkrum bæjum í Miðdölum var þá ekki lömbum kennt heyát og gengu þó allvel undan; þá var mjög stillt veðrátta eftir nýár og fram úr, nema hið mikla skaðahret á góunni enn í vetur hafa verið bæði stormar og úrfelli — oftar rigningar, en snjókomur i mesta lagi fram að þorralokum. Einu sinni meira frost enn 8°, þá varð það 12°R.

Í Ísafold 25.mars birtist bréf úr Arnarfirði, dagsett 26.febrúar:

Tíðarfar hefur verið svo framúrskarandi óstöðugt í allan vetur, að furðu gegnir. Elstu menn muna ekki eftir öðrum eins umhleypingum, eins og gengið hafa hér í allan vetur frá því í októbermánuði. Snjór hefur aldrei komið til muna á jörð, heldur hafa sífellt gengið hellirigningar og ofsastormar. Jarðir hafa því verið nægilegar fyrir sauðfé og hesta, en oft, einkum á þorranum, hafa stórviðrin og rigningarnar verið svo ákafar, að engum hefur til hugar komið að láta út sauðfé og jafnvel ekki hesta. Hey hafa því verið gefin oft eins og í jarðleysum og hörkum, og hafa víst víðast gengið upp til muna. Frost hafa verið mjög væg, skarpasta frostið, sem komið hefur í vetur var 21. jan. 10° á R.

Mars: Köld tíð og harðindi um tíma.

Þann 3.apríl birti Þjóðólfur bréf úr Skagafirði, dagsett 2.mars:

Tíðarfarið hefur verið einkar gott i vetur. Sífeldar hlákur, að vísu oft rosafengnar. Vötn og ár hafa leyst, svo að Skagfirðingar, sem eru á vetrum vanir, að láta fáka sina fljúga fram og aftur eftir ísunum í lágsveitinni, hafa nú upp á siðkastið orðið að sætta sig við sumarvegina, og eru þeir þó oft ógreiðfærir.

Í sama blaði er einnig bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 1.mars:

Héðan er að frétta ágæta vetrartíð fram til þessa. Mun þessi vetur einstakur jafnvel um fleiri tugi ára, sökum þess, hve mildur hann hefur verið, frostalítill og snjólaus. Jörð alauð upp í fjallabrúnir. Komu að vísu nokkrir frostdagar um þorrakomu (12-14°R) mest, og svo aftur um miðþorra snjóaði einn dag, þó lítið, og næsta dag snarpt frost 11. febrúar, síðan brá aftur til suðvestanáttar og blíðu, sem hefur haldist síðan. Í dag er þó norðanátt og frost. Efri hluti Lagarfljóts skændi með þunnum ís 12. febrúar en rauf brátt ísinn aftur eftir tvo daga.

Fjallkonan segir 3.mars frá flóði í Ölfusá:

Flóð úr Ölfusá með hinum stórkostlegustu, hefir nýlega gengið yfir. Kaldaðarneshverfið varð allt á floti, og lá nærri að suma bæl tæki af, enn verulegt tjón hefir þó ekki orðið af því. Flóðið gekk upp í miðja brúarstöplana. [Ölfusárbrúin var í byggingu].

Þann 25.mars birti Ísafold bréf úr Strandasýslu, dagsett 6.mars:

Góð hefir tíðin verið síðan á nýárinu ekki síður en fyrir það; einlægar hlákur og þíður, svo að jörð var örísa í þorralok; þá mátti ríða hér flatjárnað eins og á sumardag, því þau litlu svell, sem eftir voru, voru meyr orðin eins og frauður. Síðan í fyrstu viku góu hefir aftur verið meiri vetrarbragur á tíðinni, og nú síðustu dagana norðanbylur með talsverðu frosti 8-10°R; nú er því kominn talsverður snjór, en hann hlýtur að fara fljótt, því gaddurinn er enginn.

Ísafold birti þann 18.mars bréf úr Strandasýslu sunnanverðri, dagsett 11.mars:

Síðan í byrjun febrúarmánaðar hefir tíðin oftast verið óstillt og fremur harðindaleg, útsunnanhroðar og rigningar miklar, þangað til í fyrstu viku góu, þá brá til stöðugrar fannkomu, fyrst af útsuðri í nokkra daga, en nú síðustu vikuna hafa verið norðanveður, allmikil flesta dagana með kafaldi og snörpu frosti; stundum t.d. 9.þ.m. 17° á R, og mun það vera mesta frost sem enn hefir komið á þessum vetri, því þessi vetur hefir verið mjög frostalítill og hagasamur. Nú er hér æði-mikill snjór og heldur illt á jörðu, þó mun vera nokkur hagi ef hægt væri að nota hann, en það hefir ekki verið nú í síðastliðnar 2 vikur, sökum frosta og kafalda.

Þann 25.mars segir Ísafold af Snæfellsnesi (dagsett 11.mars): „Tíð mjög slæm síðan 5.þ.m., sífelld harðvirðri og fannkomur“. 

Þann 28.mars birti Þjóðólfur einnig bréf af Snæfellsnesi dagsett þann 11.:

Síðan ég skrifaði seinast (í f.m.) hafa gengið hér einlægir umhleypingar, að kalla má. Til þ. 25. f.m. [febrúar] var alltaf sunnan og vestanátt, oft rok og rigning, mjög sjaldan frost eða kafald, (frá 18. til 25. var auð jörð og marþítt). Frá 25.f.m. til 6.þ.m. var oftast útsynningur með frosti og kafaldi en síðan hefur oftast verið norðanveður, stundum kafaldsbyljir; frost frá 6-10° R.; þó að hægð hafi stundum verið að morgni, hefur oft verið komið ófært veður að kveldi. 7., 9. og 10. þ.m. var róið bæði i Ólafsvík, Sandi og Keflavík og fiskast ágætlega vel (stundum allt að 60 í hlut á dag i tveimur róðrum) í þeim 2 síðastnefndu veiðistöðum, en í Ólafsvík best rúmir 20 í hlut á dag.

Einnig var í Þjóðólfi þann 28. bréf úr Dalasýslu, dagsett þann 11.mars:

Héðan er fátt í fréttum nema snjókoma mikil og slæm veðrátta hefur verið síðan með góubyrjun.

Ísafold birti 18.mars tíðarfarsyfirlit janúar og febrúarmánaða (og fram í mars) úr Vestmannaeyjum:

Veðráttan hefir síðan nýjár verið mjög storma- og umhleypingasöm, þó var vindhæðin í febrúar til jafnaðar meiri en í janúar, og síðan þessi mánuður hófst, hafa nálega verið sífelld rok, í febrúar blés vindur oftast úr suðurátt, en í þessum mánuði [mars] oftast úr norðri. Aðfaranótt hins 4. þ.m. [mars] var hér afspyrnurok á vestan sem gerði talsverðar skemmdir og skaða bæði á húsum, en sér í lagi á skipum, sem fuku nokkur, og brotnuðu meira og minna. Í janúar var til jafnaðar mjög hlýtt veður, mest næturfrost aðfaranótt h.21. -13,5°C, mestur dagshiti h.12. +9,2°, úrkoma var eigi ýkjamikil. Febrúar var einnig mjög hlýr, mest næturfrost aðfaranótt hins 11. -12,2°C, mestur dagshiti h.17. +9,4°, úrkoma var feiknamikil í þeim mánuði. Síðan þessi mánuður hófst, hafa oftast verið hörkufrost, frá 10-16 stig, mestur var gaddurinn aðfaranótt h.8 -16,6°C. Fyrstu 4 daga mánaðarins féll hér talsverður snjór og sömuleiðis aðfaranótt hins 10., en rokin hafa feykt meirihluta hans á burtu.

Þjóðólfur segir þann 13.mars:

Hvalveiðaskipið Nora kom hingað í aftakanorðanveðri í fyrrakveld vestan af Önundarfirði; fór þaðan á mánudaginn var [9.], komst vegna óveðurs ekki lengra þann dag en til Patreksfjarðar, fór þaðan í góðu veðri daginn eftir, en fékk seinna um daginn aftaka norðanveður með gaddhörku og lenti í mestu hættu, hélt sér í 13 tíma á ferð aftur og fram undir Jökli, missti þar annað akkerið og á leiðinni þaðan hingað inn tók út bát af því.

Þjóðviljinn birti tvo stutta tíðarpistla í mars:

[18.] Um síðustu mánaðamót snerist veðráttan til norðanáttar, og hafa síðan haldist norðanstormar allt af öðru hvoru með töluverðu frosti, 10-12 gráður R., uns til sunnanáttar sneri síðustu dagana.

[21.] Tíðarfar hefir snúist til sunnanáttar og frostleysu, og er jörð víða auð til sveita.

Ísafold birti þann 8.apríl tvo pistla úr Barðastrandarsýslu:

Barðastrandarsýslu vestanverðri 14. mars: Á þorranum var yfir höfuð besta tíðarfar, mjög lítill og stundum enginn snjór, og frost oftast mjög lítil, en óstillt veðrátta, eins og það, sem áður var liðið af vetrinum. Hæst frost varð 10.[febrúar] 13°R. En suma daga var aftur nokkur hiti, hæstur á þorraþrælinn 6°R [21.febrúar]. Þá var jörð alauð í byggð og allt vatn leyst. Þrjá fyrstu daga góu hélst sama veðrátta, þíða og blíðviðri, 6°R góudaginn fyrsta [22.]. En þá fór að frysta og snjóa. Og með marsbyrjun eða viku af góu harðnaði veðráttan allmikið og tók að snjóa meira. Þannig var dagana 1.-12. allhart frost oftast, eða frá 8—13°R, og fannkoma töluverð suma dagana. Í gær [13.] linaði aftur frostið, og var þá jafnvel 3 stiga hiti um hádaginn, og í dag er lítið frost. Snjór er sem stendur töluverður á jörðu. Þó er enn góð beit fyrir skepnur þegar gefur að nota hana sökum kulda eða óveðurs. Stilling er enn engin í veðri, og stormar hafa allmiklir verið allt til þessa, oftast af suðri, en þó nokkra daga síðan um daginn af norðri.

Barðastrandarsýslu sunnanverðri 28.mars: Veðurátt frá nýári var mjög umhleypingasöm, oft við sunnan og vestan, stundum með talsverðri fannkomu, og stundum þíðu, þess á milli norðaníköst með kófköföldum og frosti, allt að 12 til 14 stiga frosti á R, en þau íköst stóðu ekki lengi; fyrstu vikuna af góu fannfergju-útsynningur; þá kom stöðug norðanátt, sem helst enn, stundum með kófköföldum og frosti, allt að 15 st. R á milli.

Þann 25.apríl birti Ísafold pistil úr Rangárvallasýslu, dagsettan 31.mars:

Eftir 3 vikna gaddveður af norðri er nú kominn góður veðrabati, enda kemur það sér vel, því margur er tæpt staddur með hey handa fénaði sínum að vonum, því slátturinn varð endasleppur; sumir náðu engum heybagga í garð frá því 9 vikur voru af sumri.

Fjallkonan segir þann 7.apríl:

Fjárskaði varð 25.[mars] að Öndverðanesi í Grímsnesi; hraktist yfir 30 sauðfjár í Hvítá.

Þann 10.apríl birti Þjóðólfur hafísfréttir frá því í mars:

Þingeyjarsýslu 19.mars: „Hafísjakar sjást úti fyrir Axarfirði og Skjálfanda“. Hrútafirði 31.mars: „Harðindaveðrátta að undanförnu, oft með stórhríðum, allt til 27. þ.m; þá birti upp og var þá kominn hafíshroði um allan Húnaflóa svo langt sem sést hér innan að. Frosthörkur voru aldrei miklar, meðan ís þennan var að reka að, oftast ekki meira en 8°R. við sjó. Er því vonandi, að ís þessi sé ekki mikill, enda er hann mestur „mulningar". Síðan á páskadag [29.mars] hefur verið gott veður, í gær og í dag sunnanátt og hlýindi; ísinn rekinn frá landi“. Frá Ísafirði 22. f.m.: „Ísinn er kominn yfir því nær allt Djúpið fjalla á milli fyrir utan Bolungarvík". Bjarndýr kom með ísnum á Strandir, og var það skotið skömmu síðar.

Norðurljósið segir af hafís þann 31.mars:

Hafís rak hér inn á fjörðinn [Eyjafjörð] á skírdag [26.mars] og föstudaginn langa og fyllti hann. Í dag hefir honum aftur kippt út, svo fremur eru líkur til að eigi séu hafþök, og haft er það eftir manni frá Hámundarstöðum, sem gekk til fjalls á laugardaginn fyrir páska [28.], að íslaust hafi þá verið á Grímseyjarsundi, og það er hann sá til hafs austur og vestur. Með ísnum kom talsvert af höfrungum og hnísum, en lítil björg varð að því, því meginhlutinn mun hafa kafnað undir ísnum, af því að í frostunum lagði sjóinn milli hafísjakanna.

Apríl: Fremur kalt og þurrt, tíð þó ekki talin vond.

Þann 2.maí birti Ísafold fréttir af höfrungaveiði og hafís í Skagafirði, dagsettar 3.apríl:

Dagana 23.-26.[mars] var harðneskju norðanhríð með miklu frosti, en á föstudaginn langa (27.), er upp var birt, var töluverður ís kominn inn á fjörðinn. Með honum kom mikið af höfrungum, og lentu þeir nær allir á Reykjum á Reykjaströnd; voru þeir drepnir yfir 200 fyrst, en síðar voru þeir veiddir dauðir þar upp undir landsteinum, og er mælt, að nær 900 hafi náðst þar alls; hafa mjög margir verið að sögn nálega 4 álnum á lengd, og verið flestir, er seldir hafa verið, seldir 5-6 krónur hver. Á morgun á að selja mjög marga á uppboði fyrir landssjóð, þar eð Reykir er klausturjörð. Á Sauðárkrók náðust sextán; þrjá rak á Sjávarborgarsandi, og víðar 1-3 í hverjum stað. Síðan annan í páskum [30.mars] hefir verið stillt og blítt veður, og ísinn hvarf aftur 31.f.m. (þriðja í páskum). Hafa menn því átt hægt með að færa sér hið mikla höfrungahapp vel í nyt.

Þjóðólfur segir frá tíð og miklu illviðri í pistli þann 17.apríl:

Tíðarfar hefur yfir höfuð verið milt í vetur og hagleysur ekki miklar; einna harðast í mars víðast á landinu. Þennan mánuð [apríl] oftast þítt og úrkomulítið veður. Hafísinn hafði rekið víða að Norðurlandi og jafnvel Austurlandi, en eigi mikil1; varð Thyru lítið til tálmunar; frá Vesturlandi var hann farinn, er hún fór þar um.

Ofsaveður eitthvert hið mesta, sem menn muna, gerði hér á sunnudagskveldið var (12. apríl], af austri; veður þetta gerði stórtjón bæði á sjó og landi. Mörg skip á Reykjavikurhöfn sleit upp og rákust þau saman og skemmdust meir og minna. Frakkneskt briggskip, sein kom hingað með vistir til frakkneskra fiskiskipa og átti að flytja fisk úr þeim til baka, strandaði í þessu veðri og verður selt 22. þ.m. Tvær frakkneskar og 2 íslenskar fiskiskútur skemmdust einnig talsvert; þær frakknesku verða ef til vill að strandi. Bátar fuku og þök af húsum á stöku stað. Til allrar hamingju stóð veðrið ekki nema 2-3 stundir frá kl.9 til 12. 

Þann 15.maí segir Þjóðólfur: „Í ofsaveðrinu aðfaranótt 13. f.m. strandaði þilskipið Sjolífið á Geirseyri fyrir vestan“.

Fjallkonan segir þann 14.apríl af illviðrinu að kvöldi þess 12.:

Ofsarok gerði á landnorðan, sem mun hafa gert meiri skaða, enn til spurt er enn. Þrjú frönsk fiskiskip, er lágu á Reykjavíkurhöfn, tvær skonnortur og briggskip, rak að Örfirisey og verða líklega að strandi, með því tveir af skipstjórunum hafa líka látið í ljós, að menn hér gætu ekki leyst af hendi stórviðgerðir á hafskipum svo treystandi væri. Ýms íslensk fiskiskip, sem lágu á höfninni, og kaupför biðu og skaða, og í landi brotnaði eitthvað af skipum og bátum. Þak fauk af geymsluhúsi í Holti við Reykjavík. Í þessu veðri fauk og þak af Bessastaðakirkju. Versta rokið stoð hér um bil í 3 tíma.

Þjóðviljinn á Ísafirði segir frá þann 18.:

Dymbilvikuna til langafrjádagskvölds [27.mars] stóð norðangarður með 8-10 gr. frosti (Reaumur), en eftir páska hafa verið stillur og sunnanveðrátta, nema hríðarskot og snjó mikinn gerði 7.-8. þ.m.; aðfaranóttina 13. þ.m. var aftaka suðvestanstormur.

Norskur galeas, Caristine frá. Stavanger, skipstjóri Tönnesen, er kom hingað í öndverðum þessum mánuði með salt og kol frá Englandi til verslunar LA Snorrasonar kaupmanns, hvolfdi hér á höfninni i ofsa-aftaka-suðvestanveðrinu aðfaranóttina 13. þ.m. og fórust allir skipsmennirnir, 5 að tölu. — Skipið hafði að öllu verið affermt, og átti að hreinsast daginn saltfisksfarmi þeim, er L.A. Snorrason kaupmaður hefir átt geymdan hér i vetur, af því að skip hans, er taka átti fiskinn, fórst næst liðið haust á uppsiglingu hingað frá Englandi, svo að eigi hefir til spurst. Skipið lá, sem að ofan sagt, galtómt á höfninni. Og höfðu hlutaðeigendur eigi hirt um að láta í það seglfestu; var því eigi furða, þó að það eigi bæri af það aftakaveður, sem á var. og hafa menn eigi sögur af, hvernig slysið atvikaðist, nema um morguninn, er kaupstaðarbúar risu úr rekkju, þá sást skipið á hvolfi hér í sundinu, og stóð lítið meira en kjölurinn upp úr sjónum. Lik skipstjóra og stýrimanns hafa fundist rekin á Eyrarhlið, en lík hásetanna eru ófundin. Ekki hefir enn tekist að snúa skipinu við, enda er það fast fyrir, þar sem annað mastrið hefir greypst ofan í sjávarbotninn. Einn hvalveiðagufubáturinn reyndi að snúa því á kjöl, en það mistókst. Í sama ofsaveðrinu ráku á land ýms skip á Flateyrarhöfn, og víðar urðu skemmdir nokkrar, en þó eigi svo, að mikið kvæði að, eftir því sem enn hefir til spurst.

Norðurljósið segir af hafís þann 16.apríl:

Thyra kom hingað að kvöldi þess 4. þ.m. Varð hún vör við ís alla leið austan með landi, en mestur var hann fyrir Langanesi og Melrakkasléttu og víða svo þéttan að hún varð að þrengja sér fram á milli jakanna. Hér á höfninni lá lagís og renndi hún sér í gegnum hann inn á vanalega skipalegu, beint fram af hafnarbryggjunni. Þykir mönnum að kapteinn Hovgaard hafa sýnt mikinn ötulleik í þessari ferð. ... Úr páskunum hlýnaði hér veðráttu og gekk til suðurs. Rak þá ísinn nokkuð frá landi.

Þjóðólfur birti þann 5.maí bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 14.apríl:

Tíðarfar gott; að vísu var hríðabálkur frá því snemma á góu og fram að páskum, en snjókomur voru litlar, og auð jörð áður, svo aldrei þraut hagbeit þá er út gaf. Sumir gaddhestar hafa gengið af, sem er fremur fágætt, og margir teknir á þorra og góu í haustholdum. Síðan um páska hefur tíðin verið mjög góð og hina síðustu daga talsverðar þíður, enda er nú snjór og klaki á förum víðast hvar. Hafíshroða rak inn strax í góuhríðunum, og svo enn meira í hríðarbyl, er gerði í vikunni fyrir páska. Fylgdi ísnum mestu ógrynni af höfrungi.

Norðurljósið segir þann 25.: „Veðurblíða er nú hin mesta daglega. Farinn að sjást gróður í jörð“. 

Þjóðólfur segir þann 25.apríl:

Tíðarfar hefur verið ágætt síðan á páskum. Veturinn kvaddi og sumarið gekk í garð með einmuna veðurblíðu.

Þann 2.maí birti Ísafold fréttir úr Húnavatnssýslu vestanverðri, dagsettar 24.apríl:

Tíðin hefir nú um tíma, eða síðan á páskum, alltaf verið æskilega góð, að undanteknu lítilfjörlegu norðankasti (8. og 9. þ. m.); kom þá snjór allmikill, en frost var mjög lítið: 2° á R. Nú er þegar farið að sjást nokkuð fyrir gróðri. Í hörðu norðanveðri rétt fyrir páskana rak hafís inn á Hrútafjörð, en hvarf allur aftur eftir fáa daga og hefir ekki sést síðan. Þessi vetur sem nú er á enda, má sjálfsagt teljast með bestu vetrum, einkum hvað haga snertir, því hér hefir t.d. aldrei tekið fyrir haga í vetur og er það óvanalegt; og það var að eins lítill tími (á góunni), sem ekki var hægt að beita, sökum illviðra, og þar að auki nokkrir hríðardagar, en þó fáir.

Þann 9.maí birti Ísafold pistil úr Vestmannaeyjum dagsettan 27.apríl - þá var sérlega kalt:

Síðan ég skrifaði Ísafold 11.[mars] hefir veðrátta verið þannig, að hörð frost héldust nálega stöðugt fram undir lok mánaðarins. Vindstaða var oftast norðlæg og vindhæð að jafnaði mikil; harðast var frostið á skírdagsnótt [26.mars] -11,5; þá nótt og allan skírdag var hér afspyrnurok á norðan nóttina sem gufuskipið Anna var hættast komið. Í þessum mánuði hefir veðrátta verið mjög hlý þangað til í fyrrinótt, þá snjóaði nokkuð, frostið var -3,5 og í nótt leið var það -6,2. Fremur hefir verið vindasamt í þessum mánuði, og vindstaðan af ýmsum áttum. Að kvöldi hins 12. gjörði aftakarok á austan, svo kaupskipin slitnuðu upp á höfninni, en urðu fest aftur. Síðan þann 17. hefir verið fremur vindhægt (þann 19. og 20. logn). Allan síðari hluta marsmánaðar kom varla dropi úr lofti, en í þessum mánuði hefir talsvert rignt með köflum.

Þjóðólfur segir þann 1.maí:

Á laugardaginn fyrsta í sumri (25.apríl) gerði hér norðangarð með talsverðu frosti, sem stóð þangað til í fyrra kveld að gerði aftur kyrrt og gott veður, en er þó við norður enn.

Þjóðólfur segir þann 5.maí frá bréfi úr Árnessýslu sem dagsett er 28.apríl:

Norðankuldi með miklu frosti byrjaði hér 25.þ.m. og stendur enn, þó ívið vægara í dag. Áður höfðu staðið blíðviðri og þurrviðri síðan á páskum.

Maí: Fremur kalt, óvenju þurrt.

Þjóðviljinn á Ísafirði segir af tíð þann 6.maí:

Undanfarna daga hefir verið kalsa norðan veðrátta með nokkurri snjóföl. Mikinn hafíshroða sögðu ameríkanskir sjómenn, er hingað komu 3. þ.m. skammt úti fyrir, rétt undan Ritnum.

Norðurljósið birti þann 28.maí bréf af Sléttu, dagsett þann 7.maí:

Hvað tíðarfarið snertir þá hefir veturinn mátt kallast einn af þeim bestu vetrum sem hér hafa komið. Allt þangað til snemma í marsmánuði var alltaf frostlítið eða frostlaust og snjór kom aldrei til muna, enda tók hann jafnóðum aftur, að kalla. En þó tíðin væri þannig mjög góð, var hún fremur óstillt og vindasöm. Með marsmánaðarbyrjun breyttist tíðarfarið töluvert, þá setti niður allmikinn snjó með frostkomu og þá sáu menn fyrst hafísinn, sem þó hvarflaði frá en kom þó aftur um páskaleytið. Marsmánuður var langlakasti mánuður vetrarins hvað tíðarfarið snertir. Snemma í apríl fór ísinn burt í annað sinn. Meiri hluta þess mánaðar var tíðin góð, þannig voru þá kornin hlýindi svo að um 22. apríl t.d. var 8 gr. hiti. En rétt á eftir breyttist tíðin og kuldarnir komu aftur sem síðan hafa haldist til þessa. Ísinn kom á ný snemma í þ.m. og virðist nú vera sestur að fyrir alvöru. Sem stendur er útlitið með tíðarfarið mjög ískyggilegt, sífeldir kuldar og hríðarveður, og hafísinn fyllir hverja vik og voga, en þegar hafísinn kemur svona seint. er hann löngum þrásætinn. Skip, sem komu snemma til Norðurlandsins mega því hrósa happi að hafa komist þangað sem þau ætluðu og þaðan aftur áleiðis til útlanda, áður en ísinn hefti allar slíkar ferðir.

Þjóðólfur segir þann 8.maí:

Kuldar og hvassviðri ýmist á norðan eða austan hafa gengið síðan á sumarmálum, oft með allmiklu frosti.

Þann 15. segir Þjóðólfur: „Tíðarfar fór að hlýna 8.þ.m.; hefur síðan verið allgott vorveður með regnskúrum við og við og jörð farin að grænka. Í dag aftur norðankuldi“.

Í sama blaði er pistill úr Rangárvallasýslu, dagsettur 5.maí:

Hörmulegt er að vita til þess, hversu sandfokið heldur stöðugt áfram að eyðileggja bestu jarðir hér. Nú um næstliðin mánaðamót gerði ofsaveður á landnorðan, sem eru skaðlegustu veðrin með sandfokið. Má telja víst, að það hafi gert töluverðar skemmdir víða ofan til á Rangárvöllum, á Landi og jafnvel í Landeyjunum.

Þjóðólfur birti 12.júní bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 21.maí:

Tíðin er köld og hefur verið í allt vor, en hvorki getur heitið óstilling né úrkomur. Gróður er mjög lítill sökum kuldanna. Ísinn er ekki sjáanlegur hér úti fyrir Skjálfanda, en kuldarnir og stöðug norðanátt virðist benda til að hann sé nærri. Fénaður er víða orðinn grannur eftir alla beitina í vetur, þegar vorkuldarnir bættust ofan á. Samt munu skepnuhöld verða sæmileg.

Þjóðólfur segir frá hafís og tíð þann 29.:

Hafís er mikill fyrir Norðurlandi, en þó eigi landfastur, svo að frést hafi. Tíðarfar er fremur kalt; stöðug norðanátt, sífeldir þurrkar; gróðurleysi mikið. Sama að frétta að norðan, eða enda kaldari tíð þar og meira gróðurleysi, sem við er að búast.

Þjóðviljinn segir af tíð þann 28.maí:

Tíðarfar hefir fram yfir miðjan þennan mánuð verið fremur kalsasamt, 1-3 gr. frost um nætur; þessa dagana síðustu hefir aftur á móti verið nokkru hlýrra veður, og eru tún ögn farin að litkast.

Ísafold birti þann 20.júní bréf úr Barðastrandarsýslu sunnanverðri, dagsett 28.maí:

Veðuráttin hefir yfir höfuð mátt heita góð í vor, þó hún hafi einlægt verið fremur köld og stundum umhleypingasöm. Vegna vorkuldanna hefir þetta vor verið eitt hið gróðurminnsta; grænn litur sást ekki á túnum fyrr en í 5. viku sumars og sauðgróður kom ekki fyrr en með 6. vikunni.

Í sama blaði er einnig bréf úr Strandasýslu, dagsett 3.júní:

Tíðin hefir verið köld oftast og er því gróður heldur lítill; ís hefir verið að flækjast öðru hverju hér inn með Ströndunum, þó hefir hann eigi hindrað siglingar og nú sem stendur er hann horfinn.

Júní: Gott grasveður og tíð talin góð.

Þann 20.júní birti Ísafold tíðarfréttir úr Vestmannaeyjum (lítillega styttar hér), dagsettar 9.júní og segja aðallega af maítíðinni:

Umliðinn maímánuður var fremur kaldur og þurrviðrasamur, ... Úrkoma var allan mánuðinn aðeins 47 millimetrar, og hefir hér ekki komið deigur dropi úr lofti frá 22. maí til þessa dags, svo að sárilla lítur út með grassprettu og garðrækt, jörð sumstaðar jafnvel farin að brenna af þurrki og hita, því að síðustu viku hefir verið vel heitt á daginn, í gær +18°. Maímánuður var allur fremur vindasamur, gengu austanáttir um byrjun og lok mánaðarins, en vestan- og norðanáttir um miðbik hans. Ofsarok á austan var 4., 5. og 6. maí, svo og 1. [júní] Gæftir á sjó hafa því verið mjög stirðar og lítill afli.

Fjallkonan birti þann 16. bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett þann 11.:

Veðrátta hefir verið hér mjög óhagstæð frá sumarmálum. Allan maímánuð og það sem af er þ.m. hefir mátt heita sífeld þurrkatíð, og fremur vindasamt til maíloka, og stirðar sjógæftir til þess nú fyrir skömmu. Grasvöxtur er mjög lítill vegna þurrkanna. Kálgarðar, sem sáð var fræi í, eru eyðilagðir af þurrki og austanstormi þeim sem kom hér 1. þ.m. 

Ísafold birti þann 27.júní bréf úr Barðastrandarsýslu, dagsett 17.júní:

Veðráttufar hefir síðan um Trínitatis [24.maí] verið ágætt, hver dagurinn öðrum blíðari og betri nú í fullan mánuð, hlýviðri bið mesta, venjulega 10-12°R hæstan daginn, og suma daga allt að 14°, kyrrð og stilling á hverjum degi, en varla komið dropi úr lofti allan þennan tíma. Fram að Trínitatis var aftur á móti kalt í veðri, frost um nætur öðru hvoru, en snjóaði á fjöll. Sökum hinna sífelldu þurrviðra hefir gróður orðið minni en ella mundi orðið hafa. Þó eru raklend tún allvel á veg komin, en á harðlendum túnum hefir legið við að brenna af. Úthagi er víðast grænn orðinn.

Þann 2.júlí birti Þjóðólfur tvö bréf dagsett þann 17.júní:

Norður-Múlasýslu 17. júni: Tíðarfarið var hið hagstæðasta fram að kongsbænadegi [24.apríl], en á honum skipti til kulda veðráttu, sjaldnast með teljandi úrkomu, er hélst til fardaga; er nú komin fremur hlý tíð, en úrkomur alls engar og lítur því eigi vel út með grasvöxt, sér í lagi á túnum. Heyleifar eru með mesta móti og gripahöld í besta lagi. Slys varð af snjóflóði á Þórsdalsheiði milli Reyðarfjarðar og Skriðdals. Maður nokkur úr Skriðdal var á heimleið og missti 2 eða 3 hesta í snjóflóð með burði, en komst sjálfur af með naumindum. [Í riti Ólafs Jónssonar, Skriðuföll og snjóflóð, er eftir dagbókarheimildum sagt að um aurskriðu hafi verið að ræða].

Þingeyjarsýslu 17. júní: Tíðarfarið hefur verið framúrskarandi þurrt, en stillt; oftast frost á nóttum en sólskin um daga. Jörð er því allvíða ýmist brunnin eða kalin. Sumstaðar, þar sem ekki hefur verið hægt að veita vatni á engi, sést ekki grænkuvottur, svo horfurnar með sprettuna mega heita mjög slæmar.

Í grein um jarðrækt sem birtist í Norðurljósinu þann 22.desember segir af eyfirsku illviðri í júní:

Garðrækt misheppnaðist víða hér um pláss þó var það mjög misjafnt, mest eftir legu garðanna og umbúnaði. Hið fyrsta, sem má telja orsök þessa var ofsa hvassviður sunnan og vestan 20. júnímánaðar, fauk þá sumstaðar svo mjög i görðum að gjöreyddist, þar sem garðarnir voru áveðurs og illa girtir, jurtirnar ungar og veikbyggðar.

Þjóðólfur talar vel um tíðina í pistli þann 19.júní:

Seinustu daga hefur rignt endrum og sinnum en jafnframt verið hlýindi, og er því grasveður besta. Gæftir góðar, en litið vill aflast.

Ísafold segir af hita og blíðu í pistli þann 27.júní:

Frábær veðurblíða með fádæma sólarhita hefir haldist hér um hríð, ... Vegna hita og náttfalls hefir grasvexti farið mjög fram á skömmum tíma, og eru tún sprottin í meðallagi og þaðan af betur sumstaðar hér um sveitir, þrátt fyrir mikil þurrviðri og kulda framan af vorinu. Votlendi er þar á móti illa sprottið; hefir þornað um of. Hér í Reykjavík var farið að slá túnbletti um 20. þ.m., og er það meðal-sláttarbyrjun hér; stöku sinnum nokkuð fyrr, — nema kvað Austurvöllur var í fyrra sleginn 31.maí, fullsprottinn, en það er einsdæmi. Lengra að er að frétta líkt tíðarfar, og líkur fyrir góðan grasvöxt, þótt seint byrjaði í vor.

ar_1891-hitabylgja

Myndin sýnir hita sem lesinn var af sírita á veðurstöðinni í Reykjavík - galli virðist hafa verið í ritanum fram eftir degi þann 24. þegar hitinn varð hvað mestur. 

Jónas Jónassen segir í yfirliti sínu þann 24. og 27.júní:

[24. hitabylgjudaginn] Hinn 20. var hér rokhvasst á sunnan og sama veður næsta dag, en miklu vægari og með regnskúrum, komið logn um kveldið, hefur síðan verið við sunnanátt, hægur, og við og við með regni. Í dag 24. austan, nokkuð hvass en bjart sólskin. (Kl.8 +18°).

[27.] Laugardaginn [Jónas á greinilega við miðvikudaginn 24. - því 27.var laugardagur] var hér austan-landsynningur og ákafur hiti í loftinu; hefir síðan verið svo að kalla logn og mesta blíða.

Ísafold birti þann 11.júlí bréf af Eyrarbakka, dagsett þann 1.:

Síðustu tvo mánuði, maí og júnímánuð, hefir veðrátta verið mjög þurrviðrasöm, en hefir þó að öllu samtöldu verið góð, að fráteknu kuldakastinu, er hann gerði millum 25. apríl og 5. maí. Úrkoma hefir verið mjög lítil, og hefir verið að því stór bagi hvað viðvíkur grasvextinum, Þann 23.-27. júní var hér venju fremur heitt, og soðnaði þá töluvert af hálfþurrum saltfiski hjá þeim, er höfðu hann breiddan þá daga.

Þann 15.júlí birti Ísafold bréf úr Mýrdal, dagsett í júní:

Fénaðarhöld voru hér fremur góð í vor og heybirgðir nægar hjá allflestum, enda var veturinn einhver hinn besti og blíðasti, sem menn muna. Veðrátta hefir verið mjög þurrviðrasöm í vor, svo grasvöxtur hefir verið með lakara móti, enda hnekkti honum mjög norðankast, sem kom rétt eftir sumarmálin. Gerði þá svo mikinn snjó, að hér fennti fé sumstaðar á fjallgörðum, og enda rétt hjá bæjum. Nú um þessa daga hefir brugðið til sunnanáttar með hægri vætu, og getur það mikið lagað grasvöxtinn, ef hún héldist með spekt.

Júlí: Hagstæð og blíð tíð.

Þann 5.ágúst birti Ísafold bréf úr Suður-Múlasýslu, dagsett 12.júlí:

Sumartíðin, hefur verið ágæt frá 20. maí þangað til nú, en grasspretta er í lakara lagi sökum stöðugra og langvinnra þurrka. En í gær brá til vætu, og geta tún og engi tekið bótum enn, þar sem þau eru ekki brunnin til skemmda, eins og sagt er að eigi sér stað sumstaðar í Fljótsdalshéraði.

Ísafold birtir þann 5.ágúst bréf úr Skaftafellssýslu miðri, dagsett 26.júlí:

Tíðin hefir síðan um sumarmál verið sérstaklega þurrkasöm, svo varla hefir deigur dropi komið úr lofti. Jörð tók því seint til að spretta, en tók góðum framförum þegar fram á vorið kom. Jörð mun nú nálægt því sprottin í meðallagi eða naumast það.

Þjóðólfur birti þann 24.júlí bréf úr Strandasýslu norðanverðri, dagsett 1.júlí:

Fáar eru fréttir héðan úr sveitinni. Veturinn var einhver hinn snjóaminnsti, sem hér kemur, en fjarskalega vinda- og slagasamur. Vorið, eftir því sem hér er um að gjöra, eitthvert hið besta, svo vonandi er að viðast byrji sláttur núna i 11. viku og munar það nokkuð frá því, þegar ekki hefur orðið byrjað fyrri en i 15.—16. viku sumars.

Einnig er í sama blaði bréf frá Ísafirði, dagsett 7.júlí:

Nú í langa tíð hefur hér verið blíðviðri, hiti og logn; Fiskarar allir segja hafís 5-10 mílur undan Horni. Heilsufar manna gott, grasvöxtur í góðu meðallagi, og stöku menn farnir að slá.

Þjóðólfur segir af tíð þann 24.júlí:

Tíðarfar hefur verið vætusamt allan þennan mánuð, nema dag og dag í bili þurrkur. Með póstum, sem nú eru nýkomnir, að frétta líka tíð, nema þurrkar ef til vill meiri norðanlands. Grasvöxtur er yfir höfuð góður þar sem til hefur spurst, nema í Þingeyjar- og Múlasýslum með versta móti sakir stöðugra þurrka allt til júnímánaðarloka.

Ágúst: Hagstæð og blíð tíð, þó komu mjög svalir dagar við norðurströndina.

Austri segir í pistli þann 10.ágúst:

Tíðarfar hefir hér austanlands verið hið indælasta það af er sumrinu, einlæg blíðviðri sólskin og hitar í mesta lagi, en óvanalega litlar úrkomur, svo tún hafa i uppsveitum
nokkuð brunnið, en í fjörðunum munu þau í besta lagi sprottin, því hér eru þokur meiri og úrkoma en til héraðs.

Ísafold birti þann 29.ágúst bréf úr Barðastrandarsýslu sunnanverðri, dagsett þann 16.:

Veðrátta ágæt það af er þessu sumri, oft stillur og hægviðri, óþerrasamt framan af túnaslætti sem byrjaði í 11. viku sumars, náðust þó töður inn lítið skemmdar, því þerridagar komu á milli; síðan kom fram í ágúst, má heita þerrasamt; óvanamiklir hitadagar hafa komið á milli í þessum mánuðum, og enda í júní þann 24. var 36 st. hiti á R. móti sól; aftur í annar viku ágústmánaðar var næturfrost og hélufall í byggð og gránaði af snjó til fjalla, enda var þá. austnorðan-hrina. Í þessari góðviðratíð gengur heyskapur vel fram, því tún voru mjög vel sprottin, og engjar í góðu meðallagi, sumstaðar betur; á sumum stöðum kvað votar engjar hafa brugðist; yfir höfuð lítur út fyrir góð heysöfn hjá almenningi, ef tíðin ekki verður því bágari sem eftir er af heyvinnutímanum.

Þann 22.ágúst birtir Ísafold klausu undir fyrirsögninni „Árgæskan“:

Tamara er oss óneitanlega að færa í letur frásögur um harðindi, hrakfarir og bágindi hér á landi heldur en árgæsku og velsæld. Það er eins og það þyki ósögulegt, ef ekkert er að tíðinni, sem kallað er, þá er bara þagað að jafnaði. Fyrir tíu orð um illviðri eða óhagstæða veðráttu heyrist naumast eitt um hitt, þegar flest leikur í lyndi. Þetta sumar, sem nú er langt á liðið, hefir verið eitthvert hið blíðasta og hagstæðasta, er menn muna hér á landi. Á stöku stað er talað um nokkurn grasbrest a túnum, þar sem mjög snemma var byrjaður sláttur, og eins á votengi, sem ekki sprettur í miklum þurrkum. En fyrirtaksnýting hefir bætt þann brest svo, að meðalári nemur efalaust. Og þar sem gróðurinn hefir ekki brostið, heldur orðið í betra og jafnvel í besta lagi, en það er um meiri hluta lands, að því er næst verður komist, þar hefir nýtingin, þetta jafnóðum af ljánum, sem kallað er, gert fyrirtaks heyskap hjá öllum almenningi.

Athyglisverð er smáklausa í Austra þann 31.ágúst:

Veðrátta hefir hér verið að jafnaði síðustu 10 árin í meðallagi, eftir því sem gjörist hér á Íslandi. Ísár 1882, 1887 og 1888, en aftur enginn hafís hin árin og góðæri; og er vonandi að næstu 10 ár verði ekki verri.

Þann 18.september birti Þjóðólfur bréf úr Vestur-Skaftafellssýslu, dagsett 31.ágúst:

Hér ber fátt til tíðinda, nema besta sumartíð síðan slátturinn byrjaði; hann byrjaði almennt hér i sveit 15. og 16. júlí, og mun framar venju vera velfenginn heyskapur hjá almenningi fram að þessum tíma, en nú lítur út fyrir, að sláttur verði endasleppur, því stormur og rigning byrjaði hér 23. þ.m., er stóð í 3 daga, svo flestar mýrar rogafylltust.

September: Hagstæð tíð lengst af.

Þjóðviljinn á Ísafirði segir af tíð þann 9.september:

Eftir norðangjóstinn, er gerði um mánaðamótin síðustu, er aftur komin sama öndvegistíðin, sem verið hefir i sumar.

Austri segir af rigningum þann 10.september:

Hér hafa gengið miklar rigningar austanlands á fjórðu viku með fárra daga uppstyttu í milli, einkum hér niðri í fjörðunum. Hafa þessi votviðri mjög hamlað þurrki í fiski, er mikið er til af enn óverkað; en heyi munu menn víðast hafa náð inn með allgóðri nýting.

Ísafold birti þann 28.október bréf úr Barðastrandarsýslu vestanverðri, dagsett þann 16.september:

Sama blíðviðrið hélst út ágústmánuð og fram í byrjun þessa mánaðar, lítil deyfa stöku daga, en allt af nægur þerrir á milli, hægviðri og oftast 12 til 13° hiti um hádegi, hæst 16°R (12. og 19.). En nú um, hálfan mánuð hefir yfir höfuð verið vætutíð, og nokkuð kaldara, frost nokkrar nætur, og nú í nótt kafaldskrapi, oftast þó hægviðri, stormur 13. þ.m. og í gær sunnan- suðaustan. Hægð og deyfð í dag og 7 stiga hiti að morgni.

Þjóðólfur segir frá haustlegri tíð þann 18.:

Tíðarfar farið að verða haustlegt; rigningar miklar um og eftir síðustu helgi, síðan norðanveður með næturfrosti. Heyskapur í besta lagi allstaðar þar sem til hefur spurst, enda bæði grasvöxtur víða i betra lagi og nýting alstaðar góð. Hey þó viða allmikil úti, en von um, að þau náist þessa dagana.

Ísafold segir frá þann 19.:

Veðrátta er nú tekin að stirðna; haustar að í fyrra lagi, með rosum og rigningum, og krapaéljum innan um. Allkalt í veðri nú síðustu dagana.

Austri segir af tíð þann 21.september [með fylgir dularfull frétt af spádómum veðurfræðinga]:

Tíðarfarið er alltaf óstöðugt, og nú síðustu dagana mjög kalt og hefir snjóað töluvert í fjöll, en þó nokkrir þurrkdagar á stangli, svo útlit er fremur fyrir að sá fiskur er nú er þveginn, verði þurrkaður. Aðfaranótt hins 17. var hér allmikill stormur með snjókomu niður i byggð. En 18. þ.m. höfðu veðurfræðingarnir spáð voðalegum stormi, hér í álfu og í Vesturheimi.

Þjóðólfur birti þann 23.október bréf úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 30.september:

Sumartíðin var hér um sveitir hin hagstæðasta, og er heyskapur víða orðinn með mesta móti. Síðan um höfuðdag hefur verið fremur óþurrkasamt, en nú um nokkra daga norðanátt og allsnarpt frost.

Október: Hagstæð tíð og hlý, en snjór var síðari hluta mánaðarins norðan- og austanlands.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð í október í nokkrum pistlum:

[3.] Vetrarbragur hefir verið á tíðarfarinu undanfarinn vikutíma; 26. september gjörði norðanhret, sem haldist hefur lengst af síðan; töluverð snjó-ófærð komin á fjallvegum og fannir ofan í byggð; frostlitið hefir þó mátt heita til sveita.

[17.] Tíðarfar hefir þennan mánuð oftast verið mjög óstöðugt, norðanstormar og rosatíð; 2-3 síðustu dagana hefir þó verið stillt veður.

[31.] Þíðviðri og besta tíð hefir verið undanfarinn vikutíma.

Þann 16.október birti Þjóðólfur bréf úr Skagafirði, dagsett þann 3. (nokkuð einkennileg byrjun, en á eftir tíðarfarsfréttunum er í mæðutón sagt frá því að skuldir manna hafi aukist eins og venjulega í góðæri ... og svo framvegis). 

Fátt er héðan að frétta, nema illt eitt. Tíðin hefur reyndar í allt sumar verið hin hagstæðasta, svo hagstæð, að elstu menn muna varla jafnágæta heyskapartíð, enda eru heyföng manna nú bæði mikil og góð. ... Nú í viku hefur kaupfélagsféð verið vaktað, af því að ekki hefur verið hægt að skipa út á Sauðárkrók nokkurri kind fyrir brimi.

Ísafold birti þann 28.október bréf úr Barðastrandarsýslu vestanverðri, dagsett þann 8.:

Síðan um miðjan september hefir verið fremur óstöðug veðrátta, oftast sunnanátt með talsverðri úrkomu, og brim til sjávarins. Norðanþerrir kom þó nokkra daga fyrir réttirnar, og náðust þá inn hey þau, er úti voru. Aftur kom norðangarður allharður í enda fyrra mánaðar, er stóð fram undir viku, með kafaldskrapa, og festi snjó á fjöll. Fjarskaleg úrfelli hafa alls eigi verið, og snjóinn hefir nú aftur tekið upp af fjöllum, því þessa daga er fremur hlýtt, allt að 10 stig R um hádegi. Heyskapurinn varð, eins og við var búist, ágætur. Gamlir menn segja, að þeir muni eigi annað eins sumar síðan 1846. Nýting hin besta á öllum heyjum. Heimtur fremur góðar hér. A sjó hefir aldrei gefið, enda mun lítið um fisk. 

Þjóðólfur segir þann 9.: „Tíðarfar er mjög milt, en hefur um tíma verið rigninga- og rosasamt“.

Ísafold birti þann 14.nóvember bréf úr Suður-Múlasýslu, dagsett 20.október:

Tíðin hefir verið fremur óstöðug í haust og ákaflega rigningasöm; hafa sumstaðar orðið allmikil spell af skriðuhlaupum og grjótburði úr ám og lækjum.

Norðurljósið segir þann 14.október:

Tíðarfar hefir verið ágætt í haust norðanlands og óvanalega úrkomulítið, nema seint í september gjörði snjóhret og alsnjóaði þá í byggðum, nú er aftur orðið nærri autt upp á fjallatinda. Jörðin er enn ófrosin. ... Kartöfluuppskera varð tæplegu í meðallagi sökum afskaplegra þurrka í vor og næturfrosta i ágústmánuði.

Þjóðólfur segir þann 23: „Tíðafar hefur verið stormasamt að undanförnu, oftast á norðan“.

Jónas segir þann 24. [fyrsta vetrardag]:

Norðanátt, oft hvass, þar til um kveldið h.23. er hann gekk til austurs. Snjóaði og gjörði alhvíta jörð hér að morgni hins 24., en hann tók þegar upp er hann rigndi ákaflega um og eftir hádegi.

Þann 3.nóvember birti Fjallkonan ódagsett bréf úr Rangárvallasýslu:

Rangárvallasýslu í október: Sumarið var hið hagstæðasta og arðsamasta sem menn muna. Heyskapur bæði mikill og góður. Matjurtagarðar reyndust einnig prýðis vel, einkum kartöflur. — Haustið hefir einnig verið gott. Að eins gerði hér ofviðri 28. september og urðu þá talsverðir heyskaðar, einkum í Fljótshlíð; fuku þar á einum bæ 40 hestar og viða fauk þetta 10-30 hestar. Undir Eyjafjöllum urðu og allmiklir heyskaðar.

Nóvember: Tíð í meðallagi, nokkur snjór nyrðra.

Norðurljósið segir þann 5. [dagsetur pistilinn þ.4.]:

Samaöndvegistíðin helst enn hér norðanlands, þó nokkuð meiri votviðri en áður. Fyrsta vetrardag [24.október] féll hér talsverður snjór. en með litlu frosti, nú er aftur orðin auð jörð.

Austri segir af tíð í nóvember í nokkrum pistlum:

[10.] Tíðarfar hefir verið hið indælasta og blíðasta seinni hluta fyrri mánaðar og það sem af er þessum mánuði. En þegar upp stytti þá hafði hér rignt nær í sífellu ákaflega mikið í meira en mánuð.

[20.] Tíðarfar hefir alltaf verið milt og frostalítið. En aðfaranótt 9. þ.m. gjörði mikið norðaustan-veður með mikilli snjókomu til fjalla, og hafði þá fennt nær 100 fjár á þremur bæjum í Eyðaþinghá og víðar, þar sem ekki var farið að hýsa það.

[30.] Þessa daga hefir sett niður allmikinn snjó og er víða illt til jarðar því áfreðar voru miklir á undan.

Í Ísafold þann 2.desember birtist bréf úr Skagafirði dagsett þann 5.nóvember:

Veðrátta var í sumar með besta móti; hlý og þurrviðrasöm. Grasvöxtur með allra besta móti víðast og nýting eftir því einnig hin besta. Í haust hefir veðráttan einnig verið mjög mild og hagstæð og þurr, en nokkuð stormasöm, svo að gæftir hafa verið stopular til sjávarins, og afli fremur rýr og mikið af aflanum smár fiskur. Þannig hefir þetta ár verið miklu hagstæðara fyrir landbóndann en sjávarbóndann hér við Skagafjörðinn; en raunar hafa flestir sjávarsíðubændur einnig nokkra grasnyt, meiri eða minni, með sjávarútveginum, sem er að vísu erfitt, en að vissu leyti hyggilegt. Nú er jörð rauð og þíð um allan fjörðinn, og hlýr sunnanvindur; mun slík gæða-tíð dæmafá um þennan árstíma.

Þjóðólfur birti þann 27. bréf úr Ísafjarðarsýslu og Eyjafirði, dagsett fyrr í mánuðinum:

Snæfjallaströnd 5.nóvember: Fréttir eru héðan engar, nema einlægar þíður og snjólaust alveg, og er það nýlunda hér á Snæfjallaströnd.

Eyjafirði 6. nóvember: „Tíðindi eru héðan engin; tíðin er alltaf einmunagóð; í viku hér fyrir skemmstu var 9-11 stíga hiti á R. nótt og dag. Jörð er alauð upp í háfjallakletta. Fyrsta vetrardag setti hér lognsnjó niður í firðinum; var hann viðast í hné, en klofsnjór á parti í firðinum. Að 5 dögum liðnum var orðið öríst upp í hátinda.

Fjallkonan birti þann 8.desember bréf úr Norður-Múlasýslu, dagsett 6.nóvember:

Afbragðstíð nú um þessar mundir, en rigningasamt mjög i haust, einkum í suðurfjörðum og á suður og austurhluta Héraðsins, svo að Lagarfljót óx svo mikið snemma í október, að fádæmum gegndi. — Þá fell skriða á tún á Víðivöllum fremri í Fljótsdal og eyðilagði nokkurn hluta þess.

Þjóðólfur segir þann 13.:

Ofsaveður á norðan gerði á sunnudaginn var [8.], og hefur það staðið síðan með litlu frosti; hér fannkomulaust, en bylur norður undan að sjá. Gufubáturinn Faxi sökk hér á höfninni á þriðjudagsmorguninn var. Hann lá þar mannlaus, er ofsaveðrið kom á sunnudaginn; á mánudaginn sást, að hann var farinn að fyllast af sjó; þrátt fyrir veðrið hefði þá, að flestra áliti, mátt fara út í hann og „pumpa" sjóinn úr honum, ef stórt skip hefði verið mannað út til þess; en það var ekki gert.

Þann 20.segir Þjóðólfur:

Eftir norðanveðrið um daginn, sem slotaði 13. þ.m., hefur oftast verið logn og lítið frost.

Og þann 27. segir blaðið: 

Tíðarfar gott að frétta um land allt með síðustu póstum, nema hvað víðast um land gerði allharðan byl og allmikinn snjó, er norðanveðrið var hér um daginn, 8.-13. þ. m.

Fjallkonan segir frá þann 17.nóvember:

Hér i nærsveitunum hefir orðið vart við öskufall, enn ekki vita menn enn, hvar eldur er uppi; líklega er það í Vatnajökli.

Ísafold birti þann 25.nóvember bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett þann 16.:

Yfir höfuð verður eigi annað sagt, en að haustið hafi að veðráttunni til verið eitthvert hið blíðasta allt fram á þennan dag, svo að hér hefur mátt vinna að túnasléttum til 8. þ.m.; síðan hefir að öðru hverju verið hægt næturfrost (mest -4°) með norðan- og austanvindum. Heyföng urðu með besta móti, nýtingin var hér svo sem annarsstaðar ágæt. Fiskiafli hefir verið fjarska rýr, oft ekki fengist til roðs, þótt róið hafi verið í góðu sjóveðri. Um fýlaferðir var besta veður; enda gengu þær vel og slysalaust, fugl í betra lagi bæði að tölu og gæðum. Uppskera úr görðum var með besta móti, bæði af jarðeplum og sérstaklega rófum. Garðyrkja er hér mikil, einstöku menn munu hafa fengið um eða yfir 40 tunnur af jarðeplum. Skurðarár var í meðallagi. Sauðfé hefir hér í sumar að líkindum þjáðst talsvert af vatnsskorti, einkum á Heimaey og í úteyjum, sem eru vatnslausar, og mun það hafa dregið úr góðum skurði.

Þjóðviljinn ungi á Ísafirði segir frá nóvembertíð í tveimur stuttum pistlum:

[9.] Tíðin hefir þennan mánuð verið mjög rosasöm og óstöðug. suðvestan stormar alltaf annað slagið, rigningar og bleytu-él og nú síðustu dagana norðanbylur.

[27.] Tíðarfarið fremur óstöðugt, frost og fannfergja annan tímann, en þíðviðri og rosar hinn daginn.

Þjóðólfur birti þann 18.desember bréf úr Strandasýslu, dagsett 23.nóvember:

Fréttir eru fáar héðan; sumarið varð eitthvert hið besta hvað þurrka snertir, en nokkuð stormasamt, haustið stormasamt með rigningum og snjóhretum, sem kemur sér mjög illa, því fiskafli hefði verið góður, hefði einhvern tíma gefið á sjó, því að smokkfiskur kom bæði á Reykjarfjörð og Steingrímsfjörð, og hafa víst orðið meiri not af því í Steingrímsfirði, þar sem gæftir hafa verið betri. Þann 8. þ.m. rak í ofsakafaldsbyl á land jaktina „Betsy Marie" á Kúvíkum, sem þeir áttu kaupmennirnir J.J. Thorarensen og Riis á Borðeyri, og var allmikið í henni af innlendum vörum, sem hún skyldi fara með til Borðeyrar; varð mikið af því ónýtt, en jaktin svo brotin, að líklegast verður ekki við hana gjört.

Ísafold birti þann 19.desember nokkur bréf utan af landi, dagsett í nóvember:

Barðastrandarsýslu vestanverðri 29.11. Haustveðrátta hefir verið ágæt á landi, og það sem af er vetrinum, hefir einnig verið, að heita má, sumarveðrátta; að eins kom kuldakafli vikutíma um daginn, þá er hálfur mánuður var af vetri, og nú er þessa daga allt að 9° frost og alhvít jörð af snjó 1 dag, því að í nótt fennti dálítið. Annars hefir allt af verið auð jörð, allt að 7- 8° hiti oft og tíðum fyrstu tvær vikur vetrarins, en ávallt mjög stormasamt, stundum ofsa-rok, svo ógæftir hinar mestu hafa verið við sjó; aftur mjög úrfellalítið, og oft hlýviðri, þótt norðanátt hafi verið.

Barðastrandarsýslu sunnanverðri 28.11. Héðan úr plássi er helst að frétta af veðuráttinni, að eftir því sem næstliðið sumar var gæðagott, oft með stillum og staðviðrum, var haustið umhleypinga- og vindasamt, og því óhagkvæmt til sjávarins, hvort heldur sjóróðra eða sjóferðalaga. En á landi var veður ekki óhentugt til haustvinnu og húsabóta, enda jarðræktar, því frost komu seint, og voru væg fram yfir veturnætur, snjókoma því nær engin í byggð. Hinn 5. október kom hið mikla norðanveður, er sleit upp Flateyjarskip í Skarðstöð, svo varð að strandi. Eftir veturnætur var bærilegt veður og snjókomulítið, sem gjörði menn ugglausa að eiga fé eitt sjálfala fram til dala og fjalla, þegar stórhretið brast á hinn 8. þ.m., og var það óvana-hart, svo snemma á vetri. Það stóð í 5 daga, og var afleiðingin slæm, en þó minna fjártap en búast mátti við; þó varð fjárskaði mjög almennur í þessu og nálægum plássum, nema hjá þeim fáu, sem farnir voru að hýsa fé; flest mun hafa tapast á bæjum frá 30-40, en mjög víða upp að 10 á bæ; í þessu hreti drápust og hestar í Strandasýslu, því veðurhæðin var ákafleg og óstætt á bersvæði, og fylgdi því mesta fannmok og 10 stiga frost á R. Síðan hefir veðuráttin verið á norðan, köld og með kófköföldum.

Ísafjarðarsýslu 28. nóvember: .Tíðin hefur mátt heita góð í haust, þó fremur vindasöm og óstillt til sjávarins, oftast við norðanátt. Liðna viku hefur verið norðan hret með 5-11 st. frosti á C. Hagar eru og hafa verið nægir enn; allur fénaður er þó fyrir nokkru kominn á gjöf. Mjög reyndist fé ónýtt til frálags í haust, og muna fæstir jafn auman skurð, einkum á mórinn. Sama er að segja um gagn af ám í sumar.

Skagafirði 28. nóvember: Góð veðrátta hér frá því síðast, nema einstöku byljir, kaldir og snarpir, sem óvíða hafa þó valdið skaða. Satt mun þó, að bóndinn á Felli, Sveinn, Arnason, hafi misst 20-30 kindur í einum slíkum byl, og stöku bóndi lítið annað. Nú er kominn mesti snjór í Fljótum og Sléttuhlíð, en annars er Skagafjörðurinn mjög snjólaus nú, og jörð ágæt.

Þjóðólfur birti þann 29.janúar 1892 bréf úr Fellum (N-Múlasýslu), dagsett þann 29.nóvember:

Síðasta sumar var fremur þurrkasamt, en með jafndægrunum gekk til dæmafárra rigninga, sér í lagi í Suður-Múlasýslu og syðstu hreppum Norður-Múlasýslu. Fyrstu dagana af október hljóp aurskriða á tún og engi á Víðivöllum fremri í Fljótsdal og gerði mjög tilfinnanlegan skaða, því að engjar eru þar litlar og tún sömuleiðis. Aðfaranótt hins 9. þ.m. gjörði snarpan byl, og fennti þá fé hér og hvar, mest á 3 bæjum í Eiðaþinghá. Sagt er að tveir menn á Efri-Jökuldal séu búnir að skjóta mörg hreindýr (allt að 40).

Desember: Nokkuð snjóasamt, sérstaklega á Norður- og Austurlandi.

Þjóðviljinn ungi lýsir desembertíð vestra í þremur stuttum pistlum:

[9.] Jólafastan byrjaði með logni og heiðskíru veðri 29.f,m., en 3.þ.m. gerði norðangarð með fjúki og frosti, og nú síðustu dagana austan hægð með litlu kafaldi.

[17.] Um undanfarinn viku til hálfsmánaðar-tíma hafa haldist hægviðri með nokkru frosti.

[31.] Tíðarfarið hefir síðasta hálfsmánaðartímann verið mjög óstöðugt. útsynninga-él og snjór, en frostalitið, nema þessa síðustu dagana grenjandi norðanbylur með töluverðu frosti.

Austri segir frá þann 20.desember, en dagsetur þann 17.:

Fyrirfarandi daga hafa gengið hér hríðar með miklum snjóburði svo naumast hefir verið farandi nema á skíðum bæja í milli fyrir ófærð. Nú í dag er þíðviðri með miklum sunnanstormi og hellirigning. Á undan þessum blota var víðast jarðlítið orðið, og menn í suðurfjörðum sumstaðar farnir að skera lömb af heyjum, af ótta fyrir því, hvað veturinn færi nú harðlega að. Á jólaföstunni hefir því nær engin samganga verið milli Seyðisfjarðar og Héraðsins fyrir illviðrum og ófærð á heiðunum. 

Austri segir frá þann 9.janúar 1892:

Eins og um er getið í 14.tbl. Austra kom hér um sveitir góð hláka eftir miðjan desember og tók þá upp mestan snjó í byggð bæði hér í fjörðum og upp á Héraði, en áður hafði verið víðast jarðlaust og allar peningur kominn á gjöf. En þessarar hláku naut ekki lengi því um jólin gekk í illviður með stormi og feikna rigningum og krapahríð.

Ísafold birti þann 6.febrúar 1892 bréf úr Ísafjarðarsýslu (óstaðsett), dagsett þann 3.janúar:

Tíðin hefur verið rosasöm einkum til sjávarins; nú ekki lengi komið hér á sjó, og ekkert fengist þó róið hafi verið. Milli hátíðanna var stórkostlegasti hafnorðan-hríðarbylur, birti upp á gamlaársdag, 9 st. frost á C. hér á sjávarbakka.

Hausttíð í Eyjafirði er lýst í bréfi sem dagsett er 7.janúar 1892 og birtist í Ísafold 6.febrúar:

Haustið í haust var eitthvert hið besta, sem menn muna. Jörð var auð og þíð fram yfir veturnætur, svo talsvert varð unnið að jarðabótum. Lömb voru víða ekki tekin í hús fyrr en um allraheilagramessu. Í októbermánuði var áttin lengst við suðurátt og meðalhitinn um mánuðinn var + 2,94 C. Fyrstu viku nóvembermánaðar hélst sama góðviðrið og blíðan; þá fór að frysta og snjóa nokkuð og veður að gjörast óstöðugra. Síðari hluta mánaðarins voru frost nokkur, sem héldust út mánuðinn. Hagar voru alltaf nógir. Meðalhiti mánaðarins var -2,29 C. Tvo þriðjunga mánaðarins átt við suðurs og nokkuð vindasamt. Frostin héldust fram yfir miðjan desembermánuð, og varð það mest - 21,0 C; snjókoma var og nokkur við og við. Hinn 17. gjörði hláku, sem hélst í viku og tók upp allan snjó. En þá fór að snjóa aftur og hélst það öðruhvoru það sem eftir var mánaðarins, og töluverður snjór var kominn um árslokin. Veður voru stundum mikil í þessum mánuði. Meðalhiti mánaðarins var -5,0°C. 

Jónas segir þann 30.desember:

Útsynningur, með éljum h.23. og 24. gekk svo til norðurs en varð ekkert úr; hefir síðan verið við austanátt, rigning og krapaslettingur eða ofanhríð, en útsynningur undir. Loftþyngdarmælir féll mikið síðari part laugardags (26.) og hefir síðan verið óvenjulega lágt og færist enn lítið upp. Í dag (30.) rokhvass á norðan.

Austri segir þann 30.janúar 1892 frá veðurlagi og árferði í Fljótsdalshéraði 1891.

Janúar: Vestlægt veður og hægt, frost hinn 1.—4. þá 9° frost. Suðvestan þíðviðri, þann 7., alauð jörð svo varla sást fönn eða svell i byggð. Snjóaði nokkuð hinn 10. Norðvestan bjartviðri og 12° frost þann 11. Hinn 13. um kvöldið á suðvestan. Gerði þá öríst i byggð aftur. Hinn 19. og 20. hvass á norðvestan og 12° frost en lítil snjókoma. Komst vestan 25. og 13° frost. Suðaustan regn og hláka þann 29. Síðan vestan hægviðri 30.-31. Þennan mánuð var ágætt í högum, svo mjög litið var gefið fullorðnu fé.

Febrúar. Hinn 1.-3. suðvestan hægviðri. Þann 4. mikil leysing, svo mest öll svell leysti upp. Þann 9- og 10. norðaustan snjóél. Hinn 11. 10° frost. Um morguninn hinn 12. 17° frost, en gott í högum. Suðvestan leysing og 4° hiti daginn eftir og þaðan af suðvestan blíðviðri til 26., fölgaði þá lítið eitt með litlu frosti og hægviðri hinn 27. og 28. dag mánaðarins. Þenna mánuð var einnig gott í högum og engar innistöður fyrir sauðfé.

Mars. Norðaustanátt með mest 12° frosti frá 1.-5 , brast þá seinni part dags í snarpan norðaustanbyl með 12° frosti, Vantaði víða fé hjá fjármönnum, en ekki urðu fjárskaðar.
Daginn eftir hélst sama frost en nokkuð bjartara veður og minni snjókoma, er hélst einnig þann 7. Hinn 8. herti veður og frost var 14° en snjókoma tiltölulega lítil. þá sama átt en bjartari til þess 10. Þann 11. norðaustan blind-hríð og 11° frost. Daginn eftir 12° frost og norðvestlægt veður. Minnkaði þá frost svo frostlaust var og sólbráð þann 17. er hélst til hins 23. Kom þá talsverður snjór. Norðan og norðaustanátt hélst til hins 30. en hinn 31. vestan hægvíðri og sólbráð. Allan þennan mánuð var gott í högum, en oft innistöður vegna frosta og veðra.

Apríl. Sunnan og suðvestan blíðviðri 1.-8. Hinn 9. norðvestan. 5° frost. þá sama átt suðvestan til þess 14., þá vestan bjartviðri, þann 17. var 8° hiti i skugga. Suðvestan og sunnanveður og blíða til hins 23. Norðaustan snjókoma og 5° frost hinn 25., er hélst til þess 30. Þennan mánuð þurfti lítið að gefa sauðfé. Hey reyndust á þessum vetri heldur létt afgjafa.

Maí. Norðaustan og austlægur frá 1.-7. og nokkur snjókoma. Hinn 8. vestlægur og hláka til 14. þá norðaustanátt en frostlítið til hins 20. Síðan vestlægt góðviðri til 25. Eftir það norðaustan kulda-átt út mánuðinn, en úrfelli lítið. Þenna mánuð var óvenjulega þurrkasamt, svo jörð skrælnaði og greri tiltölulega lítið. Fénaður gekk víðast hvar vel undan vetri, og var sumt af geldfé klippt frá 20.-25.

Júní. Mátti heita stöðug vestan átt og góðviðri allan þennan mánuð. Hinn 19. 20. og 21. mjög hvass á suðvestan, sem eyðilagði að miklu leyti sáðverk í görðum, einkum í Fljótsdalshéraði. Hinn 29. þ. m. stóð veður af hafi með krapaskúrum, en vestan blíðviðri og sólskin þ.30. Víða voru lömb tekin frá ám síðasta dag þ.m., gekk sauðfé allt vel undan og úr ullu fyrri hluta þ, m. Jörð varð skrælþurr og heldur illa vaxin vegna stöðugra þurrka þennan mánuð.

Júlí. Stöðug suðvestanátt og dæmafá þurrviðri frá 1. til 23. Þá norðlægur, snjóaði í fjöll 26., svo vestlæg þurrvíðri það eftir var mánaðarins. Sláttur byrjaði almennt í Héraði frá 6.-12. þ. m. Víða var jörð brunnin, einkum hálend tún, og blautar mýrar of þurrar og graslitlar. Nýting varð hin besta á heyjum er hirt voru þenna mánuð.

Ágúst. 1, og 2. regn og þoka af hafi. Vestan þurrkur 3. og 4. Útræna af hafi 5. og 6. Vestan þerrir til þess 11. Hinn 12. norðaustanátt og regn, en frost að næturlagi. Hélt sömu átt til hins 19, á suðaustan með skúrum til 22. Svo vestan þerrir 25. 26. norðan kuldi, snjóaði í fjöll. Þann 27. hafutan krapahríð og alhvítt í byggð fram yfir miðdag. Hinn 29. var besti þurrkur, en þurrklaust tvo síðustu daga mánaðarins. Það mátti heita allgóð heyskapartíð þennan mánuð og fengu hey sæmilega hirðingu. Víða var lítill heyskapur,einkum á mýrlendi, en gott að vinna að honum, þar þurrka mátti hey víðast hvar á mýrum þar sem annars er vant að vera fen og foræði.

September. Suðlægt regn hinn 1., norðlægur 2, vestan þurrkur 3. og 4. Suðlægt góðviðri 5. til 12. þá vestan þurrviðri til þess 16. þann 17. til 20. norðvestan hvassviðri með
töluverðu frosti 5° svo gras fölnaði mjög og gjörði heyskap rýran og tafasaman. Frá 21. til 25. vestanþerrir. Þann 26. utan krapahríð og snjóaði á fjöll. Þá suðlægt hægviðri  það eftir var mánaðarins. Sumargagn af málnytupeningi varð almennt í rýrara lagi þetta sumar. Sem vanalegt er fóru fyrstu fjársöfn fram seinni hluta þ.m, enginn fjáramarkaður haldinn af Englendingum í Héraði, en kaupm. Sig. Jóhansen keypti fé á nokkrum stöðum, hæst 15 kr. góða sauði. Með flesta móti sent af fé af pöntunarfélagi Fljótsdalshéraðs til Englands. Að fjársala gat eigi orðið þetta haust, var mikið óhagræöi fyrir almenning, einkum búendur, og hafði í för með sér mikla peningavöntun.

Október. Frá þeim 1.-13. sunnan og suðvestan góðviðri og sjaldan mikil úrfelli. 14. og 15. utan og austan regn, og svo vestlægt góðviðri til þess 18. Hafutan regn og þoka til hins 21. þann 22. 3° frost og norðaustanátt. 23. og 24. vestan hægviðri og 8° frost. Norðaustan hríðarél þ. 25. Eftir það vestan blíðviðri mánuðinn á enda. Heimtur á afréttarfé víða góðar, en þó illar sumstaðar sunnanverðu Lagarfljóts, einkum á lömbum. Frá byrjun þessa mánaðar fram að 21. s.m., voru þokur og rigningar miklar við sjávarsíðuna, einkum suðurfjörðunum og upp til dala í Fljótsdalshéraði. Skemmdir urðu nokkrar sumstaðar á heyjum, og í úthaga af skriðum. Á Víðivöllum fremri í Fljótsdal tóku tvær skriður eða „hlaup" nærfellt hálft túnið og þriðjung fullan af útengi.

Nóvember. 3.-8. vestan og suðvestan blíðviðri en ekki miklar úrkomur. Svo þíður jarðvegur að unnið var talsvert á stöku stað að túnasléttu, Hinn 9.-11 norðaustan hríð með mikilli snjókomu svo sumstaðar fennti fé það er óvist var. Þann 12. austlægt þíðviðri og regn. Hinn 13. 6° frost og svell í rót og illt í högum, 14. til 17. vestlægur, hæg frost. Þá austan þoka [hrímstæða (svo)] til hins 20. Þann 21. vestan bjartviðri og 8° frost. 22.-30. útsynningsátt, stóð af hafi móti suðri (svo) og stundum nokkur snjókoma. Frá 13. degi þ.m. til 30. var illt í högum og nærfellt haglaust fyrir fé, einkum á „Uppsveitinni" Fljótsdalshéraði, og suður um firðina. Á Úthéraði, í Tungu. Hlíð og Hjaltastaðaþinghá var gott í högum.

Desember. 1. suðaustlægt veður og áfreðar. Þann 6. vestlægt veður og 13° frost. Þá hæg frost 3-7° og norðaustlægt veður til þess 15. Hinn 16.-19. sunnan og suðvestan leysing svo gott varð í högum en svellalög á mýrum nokkuð mikil. Þann 20. nokkurt snjóföl á jörð og vestlægt veður er hélst hinn 21. Suðvestan leysing og skúrar 22. og 23. Vestlægt veður og hvass 4° frost þ. 24. og jörð mikið auð. Hinn 25. hrímstæður og hægviðri. 26. suðlægur, hvassvíðri og regn eftir miðdag. 27.-29. sunnan regndembur annað slagið og frost á milli. Hinn 30. e.m. norðaustan hríð, er hélst þann 31. síðasta dag ársins.

Þetta ár 1891, má telja i betra meðallagi á Austurlandi, þó misfellur yrðu nokkrar á grasvexti og garðrækt sumstaðar vegna langvarandi þurrka.

Hér lýkur að sinni yfirferð hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1891. Eins og venjulega eru nokkrar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bloggfærslur 4. febrúar 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 58
  • Sl. viku: 398
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 360
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband