Enn eitt hlýindaárið

Við áramót er hugað að tíðarfari liðins árs. Meðan við bíðum eftir uppgjöri Veðurstofunnar (sem dálítið er í) skulum við hér líta á fáein atriði - í nokkrum pistlum. Tíðarfar var talsvert ólíkt því sem var í fyrra (2018) - þó bæði árin teljist í langtímasamhengi hlý. Að þessu sinni voru hlýindin meiri um landið suðvestanvert heldur en eystra, alveg öfugt við það sem var í fyrra. Við lítum betur á vik í einstökum landshlutum í næsta pistli, en svo virðist sem meðalhitinn í Reykjavík sé sá sjöundihæsti frá upphafi samfelldra mælinga (1871) og á Akureyri við 25.sæti (af 139). Í Stykkishólmi virðist ársmeðalhitinn ætla að enda í 13. efsta - eða þar um bil, af 174. Endanleg skipan sæti er þó ekki ljós fyrr en síðustu dagarnir eru liðnir. Þetta er 24. árið í röð sem hiti er yfir meðallagi áranna 1961-1990 í Reykjavík. Svo virðist sem meðalhitinn þar endi í 5,7 stigum - eða þar um bil og í um það bil 4,3 stigum á Akureyri. En bíðum með endanlegt uppgjör. Þangað til lítum við á mynd sem sýnir ársmeðalhita í Stykkishólmi frá 1798 að telja. Þar virðist ársmeðalhitinn ætla að enda í 4,8 eða 4,9 stigum.

w-blogg271219a

Hér má glöggt sjá að árið 2019 er í flokki þeirra hlýrri á langtímavísu, hitinn +1,4 stigum ofan meðallags alls tímabilsins - og hlýrra en öll ár kuldaskeiðsins 1965 til 1995 - og á hlýskeiðinu frá 1925 til 1964 voru aðeins fjögur eða fimm ár (af 40) hlýrri en 2019. Á allri 19.öld var ekkert ár jafnhlýtt eða hlýrra en það sem nú er nær liðið.

En hvernig horfir málið við ef við „fjarlægjum“ hina almennu hlýnun? Það sýnir næsta mynd.

w-blogg271219b

Tölurnar á lóðrétta ásnum eru marklausar sem slíkar - við getum ímyndað okkur að þær segi frá hitanum hefði engrar almennrar hlýnunar gætt (þannig er það þó auðvitað ekki). Meðalhiti ársins 2019 er +0,6 stigum ofan meðaltals. Hér sést enn betur heldur en á hinni myndinni hvað tímabilaskipting er mikil - hvað kólnar og hlýnar skyndilega - jafnvel á aðeins 1 til 3 árum. Sömuleiðis sést mjög vel að breytileiki frá ári til árs var mun meiri á 19.öld heldur en nú. Líklega tengist það mun meiri hafís í norðurhöfum þá heldur en þar hefur verið á síðari árum. - Norðanáttin var mun kaldari heldur en sama átt nú - ef hún á annað borð var ríkjandi.

En árið 2019 er - hvað hitafar varðar - ekki boðberi neinna breytinga frá því sem verið hefur á þessari öld. Hlýskeið hennar ríkir enn. Hvenær því lýkur vitum við ekki. Þetta hlýskeið kom nokkuð óvænt (alla vega var óvænt hversu snögglega það skall á) - kuldaskeiðið 1859 til 1925 stóð í meir en 60 ár - þeir sem bjuggust við að einhver regla væri ríkjandi í skipan hlý- og kuldaskeiða gátu alveg eins vænst þess að kuldinn sem hófst 1965 stæði í 30 ár til viðbótar því sem hann gerði (væri kannski að ljúka upp úr 2020). Þeir sem enn halda fram einhverri reglu gætu sagt að hlýskeiðið ætti að standa í 40 ár - rétt eins og þau tvö fyrri sem við þekkjum allvel gerðu. - En það hefur nú ekki staðið nema í rúm 20. - En það er engin regla - núverandi hlýskeiði gæti lokið á morgun - eða það haldið áfram eða magnast enn frekar - aukist hin almenna hlýnun jarðar eins og sumir vænta.

En þessi miklu hlýindi sem gengið hafa yfir landið síðustu tvo áratugina eru orðin svo langvinn að þeim fjölgar óðum sem ekki muna annað ástand (alla vega ekki vel). Þá breytast viðmið óhjákvæmilega. Hiti ársins 2019 var á landsvísu nærri meðallagi síðustu tíu ára - rétt eins og í fyrra 2018. En við víkjum að því í næsta pistli.


Bloggfærslur 27. desember 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 1779
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1532
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband